Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 6  —  6. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (skilyrði um heildarjöfnuð og skuldahlutfall).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4., 5. og 7. gr. er ráðherra heimilt að víkja frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera í 7. gr. árin 2023–2025. Hið sama gildir ef endurskoða þarf fjármálastefnu fyrir þau ár, sbr. 10. gr.
    Í umsögnum fjármálaráðs um þingsályktunartillögur fyrir þessi ár, sem ráðið sendir Alþingi, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 4. mgr. 13. gr., skal lagt mat á hvort yfirlýst markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum og framfylgd þeirra muni gera kleift að skilyrði í 7. gr. taki aftur gildi frá og með árinu 2026.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það felur í sér að skilyrði 7. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, varðandi heildarjöfnuð og skuldahlutföll hins opinbera, svonefndar tölulegar fjármálareglur, gildi ekki fyrir árin 2023–2025. Í þingsályktun um endurskoðun fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, sem Alþingi samþykkti 3. september 2020, er skilyrðunum vikið til hliðar í þrjú ár, árin 2020–2022, svo sem heimilt er skv. 10. gr. laganna við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
    Lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, tóku gildi í ársbyrjun 2016. Með setningu laganna var hafin innleiðing á gerbreyttu regluverki bæði fyrir áætlanagerð og stefnumörkun stjórnvalda sem og fyrirkomulag Alþingis á fjárstjórnarvaldi sínu og aðhaldi með framkvæmdavaldinu við stjórn opinberra fjármála. Eitt helsta markmiðið var að stuðla að framförum í beitingu opinberra fjármála í þágu hagstjórnar í samspili við peningamálastefnu Seðlabankans. Þannig geti hagvöxtur, stöðugleiki og full nýting framleiðsluþátta oftar farið saman og með árangursríkari hætti en reyndin hefur verið í nútíma hagsögu Íslands. Í þessu skyni var komið á formlegri stefnumörkun og áætlanagerð til meðallangs tíma, eða til fimm ára, á vegum ríkisstjórnar, sveitarfélaga og Alþingis. Hún er sett fram annars vegar í upphafi hvers kjörtímabils í mynd fjármálastefnu ríkisstjórnar, um meginmarkmið í afkomu- og skuldaþróun, en hins vegar í fjármálaáætlun, um nánari útfærslu á tekjuöflun og uppbyggingu á þjónustukerfum og innviðum, sem uppfærð er árlega og framlengist þá um eitt ár í senn. Í annan stað voru fjármál sveitarstjórnarstigsins felld undir regluverkið og tekið upp reglubundið samráð ríkis og sveitarfélaga um hagstjórnarmarkmiðin og fjárhagsleg samskipti.
    Þriðji lykilþátturinn í þessari nýju umgjörð við stýringu fjármála hins opinbera felst í skýrum og fyrirfram ákveðnum fjármálareglum. Líta má á þær sem eins konar leikreglur sem Alþingi hefur sett sér í þessum efnum. Þeim er ætlað að tryggja að pólitísk stefnumörkun um opinber fjármál byggist annars vegar á fimm grunngildum, sem samstaða hefur verið um að teljist vera æskileg leiðarljós, og hins vegar á því að athafnarými stefnunnar falli innan tiltekinna tölusettra marka fyrir mögulegan afkomuhalla og skuldsetningu. Fjármálareglunum er ætlað að stuðla að ábyrgri stjórn opinberra fjármála til langs tíma litið jafnframt því að þau hafi æskileg áhrif á stöðu efnahagsmála á hverjum tíma. Lögin fólu í sér margvíslegar aðrar umbætur, t.d. varðandi breytt reikningsskil, skýrslugjöf til þingsins, ferli við setningu fjárheimilda, sundurliðun fjárveitinga til stofnana og verkefna og vandaðri undirbúning og framkvæmd verkefna stjórnsýslunnar. Þegar á allt er litið má segja að öllum þessum breytingum hafi verið ætlað að leiða til ofansæknari fjármálastjórnar stjórnvalda samhliða skilvirkari verkaskiptingu á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins.
