Ferill 972. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2036  —  972. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar).

Frá félags- og barnamálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020.

1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. september 2020“ í 1. málsl. 1. gr. laganna kemur: 31. desember 2021.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2020“ í 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: 31. mars 2022.

II. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

3. gr.

    Í stað orðanna ,,Lánasjóður íslenskra námsmanna“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: Menntasjóður námsmanna.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Atvinnutengd starfsendurhæfing, sbr. lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sem launamaður hefur stundað á þeim tíma sem hann telst óvinnufær, sbr. 26. gr., svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Vottorð frá starfsendurhæfingarsjóði samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að launamaður hafi stundað atvinnutengda starfsendurhæfingu og lokið henni. Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr.
     b.      Í stað orðanna „ákvæði 1.–3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: ákvæði 1.–4 mgr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „tólf“ í 2. mgr. kemur: 24.
     b.      Í stað orðsins „sex“ í 3. mgr. kemur: tólf.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr.:
                  1.      Á eftir orðunum ,,heimilt að stunda nám“ kemur: á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða.
                  2.      Í stað orðanna ,,10 ECTS-einingum“ kemur: 12 ECTS-einingum.
                  3.      Í stað orðanna „Lánasjóði íslenskra námsmanna“ kemur: Menntasjóði námsmanna.
     c.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr.:
                  1.      Á eftir orðunum „hvort sá er stundar nám“ kemur: á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða.
                  2.      Í stað orðanna „Lánasjóði íslenskra námsmanna“ kemur: Menntasjóði námsmanna.
     d.      Á eftir 3. mgr. bætast við tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem skipulagt er samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans á þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.
                      Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi þegar hann sækir um atvinnuleysistryggingar án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XIV í lögunum:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      5. mgr. orðast svo:
                      Ákvæði þetta gildir frá og með 1. september 2020 og fellur úr gildi 1. nóvember 2020.

8. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2020“ í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV í lögunum kemur: 31. október 2020.

9. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (XVI.)
    Þrátt fyrir 52. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og fellur undir átakið Nám er tækifæri, eftir að færni hans og staða hefur verið metin. Framangreindur samningur hefur ekki áhrif á rétt viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga á grundvelli laganna.
    Skilyrði fyrir samningi skv. 1. mgr. eru meðal annars:
     a.      að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. sex mánuði áður en hann óskar eftir samningi skv. 1. mgr.
     b.      að námið sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, sbr. einnig reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði, og falli undir átakið Nám er tækifæri.
     c.      að námið kunni að nýtast viðkomandi atvinnuleitanda við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.
     d.      að viðkomandi hafi ekki nýtt sér rétt sinn til námsláns hjá Menntasjóði námsmanna.
    Á gildistíma samnings skv. 1. mgr. skal viðkomandi atvinnuleitandi uppfylla skilyrði sem sett eru í tengslum við námið af hlutaðeigandi menntastofnun, svo sem hvað varðar skólasókn og ástundun. Auk þess ber viðkomandi atvinnuleitanda að upplýsa ráðgjafa Vinnumálastofnunar reglulega um framvindu náms á gildistíma samnings.
    Gildistími samnings skv. 1. mgr. getur að hámarki verið ein námsönn fyrir hvern atvinnuleitanda og á einungis við um nám sem stundað er á vorönn árið 2021, haustönn árið 2021 eða vorönn árið 2022..
    Sá tími sem nám atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laganna, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr.
    Ráðherra er heimilt að birta reglugerð um nánari útfærslu átaksins Nám er tækifæri samkvæmt ákvæði þessu, svo sem um hvaða námsbrautir í framhalds- og háskólum falla undir átakið.
    Ákvæði þetta gildir frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. maí 2022.

    b. (XVII.)
    Þrátt fyrir 1. mgr. 32. gr. skal sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr. á yfirstandandi bótatímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 fellur niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæði þessu.
    Ákvæði þetta gildir til og með 30. september 2021.

III. KAFLI

Breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003.

10. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. september 2020“ í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum kemur: 1. nóvember 2020.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó gildir 6. gr. einnig um þá atvinnuleitendur sem hafið hafa nám á haustönn 2020 við gildistöku laganna.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Mikil óvissa ríkir enn á innlendum vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19 sjúkdómnum en nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í mörgum atvinnugreinum eftir að heimsfaraldur veirunnar braust út og er ófyrirséð hve lengi samdrátturinn muni standa yfir. Í frumvarpi þessu, sem samið er í félagsmálaráðuneytinu, eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 og lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, sem ætlað er að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin á innlendum vinnumarkaði, meðal annars auknu atvinnuleysi. Þegar hafa verið samþykktar ýmsar breytingar á lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Hér er því um að ræða frekari skref í þá átt að bregðast við þeim samdrætti sem orðið hefur á vinnumarkaði hér á landi.
    Flestar breytingar sem felast í þessu frumvarpi eru tímabundnar og koma til vegna þeirra aðstæðna sem myndast hafa á vinnumarkaði vegna heimsfaraldursins. Ekki er gert ráð fyrir að þessar tímabundnu breytingar verði til framtíðar en í undirbúningi er heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpið er lagt fram í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði þar sem mikil óvissa ríkir enn vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Með sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem undirrituð var 5. mars 2020, náðist sátt um samfélagslega nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu kórónuveiru. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að markmið sóttvarna sé að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gengur yfir. Ákvörðun um sóttkví er tekin með hagsmuni heildarinnar í huga og því mikilvægt að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Því er í frumvarpi þessu lagt til að tímabilið, sem lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir taka til, verði framlengt þannig að lögin gildi einnig um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem og þá atvinnurekendur sem greiða laun til launamanna sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021. Markmið þessara breytinga er að tryggja að einstaklingar geti áfram fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni svo lengi sem úrræðinu er beitt af hálfu heilbrigðisyfirvalda.
    Þann 17. apríl 2020 var skipaður samhæfingarhópur um atvinnu- og menntaúrræði af félags- og barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Hópnum er ætlað að skoða stöðu og möguleg menntaúrræði námsmanna og atvinnuleitenda vegna breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Hópurinn hefur lagt fram tillögur um aðgerðir í mennta- og vinnumarkaðsmálum fyrir árin 2020–2022 til að bregðast við aðstæðum á vinnumarkaði. Þær breytingar sem hér er lagt til að verði gerðar á lögum um atvinnuleysistryggingar eru í samræmi við tillögur hópsins og má þar helst nefna átakið Nám er tækifæri þar sem atvinnuleitendur eru hvattir til að stunda nám til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Hópinn skipa fulltrúar frá fyrrgreindum ráðuneytum sem og fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Landssamtökunum Þroskahjálp, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samstarfsnefnd háskólastigsins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi, Samtökum iðnaðarins, Skólameistarafélagi Íslands og Vinnumálastofnun.
    Útbreiðsla kórónuveirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft veruleg áhrif á efnahagslífið og samfélagið allt. Þeim breytingum, sem hér er lagt til að verði gerðar á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, og lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er, líkt og fyrri aðgerðum stjórnvalda, ætlað að draga úr tjóni vegna veirunnar, tryggja að neikvæð áhrif hennar á atvinnulíf og efnahag verði sem minnst og að skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að það tímabil sem lög nr. 24/2020 kveða á um verði framlengt til ársloka 2021 enda er um að ræða þarft úrræði svo lengi sem sóttkví er beitt af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.
    Hluti af tillögum fyrrgreinds samhæfingarhóps um atvinnu- og menntamál er að styðja við möguleika einstaklinga sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði vegna sjúkdóms eða slyss til að verða að nýju virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Í samræmi við þær tillögur er í frumvarpi þessu lagt til að breytingar verði gerðar á lögum nr. 54/2006 sem ætlað er að stuðla að virkni einstaklinga sem koma til baka inn á vinnumarkaðinn eftir að þeir hafa verið tímabundið óvinnufærir vegna sjúkdóms eða slyss. Eru breytingarnar til þess fallnar að auka vinnufærni umræddra einstaklinga og líkur á að þeir verði að nýju þátttakendur á vinnumarkaði. Þannig er lagt til að réttur þeirra sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins falli ekki niður fyrr en að tólf mánuðum liðnum í stað sex mánaða samkvæmt gildandi rétti frá þeim degi er viðkomandi varð vinnufær á ný eftir að hafa orðið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að atvinnutengd starfsendurhæfing sem launamaður hefur stundað á þeim tíma sem hann telst óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss svari til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Þá er lagt til að við útreikninga á ávinnslutímabili, þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar, skuli líta til síðustu 24 mánaða í stað tólf mánaða samkvæmt gildandi rétti frá þeim tíma er hinn tryggði sannanlega hætti störfum þar sem hann varð óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss.
    Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið á undanförnum misserum hvað varðar skipulag náms, meðal annars hvað varðar möguleika fólks til að stunda nám samhliða vinnu. Í ljósi þess er í frumvarpinu lagt til að gerðar verið tilteknar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hvað varðar heimild atvinnuleitenda til að stunda nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur og vísast til 6. gr. frumvarpsins hvað það varðar sem og skýringa við það ákvæði.
    Þá eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa sem fela í sér framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem og framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna verulegs samdráttar í rekstri.
    Einnig er lagt til að sá sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði í stað þriggja mánaða að hámarki samkvæmt gildandi lögum enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til slíkra bóta skv. 32. gr. á yfirstandandi bótatímabili skv. 29. gr. Er gert ráð fyrir að hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 falli niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæðinu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir hér á landi vega útbreiðslu og þeirra miklu áhrifa sem veiran hefur haft á samfélagið allt, þ.m.t. vinnumarkaðinn, gafst ekki svigrúm til hefðbundins samráðs. Þess ber þó að geta að frumvarpið var samið í samráði ráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytis, forsætisráðuneytis og mennta og menningarmálaráðuneytis. Þá var sá hluti frumvarpsins er snýr að breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar byggður á tillögum samhæfingarhóps félags- og barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra sem skipaður var í apríl 2020 og hefur það hlutverk að skoða stöðu atvinnuleitenda og námsmanna og atvinnu- og menntaúrræði þeirra við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi. Líkt og fram hefur komið var hópnum ætlað að skoða stöðu og möguleg menntaúrræði námsmanna og atvinnuleitenda vegna breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi í kjölfar heimsfaraldurs vegna kórónuveiru. Eru þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um atvinnuleysistryggingar byggðar á tillögum hópsins. Hópurinn er enn að störfum en í honum eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, félagsmálaráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Landssamtökunum Þroskahjálp, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samstarfsnefnd háskólastigsins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi, Samtökum iðnaðarins, Skólameistarafélagi Íslands og Vinnumálastofnun.

