Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 15  —  15. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um stjórnsýslu jafnréttismála.

Frá forsætisráðherra.



I. KAFLI

Gildissvið og yfirstjórn.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Lög þessi gilda meðal annars um störf Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála.

2. gr.

Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með framkvæmd laga þessara nema annars sé sérstaklega getið.

II. KAFLI

Jafnréttisstofa.

3. gr.

Jafnréttisstofa.

    Jafnréttisstofa er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Hún annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála sem lög þessi taka til, sbr. 1. gr.
    Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn Jafnréttisstofu og ræður starfsfólk hennar.

4. gr.

Hlutverk Jafnréttisstofu.

    Verkefni sem Jafnréttisstofa annast á grundvelli löggjafar um jafnréttismál, sbr. 1. gr., eru meðal annars að:
     a.      hafa eftirlit með framkvæmd laganna,
     b.      sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála,
     c.      veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála,
     d.      koma á framfæri við ráðherra og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir til að stuðla að auknu jafnrétti, t.d. um sértækar aðgerðir á sviði jafnréttismála,
     e.      hvetja til virkar þátttöku á sviði jafnréttismála, meðal annars aukinnar aðkomu karla að kynjajafnréttisstarfi,
     f.      fylgjast með þróun jafnréttismála í samfélaginu, svo sem með upplýsingaöflun og úttektum og hafa frumkvæði að því að gerðar verði skýrslur, kannanir eða rannsóknir á sviði jafnréttismála,
     g.      vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,
     h.      vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á vinnumarkaði. Sérstök áhersla skal lögð á að vinna gegn launamisrétti á grundvelli kyns, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,
     i.      leita sátta í ágreiningsmálum sem Jafnréttisstofu berast og varða ákvæði laganna, ef Jafnréttisstofa telur tilefni til,
     j.      vinna gegn neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu,
     k.      hafa umsjón með umsýslu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar, sbr. 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, annast eftirlit með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu, sbr. 10. gr. sömu laga, og veita jafnlaunastaðfestingu, sbr. 8. gr. sömu laga,
     l.      vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

5. gr.

Upplýsingaöflun og eftirlit.

    Stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum er skylt að veita Jafnréttisstofu hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar á grundvelli löggjafar um jafnréttismál skv. 1. gr.
    Hafi Jafnréttisstofa rökstuddan grun um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn löggjöf um jafnréttismál, sbr. 1. gr., skal hún kanna hvort ástæða sé til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar. Hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum er skylt að láta Jafnréttisstofu í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik. Verði hlutaðeigandi ekki við þessari beiðni Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests getur hún ákveðið að aðilinn skuli greiða dagsektir þar til upplýsingar og gögn hafa verið látin í té, sbr. 6. gr. Óski Jafnréttisstofa þess að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar skal hlutaðeigandi aðila tilkynnt um það skriflega. Ákvæði þetta á þó eingöngu við um mál sem kunna að varða hagsmuni margra og hafa almennt gildi að mati Jafnréttisstofu.
    Að beiðni kæranda skal Jafnréttisstofa fylgja því eftir að fyrirmælum um tilteknar úrbætur í úrskurði kærunefndar jafnréttismála sé framfylgt á viðunandi hátt. Í því skyni getur Jafnréttisstofa beint fyrirmælum til hlutaðeigandi um að grípa til tiltekinna úrbóta til samræmis við úrskurðinn innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum, sbr. 6. gr., þar til farið verður að fyrirmælunum.

6. gr.

Dagsektir.

    Verði aðili ekki við beiðni Jafnréttisstofu um gögn eða upplýsingar eða hlýðir ekki fyrirmælum stofnunarinnar skv. 2. og 3. mgr. 5. gr. laga þessara, eða skv. 3. mgr. 5. gr. eða 1. mgr. 10. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, getur Jafnréttisstofa lagt dagsektir á hlutaðeigandi þar til viðeigandi úrbætur hafa verið gerðar.
    Dagsektir geta numið allt að 50.000 kr. á dag frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt að mati Jafnréttisstofu. Við ákvörðun fjárhæðar dagsektar skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna viðkomandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka, hversu umfangsmikill viðkomandi rekstur er og eðlis og alvarleika máls.
    Jafnréttisstofa leggur dagsektir á aðila með sérstakri ákvörðun. Aðila sem ákvörðun um dagsektir beinist að skal gefinn kostur á að koma að skriflegum andmælum innan hæfilegs frests áður en Jafnréttisstofa tekur ákvörðun um dagsektir. Ákvörðun um dagsektir skal sannanlega tilkynnt þeim sem hún beinist að.
    Ákvörðun um dagsektir skv. 3. mgr. 5. gr. fellur niður sé úrskurður kærunefndar jafnréttismála borinn undir dómstóla.
    Heimilt er að kæra ákvörðun Jafnréttisstofu um dagsektir til ráðherra. Kæra til ráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir, sbr. þó 7. mgr. þessa ákvæðis.
    Ákvarðanir Jafnréttisstofu um dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
    Kæra til ráðherra eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

III. KAFLI

Kærunefnd jafnréttismála.

7. gr.

Skipun.

    Ráðherra skipar samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar þrjá fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn, þar af bæði formann og varaformann. Skulu þeir allir hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði og a.m.k. tveir þeirra, þar á meðal formaður, hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. A.m.k. einn þeirra skal hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Formaður og varaformaður, sem jafnframt er aðalmaður, skulu uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Kærunefnd jafnréttismála er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á.

8. gr.

Hlutverk, málskostnaður, varnaraðild o.fl.

    Kærunefnd jafnréttismála tekur til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í löggjöf um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin. Komist kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að brot hafi átt sér stað er henni heimilt í úrskurði sínum að beina fyrirmælum um tilteknar úrbætur til hlutaðeigandi aðila.
    Kærunefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og sæta úrskurðir hennar ekki kæru til æðra stjórnvalds.
    Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Beri málsaðili úrskurð kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla innan átta vikna frá birtingu úrskurðar frestast réttaráhrif úrskurðarins. Málsaðili hefur heimild til að óska eftir flýtimeðferð fyrir dómstólum. Ef beiðni um flýtimeðferð er synjað skal mál höfðað eins fljótt og unnt er eftir að synjun kemur fram og eigi síðar en innan þrjátíu daga frá synjun dómara. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan þrjátíu daga frá synjun dómara um flýtimeðferð. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem eru til meðferðar hjá henni þar til dómur gengur í málinu.
    Kærunefnd jafnréttismála getur ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefnd jafnréttismála enda sé úrskurður nefndarinnar kæranda í hag.
    Ef úrskurður kærunefndar jafnréttismála er kæranda í hag en gagnaðili vill ekki una honum og höfðar mál til ógildingar honum fyrir dómstólum skal kærunefnd jafnréttismála og kæranda stefnt til varnar. Kærandi skal fá greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og fyrir Hæstarétti.
    Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndar jafnréttismála getur nefndin úrskurðað að kærandi skuli greiða gagnaðila málskostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins. Aðför má gera án undangengins dóms til fullnustu kröfu um málskostnað.
    Kostnaður við starfsemi kærunefndar jafnréttismála greiðist úr ríkissjóði.

9. gr.

Aðild, kærufrestur og málsmeðferð.

    Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem telja að ákvæði löggjafar um jafnréttismál, sbr. 1. gr., hafi verið brotin gagnvart sér geta í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna, eftir því sem við á, leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála.
    Jafnréttisstofa getur óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 5. gr.
    Erindi skulu berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot lá fyrir, sbr. 1. gr., frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefnd jafnréttismála getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.
    Kærunefnd jafnréttismála getur að höfðu samráði við kæranda sent mál til sáttameðferðar hjá Jafnréttisstofu.
    Kærunefnd jafnréttismála skal kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að gagnaöflun er lokið.
    Málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund telji nefndin ástæðu til. Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá kærunefnd jafnréttismála samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og nánari reglum sem ráðherra er heimilt að setja að fenginni umsögn kærunefndar jafnréttismála.

10. gr.

Upplýsingaöflun.

    Kærunefnd jafnréttismála skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en kærunefndin kveður upp úrskurð enda telji hún að hvorki afstaða hans né rök fyrir henni liggi fyrir í gögnum málsins.
    Kærunefnd jafnréttismála getur, að kröfu gagnaðila, krafið aðila um gögn sem hún telur að geti haft áhrif á úrlausn máls.
    Kærunefnd jafnréttismála getur krafist frekari gagna frá málsaðilum telji hún málið ekki nægjanlega upplýst.
    Ef lögð eru fyrir kærunefnd jafnréttismála gögn sem varða laun, önnur starfskjör eða réttindi einstaklinga sem ekki eiga aðild að viðkomandi kærumáli skal kærunefnd jafnréttismála tilkynna hlutaðeigandi að þessar upplýsingar hafi verið veittar henni. Fara skal með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.
    Ef kærunefnd jafnréttismála hefur til umfjöllunar mál sem varðar ráðningu, setningu eða skipun í starf getur hún aflað frekari upplýsinga um málið frá þeim einstaklingi sem hlaut starfið, telji hún ástæðu til, í því skyni að upplýsa málið nægjanlega í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
    Þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal kærunefnd jafnréttismála leita umsagnar frá heildarsamtökum launafólks og atvinnurekenda áður en úrskurður er kveðinn upp.

11. gr.

Birting úrskurða. Ársskýrsla.