    Í opinberum umræðum hefur komið fram að flestir haghafar telja að lagasetningin hafi verið mikið framfaraskref. Alþjóðastofnanir og lánshæfismatsfyrirtæki sem fylgjast reglu-bundið með stöðu opinberra fjármála hér á landi hafa verið á sama máli. Á Alþingi og opinberum vettvangi hefur myndast almenn samstaða um að starfa samkvæmt þessu breytta fyrirkomulagi í þágu þeirra meginmarkmiða sem því er ætlað að stuðla að, þótt seint verði allir á einu máli um stöðumat og áherslur á hverjum tíma. Umræða um opinberu fjármálin hefur beinst meira að hagstjórn og heildarsýn á tekjuöflunarkerfið og málefnasvið starfseminnar en ekki aðeins að einstökum verkefnum og sértækum úrlausnarefnum. Umfjöllun um árleg fjárlög hefur verið sett í stærra samhengi áætlana til meðallangs tíma. Rammafjárlagagerð fyrir málefnaflokka ráðuneyta hefur verið auðguð með skipulegri markmiðasetningu um árangur og útkomur. Álitsgerðir sjálfstæðs fjármálaráðs hafa í senn veitt stjórnvöldum málefnalegt aðhald, dýpkað umræður og greiningu á fjármálastefnunni og varpað ljósi á framfylgd hennar í fjármálaáætlunum og fjárlögum.
    Þrátt fyrir talsverða umhleypinga á pólitískum vettvangi á þeim liðlega fjórum árum sem liðin eru frá því lögin tóku gildi, þar sem þrjár nýjar ríkisstjórnir hafa tekið við stjórnar-taumunum, hefur nýja fyrirkomulagið fest sig í sessi. Að flestra áliti hefur það reynst til þess fallið að stuðla að meiri samstöðu um meginmarkmið í opinberum fjármálum og stefnufestu við að fylgja þeim eftir. Vissulega varð góður gangur í hagkerfinu í kjölfar lagasetningarinnar ekki til þess að spilla fyrir en taumhaldinu á ríkisfjármálunum var samt ekki sleppt lausu eins og stundum hefur hent áður við svipaðar aðstæður. Árangurinn af því lét ekki á sér standa. Fjárhagslegt bolmagn ríkisfjármálanna efldist til muna undanfarin ár. Batinn endurspeglaðist með skýrum hætti í viðsnúningi skuldastöðunnar frá því að hún gat talist vera við hættumörk yfir í að hún var orðin meðfærileg byrði og undir lögboðnu hámarki. Framfarirnar hafa ekki síður sýnt sig í því að á sama tíma gátu stjórnvöld staðið fyrir umbótum á skattkerfinu og lægri álögum ásamt víðtækri uppbyggingu á meginstoðum ríkisstarfseminnar: heilbrigðisþjónustunni, menntakerfinu, félagslega stuðningsnetinu og samgöngumannvirkjum og öðrum innviðum, svo það helsta sé nefnt. Sökum þessarar hóflegu skuldastöðu og uppbyggingar á starfseminni var ríkið orðið vel í stakk búið til að takast á við ágjöf.
    Vorið 2019 höfðu efnahagshorfur færst til mun verri vegar en fyrri efnahagsspár gerðu ráð fyrir, einkum sökum gjaldþrots annars stærsta flugfélags landsins og mikillar fækkunar á komum ferðamanna til landsins. Þótti ljóst að forsendur fjármálastefnu stjórnvalda hefðu raskast í þeim mæli að taka þyrfti stefnuna til endurskoðunar og aðlaga hana að breyttum aðstæðum til þess að varna því að óbreytt stjórn opinberra fjármála ylli frekari samdrætti. Sú endurskoðun gaf þá einnig tilefni til þess að víkja fjármálareglum laganna tímabundið til hliðar þar sem þær hefðu annars stangast á við endurskoðuð markmið.