6. Mat á áhrifum.
    Kostnaður ríkissjóðs til þessa vegna laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir er langt undir því sem áætlað var á þeim tíma þegar lögin tóku gildi vorið 2020. Kostnaðurinn um miðjan ágúst árið 2020 nam samtals um 190 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur stofnunin afgreitt rúmlega 1.000 umsóknir vegna tæplega 1.500 einstaklinga sem þurft hafa að sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Af þessum rúmlega 1.000 umsóknum var um að ræða tæplega 850 umsóknir frá atvinnurekendum, tæplega 100 umsóknir frá sjálfstætt starfandi einstaklingum og um 70 umsóknir frá launamönnum. Fram kemur í upplýsingum frá Vinnumálastofnun að meðalgreiðsla vegna einstaklings sé um 130.000 kr. Upphaflegt kostnaðarmat vegna laganna miðaði hins vegar við að lögin myndu ná til 2.500 til 3.000 einstaklinga að hámarki og að útgjöld ríkissjóðs yrðu á bilinu 600–700 millj. kr. þar sem meðalgreiðsla vegna einstaklings yrði um 240.000 kr. Mikil óvissa er enn um þróun á útbreiðslu kórónuveiru og því erfitt að leggja mat á væntanlegan kostnað við þær breytingar á lögunum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir. Ef fjöldi þeirra sem nýtir sér rétt á grundvelli laganna verður svipaður og verið hefur undanfarna mánuði, þ.e.a.s. ef greitt verður vegna 1.500 til 2.000 einstaklinga sem sæta þurfa sóttkví í skilningi umræddra laga og þar sem meðalgreiðsla vegna hvers einstaklings verður svipuð og verið hefur, munu útgjöld ríkissjóðs verða á bilinu 200–300 millj. kr. miðað við að lögin gildi til loka árs 2021.
    Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er framlenging á gildistíma ákvæðis til bráðabirgða sem kveður á um heimild til að greiða atvinnuleysisbætur til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda sem og framlengingu á heimild til að greiða atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna verulegs samdráttar í rekstri. Mat á mögulegum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessara breytinga byggist meðal annars á hugsanlegri þróun hvað varðar fjölda atvinnuleitenda sem nýtir sér úrræðið en erfitt er að spá fyrir um hver sú þróun verður. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur launamönnum sem fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði samhliða minnkuðu starfshlutfalli farið fækkandi og var talan komin niður fyrir 3.000 einstaklinga um miðjan ágúst 2020 en um var að ræða rúmlega 36.000 einstaklinga þegar mest var. Þó má ætla að umsóknum komi til með að fjölga nokkuð verði gildistími úrræðisins framlengdur líkt og frumvarp þetta gerir ráð fyrir. Að teknu tilliti til alls framangreinds má gera ráð fyrir að fjöldi einstaklinga sem sækja mun um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á gildistíma umrædds ákvæðis til bráðabirgða geti verið á bilinu 2.500–3.500 og áætlaður kostnaður við lengingu úrræðisins er því um 2 milljarðar kr.
    Í frumvarpi þessu eru jafnframt lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem ætlað er að stuðla að virkni einstaklinga sem koma að nýju inn á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið tímabundið óvinnufærir vegna sjúkdóms eða slyss. Þá er lagt til að breytingar verði gerðar á sömu lögum hvað varðar heimild atvinnuleitenda til að stunda nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Gert er ráð fyrir að framangreindar breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir á lögum um atvinnuleysistryggingar muni hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hins vegar er gert ráð fyrir að breytingarnar muni meðal annars hafa þau áhrif að fleiri atvinnuleitendur fari í nám sem eykur virkni þeirra auk þess sem ætla má að þeir styrki þannig stöðu sína á atvinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að framangreint komi til með að fækka þeim einstaklingum sem nýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins til lengri tíma litið. Einnig er gert ráð fyrir að breytingarnar leiði til þess að fleiri en ella eigi kost á því að haldast virkir á vinnumarkaði, meðal annars eftir að hafa lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu í stað þess að fá framfærslu innan örorkukerfisins.