    Kærunefnd jafnréttismála skal birta úrskurði sína með aðgengilegum og skipulegum hætti að jafnaði tveimur vikum eftir uppkvaðningu. Hvorki nafn kæranda né annarra einstaklinga er tilgreint í opinberri birtingu úrskurða. Þá skal jafnframt fella út persónulegar upplýsingar, svo sem um launakjör og þess háttar. Nafn kærða skal að jafnaði birt í úrskurði.
    Nefndin skal árlega skila ráðherra skýrslu um störf sín sem birtir hana með aðgengilegum hætti. Í skýrslunni skulu koma fram helstu niðurstöður og ályktanir sem draga má af úrskurðum nefndarinnar.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

12. gr.

Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála.

    Ráðherra skal gefa út skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála einu sinni á kjörtímabili. Í skýrslu ráðherra skal meðal annars koma fram mat á stöðu og árangri verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum, sbr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, auk umfjöllunar um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins. Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála skal fylgja með tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum.

13. gr.

Áætlanir sveitarfélaga um jafnréttismál.

    Sveitarstjórnir skulu að afloknum sveitarstjórnarkosningum sjá til þess að innan hvers sveitarfélags verði gerð áætlun fyrir nýtt kjörtímabil um markmið og aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, þar sem meðal annars komi fram hvernig unnið skuli að kynja- og jafnréttissjónarmiðum á öllum sviðum. Áætlun skal taka til markmiða og aðgerða til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu sveitarfélagsins og starfsmannamálum. Hún skal lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar, framvinda hennar rædd árlega í sveitarstjórn eftir það og hún endurskoðuð eftir þörfum.
    Sveitarstjórn skal fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál sveitarfélagsins og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar.
    Sveitarstjórn er ekki jafnframt skylt að gera jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína skv. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
    Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis og veitir sveitarfélögum stuðning við framkvæmd þess.

14. gr.

Jafnréttisráðgjafar.

    Ráðherra er heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa sem vinnur tímabundið að jafnréttismálum á tilteknu sviði og/eða á tilteknu landsvæði.

15. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, svo sem um starfsemi og skipulag Jafnréttisstofu, þar á meðal um beitingu dagsekta sem Jafnréttisstofa ákveður, sbr. 6. gr., og um störf kærunefndar jafnréttismála og skrifstofuhald, þ.m.t. um erindi til nefndarinnar, starfshætti, málsmeðferð og birtingu úrskurða.

16. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

17. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018:
                  a.      Eftirfarandi breyting verður á 3. tölul. 3. gr. laganna: Í stað orðsins ,,kemur“ kemur: kæmi; og í stað orðsins „eru“ kemur: séu.
                  b.      4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Stjórnsýsla.

                      Um framkvæmd laga þessara, meðal annars um yfirstjórn, hlutverk Jafnréttisstofu við framkvæmd og eftirlit laganna, þ.m.t. heimild hennar til að beita dagsektum, og um kærunefnd jafnréttismála, þ.m.t. ákvæði um kæruheimild og um málsmeðferð fyrir kærunefndinni, fer samkvæmt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála.
                  c.      5. og 6. gr. laganna falla brott.
                  d.      17. gr. laganna orðast svo:
                      Brot gegn 7.–11. gr. og 13.–14. gr. laga þessara eða reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     2.      Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018:
                  a.      4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Stjórnsýsla.

                      Um framkvæmd laga þessara, meðal annars um yfirstjórn, hlutverk Jafnréttisstofu við framkvæmd og eftirlit laganna, þ.m.t. heimild til að beita dagsektum, og um kærunefnd jafnréttismála, þ.m.t. ákvæði um kæruheimild og um málsmeðferð fyrir kærunefndinni, fer samkvæmt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála.
                  b.      5. gr. og 6. gr. laganna falla brott.
                  c.      17. gr. laganna verður svohljóðandi:
                      Brot gegn 7.–10. gr. og 13.–14. gr. laga þessara eða reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara fellur niður umboð skipaðra fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála og skal ráðherra skipa, samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, þrjá fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála, sbr. 7. gr., sem taka við verkefnum fráfarandi nefndar.
    Þrátt fyrir 1. málsl. 7. gr. skal ráðherra, í fyrsta skipti sem nefndin er skipuð samkvæmt lögum þessum, skipa tvo fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára, aðra en formann og varaformann, en formann skal ráðherra skipa til fjögurra ára og varaformann til tveggja ára. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í ljósi aukins vægis jafnréttismála almennt, áherslu ríkisstjórnarinnar á málaflokkinn, ákvæða jafnréttislaga um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og áætlanagerð Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins og þess hversu víða jafnréttismálin teygja anga sína var málaflokkurinn jafnréttismál fluttur frá velferðarráðuneytinu til forsætisráðuneytisins á sérstaka skrifstofu jafnréttismála, sbr. forsetaúrskurð nr. 199/2018, um skiptingu stjórnarmálefna ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands, í ársbyrjun 2019.
    Skrifstofan hefur umsjón með stefnumótun í jafnréttismálum og er henni ætlað að gegna miðlægu hlutverki við að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Er þessi tilhögun í samræmi við meginhlutverk forsætisráðuneytisins sem er að sinna forystu og samhæfa vinnu ráðuneyta undir yfirstjórn forsætisráðherra. Samkvæmt framangreindum forsetaúrskurði falla jafnréttismál, þ.m.t. jöfn staða og jafn réttur kynjanna, jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, jöfn meðferð á vinnumarkaði, kynrænt sjálfræði, Jafnréttisstofa, kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttissjóður Íslands undir skrifstofu jafnréttismála. Með stofnun skrifstofunnar er markmiðið að auka sýnileika málaflokksins, samhæfingu verkefna og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku innan Stjórnarráðs Íslands. Er það í samræmi við aukna áherslu bæði hérlendis, sbr. framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum, og á alþjóðavettvangi á samþættingu sem aðferðafræði til að ná markmiðum um aukið jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.
    Forsætisráðherra ákvað árið 2019 að hefja vinnu við frumvarp til nýrra jafnréttislaga og skipaði stýrihóp í ágúst 2019 sem skyldi hafa umsjón með vinnu við frumvarp til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Stýrihópurinn var skipaður skrifstofustjóra skrifstofu jafnréttismála, lögfræðingi á skrifstofu jafnréttismála, ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og lögfræðingi hjá Jafnréttisstofu. Frumvarp þetta var samið í forsætisráðuneytinu í víðtæku samráði við aðila á vinnumarkaði og hagsmunasamtök eins og greint er frá í fimmta kafla greinargerðar. Frumvarpið lýtur að skipulagi á þeirri stjórnsýslu sem lögð er til að gildi um jafnréttismál á því sviði sem frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. frumvarp sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Tillögurnar ná meðal annars til starfa Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála.
    Með framangreindu frumvarpi er lagt til að sett verði ný heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Verði það samþykkt falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Umfjöllunarefni frumvarps þessa er sambærilegt og í II. kafla gildandi laga sem ber yfirskriftina „stjórnsýsla“. Þegar vísað er til gildandi laga í frumvarpi þessu er vísað til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með tilkomu laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, var Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála falið það hlutverk að fara með jafnréttismál í víðari skilningi en áður hafði tíðkast hér á landi. Þannig bar Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála í störfum sínum að fjalla um jafnrétti kynjanna og jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, innan sem utan vinnumarkaðar, sem og meginregluna um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Jafnframt var ráðherra jafnréttismála falin yfirstjórn á sviði jafnréttismála þar sem átt var við meginregluna um jafna meðferð í víðari skilningi, sbr. framangreinda upptalningu.
    Ekki eru lagðar til breytingar á framangreindu fyrirkomulagi í frumvarpi þessu. Hins vegar er lögð til sú breyting að fjallað verði um skipulag stjórnsýslu jafnréttismála í einum lögum en ekki aðallega í lögum um jafnrétti kynjanna líkt og nú er gert. Þykir það eðlilegt framhald af fyrrgreindum breytingum, meðal annars í því skyni að tryggja heildaryfirsýn, auka skýrleika og gera framkvæmd laganna skilvirkari. Vonast er til að þessi tillaga auki möguleika til að taka á fjölþættri mismunun, sbr. 3. tölul. 2. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu. Með sérstökum lögum um stjórnsýslu jafnréttismála fæst jafnframt skýrari rammi og umgjörð um Jafnréttisstofu og stjórnsýslu jafnréttismála almennt.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Tvö frumvörp forsætisráðherra lögð fram samhliða.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Verði það samþykkt falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Umfjöllunarefni frumvarps þessa um stjórnsýslu jafnréttismála, er sambærilegt og í II. kafla gildandi laga sem ber yfirskriftina stjórnsýsla. Lagt er til að frumvarp þetta gildi um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. frumvarp sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Tillögurnar ná meðal annars til starfa Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála.
    Með hugtakinu jafnréttismál í frumvarpi þessu er átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.
    Meginmarkmið er að gera stjórnsýslu jafnréttismála skýrari og öflugri. Lagt er til að fjallað verði um stjórnsýslu jafnréttismála í sérstökum lögum í stað þess að einungis sé fjallað um stjórnsýslu jafnréttismála í lögum sem varða jafna meðferð á grundvelli kyns. Þannig er gerð grein fyrir hlutverki Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála við framkvæmd lagabálkanna þriggja með skýrari og markvissari hætti. Skýrar kemur fram að þær mismununarbreytur sem lögin fjalla um skipta allar jafn miklu máli og vonast er til að þessi tillaga auki möguleika til að taka á fjölþættri mismunun, sbr. 3. tölul. 2. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jöfn meðferð í víðum skilningi njóti þannig betri verndar auk þess sem víðtækari sérþekking á þessu sviði skapast.