    Þessi viðbrögð stjórnvalda voru að öllu leyti í samræmi við ákvæði laganna þar sem gert er ráð fyrir að svo mikil röskun á efnahagsforsendum af völdum skakkafalla í atvinnulífinu gefi fullt tilefni til þess fremur en að ekkert sé aðhafst. Fjármálaráð lýsti sig sammála þessari meginniðurstöðu í umsögn sinni um málið. Þótt standa þyrfti þannig að málum við framgang fjármálastefnu og fjármálareglna mátti eftir sem áður vera ljóst að viðnámsþróttur ríkisfjármálanna væri mikill. Varla þótti ástæða til að ætla annað en að um yrði að ræða skammvinna rýrnun á afkomu hins opinbera og áhrif á skuldastöðuna yrðu ekki veruleg.
    Telja verður að tölulegar fjármálareglur laganna veiti stjórnvöldum töluverðan sveigjanleika til að samhæfa opinber fjármál við breytingar í ganghraða efnahagsframvindunnar en án þess þó að heimila að láta reka á reiðanum til lengri tíma. Heimilt er að halli á afkomu hins opinbera fari í allt að 2,5% af VLF, eða sem svarar nú til um 70 ma.kr. Reglurnar heimila einnig að starfsemin byggist á fjármögnun með hóflegri skuldsetningu, eða allt að 30% af VLF, en ef hlutfallið er hærra þarf að færa það jafnt og þétt niður um 5% á ári að meðaltali. Reynslan sýnir líka að lögin geta veitt töluvert svigrúm fyrir hvort sem er skattalækkanir eða útgjaldavöxt þegar þörf krefur.
    Engu að síður ætti að vera ljóst að torsótt er að koma á svo fullkomnu fjármálaregluverki að það geti staðist sérhverja efnahagslega áraun og uppfyllt öll stefnumið samtímis sem í því felast. Þetta hefur komið á daginn eftir að kórónuveiruveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina. Efnahagshöggið af þeim völdum er þyngra en fordæmi eru fyrir um mjög langa hríð og er í rauninni einstæður atburður í nútíma hagsögu á heimsvísu. Stjórnvöld víða um heim hafa af þeim sökum þurft að beita undanþáguákvæðum í regluverki um stjórn opinberra fjármála til þess að nema fjármálareglur tímabundið úr gildi eða heimila frávik frá þeim. Hið sama á við hér á landi þar sem horfur eru á að hið opinbera verði fyrir meiri búsifjum í ár og á næsta ári en nokkru sinni áður. Útlit er fyrir að halli á heildarafkomu hins opinbera verði í kringum 300 ma.kr. bæði árin og uppsafnaður halli til ársloka 2021 verði þar með orðin um 600 ma.kr. Það svarar til liðlega 20% af landsframleiðslu yfirstandandi árs. Gangi þessar áætlanir eftir mun það leiða til þess að skuldahlutfall hins opinbera á mælikvarða laga um opinber fjármál stórhækkar á næstu árum.
    Með hliðsjón af þessum horfum samþykkti Alþingi í byrjun september þingsályktun um verulegar breytingar á fyrri fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Sú endurskoðun felur í fyrsta lagi í sér að ný markmið um afkomu- og skuldaþróun endurspegla ásetning stjórnvalda um að nýta trausta stöðu opinberra fjármála til að sporna við áfallinu af miklu afli. Í annan stað hefur tölulegum fjármálareglum verið vikið til hliðar í þrjú ár, 2020–2022, eins og lögin heimila. Líta má svo á að veirufaraldurinn og sóttvarnaraðgerðir gegn honum hafi skapað fordæmalausar aðstæður sem höfðu í för með sér óvænta togstreitu á milli tölulegra fjármálareglna og grunngilda laganna, einkum um stöðugleika, af svo miklum þunga að eitthvað varð undan að láta. Í umsögn fjármálaráðs um þingmálið var fallist á að fullt tilefni hafi verið fyrir hendi.