    Í kostnaðarforsendum vegna átaksins Nám er tækifæri er gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóði sé heimilt að standa undir námskostnaði í eitt skólaár (tvær annir) fyrir hvern atvinnuleitanda hjá hlutaðeigandi menntastofnun enda sé námið viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Í því sambandi er gert ráð fyrir að árskostnaður vegna hvers nemanda sé að meðaltali 1.380.000 kr. á framhaldsskólastigi og 1.450.000 kr. á háskólastigi vegna þess náms sem áætlað er að átakið nái til. Líkt og raunin varð í sambærilegu átaki stjórnvalda á árunum 2011–2014 er líklegt að kostnaður vegna hvers atvinnuleitanda verði lægri en sem nemur meðalkostnaði viðkomandi menntastofnunar. Er hér því miðað við 1.050.000 kr. vegna hvers atvinnuleitanda, sem er svipað hlutfall og var vegna sambærilegra samninga Vinnumálastofnunar við menntastofnanir árið 2011 vegna sambærilegs átaks stjórnvalda sem þá stóð yfir. Gert er ráð fyrir að um 1.200 atvinnuleitendur muni hefja nám á grundvelli átaksins á vorönn árið 2021, um 1.200 atvinnuleitendur á haustönn árið 2021 og um 600 atvinnuleitendur á vorönn árið 2022. Er því gert ráð fyrir að kostnaðurinn dreifist yfir næstu tvö ár og verði um 1.890 millj. kr. á árinu 2021 og um 1.260 millj. kr. árið 2022 eða samtals 3.150 millj. kr. á því tímabili sem átakið mun standa yfir. Þannig er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við átakið Nám er tækifæri verði um 3,4 milljarðar kr. Að því gefnu að stór hluti þeirra atvinnuleitenda sem mun nýta sér úrræðið haldi áfram námi eftir að þátttöku þeirra í úrræðinu lýkur er gert ráð fyrir að samdráttur verði í útgjöldum í tengslum við greiðslur atvinnuleysisbóta til lengri tíma litið sem komi til með að vega upp á móti fyrrnefndum útgjöldum. Þannig er gert ráð fyrir að stór hluti þátttakenda í úrræðinu muni nýta sér aðstoð frá Menntasjóði námsmanna sér til framfærslu og muni þar af leiðandi ekki nýta lengur rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins eftir að þátttöku þeirra í úrræðinu lýkur.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hver atvinnuleitandi hafi heimild til að stunda nám á grundvelli átaksins að hámarki í eina önn og að námið fari fram á vorönn árið 2021, haustönn árið 2021 eða vorönn árið 2022. Enn fremur er gert ráð fyrir að áunnin réttur umræddra atvinnuleitenda til atvinnuleysistrygginga geymist meðan á námi á grundvelli átaksins stendur. Áætlanir gera ráð fyrir að samþykki um 3.000 atvinnuleitendur að taka þátt í átakinu Nám er tækifæri muni útgjöld ríkissjóðs dragast saman um u.þ.b. 2.324 millj. kr. árið 2021 í tengslum við beinar atvinnuleysisbætur, um 8.134 millj. kr. árið 2022 og um 1.162 millj. kr. árið 2023, eða samtals 11,6 milljarða kr. á því tímabili sem átakinu er ætlað að standa yfir. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun fjármagni aukna þjónustu hjá viðkomandi menntastofnun í tengslum við náms- og starfsráðgjöf vegna þeirra atvinnuleitenda sem nýta munu sér úrræðið í því skyni að veita þessum einstaklingum stuðning til að aðlaga sig að nýjum og breyttum aðstæðum á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að um verði að ræða um 25 stöðugildi náms- og starfsráðgjafa hjá hlutaðeigandi menntastofnunum og að kostnaðurinn í 12 mánuði verði um 200,5 millj. kr. árið 2021 og 66,8 millj. kr. árið 2022 eða samtals um 267,3 millj. kr. á tímabilinu.
    Mat á mögulegum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þeirra breytinga sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir hvað varðar tímabundinn aukinn rétt atvinnuleitenda til tekjutengdra atvinnuleysisbóta byggist meðal annars á mögulegri þróun fjölda umsækjenda um atvinnuleysisbætur en erfitt er að spá fyrir um hver sú þróun verður. Að teknu tilliti óvissuþátta gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir að kostnaður við umræddar breytingar muni nema um 3,2 milljörðum kr. sem áætlað er að skiptist þannig milli ára að 1,7 milljarðar kr. falli á árið 2020 og 1,5 milljarðar kr. á árið 2021.
    Áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna þeirra breytinga á lögum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir eru rúmlega 5,4 milljarðar kr. Aukinn kostnaður vegna framlengingar á greiðslum vegna launa í sóttkví og framlengingar á greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli eða rúmlega 2 milljarðar kr. rúmast vel innan þegar samþykktrar fjárveitingar í fjáraukalögum fyrir árið 2020. Kostnaður vegna tímabundinnar lengingar tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr allt að þremur mánuðum í allt að sex mánuði er áætlaður 3,2 milljarðar kr. og er breytingin ekki fjármögnuð í fjárlögum ársins 2020 og í fjármálaáætlun fyrir árið 2021. Miðað við forsendur Vinnumálastofnunar munu 1,7 milljarðar kr. falla á árið 2020 og 1,5 milljarðar kr. falla á árið 2021.
    Almennt er ekki talið að þær breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi áhrif á jafnrétti kynjanna svo nokkru nemi, meðal annars þar sem tölulegar upplýsingar frá Vinnumálastofnun sýna að ekki er teljandi munur á langtímaatvinnuleysi meðal karla og kvenna. Hins vegar má ætla að frumvarpið geti haft meiri áhrif á konur en karla hvað varðar þær breytingar sem ætlað er að stuðla að virkni einstaklinga sem koma til baka inn á vinnumarkaðinn eftir tímabundna óvinnufærni vegna sjúkdóms eða slyss þar sem tvöfalt fleiri konur en karlar sækja um atvinnutengda starfsendurhæfingu árlega. Þannig voru konur 67% þeirra sem sóttu atvinnutengda starfsendurhæfingu hjá VIRK –starfsendurhæfingarsjóði árið 2019 á meðan karlar voru um 33% umsækjenda. Þá má geta þess að 25. ágúst 2020 skiptist hlutfall þeirra atvinnuleitenda sem fengu greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur þannig að konur voru 41% atvinnuleitenda og karlar 59%. Að því gefnu að konur og karlar nýti áfram rétt sinn samkvæmt ákvæðinu í sambærilegum hlutföllum og áður eftir lögfestingu frumvarpsins má ætla að þessar tilteknu breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að verði á lögum um atvinnuleysistryggingar muni almennt hafa meiri áhrif á karla en konur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, kemur fram að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. september 2020. Enn fremur kemur fram að lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.
    Hér er lagt til að tímabilið sem lögin taka til verði framlengt þannig að lögin taki einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem og þeirra atvinnurekenda sem greiða laun til launamanna sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021. Er þetta lagt til þar sem enn er alls óvíst hversu lengi til viðbótar sóttkví verður beitt af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að hefta útbreiðslu kórónuveiru Með þessu er líkt og áður stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Er með þessu einnig verið að styðja áfram við opinberar sóttvarnaráðstafanir samkvæmt sóttvarnalögum, nr. 19/1997, þannig að sem flestir sem fá fyrirmæli um að sæta sóttkví fylgi þeim fyrirmælum í því skyni að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveiru.
    Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á umræddum lögum, svo sem hvað varðar skilyrði fyrir greiðslum við þær aðstæður sem um ræðir. Áfram er því gert ráð fyrir að lög nr. 24/2020 gildi ekki um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem farið hafa til annarra landa þrátt fyrir að hafa mátt vera ljóst við brottför að viðkomandi þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví, enda hafi sóttvarnaryfirvöld gefið það út, áður en viðkomandi fór utan, að þeir sem dvelji í því landi sem um ræðir þurfi að sæta sóttkví við heimkomu. Jafnframt er áfram gert ráð fyrir að hið sama gildi um atvinnurekendur sem greiða laun til launamanna sem þurfa að sæta sóttkví við heimkomu við framangreindar aðstæður.