3.2. Jafnréttisstofa.
    Eins og verið hefur er gert ráð fyrir að ráðherra jafnréttismála fari með yfirstjórn laga þessara nema annars sé sérstaklega getið og að Jafnréttisstofa verði áfram sérstök stofnun sem heyri undir yfirstjórn ráðherra jafnréttismála og annast stjórnsýslu á því sviði sem frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að ákvæðum um Jafnréttisstofu verði skipt niður í fleiri ákvæði með fyrirsögnum til skýringar.
    Gerð er grein fyrir hlutverki Jafnréttisstofu við framkvæmd lagabálkanna þriggja um jafna meðferð með skýrari hætti en í gildandi lögum. Þannig kemur fram að verkefni stofnunarinnar lúti ekki aðeins að jafnrétti kynjanna heldur einnig að jafnri meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Þessu til samræmis hafa nokkrir liðir þar sem talin eru upp verkefni Jafnréttisstofu í gildandi lögum verið endurorðaðir og samræmdir.
    Eftirlitsþáttur Jafnréttisstofu við framkvæmd laganna hefur verið gerður skýrari með tillögum í frumvarpinu, meðal annars með álagningu dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum, sbr. skýringar við 6. gr. Jafnréttisstofu voru veittar heimildir til álagningar dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum með gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og var svo aukið við þá heimild með lögum nr. 56/2017, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 (jafnlaunavottun). Því er fjallað um dagsektir á fleiri en einum stað í gildandi lögum eftir því hvernig brot er um að ræða hverju sinni og er það til þess fallið að valda misskilningi. Því er lagt til að framangreindar málsgreinar verði að sérákvæði og fái fyrirsögnina Dagsektir.
    Lagt er til í frumvarpi til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna að hlutverk Jafnréttisstofu í tengslum við jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu verði aukið og gert skýrara, sbr. 7.–10. gr. þess frumvarps.

3.3. Kærunefnd jafnréttismála.
    Gert er ráð fyrir að þeim sem telja á sér brotið á grundvelli ákvæða í frumvarpi til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, verði áfram gert kleift að kæra ætluð brot til sjálfstæðrar kærunefndar. Í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála úrskurðar ekki lengur aðeins um mismunun á grundvelli kyns þykir rétt að auka við kröfur um sérþekkingu innan kærunefndarinnar á jafnréttismálum. Því er lagt til í frumvarpi þessu að a.m.k. tveir nefndarmenn, þar á meðal formaður, skuli hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. Einnig er lagt til að einn þeirra skuli hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Enn fremur er lagt til að fulltrúar kærunefndarinnar verði ekki skipaðir til sama tíma. Með því verði tryggt eins vel og unnt er að ávallt verði til staðar tiltekin þekking hjá skipuðum fulltrúum í kærunefndinni þrátt fyrir að skipt verði um fulltrúa.
    Við gildistöku laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, urðu úrskurðir kærunefndar jafnréttismála bindandi fyrir málsaðila í stað álita áður. Með þeirri tilhögun var leitast við að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi en áður var og framkvæmd þessara mála færð nær því sem tíðkaðist hjá öðrum norrænum ríkjum. Með gildandi lögum kom jafnframt ákvæði um að nefndin geti ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar með nánar tilteknum skilyrðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. gildandi laga. Í frumvarpi þessu er hins vegar lögð til breyting í þessum efnum. Í stað þess að kærunefnd jafnréttismála úrskurði, að kröfu málsaðila, um frestun réttaráhrifa úrskurðar þá er nú gert ráð fyrir að réttaráhrif frestist ef málsaðili ber úrskurð kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla innan átta vikna frá birtingu.
    Lagt er til í frumvarpi þessu það nýmæli að kærunefnd jafnréttismála verði veitt skýr heimild til að beina þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera tilteknar ráðstafanir til að bæta úr þegar það á við. Úrskurðirnir feli áfram í sér bindandi niðurstöðu fyrir málsaðila um hvort þau lög sem heyra undir kærunefndina hafi verið brotin en lagt er til að bætt verði við með skýrum hætti að þegar við á geti kærunefndin beint þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr þannig að hinn brotlegi geti ekki mætt úrskurði með algeru athafnaleysi. Þannig verður Jafnréttisstofu jafnframt gert betur kleift að framfylgja því hlutverki sínu skv. 3. mgr. 5. gr. að fylgja úrskurðum kærunefndarinnar eftir að viðlögðum dagsektum skv. 6. gr.
    Í gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um að kærunefnd jafnréttismála skuli kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að henni berst mál í hendur. Í frumvarpi þessu er hins vegar lögð til sú breyting að kærunefndin skuli kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að gagnaöflun er lokið. Ástæðan fyrir breytingartillögu þessari er sú að hinn fortakslausi frestur sem tekur ekki mið af því að gagnaöflun kunni að eiga sér stað af hálfu kærunefndarinnar hefur reynst óraunhæfur af ástæðum sem hafa lítið með vinnuafköst kærunefndarinnar að gera. Fresturinn eins og hann er orðaður samkvæmt gildandi lögum þykir ekki taka mið af því að gagnaöflun kunni að eiga sér stað af hálfu kærunefndarinnar auk þess sem kærunefndin veitir stundum málsaðilum aukna fresti til gagnaöflunar eða skila á frekari sjónarmiðum. Eðlilegra þykir að frestur kærunefndarinnar til að kveða upp úrskurð miðist við þann tímapunkt þegar aðilar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri og allri gagnaöflun er lokið. Jafnframt er lagt til að frestur kærunefndarinnar til að kveða upp úrskurð styttist þá úr þremur mánuðum í tvo mánuði frá þeim tímapunkti.
    Áfram er gert ráð fyrir því að hafi úrskurður kærunefndar jafnréttismála verið kæranda í hag en gagnaðili ekki viljað una honum og höfði mál til ógildingar úrskurðinum fyrir dómstólum fái kærandi greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og fyrir Hæstarétti eftir því sem við á. Lagt er til það nýmæli að við slíka málssókn skuli kærunefnd jafnréttismála jafnframt stefnt til varnar í málinu. Rétt er að kærunefnd jafnréttismála standi skil gerða sinna fyrir dómi. Enginn þekkir betur á hvaða grunni úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf og því er rétt að hún sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því af hverju úrskurðurinn sé löglegur og réttur en ekki kærandi einn eins og núverandi skipan mála er hagað, sjá hér t.d. dóm Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli nr. 364/2014. Þessi skipan er til þess fallin að fæla einstaklinga frá því að bera mál sín undir kærunefnd jafnréttismála. Rétt er að taka fram að eftir sem áður hefur kærandi í slíkum dómsmálum kost á að koma að öllum viðhorfum sínum varðandi málið þar sem hann telst einnig til varnaraðila málsins.
    Einnig er lagt til það nýmæli að ef kærunefnd jafnréttismála hefur til umfjöllunar mál sem varðar ráðningu, setningu eða skipun í starf getur hún aflað frekari upplýsinga um málið frá þeim einstaklingi sem hlaut starfið, telji hún ástæðu til, í því skyni að upplýsa málið nægjanlega í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
    Í frumvarpinu er kveðið á um skyldu kærunefndar jafnréttismála til að birta úrskurði sína og er það í samræmi við gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en lagt er til það nýmæli að bætt verði við ákvæði þar sem kveðið er á um skyldu nefndarinnar til að skila ráðherra skýrslu um störf sín, helstu niðurstöður og leiðbeinandi reglur sem leiða má af úrskurðum nefndarinnar. Slíkt ákvæði þykir til þess fallið að auka gagnsæi og auðvelda fólki að fylgjast með framkvæmd og túlkun þeirra laga sem heyra undir kærunefnd jafnréttismála.

3.4. Annað.
    Áfram er gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála en sú breyting er lögð til að ráðherra skuli gera það einu sinni á kjörtímabili en ekki á jafnréttisþingi líkt og kveðið er á um í gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en jafnréttisþingið er haldið á tveggja ára fresti. Með lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, var ráðherra gert skylt að birta ár hvert ársskýrslu um síðasta fjárhagsár þar sem gera skal grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka ráðherra, þar á meðal jafnréttismála. Segja má að þessar ársskýrslur komi að nokkru leyti í stað skýrslunnar sem lögð er fram á jafnréttisþingi samkvæmt gildandi lögum en þó er lögð til sú skylda að einu sinni á kjörtímabili skuli ráðherra gefa út skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála þar sem meðal annars komi fram mat á stöðu og árangri verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum.
    Lögð er til sú breyting að jafnréttisáætlun hjá sveitarfélögum sem tekur til jafnréttis kynjanna eingöngu verði nú áætlun um að gæta þurfi að fleiri mismununarástæðum en kyni í áætlun sveitarfélagsins, þ.e. einnig kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Ekki er lengur gert ráð fyrir skipan sérstakra jafnréttisnefnda sveitarfélaga heldur þess í stað að sveitastjórn skuli fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál innan sveitarfélagsins og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar.
    Ráðherra sem fer með jafnréttismál er áfram heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa sem vinnur tímabundið að jafnréttismálum á tilteknu sviði og/eða á tilteknu landsvæði.
    Að lokum eru lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, í því skyni að tryggja samræmi milli þeirra laga og frumvarps þessa sem og til samræmis við frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Enn fremur eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem þykja nauðsynlegar til samræmis við lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, og til samræmis við framangreint frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Að mati ráðuneytisins er efni frumvarps þessa í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins en 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Í 2. mgr. segir að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.
    Sem dæmi má nefna að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/54/EB um framkvæmd meginreglunnar um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar atvinnu og störf sem innleidd hefur verið með gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, gerir kröfu um að aðildarríkin tryggi að allir þeir sem telja sig rangindum beitta vegna þess að meginreglunni um jafna meðferð hafi ekki verið fylgt í þeirra tilviki eigi kost á dóms- og stjórnsýslumeðferð til að tryggja að skyldum samkvæmt tilskipununum sé framfylgt. Sama krafa kemur fram í tilskipun ráðsins 2000/43/EB frá 29. júní 2000 um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis, að því er varðar réttindi og skyldur á vinnumarkaði, en lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2918, endurspegla efni þeirrar tilskipunar. Enn fremur er þessi krafa til staðar í tilskipun ráðsins 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi en lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, endurspegla efni þeirrar tilskipunar.