    Eins og fram kemur í greinargerð með fyrirliggjandi fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 sýna framreikningar á þróun opinberra fjármála að þungi efnahagsáfallsins í ár og á næsta ári veldur því að öðru óbreyttu að verulegur afkomuhalli verður viðvarandi út tímabil fjármálaáætlunarinnar samhliða síhækkandi skuldahlutfalli. Þessar horfur fela í sér að ef tölulegar fjármálareglur laganna ættu að ganga aftur í gildi frá og með árinu 2023 þyrfti að grípa til svo harkalegra ráðstafana að vandséð er að það væri gerlegt né skynsamlegt. Útfærsla fjármálaáætlunarinnar fól þess vegna í sér tvíþætt úrlausnarefni. Annars vegar að tryggja að hin lagalega umgjörð skapi nauðsynlegan sveigjanleika til að geta beitt opinberum fjármálum sem hagstjórnartæki í þágu efnahagslegs stöðugleika og hagvaxtar á komandi árum. Hins vegar að mörkun og framfylgd fjármálastefnunnar komist aftur í þann farveg að hægt verði að standa við þær tölulegu fjármálareglur sem Alþingi hefur sett að fyrirmynd margra annarra landa.
    Niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð sú að ganga út frá því í fjármálaáætluninni að gildistöku á tölulegu fjármálareglunum yrði frestað á ný um þrjú ár, eða til loka áætlunartímabilsins, ársins 2025. Í þess stað verði tekið upp skýrt og raunhæft stefnumið sem verði leiðarljós allrar ákvarðanatöku um opinberu fjármálin þar til reglurnar taka gildi aftur árið 2026: að hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu stöðvist eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar. Þannig verði ekki látið skeika að sköpuðu um hvernig fjármálastjórninni verði hagað í kjölfar veirufaraldursins heldur verði hafist handa við að endurreisa fjárhag hins opinbera. Þar verði hins vegar ekki gengið of hratt eða harkalega fram þannig að það gæti hamlað hagvexti eða raskað um of hag heimila eða fyrirtækja. Leiðarljós fjármálaáætlunarinnar um að ná tökum á skuldahlutfallinu felur fremur í sér að gengist verði í afkomubætandi ráðstafanir sem verði vel viðráðanlegar en skili góðum árangri yfir lengra tímabil. Nánar er fjallað um þessar fjárhagsstærðir í greinargerð með fjármálaáætluninni.
    Verði staðið að málum með þessum hætti og tekist með festu á við erfiðleika og vandamál sem kunna að bera að höndum á þeirri leið ættu tölulegu fjármálareglurnar að geta gengið í gildi aftur frá og með árinu 2026, jafnvel þótt allnokkur frávik verði frá þeim efnahagshorfum og áætlunum um opinber fjármál sem nú eru fyrir hendi. Engu að síður er ljóst að afar mikil óvissa er um framvindu veirufaraldursins á næstu misserum og efnahagslegar afleiðingar hans til margra ára litið. Ekki er hægt að útiloka að afleiðingarnar verði það slæmar að nauðsynlegt reynist að endurskoða tímasetningar þessara stefnumiða. Komi til þess mun slíkt endurmat þurfa að fara fram með lagabreytingu með atbeina og umfjöllun Alþingis. Á hinn bóginn er einnig vel hugsanlegt að hagvöxtur taki betur og lengur við sér en samkvæmt núverandi hagspá, meðal annars vegna þeirra viðnáms- og örvunaraðgerða sem áformaðar eru í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2021–2023 og fyrir tilstuðlan annarra efnahagslegra hvata sem kann að verða gripið til. Slík hagfelldari hagþróun mundi þá gera stjórnvöldum betur kleift að framfylgja því stefnumiði sem hér er sett um að stöðva hækkun á skuldahlutfalli hins opinbera og þá með minni aðhaldsráðstöfunum en nú er gert ráð fyrir, eða jafnvel engum, eftir því hversu góður gangur verður í verðmætasköpun og framförum í atvinnulífinu.
