Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 568  —  334. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


Umsagnir.
    Nefndinni bárust fimmtán umsagnir og erindi um málið. Hér verður vikið að nokkrum þeirra og sjónarmiðum sem 1. minni hluti tekur undir. Margir umsagnaraðilar nefna sömu eða svipuð atriði, svo sem skilyrðið um 60% tekjufall, viðmiðunartíma tekjufalls og samspil eða val milli þess hvort fjárhæð styrks miðist að hámarki við 90% af rekstrarkostnaði eða fjölda stöðugilda.

Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar.
    Samtökin sendu sameiginlega umsögn og benda í henni réttilega á misræmi í skilyrðum sem sett eru fyrir stuðningsúrræðum. Þar segir: „Athygli vekur að þótt greinilegt sé að sambærileg nálgun eigi við um viðspyrnustyrki og tekjufallsstyrki eru þátttökuskilyrði þrengd. Skilyrði um tekjufall hafa verið þrengd úr að minnsta kosti 40% í að minnsta kosti 60% skv. frumvarpi um viðspyrnustyrki. Þá hefur viðmið styrkfjárhæðar verið lækkað úr því að vera að hámarki 100% af rekstrarkostnaði aðila á umsóknartímabilinu skv. tekjufallsstyrkjum í að vera að hámarki 90% af rekstrarkostnaði aðila á umsóknartímabilinu skv. frumvarpi um viðspyrnustyrki. Þannig er í raun verið að framlengja tekjufallsstyrkjaúrræðið en veita færri fyrirtækjum styrk. Samtökin benda á að skynsamlegt geti verið að betra samræmis gæti í skilyrðum milli aðgerða sem spretta af sama grunni.“
    Samtökin leggja til breytingar þess efnis að öllum rekstraraðilum sem sækja um viðspyrnustyrk verði heimilt að miða útreikning á styrkfjárhæð við fjölda stöðugilda í sama almanaksmánuði 2019. Það verði gert að aðalreglu í stað undantekningar og leggja þau til breytingar á 5. gr. frumvarpsins í þessa veru. 1. minni hluti styður þessi sjónarmið og er sammála ítarlegum rökstuðningi samtakanna fyrir þeim.

Félag atvinnurekenda.
    Félagið lýsir í umsögn sinni því sjónarmiði að áskilnaður um 60% tekjufall verði til þess að fjöldi fyrirtækja, sem eru í raun ekki rekstrarhæf vegna tekjufalls, fái ekki stuðning. Í umsögn félagsins segir: „Jafnframt þarf að gæta að því að binding styrkjanna við stöðugildi verði ekki til þess að fyrirtæki, sem hafa fækkað stöðugildum niður í nánast ekki neitt meðan á faraldrinum stendur en hafa engu að síður verulegan rekstrarkostnað, t.d. vegna húsnæðis sem þau geta ekki losað eða samninga sem ekki verður sagt upp, fái ekki stuðning. Mikilvægasta markmið styrkjanna er að viðhalda starfsemi í fyrirtækjunum og þar með atvinnu fólks og að fyrirtæki geti nýtt styrkina til að fjölga stöðugildum á ný. Að mati FA getur þurft að breyta 5. gr. frumvarpsins þannig að horft sé til stöðugilda á viðmiðunartímabilinu.“
    Undir þetta tekur 1. minni hluti og telur mikilvægt að Alþingi taki mið af raunverulegri þörf og aðstæðum rekstraraðila við ákvörðun um fyrirkomulag stuðnings.

Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði.
    Umsögn Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði snýst fyrst og fremst um alvarlega stöðu greinarinnar og benda þau sérstaklega á að sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda hafi komið afar illa niður á veitingastöðum. Fjöldatakmarkanir hafi verið í gildi stærstan hluta ársins 2020. Þar með hafi rekstrargrundvelli verið kippt undan fjölda fyrirtækja í greininni. Þess vegna sé viðmiðið um að minnsta kosti 60% tekjufall of hátt og gagnist fáum. Í umsögninni segir: „Veitingastaðir á Íslandi eru reknir með afar lágri framlegð sökum hás verðs aðfanga og launakostnaðar. Þannig má lítið út af bregða svo að illa fari. Bæði Svíþjóð og Danmörk miða við 30% tekjufall í aðgerðum sínum. Slíkt tekjufall eitt og sér er erfitt að takast á við í veitingarekstri en 60% tekjufall er ómögulegt með öllu. Svo hátt „inntökugjald“ mun valda því að stuðningurinn mun gagnast fáum og þannig ekki koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og atvinnumissi innan greinarinnar.“
    Rétt er að minna á að Viðreisn hefur lagt sérstaka áherslu á að koma til móts við þarfir veitingageirans og ferðaþjónustu. Um það vitna ýmsar tillögur sem Viðreisn hefur lagt fram við meðferð fjárlaga fyrir árið 2021 og tengdra þingmála þennan vetur. Í því sambandi hefur Viðreisn lagt til að hækkun áfengisgjalds verði frestað og að svokölluð ferðagjöf verði hækkuð um 15.000 krónur, framlengd fram á haustið 2021 og gildissvið hennar víkkað svo að það taki einnig til viðburða á sviði menningar og lista. Síðast en ekki síst ber að nefna tillögu um tímabundna lækkun virðisaukaskatts, sem fyrirtækjum í veitingarekstri er gert að innheimta, úr 11% í 6%. Tillagan um frestun áfengisgjalds var felld en þegar þetta nefndarálit er skrifað liggur ekki fyrir hver afdrif tillagna um ferðagjöf og tímabundna lækkun virðisaukaskatts verða.

Samstöðuhópur smærri fyrirtækja, einyrkja og rekstraraðila á eigin kennitölu í ferðaþjónustu.
    Í umsögn samstöðuhópsins er bent á sérstaka stöðu einyrkja og smærri fyrirtækja, ekki síst á landsbyggðinni, þar sem hlutfall launakostnaðar af rekstrarkostnaði er oft lágt. Í umsögninni kemur eftirfarandi fram: „Telja verður því eðlilegra með tilliti til jafnræðis að tekjufallsstyrkur verði upp að ákveðnu hámarki, t.d. 2.500.000 kr. eða 2.000.000 kr. á mánuði eftir því hversu mikið tekjufallið verður en þó aldrei hærri en 90% af rekstrarkostnaði óháð stöðugildum. Með því ættu öll fyrirtæki að sitja við sama borð, þ.e. þegar horft er til styrksins sem hlutfalls af rekstrarkostnaði óháð stöðugildum. Ef rekstraraðilar geta sýnt fram á rekstrarkostnað í viðkomandi mánuðum geta þau sótt um styrki upp að ákveðnu hámarki vegna þeirra.
    Í ljósi alls framangreinds er lagt til að styrkur verði ekki takmarkaður við tiltekinn fjölda stöðugilda í hverjum mánuði fyrir sig, heldur fremur takmarkaður við tiltekið hlutfall af rekstrarkostnaði en þó geti styrkur ekki orðið hærri en 2.000.000 kr. eða 2.500.000 kr. á mánuði eftir því hversu miklu tekjufalli viðkomandi rekstraraðili verður fyrir á milli samanburðarmánaða. Verði ekki fallist á framangreinda tillögu er hins vegar lagt til að horfa megi á fjölda stöðugilda í viðkomandi starfsemi í samanburðarmánuðum á árinu 2019.“
    Þessi umsögn kjarnar að mati 1. minni hluta það mikla skilningsleysi sem einyrkjar og smærri atvinnurekendur standa frammi fyrir gagnvart stjórnvöldum. Að takmarka stuðning við tiltekinn fjölda stöðugilda í hverjum mánuði útilokar ýmsa smáa gististaði og ferðaþjónustufyrirtæki. Er þar mikilvægt að stuðningur verði frekar takmarkaður við hlutfall af rekstrarkostnaði.

