Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 12  —  12. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994, með síðari breytingum (orkumerkingar).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

    Orðin ,,og hávaðamengun“ í 1. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „notaðar vörur“ kemur: nema þær séu fluttar inn frá þriðja landi.
     b.      2. málsl. fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. a laganna:
     a.      2. tölul. orðast svo: Seljandi: Smásali eða annar einstaklingur eða lögaðili sem býður vöru til sölu, leigu eða kaupleigu, eða sýnir viðskiptavinum vöru eða þeim sem annast uppsetningu hennar, hvort sem það er gegn greiðslu eða ekki.
     b.      5. tölul. orðast svo: Upplýsingablað: Staðlað skjal sem inniheldur upplýsingar um vöru, á prentuðu eða rafrænu formi.
     c.      6. tölul. orðast svo: Vara sem tengist orkunotkun: Vara eða kerfi sem hefur áhrif á orkunotkun meðan á notkun stendur og sett er á markað eða tekin í notkun, þ.m.t. bæði hlutir sem hafa áhrif á orkunotkun meðan á notkun stendur sem settir eru á markað eða teknir eru í notkun fyrir viðskiptavini, og hlutir sem ætlunin er að setja í vörur.
     d.      Við bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
                  1.      Breyting á kvarða: Setning strangari krafna til að uppfylla kröfur viðkomandi orkuflokks á merkimiða fyrir tiltekinn vöruflokk.
                  2.      Fjarsala: Sala, leiga eða kaupleiga í gegnum póstpöntun, verðlista, netið, með símasölu eða öðrum hætti sem leiðir til þess að ekki sé hægt að gera ráð fyrir að hugsanlegur endanlegur notandi hafi séð vöruna í útstillingu.
                  3.      Kerfi: Samsetning nokkurra vara sem sameiginlega gegna tilteknu hlutverki við væntanlegar rekstraraðstæður og þar sem hægt er að ákvarða orkunýtni þeirra sem einnar heildar.
                  4.      Merkimiði: Myndræn skýringarmynd, annað hvort á prentuðu eða rafrænu formi, með föstum kvarða þar sem eingöngu er notast við bókstafi frá A til G. Hver bókstafur stendur fyrir flokk sem samsvarar mismiklum orkusparnaði, í sjö mismunandi litum frá dökkgrænum að rauðum, með þann tilgang að upplýsa viðskiptavini um orkunýtni og orkunotkun. Þar eru meðtaldir merkimiðar með breyttum kvarða.
                  5.      Merkimiði með breyttum kvarða: Merkimiði fyrir tiltekinn vöruflokk sem hefur fengið breyttan kvarða og er aðgreinanlegur frá eldri merkimiðum. Hann er áfram í samræmi við aðra merkimiða.
                  6.      Orkunýtni: Hlutfall á milli afkasta-, þjónustu-, vöru- eða orkuframleiðslu og þeirrar orku sem til þarf.
                  7.      Tegundarauðkenni: Kóði, sem samanstendur af bók- og tölustöfum, sem greinir tiltekna vörutegund frá öðrum tegundum með sama vörumerki eða nafn birgis.
                  8.      Tæknigögn: Gögn sem gera markaðseftirlitsyfirvöldum kleift að meta nákvæmni merkimiða og upplýsingablaðs fyrir vöru, þ.m.t. prófunarskýrslur eða áþekk tæknileg gögn.
                  9.      Vöruflokkur: Flokkur vara sem hefur sömu aðalvirkni.
                  10.      Vörugagnagrunnur: Safn gagna um vörur sem er sett saman á kerfisbundinn hátt og samanstendur annars vegar af opnum hluta sem miðast við þarfir neytanda þar sem upplýsingar varðandi einstaka mæliþætti vöru eru aðgengilegar rafrænt, og vefgátt sem opnar fyrir aðgang að grunninum, og hins vegar af lokuðum hluta er varðar reglufylgni þar sem kröfur um aðgengi og öryggi eru tilgreindar með skýrum hætti.
                  11.      Vörutegund: Útgáfa af vöru þar sem allar vörueiningar deila sömu tæknilegu eiginleikunum sem skipta máli hvað varðar merkimiðann og upplýsingablaðið og hafa sömu tegundarauðkenni.

4. gr.

    Í stað 3.–5. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (3. gr.)