    Í þessum fyrirætlunum um framgang fjármálareglnanna hefur verið höfð hliðsjón af því að gengið verður til alþingiskosninga í september haustið 2021. Ný ríkisstjórn sem tekur til starfa að þeim afloknum mun svo fljótt sem verða má, ekki síðar en við framlagningu fjárlagafrumvarps, þurfa að leggja fram fjármálastefnu sína fyrir kjörtímabilið í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Að óbreyttum lögum þyrfti sú stefna að lúta skilyrðum tölulegra fjármálareglna laganna, sem mundi krefjast mjög harðra aðhaldsaðgerða á fyrsta heila starfsári þeirrar ríkisstjórnar samkvæmt þeim áætlunum sem nú liggja fyrir. Sá framgangsmáti sem gengið út frá í þessu frumvarpi í tengslum við fyrirliggjandi fjármálaáætlun mun hins vegar veita nýrri ríkisstjórn hæfilegt svigrúm til að snúa skuldaþróun hins opinbera til betri vegar með ábyrgri stjórn opinberra fjármála.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni þessa frumvarps er að allt útlit er fyrir að efnahagsáfallið af völdum kórónuveirufaraldursins verði það þungt að óraunhæft væri að gera ráð fyrir því í fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2021–2025, sem verður til umfjöllunar á Alþingi í haust, að gripið yrði til svo stórtækra aðhaldsaðgerða að unnt yrði að uppfylla skilyrðin aftur þegar árið 2023. Lög um opinber fjármál gera ekki ráð fyrir fráviki frá tölulegum skilyrðum 7. gr. laganna nema í tilfellum þegar þeim er tímabundið vikið til hliðar við endurskoðun fjármálastefnu. Í tengslum við umfjöllun þingsins um fjármálaáætlunina er því lagt til í þessu frumvarpi að vegna efnahagsáfallsins af völdum kórónuveirufaraldursins verði skilyrðunum vikið tímabundið til hliðar til ársloka 2025 með sérstöku bráðabirgðaákvæði við lögin.
    Sömu sjónarmið eiga við um aðstæður þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við eftir alþingiskosningar haustið 2021 og mun þurfa að leggja fram fjármálastefnu í upphafi kjörtímabilsins og fjármálaáætlanir í framhaldi af því. COVID-19-kreppan er einstæður atburður í nútíma hagsögu sem áður en yfir lýkur mun hafa kollvarpað fjármálaregluverki fyrir hið opinbera víðast hvar í heiminum, þar sem það var á annað borð fyrir hendi. Engin leið er í sjónmáli til þess að Ísland geti orðið undantekning frá því. Frumvarpinu er ætlað að veita stjórnvöldum svigrúm til að aðlaga opinber fjármál að afleiðingum þessa afdrifaríka áfalls á lengri tíma þegar hagkerfið hefur komist á gott skrið með það að markmiði að fjármálareglurnar geti gengið í gildi aftur frá og með árinu 2026.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er mælt fyrir um að þrátt fyrir ákvæði 4., 5. og 7. gr. laga um opinber fjármál verði ráðherra tímabundið heimilt að víkja frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera í 7. gr. árin 2023–2025, þegar ráðherra leggur fram þingsályktunartillögu um fjármálastefnu og þingsályktunartillögur um fjármálaáætlanir sem taka til þeirra ára. Sama ætti við kæmi til þess að leggja þyrfti til breytingu á fjármálastefnu fyrir þau ár skv. 10. gr.
