Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 562  —  223. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum (skilvirk og samræmd málsmeðferð).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Rögnu Bjarnadóttur og Hildi Sunnu Pálmadóttur frá dómsmálaráðuneyti og Helga Magnús Gunnarsson frá ríkissaksóknara. Nefndinni bárust engar umsagnir.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, er miða að því að uppfæra ákvæði laganna um framsal sakamanna í samræmi við sambærileg ákvæði laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og gera feril réttarbeiðna til og frá erlendum ríkjum skilvirkari.
    Meiri hlutinn telur það til bóta að ferill réttarbeiðna sé einfaldaður sem og færður til samræmis við nútímaskipan ákæruvalds. Í því samhengi hvetur meiri hlutinn dómsmálaráðuneytið til þess að kanna hvort tilefni sé til að skoða heildstætt málsmeðferð réttarbeiðna, m.a. hvort gera eigi í þessum efnum samninga við fleiri ríki um framsal eða aðra aðstoð í sakamálum til þess að geta flýtt meðferð beiðna og stuðlað að meginreglu sakamálaréttarfars um hraða málsmeðferð.
    Meiri hlutinn leggur til fáeinar orðalagsbreytingar sem eru til leiðréttingar og lagfæringar en er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Þá leggur meiri hlutinn til að 4. gr. frumvarpsins verði felld brott þar sem efni hennar má nú þegar finna í viðkomandi lögum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „gæsluvarðhaldstímann“ í 3. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: gæsluvarðhaldstíma.
     2.      Efnismálsgrein a-liðar 3. gr. orðist svo:
                  Beiðni skv. 2. mgr. og 2. viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins frá 20. apríl 1959 um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 8. nóvember 2001 skal send ríkissaksóknara. Sé ekki til staðar samningur við ríki um framsal og aðra aðstoð í sakamálum skal beiðnin send ráðuneytinu. Í beiðni skulu vera upplýsingar um tegund afbrots og hvar og hvenær það var framið.
     3.      Í stað orðanna „rannsóknin mun hafa“ í 1. málsl. efnismálsgreinar b-liðar 3. gr. komi: rannsókn hefur.
     4.      4. gr. falli brott.
     5.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (málsmeðferð).

Alþingi, 10. desember 2020.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Guðmundur Andri Thorsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.