5. Samráð.
    Áform um heildarendurskoðun jafnréttislaga voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í lok júní 2019. Þar gafst almenningi kostur á að senda inn athugasemdir við áformin. Sex umsagnir bárust og var tillit tekið til athugasemda eftir því sem tilefni var til. Þannig var öllum þeim aðilum sem óskuðu eftir því að eiga sæti í starfshópunum fjórum sem tillaga var gerð um í verkefnisáætluninni, þó að ekki hefði verið gert ráð fyrir þeim í verkefnisáætlun, boðin þátttaka.
    Sérstakur vinnufundur sem stýrihópur forsætisráðherra stóð fyrir var haldinn í Hannesarholti 26. september 2019 undir yfirskriftinni Mótum framtíðina saman. Þar var fulltrúum stjórnvalda, samtaka aðila á vinnumarkaði og hagsmunasamtaka, sem láta sig jafnréttismál varða, gefinn kostur á að taka þátt og ræða framtíðina í jafnréttismálum í tengslum við heildarendurskoðun jafnréttislaga og markaði fundurinn upphaf samráðsvinnunnar við frumvarp þetta. Yfir 50 aðilar sóttu fundinn.
    Forsætisráðherra skipaði fjóra starfshópa (undirhópa við stýrihóp) í október 2019 í tengslum við endurskoðun laganna. Hver starfshópur fjallar um afmörkuð viðfangsefni laganna:

    Starfshópur I:     Launajafnrétti og vinnumarkaður.
    Starfshópur II:     Kærunefnd og viðurlagaákvæði jafnréttislaga.
    Starfshópur III:     Stjórnsýsla jafnréttismála o.fl.
    Starfshópur IV:     Bann við mismunun á grundvelli kyns.

    Í starfshópunum áttu sæti fulltrúar frá Jafnréttisstofu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, BSRB, Vinnumálastofnun, Alþýðusambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, kjara- og mannauðssýslu ríkisins, félagsmálaráðuneyti, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Bandalagi háskólamanna, dómsmálaráðuneyti, Jafnréttisráði, jafnréttisfulltrúum Stjórnarráðsins, jafnréttisfulltrúum samráðsvettvangs háskólanna, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Frumvarpið var jafnframt kynnt og rætt í ráðherranefnd um jafnréttismál.
    Stýrihópur um heildarendurskoðun laganna og starfshóparnir fjórir hafa haft til hliðsjónar við vinnu sína skýrslu starfshóps velferðarráðherra um úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar jafnréttislöggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála en sá starfshópur var fyrst skipaður í október 2017 og endurskipaður í mars 2018. Starfshópurinn skilaði forsætisráðherra skýrslu í júlí 2019 þar sem farið var yfir þróun íslenskrar jafnréttislöggjafar frá fyrstu jafnréttislögunum og dregin saman þau atriði sem talin voru þarfnast sérstakrar skoðunar. Þá eru í skýrslunni viðaukar með greinargerð um fyrsta kafla laga nr. 10/2008 sem lúta að umfjöllun og tillögum til úrbóta til að bæta virkni og framkvæmd laganna, auk samantektar á jafnréttislöggjöf annarra Norðurlanda.
    Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-127/2020) 3. júlí 2020 og var umsagnarfrestur til 8. ágúst 2020. Fjórtán umsagnir bárust á þeim tíma, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannauði – félagi mannauðsfólks á Íslandi, Landssamtökunum Þroskahjálp, Reykjavíkurborg, kærunefnd jafnréttismála, Kvenréttindafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, samráðsvettvangi jafnréttisfulltrúa háskólanna, Alþýðusambandi Íslands, BSRB og þremur einstaklingum. Í flestum tilvikum er fyrirhugaðri lagasetningu fagnað þó svo að umsagnaraðila hafi greint á um einstaka atriði. Tekið var tillit til athugasemda eftir því sem tilefni var til, meðal annars er tekið undir það sjónarmið í greinargerð sem fram kom í nokkrum umsögnum að þekking á vinnurétti og mannauðsmálum væri æskileg innan kærunefndar jafnréttismála þar sem flest erindi sem kærunefndin hefur tekið til meðferðar varða ráðningar, laun eða önnur kjör, sbr. umfjöllun í skýringum með 7. gr.
    Einnig vöktu nokkrir umsagnaraðilar athygli á mikilvægi þess að Jafnréttisstofu yrði tryggð nægjanleg fjármögnun en í frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að fjölga þurfi um eitt stöðugildi hjá Jafnréttisstofu vegna þessara nýju verkefna, sbr. kafla 6 í greinargerð með því frumvarpi.
    Þá ritaði umboðsmaður Alþingis, í tilefni af endurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, bréf til forsætisráðherra, dags. 8. júlí 2020, þar sem vakin er athygli forsætisráðherra á áliti setts umboðsmanns frá árinu 2013 í máli nr. 6395/2011 og þeim tilmælum og ábendingum sem settur umboðsmaður beindi til kærunefndar jafnréttismála og Alþingis í því máli. Athugasemdirnar varða tiltekin atriði í þeirri aðferðafræði og matsgrundvelli sem kærunefndin hefur beitt og þá með tilliti til þeirra lagareglna sem reynir á í starfi nefndarinnar, einkum sönnunarreglu 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og reglna stjórnsýsluréttarins. Kærunefnd jafnréttismála brást við bréfi umboðsmanns með bókun sem komið var á framfæri við forsætisráðherra 7. ágúst 2020 í tilefni af endurskoðun laga nr. 10/2008 samhliða umsögn kærunefndarinnar í samráðsgátt stjórnvalda um frumvarp þetta. Í ljósi framangreinds og til að eyða óvissu sem kann að ríkja um túlkun 26. gr. gildandi laga, sbr. 19. gr. frumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu, og þar með hugsanlega að valda óvissu hjá ráðningarvaldshöfum og umsækjendum sem kunna að vera ósáttir við niðurstöðu ráðningarmáls, þykir rétt að bregðast við framangreindum athugasemdum í skýringum við 19. gr. frumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Athugasemdir framangreindra aðila lúta jafnframt að stöðu þess sem ráðinn hefur verið í það starf sem kæra til kærunefndar jafnréttismála fjallar um og þá með tilliti til þátttöku hans í málsmeðferð fyrir nefndinni. Við þeim athugasemdum er brugðist með nýrri málsgrein í 10. gr. frumvarps þessa um upplýsingaöflun kærunefndar jafnréttismála, sbr. skýringar við 10. gr.

6. Mat á áhrifum.
    Með sérlögum um stjórnsýslu jafnréttismála líkt og frumvarp þetta gerir ráð fyrir er ætlunin að stuðla að öflugri stjórnsýslu málaflokksins og byggja upp enn víðtækari þekkingu á sviði jafnréttismála innan stjórnsýslunnar. Þess er vænst að það leiði til aukinnar réttarverndar fyrir fólk sem telur sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, skertrar starfsgetu, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar og þar með aukins jafnréttis í samfélaginu.
    Mögulegt er að málum fjölgi fyrir kærunefnd jafnréttismála og að dómsmálum fjölgi verði frumvarpið lögfest vegna nýs ákvæðis um fjölþætta mismunun, sbr. 16. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu. Ekki er þó hægt að áætla slíkt fyrir fram né hvort það hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er ekki ástæða til að ætla að það hafi teljandi bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram það sem leiðir af framkvæmd gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Frumvarp þetta fjallar um stjórnsýslu jafnréttismála, meðal annars um störf Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Með orðinu jafnréttismál í frumvarpi þessu er átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu. Er því lagt til að fjallað verði um stjórnsýslu jafnréttislaga í einum og sömu lögunum í stað þess að einungis sé fjallað um stjórnsýslu jafnréttismála í lögum sem varða jafna meðferð á grundvelli kyns, sbr. II. kafla laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og aðeins vísað í þann kafla, eftir því sem við getur átt, í öðrum lögum um jafna meðferð, sbr. 4.–6. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og 4.–6. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018. Með því að hafa sérlög um stjórnsýslu jafnréttismála sem fjallar jafnt um alla þrjá lagabálkana um jafna meðferð er gerð skýrari grein fyrir hlutverki Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála við framkvæmd lagabálkanna þriggja.
    Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að efla stjórnsýslu jafnréttismála og stuðla þannig enn frekar að jafnri meðferð í víðum skilningi auk þess sem víðtækari sérþekking á þessu sviði skapast. Vonast er enn fremur til að þessi tillaga auki möguleika til að takast á við fjölþætta mismunun, sbr. skýringar við 16. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, en sem dæmi um slík tilvik mætti nefna ætlað brot gegn fatlaðri konu af tilteknum kynþætti.
    Með þessu fæst einnig skýrari rammi og umgjörð um störf Jafnréttisstofu með ótvíræðum og ákveðnum valdheimildum og þeim stjórnsýsluverkefnum sem stofnunin skal sinna samkvæmt framangreindum þremur lagabálkum.