    Jafnframt er með frumvarpinu gert ráð fyrir að í stað þess að leggja mat á hvort skilyrði 7. gr. séu uppfyllt muni fjármálaráð í umsögnum um þingsályktunartillögur á tímabilinu, sem lögin gera ráð fyrir að það sendi Alþingi, leggja mat á hvort yfirlýst markmið í opinberum fjármálum og framfylgd þeirra muni gera kleift að skilyrði í 7. gr. taki aftur gildi frá og með árinu 2026 – auk hefðbundins mats á því hvort fylgt er grunngildum skv. 6. gr.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gaf ekki tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Við undirbúning og lokafrágang á fjármálaáætlun 2021–2025 hafa forsendur um umfang og áhrif af COVID-19-heimsfaraldrinum og efnahagsleg áhrif skýrst sem sýna að frumvarpið er nauðsynlegt á þessu stigi. Vísast í því sambandi til forsendna og vinnu við helstu áfanga 2020 við undirbúning á samhliða framlagningu áætlunarinnar ásamt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 á samkomudegi reglulegs Alþingis 1. október 2020, sbr. 842. mál 150. löggjafarþings sem varð að lögum nr. 59/2020. Vegna þess hve hratt málin hafa verið unnin og mál þróast hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Allt útlit er fyrir að efnahagsáfall í kjölfar kórónuveirufaraldurs verði það þungt að óraunhæft sé að gera ráð fyrir því í fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2021–2025, sem verður til umfjöllunar á Alþingi í haust, að gripið verði til svo stórtækra aðhaldsaðgerða að unnt verði að uppfylla skilyrði 7. gr. laga um opinber fjármál þegar árið 2023. Sömu sjónarmið eiga einnig við um aðstæður þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við eftir alþingiskosningar næsta haust en hún þarf að leggja fram fjármálastefnu í upphafi kjörtímabilsins og fjármálaáætlanir í framhaldi af því. Ákvæðinu er ætlað að veita stjórnvöldum svigrúm til að aðlaga opinber fjármál að afleiðingum áfallsins á lengri tíma þegar hagkerfið hefur komist á gott skrið þannig að fjármálareglurnar geti gengið í gildi aftur frá og með árinu 2026.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt, þrátt fyrir ákvæði 4., 5. og 7. gr., að víkja frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera í 7. gr. árin 2023–2025 í þingsályktunartillögu um fjármálastefnu og þingsályktunartillögum um fjármálaáætlanir sem taka til þeirra ára. Sama á við komi til þess að leggja þurfi til endurskoðun á fjármálastefnu fyrir þau ár skv. 10. gr.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að í umsögnum fjármálaráðs um þingsályktunartillögur, sem lögin gera ráð fyrir að það sendi Alþingi, skuli lagt mat á það hvort yfirlýst markmið í opinberum fjármálum og framfylgd þeirra muni gera kleift að skilyrði í 7. gr. taki aftur gildi frá og með árinu 2026. Skv. 13. gr. laganna er hlutverk fjármálaráðs að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem talin eru upp í 6. gr. og tölulegum fjármálareglum samkvæmt skilyrðum í 7. gr. Þar sem með þessu frumvarpi er lagt til að skilyrðunum í 7. gr. verði vikið tímabundið til hliðar mun ráðið ekki leggja mat á framfylgd þeirra á árunum 2023–2025 en eftir sem áður mun ráðið hafa það hlutverk að meta hvort og hvernig þessar þingsályktunartillögur samræmast grunngildum laganna. Í 2. mgr. er af þessum sökum kveðið á um að ráðið leggi mat á hvort markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum fyrir umrædd ár muni bera þann árangur að aftur verði hægt að fylgja tölulegu fjármálareglunum að fimm árum liðnum. Eins og áður segir kemur fram sá ásetningur í þeirri fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram að hækkun á skuldahlutfalli hins opinbera verði stöðvuð eigi síðar en í lok áætlunartímabilsins. Í fjármálaáætluninni eru einnig settar fram fjölþættar aðgerðir sem eiga að stuðla að þessu, svo sem umfangsmiklar mótvægisráðstafanir fyrsta kastið til að styðja við hagkerfið og veita nýja viðspyrnu fyrir hagvexti og síðan áætlað umfang á aðhaldsstigi sem þyrfti að beita á síðari hluta tímabilsins. Mat á slíkum áformum verður þá tímabundið annar mælikvarði á árangur við stjórn opinberra fjármála sem ráðið leggur mat á í álitsgerðum sínum til Alþingis. Í því mun felast mikilvægt aðhald fyrir stjórnvöld. Afar brýnt er að á því tímabili þegar tölulegu fjármálareglnanna nýtur ekki við muni stjórnvöld vinna að því jafnt og þétt að þær geti gengið í gildi aftur. Að því loknu verða áfram fyrir hendi miklar áskoranir við að lækka skuldahlutfallið niður á það stig sem lögin kveða á um með það að markmiði að hið opinbera verði aftur vel í stakk búið til að mæta aðsteðjandi erfiðleikum, sem reynslan sýnir að geta bæði verið óvæntir og þungbærir.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.