Almennar skyldur birgðasala.

    Birgðasali skal tryggja að með hverri einingu vöru sem sett er á markað fylgi ítarlegur prentaður merkimiði og upplýsingablað í samræmi við lög þessi, án endurgjalds. Í stað þess að afhenda upplýsingablað með vörunni er birgðasala heimilt að skrá breytur af upplýsingablaði inn í vörugagnagrunn. Birgðasali skal þó afhenda seljanda prentað upplýsingablað sé þess óskað.
    Birgðasali skal þegar í stað og ekki síðar en innan fimm virkra daga frá beiðni seljanda, senda prentaða merkimiða, þ.m.t. merkimiða með breyttum kvarða og upplýsingablöð, án endurgjalds.
    Birgðasali skal tryggja að merkimiðar og upplýsingablöð sem hann leggur fram séu nákvæm. Hann skal leggja fram fullnægjandi tæknigögn til að mögulegt sé að meta nákvæmni upplýsinganna.
    Þegar vörutegund er komin í notkun og það stendur til að uppfæra hana, skal birgðasali óska eftir skýru samþykki frá viðskiptavini að því er varðar allar fyrirhugaðar breytingar í kjölfar uppfærslna sem kunna að vera gerðar á vörueiningu, sem er í eigu viðskiptavinar, sem gætu haft óheppileg áhrif á mæliþætti merkimiða sem tilgreinir orkunýtni vörueiningarinnar. Birgðasali skal tilkynna viðskiptavini um markmið uppfærslunnar og breytingar á mæliþáttum, þ.m.t. breytingar á orkuflokki merkimiða. Á tímabili sem er í réttu hlutfalli við líftíma vöru skal birgðasali gefa viðskiptavini kost á að hafna uppfærslunni. Hafni hann uppfærslunni skal virkni vörunnar ekki verða lakari ef hægt er að komast hjá því.
    Birgðasala er óheimilt að setja á markað vörur sem eru þannig hannaðar að þær hafi sjálfvirkt breytta virkni sem bæti frammistöðu þeirra við prófanir sem meta mæliþætti um orkunotkun, áhrif á umhverfi auk annars er varðar notkun þeirra.

    b. (4. gr.)

Skyldur birgðasala í tengslum við vörugagnagrunn.

    Áður en ný vörutegund er sett á markað skal birgðasali skrá upplýsingar um vörutegundina í opinn hluta vörugagnagrunns og þann hluta hans er varðar reglufylgni.
    Birgðasali færir eftirfarandi skyldubundna og sértæka hluta tæknigagna inn í vörugagnagrunninn:
     a.      almenna lýsingu á vörutegund, þannig að hana megi sanngreina auðveldlega og án nokkurs vafa,
     b.      tilvísanir í þá samræmdu staðla sem beitt er eða aðra mælingarstaðla sem notaðir eru,
     c.      sérstakar varúðarráðstafanir sem gera skal þegar tegundin er sett saman, sett upp, henni haldið við eða hún prófuð,
     d.      mælda tæknilega mæliþætti tegundar,
     e.      útreikninga, sem gerðir eru út frá mældum mæliþáttum,
     f.      prófunarskilyrði, ef þeim er ekki nægilega vel lýst í b-lið.
    Auk þessa má birgðasalinn að eigin frumkvæði bæta við viðbótarhlutum tæknigagna í vörugagnagrunninn.
    Fram að skráningu tæknigagna í vörugagnagrunn skal birgðasali veita aðgang að rafrænni útgáfu þeirra til skoðunar innan tíu daga frá því að beiðni berst frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
    Ef breytingar eru gerðar á vöru sem hafa áhrif á merkimiða eða upplýsingablað skal varan teljast ný vörutegund. Birgðasali skal tilgreina í gagnagrunninum þegar hann hættir að setja einingar vörutegundar á markað.
    Eftir að síðasta eining vörutegundar er sett á markað skal birgðasali varðveita upplýsingar um vörutegundina í þeim hluta vörugagnagrunnsins er varðar reglufylgni í a.m.k. 15 ár. Upplýsingum í opnum hluta gagnagrunnsins skal ekki eytt.

    c. (5. gr.)

Skyldur seljanda.