Um 2. gr.

    Í 3. mgr. 9. gr. laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, kemur fram að umsóknir um greiðslur samkvæmt lögunum skuli berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 31. desember 2020. Hafi umsókn ekki borist fyrir það tímamark falli réttur til greiðslu niður. Í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. er hér lagt til að unnt verði að sækja um greiðslur samkvæmt lögunum til 31. mars 2022 vegna tímabilsins 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.

Um 3. gr.

    Í stað þess að vísað sé til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er hér gert ráð fyrir að vísað verði til Menntasjóðs námsmanna eins og sjóðurinn heitir eftir gildistöku laga nr. 60/2020.

Um 4. gr.

    Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er kveðið á um þann tíma sem launamaður þarf að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði til að teljast tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Hér er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að atvinnutengd starfsendurhæfing sem launamaður hefur stundað á þeim tíma sem hann telst óvinnufær, sbr. 26. gr. laganna, svari til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Er í þessu sambandi miðað við atvinnutengda starfsendurhæfingu samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012. Enn fremur er gert ráð fyrr að vottorð frá starfsendurhæfingarsjóði samkvæmt lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða skuli fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram komi að viðkomandi launamaður hafi stundað atvinnutengda starfsendurhæfingu og lokið henni. Lagt er til að heimild þessi geti einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr. laganna.
    Þannig er gert ráð fyrir að við mat á áunnum rétti viðkomandi launamanns innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði litið til starfa hans á vinnumarkaði áður en hann varð óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss, sbr. 2. mgr. 26. gr. laganna, og áunnins réttar vegna þátttöku hans í atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Ekki er gert ráð fyrir að heimilt verði að meta starfsendurhæfingu til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns nema einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr. laganna. Með þessum breytingum munu sömu reglur gilda um launamann sem stundar atvinnutengda starfsendurhæfingu á þeim tíma sem hann telst óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss og um launmann sem hefur stundað nám í tiltekinn tíma áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, sbr. 3.mgr. 15. gr. laganna.
    Meðal þeirra afleiðinga sem rekja má til útbreiðslu kórónuveiru eru færri starfstækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu sem veldur því meðal annars að færri en ella fá tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði að lokinni atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Er með þessu leitast við að stuðla markvisst að áframhaldandi virkni hlutaðeigandi einstaklinga eftir að atvinnutengdri starfsendurhæfingu lýkur með því að auðvelda þeim virka atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum með það að markmiði að auka möguleika þeirra á vinnumarkaði til framtíðar litið.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem, líkt og breytingar þær sem lagðar eru til í 4. gr. er meðal annars ætlað að stuðla að virkni þeirra sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og lokið hafa atvinnutengdri starfsendurhæfingu eftir að hafa verið óvinnufærir vegna sjúkdóms eða slyss.
    Í 2. mgr. 26. gr. laganna er kveðið á um að við útreikninga á ávinnslutímabili, þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar, skuli líta til síðustu tólf mánaða frá þeim tíma er hinn tryggði sannanlega hætti störfum vegna þess að hann varð óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss. Hér er lagt til að framangreint tímabil verði lengt þannig að líta skuli til síðustu 24 mánaða frá þeim tíma er hinn tryggði varð óvinnufær í stað tólf mánaða. Er þetta lagt til þar sem vinnusaga hins tryggða kann að hafa verið brotakennd vegna veikindafjarveru og stuttra ráðningarsambanda áður en hann varð óvinnufær að fullu.
    Í 3. mgr. 26. gr. laganna er kveðið á um að sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan sex mánaða frá þeim degi er hann varð vinnufær á ný, eftir að hafa verið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss, falli réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður enda eigi ákvæði 23. gr. laganna ekki við en þar er kveðið á um þær reglur sem gilda þegar sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum hættir tímabundið þátttöku á vinnumarkaði. Hér er lagt til að framangreint tímabil verði lengt úr sex mánuðum í tólf mánuði. Er þetta lagt til í því skyni að auka svigrúm þeirra sem koma aftur inn á vinnumarkaðinn eftir óvinnufærni vegna sjúkdóms eða slyss til að nýta þegar áunna atvinnuleysistryggingu á meðan þeir eru að fóta sig á ný á vinnumarkaði.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er kveðið á um að hver sá sem stundar nám í skilningi laganna teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að þrátt fyrir framangreint sé hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að hinn tryggði leggi fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hér er lagt til að framangreint hámark ECTS-eininga verði hækkað úr 10 ECTS-einingum í 12 ECTS-einingar þannig að heimilt verði að stunda framangreint nám sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn að öðrum skilyrðum uppfylltum. Er þetta lagt til þar sem almennt er miðað við að einstaklingur sem stundar nám á háskólastigi hafi lokið 6 ECTS-einingum hafi hann lokið einum áfanga í náminu. Í ljósi þess þykir eðlilegt að í 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði miðað við 12 ECTS-einingar í stað 10 ECTS-eininga.
    Hér er jafnframt lagt til að bætt verði við 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að þrátt fyrir 1. mgr. ákvæðisins verði heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum. Þá er lagt til að einnig verði heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum á námsönn á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laganna að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í gildandi 3. mgr. 52. gr. laganna er kveðið á um að þrátt fyrir 1. og 2. mgr. ákvæðisins sé Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Jafnframt er kveðið á um að hinn tryggði skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Fram kemur að hinn tryggði eigi þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og að Vinnumálastofnun skuli meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann eigi rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins. Hér er, líkt og áður segir, lagt til að framangreind heimild eigi einnig við um nám á framhaldsskólastigi. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að jafna möguleika atvinnuleitenda til að stunda nám samhliða nýtingu réttar til atvinnuleysistrygginga hvort sem um er að ræða nám á framhalds- eða háskólastigi.
    Enn fremur er lagt til að þeim sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði, þrátt fyrir 1.–3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, heimilt að stunda nám sem skipulagt er samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun enda sé námið ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Í því sambandi er miðað við að ekki sé unnt að sækja um lán til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna og skiptir þá ekki máli hvort unnt er að sækja um lán vegna skólagjalda hjá Menntasjóði námsmanna. Er jafnframt við það miðað að námið komi ekki til skerðingar á rétti viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans á þátttöku á vinnumarkaði. Skilyrði er að viðkomandi leggi fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins. Er þetta lagt til þar sem ekki þykir ástæða til að koma í veg fyrir að atvinnuleitendur geti stundað nám samhliða nýtingu réttar innan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar námið er skipulagt á þann hátt af viðkomandi menntastofnun að það hefur ekki áhrif á atvinnuleit hins tryggða eða möguleika hans til fullrar þátttöku á vinnumarkaði.
    Loks er gert ráð fyrir að þrátt fyrir 1.–4. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, verði frumvarpið óbreytt að lögum, skuli atvinnuleitendum sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins ávallt vera heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi þegar viðkomandi sækir um atvinnuleysistryggingar án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins geti lokið þeirri námsönn sem þegar er hafin þegar þeir sækja um atvinnuleysistryggingar í stað þess að þurfa að segja sig úr námi til að geta nýtt réttindi sín innan kerfisins sér til framfærslu.