Um 2. gr.

    Eins og verið hefur er gert ráð fyrir að ráðherra jafnréttismála fari með framkvæmd laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, nema annars sé sérstaklega getið og að Jafnréttisstofa, sem er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra, annist stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.

Um 3. gr.

    Áfram er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa verði sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra jafnréttismála og annast stjórnsýslu á því sviði sem efni frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, taka til. Gerð er grein fyrir hlutverki Jafnréttisstofu við framkvæmd lagabálkanna þriggja með skýrari hætti en í gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 5. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og 5. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, sbr. skýringar við 1. gr.
    Jafnframt er áfram gert ráð fyrir að ráðherra jafnréttismála skipi framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn Jafnréttisstofu og ræður starfsfólk hennar.

Um 4. gr.

    A–j- og l-liður eru efnislega samhljóða a–m-lið 3. mgr. 4. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en lagt er til að nokkrir stafliðir verði samræmdir og endurorðaðir til frekari skýringar. Þannig er Jafnréttisstofu áfram ætlað að annast eftirlit með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, þar á meðal með álagningu dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum, sbr. skýringar við 5. og 6. gr. Einnig er Jafnréttisstofu áfram ætlað að veita ýmsum aðilum ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála, meðal annars stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum, félagasamtökum, einstaklingum og jafnréttisfulltrúum Stjórnarráðsins, meðal annars með því að leita sátta í ágreiningsmálum, sem Jafnréttisstofu berast og varða ákvæði laganna, ef Jafnréttisstofu finnst tilefni til.
    Áfram er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa skuli koma á framfæri við ráðherra og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir til að stuðla að auknu jafnrétti, til dæmis koma með tillögur að sértækum aðgerðum á sviði jafnréttismála. Er þessu hlutverki Jafnréttisstofu ætlað að stuðla að því að unnið verði markvisst að jafnri meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu innan íslenskrar stjórnsýslu, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum. Ekki er síður mikilvægt í þessu sambandi að auka virkni á sviði jafnréttismála þannig að sem flestir taki þátt í að móta samfélagið með það að markmiði að jafnri stöðu einstaklinga verði náð. Til að ná því markmiði verður að telja mikilvægt að Jafnréttisstofa stuðli í störfum sínum að virku samráði við samtök aðila á vinnumarkaði og frjáls félagasamtök um hvernig tryggja megi framgang jafnrar meðferðar á sem skilvirkastan hátt. Þá er þýðingarmikið að beina sjónum sérstaklega að þátttöku karla í umræðunni um jafnrétti kynjanna þar sem konur hafa alla tíð verið virkari en karlar í jafnréttisumræðu.
    Verkefni Jafnréttisstofu verður áfram að annast fræðslu og upplýsingastarfsemi og fylgjast með þróun á sviði jafnréttismála í víðari skilningi í samfélaginu. Einnig verður lögð áhersla á mikilvægi þess að stofnunin hafi frumkvæði að því að gerðar verði skýrslur og/eða kannanir á sviði jafnréttismála og þá ekki síst á sviði jafnrar meðferðar á vinnumarkaði óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa vinni að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega, sbr. frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og vinni gegn launamisrétti og annarri mismunun á sviði jafnréttismála sem hefur viðgengist í samfélaginu og þá einkum á vinnumarkaði. Er hér vísað til launamisréttis og annarrar mismununar á vinnumarkaði á grundvelli kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar og kynvitundar. Sérstök áhersla er þó lögð á að vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á vinnumarkaði á grundvelli kyns. Þar sem ennþá mælist kynbundinn launamunur konum í óhag er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna hvað launamun varðar. Að auki er það hlutverk Jafnréttisstofu að vinna gegn neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.
    Eins og fyrr segir er Jafnréttisstofu áfram ætlað að annast eftirlit með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna en rétt er að geta þess sérstaklega að eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu var aukið með lögum nr. 56/2017, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 (jafnlaunavottun). Því er lagt til að nýjum staflið verði bætt við ákvæðið þar sem þess er sérstaklega getið að eitt af verkefnum Jafnréttisstofu skuli vera að hafa umsjón með umsýslu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar, sbr. 9. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Einnig að annast eftirlit með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu, sbr. 10. gr. þess frumvarps, og enn fremur að veita jafnlaunastaðfestingu, sbr. 8. gr. þess frumvarps.
    Í ákvæði þessu eru ekki tæmandi talin þau verkefni sem stofnuninni er ætlað að annast heldur einungis nefnd dæmi um slík verkefni. Þannig er jafnframt gert ráð fyrir að ráðherra geti falið stofnuninni önnur verkefni en nefnd eru í stafliðum ákvæðisins enda séu þau í samræmi við markmið þeirra laga sem stofnuninni er ætlað að vinna að.

Um 5. gr.

    Ákvæðið er að mestu leyti efnislega samhljóða 4.–6. mgr. 4. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lagt er til að framangreindar málsgreinar verði að sérákvæði og fái fyrirsögnina upplýsingaöflun og eftirlit. Þetta er lagt til sem liður í því að skipta ákvæðum um Jafnréttisstofu niður í fleiri ákvæði með fyrirsögnum til skýringar.
    Gert er áfram ráð fyrir að stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum sé skylt að veita Jafnréttisstofu hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. frumvarp það sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Verði hlutaðeigandi ekki við beiðni Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests getur hún ákveðið að aðilinn greiði dagsektir, sbr. 6. gr., þar til upplýsingar og gögn hafa verið látin í té í tilteknum tilvikum.
    Rétt er að taka fram í þessu samband að skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er starfsfólki Jafnréttisstofu óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga eða gagna en nauðsynleg eru eða kunna að vera nauðsynleg til að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Enn fremur er þeim óheimilt að veita eða afhenda gögn öðrum en aðilum máls og kærunefnd jafnréttismála sem aflað er í þágu eftirlitsins eða þau verða áskynja vegna starfa sinna.
    Með gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var eftirlit með framkvæmd laganna gert skýrara en verið hafði og voru Jafnréttisstofu meðal annars veittar heimildir til álagningar dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum þegar ekki er farið að fyrirmælum hennar, meðal annars þegar stofan hefur rökstuddan grun um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn ákvæðum laganna. Þá getur Jafnréttisstofa kallað eftir upplýsingum eða gögnum frá hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum og er þeim þá skylt að afhenda umbeðnar upplýsingar eða gögn innan hæfilegs frests. Verði hlutaðeigandi ekki við beiðni Jafnréttisstofu um að veita upplýsingar og afhenda gögn innan hæfilegs frests er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa geti lagt dagsektir á viðkomandi. Er bæði átt við að veita upplýsingar og afhenda gögn en það kann að vera nauðsynlegt fyrir rannsókn mála að Jafnréttisstofa fái í hendur frumgögn eða ljósrit af þeim. Tilgangur þessarar heimildar til upplýsinga- og gagnaöflunar er að gera Jafnréttisstofu kleift að meta hvort sá grunur sem hún hefur fengið um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn ákvæðum frumvarpsins eigi við frekari rök að styðjast þannig að ástæða sé til að mati stofunnar að óska eftir því við kærunefnd Jafnréttismála að nefndin taki málið til meðferðar. Ekki er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa beiti þessum eftirlitsheimildum þegar ágreiningsmál eru borin undir hana í því skyni að hún leiti sátta milli aðila, sbr. i-lið 4. gr. Hið sama gildir um mál sem þegar eru til meðferðar hjá kærunefnd jafnréttismála.
    Áfram er gert ráð fyrir að sé það mat Jafnréttisstofu að umræddar upplýsingar og gögn renni frekari stoðum undir að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna skuli hún óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar og jafnframt að tilkynna hlutaðeigandi aðila um þá ákvörðun sína. Hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum er þá skylt að afhenda Jafnréttisstofu upplýsingar og gögn sem talin eru nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik að viðlögðum dagsektum, sbr. 6. gr. Sú breyting er þó lögð til frá gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að ekki er gert ráð fyrir að framangreint eigi við um mál einstaklings heldur eingöngu um mál sem kunna að varða hagsmuni margra, hafa almennt gildi og hafa sem slík ákveðið fordæmisgildi. Sem dæmi má taka auglýsingu sem þykir öðru kyninu til minnkunar. Jafnframt má tiltaka dæmi þar sem rökstuddur grunur er um að tiltekinn atvinnurekandi brjóti kerfisbundið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þannig að starfsmenn af tilteknu kyni verði fyrir mismunun eða brjóti kerfisbundið gegn ákvæðum laga um jafna meðferð á vinnumarkaði þannig að starfsmenn verði fyrir mismunun vegna aldurs. Varðandi einstaklingsmál er engu síður gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa veiti einstaklingum ráðgjöf um hvert þeir geti snúið sér til að leita réttar síns telji þeir á sér brotið og hvaða atriða þurfi að líta til. Ákveði Jafnréttisstofa að óska þess að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar skal hlutaðeigandi aðila tilkynnt um það skriflega eftir því sem við á.
    Með gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, var Jafnréttisstofu fengið það hlutverk að fylgja því eftir að aðilar sem úrskurðir kærunefndar jafnréttismála beinast að fari að niðurstöðum nefndarinnar eftir því sem við getur átt. Þetta ákvæði hefur hins vegar reynst erfitt í framkvæmd þar sem úrskurðarorð kærunefndarinnar hafa eðli máls samkvæmt einungis falið í sér niðurstöðu um hvort nefndin telji að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eða ekki. Í niðurstöðu úrskurða kærunefndarinnar er því ekki fjallað um tiltekin úrræði sem sá er talinn hafa brotið gegn lögunum skuli grípa til í kjölfarið, sbr. skýringar við 8. gr. Ákvæðið hefur sætt þeirri gagnrýni að ákveðinn ómöguleiki hafi verið fyrir hendi og ákvæðið því vakið óraunhæfar væntingar hjá kærendum. Því er lagt til að kærunefnd jafnréttismála verði veitt skýr heimild til að beina þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera tilteknar ráðstafanir til að bæta úr þegar það á við. Vonast er til að tillagan muni auðvelda Jafnréttisstofu að framfylgja þessu hlutverki sínu. Áfram er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa fylgi eftir úrskurðum, að beiðni kærenda, en það fellur í hlut kæranda að láta Jafnréttisstofu vita þegar ekki er farið eftir niðurstöðum nefndarinnar. Mun Jafnréttisstofa þá eftir því sem við á beina fyrirmælum til þess aðila sem úrskurðurinn beinist að um að grípa, innan hæfilegs frests, til tiltekinna úrbóta til samræmis við niðurstöðu kærunefndarinnar. Verði ekki farið að fyrirmælum Jafnréttisstofu getur stofan ákveðið að sá aðili sem úrskurður beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að fyrirmælunum.