    Seljandi skal með sýnilegum hætti, þ.m.t. við fjarsölu á netinu, sýna þann merkimiða sem birgðasali lætur í té og veita viðskiptavini aðgang að upplýsingablaði, þ.m.t. á útprentuðu formi á sölustað, sé þess óskað.

5. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Aðrar skyldur birgðasala og seljanda.

    Birgðasali og seljandi skulu:
     a.      með sjónrænum auglýsingum og tæknilegu kynningarefni vísa í orkunýtniflokk vöru og þau svið orkunýtniflokka sem eiga við tiltekna vörutegund,
     b.      koma í veg fyrir að sýndir séu villandi eða misvísandi merkimiðar, tákn eða áletranir um orkunotkun og önnur mikilvæg aðföng meðan á notkun vörunnar stendur,
     c.      ekki afhenda eða sýna merkimiða fyrir vörur sem tengjast orkunotkun, sem líkja eftir merkimiðum sem veittir eru samkvæmt lögum þessum,
     d.      ekki afhenda eða sýna merkimiða fyrir vörur, sem eru ekki vörur sem tengjast orkunotkun, sem líkja eftir merkimiðum fyrir vörur sem tengjast orkunotkun.

6. gr.

    14. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1369 frá 4. júlí 2017 um setningu ramma fyrir orkumerkingar og um niðurfellingu tilskipunar 2010/30/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 101 frá 19. desember 2019, bls. 62–82, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019, frá 29. mars 2019, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44 frá 2. júlí 2020, bls. 46–47, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Það byggist á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1369 frá 4. júlí 2017 um setningu ramma fyrir orkumerkingar og um niðurfellingu tilskipunar 2010/30/ESB. Lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994, eru rammalöggjöf sem leggur grunn að frekari reglusetningu og hefur fjöldi reglugerða um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun einstakra vörutegunda verið settur á grundvelli laganna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið frumvarpsins er að innleiða með tilhlýðilegum hætti reglugerð (ESB) 2017/1369. Alþingi staðfesti ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019 frá 29. mars 2019 hinn 8. janúar 2020 og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands. Reglugerð (ESB) 2017/1369 kemur í stað eldri tilskipunar 2010/30/ESB um sama efni. Sú tilskipun var rammatilskipun, sem innleidd var hér á landi með breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994. Á grundvelli þeirrar tilskipunar voru jafnframt settar reglugerðir um merkingar og vörulýsingar á einstökum heimilistækjum, sem teknar voru upp í EES-samninginn á sínum tíma og hafa verið innleiddar hér á landi á með reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli laga nr. 72/1994. Lög nr. 72/1994 voru upphaflega sett til innleiðingar á tilskipun ráðs Evrópubandalagsins frá 22. september 1992 ( 92/75/EBE) um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilistækjum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum.
    Þar sem hin nýja reglugerð (ESB) 2017/1369 kemur í stað tilskipunar 2010/30/ESB eru ekki aðrar leiðir taldar færar til innleiðingar hennar en með breytingu á lögum nr. 72/1994 til að endurspegla þær breytingar sem hin nýja reglugerð kveður á um. Lagasetningin er nauðsynleg til að Ísland standi við skuldbindingar sínar að EES-rétti um samræmda löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu og til að koma í veg fyrir að heimilt verði að flytja til landsins vörur sem tengjast orkunotkun og uppfylla ekki kröfur annars staðar á efnahagssvæðinu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Margar vörur sem tengjast orkunotkun hafa eiginleika sem geta stuðlað að miklum umbótum, t.d. með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og ná fram orkusparnaði. Eitt af meginmarkmiðum reglugerðar (ESB) 2017/1369 er að stuðla að orkusparnaði með því að neytendur verði betur upplýstir um orkunotkun vara og hvetja til þess að orkunýtnari vörur verði frekar fyrir valinu. Þeir skulu jafnframt vera upplýstir um breytta virkni vöru áður en kemur til uppfærslu hennar og hafa möguleika á að hafna uppfærslu ef hún leiðir til verri orkunýtni.
    Gildissvið reglugerðar (ESB) 2017/1369 er aðeins víðtækara en eldri tilskipunar 2010/30/ESB, þar sem kerfi, eða samsetning vara, sem hefur áhrif á orkunotkun fellur undir gildissviðið. Settur er fram nýr og einfaldari kvarði fyrir merkingar vara og kerfa sem tengjast orkunotkun auk þess sem leitast er við að auðvelda upplýsingagjöf og umsjón með miðlægum vörugagnagrunni. Í einhverjum vöruflokkum hefur bætt hönnun leitt til bættrar orkunýtni þannig að flestar vörur falla í efstu orkunýtniflokkana. Í þeim tilvikum er kvarðinn breyttur með því að skilgreina strangari kröfur fyrir hvern flokk. Merkimiðar með breytta kvarða endurspegla skýrt þessa breytingu og eru áfram í samræmi við aðra merkimiða í útliti og uppbyggingu.