Um 7. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti sótt um atvinnuleysisbætur enda þótt viðkomandi hafi ekki tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um lok starfsemi heldur nægir að viðkomandi hafi tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra. Sjálfstætt starfandi einstaklingi ber að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi verkefni og á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili. Tekjur viðkomandi fyrir tilfallandi verkefni koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum að framangreindum skilyrðum uppfylltum. Hér er lagt til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur þannig að ákvæðið gildi frá og með 1. september 2020 og falli úr gildi 1. nóvember 2020. Ákvæði þetta hefði að öllu óbreyttu fallið úr gildi 1. september 2020 en nauðsynlegt þykir að framlengja úrræðið sem ákvæðið kveður á um þar sem enn eru þrengingar á vinnumarkaði. Þó er lögð til sú efnisbreyting að 3. mgr. ákvæðisins, sem kveður á um það tímabil sem sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, falli brott. Er það lagt til í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til í 9. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir nýtt ákvæði til bráðabirgða XVII bætist við lög um atvinnuleysistryggingar þess efnis að réttur þeirra sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins til tekjutengdra atvinnuleysisbóta geti orðið allt að sex mánuðir, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Um 8. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða XV í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er kveðið á um heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda, að frekari skilyrðum uppfylltum.
    Hér er lagt til að tímabilið verði framlengt þannig að það taki einnig til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli á tímabilinu frá 1. september 2020 til og með 31. október 2020. Ekki er gert ráð fyrir að breytingar verði á efni ákvæðisins.
    Heimildin til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli hefði að öllu óbreyttu fallið úr gildi 1. september 2020 en nauðsynlegt þykir að framlengja úrræðið þar sem enn eru þrengingar á vinnumarkaði.

Um 9. gr.