Um 6. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 8.–11. mgr. 4. gr., 6.–9. mgr. 18. gr. og 9. mgr. 19. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Líkt og greinir frá í skýringum við 5. gr. voru Jafnréttisstofu veittar heimildir til álagningar dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum með gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og var svo aukið við þá heimild með lögum nr. 56/2017, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 (jafnlaunavottun). Fjallað er því um dagsektir á fleiri en einum stað í gildandi lögum eftir því hvernig brot er um að ræða hverju sinni og er til þess fallið að valda misskilningi. Lagt er því til að framangreindar málsgreinar verði að sérákvæði og fái fyrirsögnina Dagsektir til skýringar.
    Áfram er gert ráð fyrir að verði aðili ekki við beiðni Jafnréttisstofu um gögn eða upplýsingar eða hlýði ekki fyrirmælum stofnunarinnar skv. 2. og 3. mgr. 5. gr. frumvarps þessa geti Jafnréttisstofa lagt dagsektir á hlutaðeigandi þar til úr því er bætt. Rétt er að árétta að þetta á við hvort sem mál það sem um ræðir varðar efni frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, eða laga um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2018 og 4. gr. laga nr. 86/2018, sbr. b-lið 1. tölul. og a-lið 2. tölul. 17. gr. frumvarps þessa. Jafnframt er áfram gert ráð fyrir að verði aðili ekki við beiðni Jafnréttisstofu um gögn eða upplýsingar eða hlýði ekki fyrirmælum stofnunarinnar skv. 3. mgr. 5. gr. eða 10. gr. nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, verði frumvarp það sem ráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu óbreytt að lögum, geti Jafnréttisstofa lagt dagsektir á hlutaðeigandi þar til úr því er bætt.
    Áfram er lagt til að dagsektir geti numið allt að 50.000 kr. á dag frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt að mati Jafnréttisstofu. Við ákvörðun fjárhæðar dagsektar skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna viðkomandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og hversu umfangsmikill viðkomandi rekstur er.
    Jafnréttisstofa leggur dagsektir á aðila með sérstakri ákvörðun. Aðila sem ákvörðun um dagsektir beinist að skal gefinn kostur á að koma að skriflegum andmælum innan hæfilegs frests áður en Jafnréttisstofa tekur ákvörðun um dagsektir og ákvörðunin skal tilkynnt á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
    Áfram er gert ráð fyrir að ákvörðun um dagsektir skv. 3. mgr. 5. gr. falli niður sé úrskurður kærunefndar jafnréttismála borinn undir dómstóla og að heimilt verði að kæra ákvörðun Jafnréttisstofu um dagsektir til ráðherra. Kæra til ráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir en gert er ráð fyrir að kæra til ráðherra eða málshöfðun fyrir almennum dómstólum fresti aðför. Rétt er að geta þess að í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar er Jafnréttisstofu skylt að afhenda ráðuneyti jafnréttismála upplýsingar og gögn í kærumálum.

Um 7. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 1. mgr. 5. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Áfram er gert ráð fyrir að þeir sem telja á sér brotið á grundvelli frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, verði gert kleift að kæra ætluð brot til sjálfstæðrar kærunefndar.
    Til að gæta sjálfstæðis nefndarinnar er gert ráð fyrir að Hæstiréttur Íslands tilnefni alla aðalmenn kærunefndarinnar sem og varamenn hennar til þriggja ára í senn, líkt og verið hefur, og miðað er við að Hæstiréttur tilgreini hver þeirra aðila sem hann tilnefnir skuli vera skipaður formaður og hver varaformaður. Formaður og varaformaður skulu jafnframt uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Skulu allir nefndarmenn hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði.
    Í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála úrskurðar ekki aðeins um mismunun á grundvelli kyns heldur á grundvelli fleiri mismununarástæðna, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, þykir rétt að auka við kröfur um sérþekkingu innan kærunefndarinnar á jafnréttismálum. Því er lagt til í frumvarpi þessu að a.m.k. tveir nefndarmenn, þar á meðal formaður, skuli hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. Einnig er lagt til að einn þeirra skuli hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Þar sem flest þau erindi sem kærunefndin hefur tekið til meðferðar varða ráðningar, laun eða önnur kjör er æskilegt að innan nefndarinnar sé einnig til staðar þekking á vinnurétti og mannauðsmálum.
    Líkt og kveðið er á um í gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er áfram gert ráð fyrir að kærunefnd jafnréttismála geti kallað sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila, telji hún þörf á, sem starfi með nefndinni eftir nánari ákvörðun formanns en þetta var nýmæli í gildandi lögum. Mikilvægt þykir að nefndin nýti sér þessa heimild í þeim tilvikum sem þurfa þykir enda ljóst að brot á grundvelli þeirra mismununarástæðna sem henni er ætlað að fjalla um geta verið af ólíkum toga.