    Skylda er lögð á birgðasala um skrásetningu upplýsinga um orkunotkun vara í miðlægan gagnagrunn. Birgðasalar og innflytjendur vara með orkumerkingar bera ábyrgð á að setja upplýsingar um vörur í vörugagnagrunninn ef þeir eru að flytja vörur inn á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins. Upplýsingar um vöru skulu skráðar í vörugagnagrunninn áður en hún er sett á markað. Með vörugagnagrunninum verður auðveldara fyrir neytendur að finna og bera saman vörur sem tengjast orkunotkun. Seljendur sem þurfa nýjar orkumerkingar eða ný upplýsingablöð geta sótt þau beint úr vörugagnagrunninum. Þá verður einfaldara fyrir eftirlitsstjórnvöld að sinna markaðseftirliti í ljósi betri yfirsýnar yfir vörur á markaði. Birgðasalar geta einnig séð hvenær og hvort markaðseftirlitsyfirvöld sæki slík tækniskjöl. Vörugagnagrunnurinn skal þó hvorki koma í staðinn fyrir né breyta ábyrgð markaðseftirlitsyfirvalda.
    Eftirlit með lögum nr. 72/1994 hefur verið á hendi Mannvirkjastofnunar, sem ber heitið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frá 1. janúar 2020, og er nafnabreytingin endurspegluð í frumvarpinu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið er í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar og snýr að innleiðingu gerðar sem búið er að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Áform um lagasetningu voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á tímabilinu 20. nóvember til 4. desember 2019, sbr. mál nr. S-287/2019. Engar umsagnir bárust. Drög að frumvarpinu voru sett í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 28. janúar til 11. febrúar 2020, sbr. mál nr. S-16/2020. Sameiginleg umsögn barst frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu. Í umsögninni er ábending um að stjórnvöld sjái til þess að íslensk útgáfa merkimiða sé aðgengileg upplýsingaskyldum aðilum og hefur því verið komið á framfæri við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem fer með framkvæmd laganna. Að auki er bent á það að reglugerð (ESB) 2017/1369 sé ekki enn orðin hluti af EES-samningnum og því velt upp hvort ástæða sé til þess að frumvarpið fái lagagildi degi eftir birtingu í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019, frá 29. mars 2019, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn var birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins hinn 2. júlí 2020 og er því orðin hluti af EES-samningnum, sbr. 7. gr. frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum kallar það á aukna upplýsingagjöf seljenda og birgðasala sem framleiða, selja eða flytja inn vörur sem tengjast orkunotkun. Markmið reglugerðarinnar er að upplýsa neytendur um orkunotkun vöru og að samræmdar upplýsingar liggi fyrir sem geri neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vörum.
    Birgðasalar og seljendur verða að tryggja að vörur sem þeir selja og markaðssetja séu í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða og staðla sem kunna að gilda um framleiðslu vörunnar hverju sinni. Jafnframt ber seljendum að tryggja að neytendur fái ávallt þær upplýsingar sem kveðið er á um í gildandi lögum varðandi orkumerkingar.
    Með auknum og aðgengilegri upplýsingum um orkunýtni vara sem tengjast orkunotkun í miðlægum vörugagnagrunni eru neytendur enn betur upplýstir um mögulegan orkusparnað sem getur haft áhrif á vöruval þeirra. Ef veittar eru nákvæmar, viðeigandi og samanburðarhæfar upplýsingar um sértækar vörur sem tengjast orkunotkun ætti það að verða til þess að endanlegur notandi velur fremur vörur sem nota minni orku, eða leiða óbeint til minni notkunar á orku. Þannig geta neytendur tekið upplýsta ákvörðun um að velja orkunýtnari vörur, sem leiðir til aukins sparnaðar fyrir viðkomandi og orkusparnaðar í heildarsamhenginu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Hér er um að ræða lagabreytingu sem felur í sér breyttan merkingarkvarða vara sem tengjast orkunotkun með hliðsjón af tæknilegum framförum. Umfang eftirlits hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun breytist ekki. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það því ekki hafa fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að fellt verði út úr markmiðsgrein laganna ákvæði um hávaðamengun til samræmis við gildissvið reglugerðar (ESB) 2017/1369 sem nær yfir merkingar um orkunýtni og notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum. Ekki er ástæða til að nefna hávaðamengun sérstaklega, þar sem margvísleg umhverfisáhrif eru af notkun vara og því ekki ástæða til að nefna eina þeirra sérstaklega í markmiðsgreininni.