    Ljóst er að umsvif atvinnulífsins hafa dregist saman eftir þann vöxt sem einkennt hefur þróunina á vinnumarkaði undanfarin ár, meðal annars í ljósi afleiðinga heimsfaraldurs vegna kórónuveiru á atvinnugreinar sem tengjast ferðaþjónustu. Er því gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist á komandi misserum og að þeim einstaklingum fjölgi sem nýti rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í ljósi framangreinds er lagt til að þrátt fyrir 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, eins og lagt er til að henni verði breytt, verði Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Er gert ráð fyrir að með undirritun sinni skuldbindi viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og fellur undir sérstakt átak stjórnvalda sem nefnt hefur verið Nám er tækifæri án þess að það hafi áhrif á rétt viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga á grundvelli laganna. Er þetta lagt til í því skyni að hvetja atvinnuleitendur til að stunda nám sem fellur undir framangreint átak stjórnvalda, óháð því hvort námið er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna, í því skyni að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Litið er svo á að það nám sem um ræðir verði viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, sbr. einnig reglugerð nr. 1223/2015, um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði. Er gert ráð fyrir að með átakinu fái allt að 3.000 atvinnuleitendur sem hafa verið skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun og í virkri atvinnuleit í sex mánuði eða lengur eftir atvinnumissi tækifæri til að stunda nám sem fellur undir átakið, sbr. framangreint. Einnig er gert ráð fyrir að skilyrði verði að námið kunni að nýtast viðkomandi atvinnuleitanda við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og að viðkomandi hafi ekki nýtt sér rétt sinn til námsláns hjá Menntasjóði námsmanna. Lagt er til að á gildistíma samnings, sbr. framangreint, verði viðkomandi atvinnuleitanda skylt að uppfylla skilyrði um mætingu sem og önnur skilyrði sem sett eru í tengslum við námið af hlutaðeigandi menntastofnun, svo sem hvað varðar reglulega ástundun þess. Auk þess er gert ráð fyrir að viðkomandi atvinnuleitanda beri að vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings, sbr. framangreint.
    Gert er ráð fyrir að gildistími samninga á grundvelli átaksins Nám er tækifæri geti að hámarki verið ein námsönn fyrir hvern atvinnuleitanda og eigi einungis við um nám sem stundað verður á vorönn árið 2021, haustönn árið 2021 eða vorönn árið 2022. Lagt er til að kveðið verði skýrt á um að sá tími sem nám atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings í tengslum við átakið Nám er tækifæri teljist ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laganna, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.
    Í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er kveðið á um að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Hér er lagt til að sá sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. framangreint, öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til slíkra bóta skv. 32. gr. á yfirstandandi bótatímabili skv. 29. gr. Enn fremur er gert ráð fyrir að hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 falli niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæðinu.
    Er þetta lagt til í því skyni að tryggja atvinnuleitendum meiri rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins en nú er, þ.m.t. þeim einstaklingum sem verða fyrir atvinnumissi í tengslum við þær þrengingar sem nú eru á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Um 10. gr.

    Lagt er til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, verði framlengdur frá og með 1. september 2020 og að ákvæðið falli úr gildi 1. nóvember 2020. Heimildin til greiðslu hlutabóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli hefði að óbreyttu fallið úr gildi 1. september 2020 en nauðsynlegt þykir að framlengja úrræðið vegna áframhaldandi þrenginga á vinnumarkaði, sbr. 7. og 8. gr. frumvarpsins. Því er einnig talið nauðsynlegt að framlengja undanþágu frá a-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa þannig að í þeim tilvikum þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda verði miðað við tekjur launamannsins líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað við útreikning á kröfum skv. a-lið 5. gr. laganna. Enn fremur er lagt til að sams konar framlenging á undanþágu gildi um greiðslur til launamanns úr Ábyrgðasjóði launa vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi. Því er gert ráð fyrir að tekið verði mið af þeim tekjum sem launamaður hafði fyrir það starfshlutfall sem hann var í áður en starfshlutfall var lækkað við útreikning á kröfum skv. b-lið 5. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að önnur skilyrði a- og b-liðar 5. gr. laganna gildi að öðru leyti og að þessar undanþágur verði tímabundnar í ljósi sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði og gildi um kröfur launamanna sem fá greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli til greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa frá og með 1. september 2020 til og með 31. október 2020.

Um 11. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi um leið og frumvarpið hefur verið samþykkt á Alþingi. Til að breytingar þær sem lagðar eru til á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, nýtist þeim atvinnuleitendum sem hafa þegar hafið nám á haustönn 2020 þegar frumvarpið verður að lögum þykir mikilvægt að kveða sérstaklega á um að umræddar breytingar eigi einnig við um þá atvinnuleitendur en ekki eingöngu þá atvinnuleitendur sem hefja nám eftir að frumvarpið verður að lögum.