Um 8. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega að mestu leyti samhljóða 2.–7. mgr. og 9. mgr. 5. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lagt er til að framangreindar málsgreinar verði að sérákvæði í frumvarpi þessu og fái fyrirsögnina Hlutverk, málskostnaður, varnaraðild o.fl. Þetta er lagt til sem liður í því að skipta ákvæðum um kærunefnd jafnréttismála niður í fleiri ákvæði með fyrirsögnum til skýringar.
    Áfram er gert ráð fyrir að verkefni kærunefndar jafnréttismála verði að taka til meðferðar þau erindi sem berast nefndinni vegna ætlaðra brota á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. 3. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. frumvarp það sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, 4. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og 4. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sbr. b-lið 1. tölul. og a-lið 2. tölul. 17. gr. frumvarps þessa. Þá er nefndinni ætlað að kveða upp skriflegan úrskurð í viðkomandi málum um það hvort ákvæði framangreindra laga hafi verið brotin.
    Lagt er til í frumvarpi þessu það nýmæli að kærunefnd jafnréttismála verði veitt skýr heimild til að beina þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera tilteknar ráðstafanir til að bæta úr þegar það á við. Úrskurðirnir fela áfram í sér bindandi niðurstöðu fyrir málsaðila um hvort þau lög sem heyra undir kærunefndina hafi verið brotin. Lagt er til að því verði með skýrum hætti bætt við að kærunefndin geti, þegar við á, beint fyrirmælum til hins brotlega um að gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr, þannig að hinn brotlegi geti ekki mætt úrskurði með algeru athafnaleysi. Þannig verður jafnframt Jafnréttisstofu gert betur kleift að sinna því hlutverki sínu skv. 3. mgr. 5. gr. að fylgja úrskurðum kærunefndar eftir að viðlögðum dagsektum skv. 6. gr.
    Rétt er að árétta að þetta ákvæði um fyrirmæli kemur eingöngu til skoðunar þegar við á, að mati kærunefndar. Það fer því eftir mati kærunefndar jafnréttismála, í hverju tilviki fyrir sig, hvort rétt sé að beina jafnframt fyrirmælum til hins brotlega um að bæta úr, hafi niðurstaða hennar verið að um brot hafi verið að ræða. Í sumum tilvikum getur það átt við og má þar nefna sem dæmi fyrirmæli um að tiltekin kennslu- og námsgögn, sbr. 3. mgr. 15. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna eða 2. mgr. 10 gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, skuli fjarlægð úr skólum og frístundaheimilum. Annað dæmi væri fyrirmæli um að veita skuli aðgang að eða afhenda vöru annars vegar eða aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar, sbr. 17. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og 9. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018. Jafnframt mætti nefna fyrirmæli um að tiltekin auglýsing skuli tekin úr birtingu, sbr. 22. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og 11. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.
    Í öðrum tilvikum á það ekki við og verður í slíkum tilvikum áfram úrskurðað um hvort ákvæði frumvarps þessa, laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, eða laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, hafa verið brotin, eins og verið hefur, án þess að jafnframt sé beint sérstökum fyrirmælum til hins brotlega. Sem dæmi um slík tilvik væri þegar mál snýst um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Eðli málsins samkvæmt verður ekki hróflað við slíkri ákvörðun og kærunefnd jafnréttismála hefur ekki vald til að hnekkja þeirri ráðningu, setningu eða skipun sem atvinnurekandi hefur tekið ákvörðun um og hrundið í framkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. janúar 2017 í máli nr. 364/2014. Þar segir að það geti ekki haft áhrif á gildi úrskurðar kærunefndar jafnréttismála að hún hafi ekki gefið einstaklingnum sem starfið hlaut kost á að láta málið til sín taka þar sem nefndin hafði ekki vald til að hnekkja þeirri ráðningu sem veitingarvaldshafinn hafði tekið ákvörðun um og hrundið í framkvæmd.
    Áfram er gert ráð fyrir að kærunefndin verði sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Jafnframt er áfram gert ráð fyrir að niðurstöður kærunefndarinnar sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds en heimilt er að bera efni þeirra undir dómstóla samkvæmt almennum reglum séu málsaðilar ósáttir við úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Dómstólar eiga almennt úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana, sbr. meginreglu 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Verður því að ætla að dómstólar hafi heimild, að uppfylltum ákveðnum réttarfarsskilyrðum, til að skera úr ágreiningi um hvort kærunefnd jafnréttismála hafi byggt úrskurð á ákvæðum laga sem og málefnalegum sjónarmiðum. Einnig er áfram gert ráð fyrir því að þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skuli kærunefnd jafnréttismála leita umsagnar frá heildarsamtökum launafólks og atvinnurekenda áður en úrskurður er kveðinn upp.
    Við gildistöku laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, urðu úrskurðir kærunefndar jafnréttismála bindandi fyrir málsaðila í stað álita áður. Með þeirri tilhögun var leitast við að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi en áður var og framkvæmd þessara mála færð nær því sem tíðkast hjá öðrum norrænum ríkjum. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20 júní 2012, í máli nr. E-2870/2011, var úrskurður kærunefndar jafnréttismála talinn bindandi í þeim skilningi að hann hefði réttaráhrif samkvæmt efni sínu og ekki unnt að breyta því fyrir dómi af þeim sökum að stefndi hefði ekki krafist ógildingar úrskurðarins innan málshöfðunarfrests.
    Með gildandi lögum kom jafnframt ákvæði um að kærunefnd jafnréttismála geti ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar með nánar tilteknum skilyrðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna. Í frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að í stað þess að nefndin kveði upp úrskurð um að fresta réttaráhrifum úrskurðar, að kröfu málsaðila, þá frestist réttaráhrifin, ef málsaðili ber úrskurðinn undir dómstóla innan átta vikna frá birtingu hans. Ekki verður séð nauðsyn á því að kveðinn sé upp sérstakur úrskurður um frestun réttaráhrifa og þykir það óþarfi í ljósi stjórnarskrárvarins réttar allra til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Ekki þykir heldur augljóst í hvaða tilvikum það kæmi til álita að kærunefnd jafnréttismála myndi takmarka þann rétt með synjun á frestun réttaráhrifa. Gert er ráð fyrir að málsaðilar hafi heimild til að óska eftir flýtimeðferð fyrir dómstólum og í þeim tilvikum sem dómari synjar um flýtimeðferð skuli mál höfðað eins fljótt og unnt er og eigi síðar en þrjátíu dögum eftir að synjun dómara liggur fyrir. Að öðrum kosti fellur frestun réttaráhrifa úr gildi. Einnig er áfram gert ráð fyrir að í tilvikum þegar mál er höfðað vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála geti nefndin frestað afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.
    Enn fremur er áfram gert ráð fyrir að kærunefnd jafnréttismála geti ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefnd jafnréttismála enda sé úrskurður nefndarinnar kæranda í hag. Í 6. mgr. er áfram gert ráð fyrir að hafi úrskurður kærunefndar jafnréttismála verið kæranda í hag en gagnaðili ekki viljað una honum og höfði mál til ógildingar úrskurðinum fyrir dómstólum fái kærandi greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og fyrir Hæstarétti eftir því sem við á. Tilgangur þessa er einkum sá að koma í veg fyrir að einstaklingar beri mál sín síður undir kærunefndina af ótta við þann tilkostnað sem kann að hljótast af því að gagnaðili freisti þess að fá úrskurði nefndarinnar ógilta fyrir dómstólum. Í 6. mgr. kemur fram það nýmæli að við slíka málssókn skuli kærunefnd jafnréttismála jafnframt stefnt til varnar í málinu. Rétt er að taka fram að eftir sem áður hefur kærandi kost á í slíkum dómsmálum að koma að öllum viðhorfum sínum varðandi málið þar sem hann telst einnig til varnaraðila málsins. Nánar um þessa breytingartillögu má lesa í kafla 3.3 í greinargerð.
    Enn fremur er áfram gert ráð fyrir því að ef kæra er bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndar jafnréttismála geti nefndin úrskurðað að kærandi skuli greiða gagnaðila kostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins líkt og verið hefur. Aðför má gera án undangengins dóms til fullnustu úrskurðar um slíka greiðslu. Þá er áfram gert ráð fyrir að kostnaður við starfsemi kærunefndar jafnréttismála greiðist úr ríkissjóði.

Um 9. gr.

    Ákvæðið fjallar um aðild, kærufresti og málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála. Ákvæðið er efnislega samhljóða 6. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 6. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og 6. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sbr. b-lið 1. tölul. og a-lið 2. tölul. 17. gr. frumvarps þessa. Þannig er í frumvarpi þessu áfram gert ráð fyrir að unnt verði að leita til kærunefndar jafnréttismála vegna ætlaðra brota á ákvæðum frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.
    Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem telja að ákvæði framangreindra laga hafi verið brotin gagnvart sér eða sínum félagsmönnum geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála. Í frumvarpi þessu eru ekki lagðar til breytingar á því hverjir geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála og sem fyrr geta félagasamtök sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta og telja að ákvæði framangreindra laga hafi verið brotin leitað atbeina kærunefndarinnar fyrir hönd félagsmanns síns enda liggi fyrir samþykki viðkomandi félagsmanns. Í þessu felst að félagasamtök geta komið fram fyrir hönd félagsmanns samkvæmt sérstöku umboði viðkomandi eigi hann einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Einnig geta félagasamtök leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála í eigin nafni ef umtalsverður hluti félagsmanna þeirra á lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls sem og að gæsla þessara hagsmuna teljist til yfirlýsts tilgangs og markmiða félagasamtakanna.
    Jafnréttisstofa getur óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar, sbr. 2. mgr. 5. gr.
    Erindi skulu berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að fyrir lá vitneskja um ætlað brot á þeim lögum sem heyra undir nefndina, sbr. 1. gr., frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefnd jafnréttismála getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt liðinn sé framangreindur frestur, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Gert er ráð fyrir að kærunefndin ákveði í hvaða tilvikum undantekningin eigi við og hafi þar meðal annars til hliðsjónar 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Áfram er gert ráð fyrir að kærunefnd jafnréttismála geti að höfðu samráði við kæranda sent mál til sáttameðferðar hjá Jafnréttisstofu enda má gera ráð fyrir að í einhverjum tilvikum geti það leitt til skjótari niðurstöðu án þess að rýra rétt kæranda.
    Í 5. mgr. 6. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um að kærunefnd jafnréttismála skuli kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að henni berst mál í hendur. Í frumvarpi þessu er hins vegar lögð til sú breyting að kærunefndin skuli kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að gagnaöflun er lokið. Nánar um þessa breytingartillögu má lesa í kafla 3.3 í greinargerð.
    Málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund telji nefndin ástæðu til.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá kærunefnd jafnréttismála samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni og nánari reglum sem ráðherra er heimilt að setja að fenginni umsögn kærunefndar jafnréttismála.

Um 10. gr.