Um 2. gr.

    Greinin um gildissvið laganna er uppfærð til samræmis við gildissvið reglugerðar (ESB) 2017/1369 sem undanskilur notaðar vörur nema þær séu fluttar inn frá þriðja landi. Þá eru merkiplötur og öryggismerkingar ekki sérstaklega undanskildar í gildissviðsákvæði sömu reglugerðar og er sá málsliður því felldur brott.

Um 3. gr.

    Við lögin bætast nýjar skilgreiningar, svo sem hugtök sem tengjast vörugagnagrunni, tæknilegum gögnum og breyttum merkingarkvarða. Með nýjum skilgreiningum er jafnframt gerður greinarmunur á vöru, vörutegund, kerfi, tegundarauðkenni og vöruflokki. Kvarða merkimiða er breytt þar sem margir vöruflokkar hafa verið endurhannaðir þannig að þeir uppfylla flestir skilyrði efstu orkuflokkanna. Með því að setja strangari kröfur þar að lútandi er settur aukinn hvati til framleiðenda til áframhaldandi umbóta. Þá er skilgreining á vöru sem tengist orkunotkun útvíkkuð þannig að hún nái bæði yfir vörur og kerfi sem tengjast orkunotkun og vörur sem eru íhlutir í öðrum vörum. Einnig eru gerðar breytingar á skilgreiningum á seljanda og upplýsingablaði.

Um 4. gr.

    Lagt er til að þrjár nýjar greinar komi í stað 3.–5. gr. laganna um upplýsingaskyldu, tæknileg gögn og ábyrgð birgðasala og seljanda.
     Um a-lið.
    Með greininni eru lagðar til almennar skyldur birgðasala varðandi upplýsingagjöf sem felast í að afhenda merkimiða og upplýsingablöð og nota vörugagnagrunn í stað upplýsingablaða og ákvæði um nákvæmni þessara upplýsinga. Í þeim tilvikum sem birgðasali notar vörugagnagrunn í stað upplýsingablaðs, þá ber honum samt sem áður að afhenda upplýsingablað óski viðskiptavinur þess. Í greininni er að finna ákvæði um uppfærslu vörutegunda sem eru í notkun og nauðsyn þess að samþykki viðskiptavinar liggi fyrir ef uppfærsla leiðir til verri orkunýtni. Ekki er heimilt að setja á markað vörur sem hafa aðra hegðun við prófunarskilyrði en almenna notkun.
     Um b-lið.
    Greinin skýrir frá skyldum þeim sem birgðasali hefur varðandi skráningu upplýsinga um nýjar vörutegundir í vörugagnagrunn, áður en þær eru settar á markað. Ef breytingar eru gerðar á vöru sem skipta máli fyrir merkimiða eða upplýsingablað þá telst hún vera ný vörutegund. Þá eru sett fram ákvæði um varðveislu upplýsinga.
     Um c-lið.
    Hér eru lagðar skyldur á herðar seljanda um að sjá til þess að merkimiðar vöru séu sýnilegir á sölustað og veita viðskiptavinum aðgang að upplýsingablaði, sé þess óskað.

Um 5. gr.

    Í greininni er að finna aðrar skyldur birgðasala og seljanda, þar sem komið er í veg fyrir villandi eða misvísandi notkun merkinga.

Um 6. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á 14. gr. laganna sem endurspegli það að tilskipun 2010/30/ESB er felld brott með reglugerð (ESB) 2017/1369 ásamt því að vísað er í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019 um upptöku reglugerðar (ESB) 2017/1369 í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.