Ferill 911. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1994  —  911. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni þjóðgarða.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna Vatnajökulsþjóðgarður og þjóðgarðurinn á Þingvöllum?
    Vatnajökulsþjóðgarður starfar samkvæmt lögum nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð. Markmið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs eru skv. 2. gr. laganna að:
     1.      Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.
     2.      Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
     3.      Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.
     4.      Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.
    Ráðherra skipar sérstaka stjórn til að fara með stjórnun stofnunarinnar og rekstur þjóðgarðsins auk svæðisráða sem starfa á hverju fjögurra rekstrarsvæða þjóðgarðsins.
    Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur umsjón með náttúruvernd í Vatnajökulsþjóðgarði. Helstu verkefni stjórnar eru:
     1.      Stefnumótun í málefnum þjóðgarðsins í samræmi við markmið laga þessara.
     2.      Yfirumsjón með gerð tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun og reglugerðar fyrir þjóðgarðinn.
     3.      Að samþykkja fjárhagsáætlun um rekstur þjóðgarðsins, að ráðstafa fé til rekstrarsvæða og samþykkja rekstraráætlun hvers svæðis.
     4.      Samræming á starfsemi rekstrarsvæða þjóðgarðsins.
     5.      Eftirlit með framkvæmd reglna þjóðgarðsins og stjórnunar- og verndaráætlunar.
     6.      Samstarf við stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins.
     7.      Að gera tillögu til ráðherra að skipan framkvæmdastjóra.
     8.      Yfirumsjón með gerð atvinnustefnu, þ.m.t. að móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins, og samninga þar um.
     9.      Að setja framkvæmdastjóra og þjóðgarðsvörðum starfslýsingar.
    Hlutverk svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs er:
     1.      Að vera þjóðgarðsverði og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á viðkomandi rekstrarsvæði.
     2.      Að hafa yfirumsjón með gerð tillögu að [stjórnunar- og verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði.
     3.      Að samþykkja tillögu að rekstraráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði innan þess fjárhagsramma sem því er ætlaður hverju sinni samkvæmt ákvörðun stjórnar.
     4.      Að gera tillögu að ráðningu þjóðgarðsvarða á viðkomandi rekstrarsvæði.
    Í reglugerð nr. 300/2020 er kveðið nánar á um verkefni og starfsemi stjórnar og svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Þjóðgarðurinn á Þingvöllum starfar undir stjórn Þingvallanefndar og á grundvelli laga nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Í lögunum er skýrt kveðið á um verndun og viðhald svæðisins sem skal vera „eign íslensku þjóðarinnar“. Reglugerð nr. 848/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum er sett á grundvelli laganna og fjallar nánar um verndun þjóðgarðsins og meðferð. Land þjóðgarðsins skal vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari. Almenningur skal eiga kost á að njóta svæðisins samkvæmt þeim reglum sem Þingvallanefnd setur.
    Lögbundið hlutverk Þingvallanefndar er tilgreint í reglugerð um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð:
     1.      Að varðveita ásýnd þjóðgarðsins, viðhalda þar upprunalegu náttúrufari og dýralífi.
     2.      Að stuðla að verndun Þingvallavatns og lífríkis þess.
     3.      Að hafa eftirlit með framkvæmdum innan þjóðgarðsins.
     4.      Að taka ákvarðanir um kaup eða eignarnám á einstökum fasteignum í samræmi við fjárheimildir.
     5.      Að ráða þjóðgarðsvörð fyrir þjóðgarðinn.
    Nánari upplýsingar um hlutverk Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallaþjóðgarðs er að finna á heimasíðum stofnananna, www.vatnajokulsthjodgardur.is og www.thingvellir.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsins á Þingvöllum og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt fylgiriti með fjárlögum 2020 er 1.158,7 millj. kr. og heildarfjárheimild Þingvallaþjóðgarðs er 716,6 millj. kr. og er ætlað til að sinna verkefnum þjóðgarðanna en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.