    Ákvæðið fjallar um upplýsingaöflun fyrir kærunefnd jafnréttismála og er það efnislega samhljóða 7. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ákvæðið fjallar um andmælarétt aðila máls sem og að mál verði nægjanlega upplýst áður en kærunefnd jafnréttismála kveður upp úrskurð í máli, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.
    Miðað er við að kærunefnd jafnréttismála geti óskað eftir gögnum frá málsaðilum í því skyni að upplýsa mál nægjanlega, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Verði málsaðili ekki við beiðni kærunefndar um afhendingu gagna sem ætla má að hann hafi undir höndum og varpað geta ljósi á málið að mati kærunefndar má gera ráð fyrir að hann muni almennt þurfa að bera hallann af því að gögnin komi ekki fram þrátt fyrir áskorun um framlagningu.
    Það fellur í hlut kærunefndar jafnréttismála að tilkynna einstaklingi sem ekki á aðild að viðkomandi kærumáli að tilteknar upplýsingar um laun hans, önnur starfskjör eða réttindi hafi verið veittar nefndinni þar sem mikilvægt þykir að tryggja að hlutaðeigandi fái vitneskju um að tiltekin gögn hafi verið veitt nefndinni.
    Í 5. mgr. er kveðið á um það nýmæli að hafi kærunefnd jafnréttismála til umfjöllunar mál sem varðar ráðningu, setningu eða skipun í starf geti hún aflað frekari upplýsinga um málið frá þeim einstaklingi sem hlaut starfið, telji hún ástæðu til, í því skyni að upplýsa málið nægjanlega í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Í áliti setts umboðsmanns Alþingis frá árinu 2013 í máli nr. 6395/2011 komst settur umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ganga yrði út frá því að við umfjöllun um kæru þess sem ekki hafi hlotið starf væri sá sem starfið hlaut að jafnaði aðili að máli fyrir kærunefnd jafnréttismála, a.m.k. ef nefndin teldi að málið væri tækt til efnismeðferðar.
    Í álitinu eru rakin þau sjónarmið sem almennt eru til skoðunar þegar komist er að niðurstöðu um það hvort einstaklingur eða lögaðili eigi aðild að stjórnsýslumáli á kærustigi, þ.e. að viðkomandi eigi einstaklegra, beinna, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn málsins. Af álitinu verður þó ekki skýrlega ráðið hvaða beinu og verulegu hagsmuni sá sem starfið hlaut eigi af niðurstöðu málsins sem leiði til þeirrar niðurstöðu að almennt verði að veita honum aðild að málinu. Í ritinu Stjórnsýsluréttur – Málsmeðferð eftir Pál Hreinsson, Reykjavík 2013, segir á bls. 171: „Í framkvæmd reynir á mörg takmarkatilvik þess hvenær óbeinir eða afleiddir hagsmunir eru taldir skapa aðilastöðu og skulu hér nefnd fjögur þekkt dæmi: [...] Sá sem kærir mál til kærunefndar jafnréttismála þar sem hann telur að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin þegar fram hjá sér var gengið við stöðuveitingu, telst aðili þess máls hjá kærunefndinni. Sá sem hlaut stöðuna telst á hinn bóginn ekki aðili málsins fyrir kærunefndinni.“ Er því næst vísað í álit setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2214/1997 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að einstaklingur sem ráðinn hefur verið í starf njóti ekki aðilastöðu í kærumáli til nefndarinnar en eigi alla jafna rétt á að tjá sig um efni málsins fyrir nefndinni.
    Í þessu efni verður að líta til þess að eingöngu er verið að kæra ákvörðun um ráðningu í starf. Það er því sá sem tók ákvörðunina, oftast atvinnurekandi, sem sakaður er um að hafa brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en ekki sá sem ráðinn var í starfið. Kærunni sem slíkri er því beint að þeim sem tók ákvörðunina og honum veitt færi á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu áður en nefndin tekur efnislega afstöðu. Í dómi Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli nr. 364/2014 reyndi á umrætt álitaefni. Þar komst Hæstiréttur svo að orði: ,,Nefndin hafði ekki vald til að hnekkja þeirri ráðningu, sem [Landspítali] hafði tekið ákvörðun um og hrundið í framkvæmd. Það getur því ekki haft áhrif á gildi úrskurðar kærunefndarinnar 27. september 2013 að hún hafi ekki gefið [einstaklingnum sem starfið hlaut] kost á að láta málið til sín taka.“
    Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður ekki talið að rök standi til þess að breyta út frá þeirri framkvæmd sem verið hefur hjá kærunefndinni á þann veg að sá sem ráðinn var í starf fái ávallt aðild að slíkum málum. Engu að síður kann að vera nauðsynlegt í tilteknum málum að afla frekari upplýsinga um málið frá þeim er hlaut starfið og er því lagt til að nefndin geti gert það, telji hún ástæðu til. Ákvæðið felur í sér reglu um frjálsa álitsumleitan og nánari útfærslu á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þar sem kallað er eftir nánari upplýsingum um málsatvik sem þýðingu geta haft fyrir úrlausn málsins. Ekki er gert ráð fyrir að aðild að málinu fyrir kærunefndinni breytist frá því sem verið hefur ef nefndin ákveður að óska eftir upplýsingum frá þeim einstaklingi er hlaut starfið.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um skyldu kærunefndar til að birta úrskurði sína og er það í samræmi við ákvæði 8. mgr. 5. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og eru úrskurðir birtir á úrskurðavef Stjórnarráðs Íslands (urskurdir.is). Lagt er til að ákvæði um birtingu úrskurða verði að sérákvæði með fyrirsögninni Birting úrskurða. Ársskýrsla og er það að fyrirmynd 9. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015. Lagt er til að ákvæðið mæli fyrir um að kærunefndin skuli birta úrskurði sína á aðgengilegan og skipulegan hátt. Hvorki nafn kæranda né annarra einstaklinga er tilgreint í opinberri birtingu úrskurða. Þá skal jafnframt fella út persónulegar upplýsingar, svo sem um launakjör og þess háttar. Nafn kærða skal að jafnaði birt í úrskurði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu nefndarinnar til að skila ráðherra skýrslu um störf sín, helstu niðurstöður og leiðbeinandi reglur sem leiða má af úrskurðum nefndarinnar. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða ákvæði 9. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála en lagt er til að auki að ráðherra skuli birta skýrsluna með aðgengilegum hætti. Slíkt ákvæði um skyldu til skýrslugerðar er nýmæli og þykir til þess fallið að auka gagnsæi og auðvelda fólki að fylgjast með framkvæmd og túlkun þeirra laga sem heyra undir kærunefnd jafnréttismála.

Um 12. gr.

    Áfram er gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála en sú breyting er lögð til að það skuli ráðherra gera einu sinni á kjörtímabili en ekki á jafnréttisþingi líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 10 gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en jafnréttisþingið er haldið á tveggja ára fresti. Með lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, var ráðherra gert skylt að birta ár hvert ársskýrslu um síðasta fjárhagsár þar sem gera skal grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka ráðherra, þar á meðal jafnréttismála. Segja má að þessar ársskýrslur komi að nokkru leyti í stað skýrslunnar sem lögð er fram á jafnréttisþingi samkvæmt gildandi lögum en þó er lagt til í frumvarpi þessu að einu sinni á kjörtímabili skuli ráðherra gefa út skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála þar sem meðal annars komi fram mat á stöðu og árangri verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum, sbr. 26. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, auk umfjöllunar um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins. Þetta er efnislega samhljóða gildandi lögum en í frumvarpi þessu nær skyldan einnig til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.
    Áfram er gert ráð fyrir að skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála skuli fylgja með tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum, sbr. 26. gr. framangreinds frumvarps.
    Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er fjallað um skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála, í 10. gr. um jafnréttisþingið og í 11. gr. um þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Til að auka skýrleika er í frumvarpi þessu lagt til að fjallað verði um skýrsluna í sérákvæði.

Um 13. gr.

    Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í 12. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en lagðar eru til töluverðar breytingar á greininni. Lagt er til að sveitarstjórnir skuli að afloknum sveitarstjórnarkosningum sjá til þess að gerð verði áætlun fyrir nýtt kjörtímabil um markmið og aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, þar sem meðal annars komi fram hvernig unnið skuli að kynja- og jafnréttissamþættingu á öllum sviðum. Því er lagt til að það sem áður var jafnréttisáætlun hjá sveitarfélögum, sem tók til jafnréttis kynjanna eingöngu, sé nú áætlun um að gæta þurfi að fleiri mismununarástæðum en kyni í áætlun sveitarfélagsins, þ.e. einnig kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.
    Áætlunin skal taka til markmiða og aðgerða til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð innan hvers sveitarfélags við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu sveitarfélagsins og í starfsmannamálum. Lagt er til að áætlunin skuli lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitastjórnarkosningar, framvinda hennar rædd árlega í sveitarstjórn eftir það og hún endurskoðuð eftir þörfum.
    Ekki er lengur gert ráð fyrir skipan sérstakra jafnréttisnefnda sveitarfélaga heldur þess í stað að sveitarstjórn skuli fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál innan sveitarfélagsins og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar.
    Sveitastjórn er ekki jafnframt skylt að gera jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína skv. 5. gr. frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu.

Um 14. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 14. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ráðherra sem fer með jafnréttismál er heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa sem vinnur tímabundið að jafnréttismálum á tilteknu sviði og/eða á tilteknu landsvæði.

Um 15. gr.

    Kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, svo sem um starfsemi og skipulag Jafnréttisstofu, þar á meðal um beitingu dagsekta sem Jafnréttisstofa ákveður, sbr. 6. gr. Einnig er kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um kærunefnd jafnréttismála í reglugerð. Þar gætu t.d. verið nánari ákvæði um á hvaða formi erindi til nefndarinnar skuli vera og hvernig haga skuli birtingunni.

Um 16. gr.

    Lagt er til að frumvarp þetta taki þegar gildi. Gert er ráð fyrir að frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem forsætisráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu taki gildi á sama tíma og að við gildistöku þeirra laga falli úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

Um 17. gr.

    Í 1. og 2. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, í því skyni að tryggja samræmi milli þeirra laga og frumvarp þessa sem og til samræmis við frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Slíkt er talið mikilvægt til að koma í veg fyrir misræmi þegar kemur að túlkun ákvæðanna.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Gert er ráð fyrir að við gildistöku laganna falli umboð skipaðra fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála niður enda er miðað við að setja nýja kærunefnd á fót. Er því gert ráð fyrir að ráðherra skipi nýja kærunefnd jafnréttismála skv. 7. gr. frumvarps þessa. Þrátt fyrir að í 7. gr. sé gert ráð fyrir að fulltrúar í kærunefnd jafnréttismála séu skipaðir til þriggja ára í senn er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að í fyrsta skipti sem ráðherra skipar fulltrúa í nefndina samkvæmt ákvæðinu verði nefndarmenn ekki allir skipaðir til sama tíma í því skyni að koma í veg fyrir að skipunartími þeirra renni út samtímis. Er þannig gert ráð fyrir að þegar frá líður muni ráðherra árlega skipa einn til tvo nefndarmenn á sama tíma en skipunartími hvers og eins verði eftir sem áður þrjú ár líkt og gert er ráð fyrir í umræddri 7. gr. frumvarpsins. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja eins vel og unnt er að ávallt verði til staðar tiltekin þekking hjá skipuðum fulltrúum í kærunefnd jafnréttismála þrátt fyrir að skipt verði um fulltrúa.