Deloitte.
    Í umsögn Deloitte er bent á nokkur mikilvæg atriði í útfærslu viðspyrnustyrkjanna sem geta haft mikil áhrif á gagnsemi þeirra. Fyrst er vikið að skilyrðinu um tekjufall og bent er á að hlutfallið sé of hátt og ekki í samræmi við aðrar aðgerðir stjórnvalda: „Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjufall þurfi a.m.k. að hafa numið 60%. Þetta prósentuhlutfall kemur aðeins á óvart þegar litið er til þeirra skilyrða sem fram koma í lögum um tekjufallsstyrki, þar sem viðmiðið er 40%. Ekki er að finna í greinargerðinni með frumvarpinu nein rök sem styðja við ólíka nálgun í þessum tveimur styrkjum. Bent skal á að viðspyrnustyrkjum er ætlað að taka við af tekjufallsstyrkjum og því þarf samræmis að gæta á milli. Umrætt 60% tekjufall er verulega mikið tekjufall, en það er 50% einnig, sem og 40%, en síðan er spurning hvort gera megi einhvers konar línulegar skilgreiningar um tekjufall upp að tilgreindu hlutfalli sem þá fær fullan styrk.“
    Þá er vikið að skilyrðinu um að fyrirtæki megi ekki vera í slita- eða gjaldþrotameðferð og bent á að skilyrðið um að ekki megi vera í slitameðferð geti verið mjög hamlandi við umbreytingu í rekstri og unnið gegn nauðsynlegri hagræðingu, ekki síst í ferðaþjónustu: „Seinna skilyrðið sem vert er að gaumgæfa er að félag sé ekki í slita- eða gjaldþrotameðferð. Það er eðlilegt að ekki sé unnt að styðja við rekstraraðila sem er í gjaldþrotameðferð. Þegar kemur að slitameðferð vakna spurningar. Ef verið er að slíta félagi og ekkert annað stendur til en að leggja reksturinn niður, þá er þetta skiljanlegt skilyrði. Hins vegar kemur þetta skilyrði í veg fyrir að fyrirtæki geti umbreytt rekstri sínum, t.d. með samruna eða skiptingu, svo vel sé. Það er því mikilvægt að opnað sé á þá heimild að ef félag er í samrunaferli eða skiptingarferli, að þau réttindi sem áður tilheyrðu annarri kennitölu haldi áfram að vera virk til að gæta hagsmuna allra. […] Heimild af þessum toga myndi jafnframt hvetja eigendur til að skoða hagræðingu án þess að eiga það á hættu að fá ekki þá styrkveitingu sem í boði er, ef þeir halda áfram óbreyttu ástandi. Hagræðing fyrirtækja, samruni og önnur umbreyting er því nauðsynlegur þáttur í viðspyrnu fjölmargra fyrirtækja og má í dæmaskyni nefna ferðaþjónustuna.“
    Í umsögninni er því sérstaklega fagnað að heimilt verði við sérstakar aðstæður að miða við árið 2018 þegar tekjufall er metið. 1. minni hluti tekur sérstaklega undir það sem hvatt er til að skýr vilji Alþingis fái viðeigandi farveg og tryggt verði að leiðin verði sýnileg og unnt að velja hana í umsóknarferli Skattsins þegar úrræðið kemst til framkvæmdar. Í umsögninni segir: „Það er afar mikilvægt að opna vel á þá setningu í frumvarpinu að „[v]ið sérstakar aðstæður [megi] nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1.–2 . málsl.“. Hér er vísað til þess að miða megi við sama almanaksmánuð 2018 til samanburðar og til mats á tekjufalli rekstraraðilans. Þetta er nýmæli sem ber að fagna, því það getur verið mjög mikilvægt að geta sett fram annað tímabil en hefðbundið er, þ.e. sama tímabilsmánuð og árið áður. Hér verður að tryggja skýran vilja Alþingis þannig að stjórnsýslan setji ekki fram þröskulda við mat á hvaða tímabil skuli miða við, en með umsókninni væri hægt að hafa slíka gátt til að geta tilgreint samanburðartímabilið án þess að fá sjálfvirka neitun úr tölvukerfum stjórnsýslunnar.“
    Að síðustu fjallar Deloitte um vissa ruglingshættu í þeim skilyrðum sem sett eru í 5. grein. Þá er varpað fram tillögu um að það verði valkvætt fyrir umsækjanda að miða við 90% af rekstrarkostnaði í styrk eða starfsmannafjölda eftir því hvort hentar betur: „Við mat á viðspyrnustyrk er um að ræða 90% styrk af rekstrarkostnaði, en aldrei hærra en sem nemur tekjufallinu. Þá er jafnframt miðað við 400 þús. kr. eða 500 þús. kr. eftir því hvernig tekjufallið er. Af þeim fyrirspurnum sem hafa borist til Deloitte virðist vera óljóst hvenær eigi að miða við hvaða reglu. Nefndarmenn mættu skoða þessi skilyrði út frá því hvenær eigi að miða við 90% styrk og hvenær eigi að miða við starfsmannafjölda, eða hvort það sé valkvætt fyrir rekstraraðilann, sem væri í raun betri nálgun því það kann að vera mismunandi hvernig starfsmenn koma inn í reksturinn þótt kostnaður sé til staðar í fyrirtækinu.“

Breytingartillögur.
    Fyrsti minni hluti telur rétt að taka mið af þessum umsögnum og leggur því til breytingartillögur sem fela í sér að viðspyrnustyrkirnir verði markvissari og þjóni betur þeim markmiðum sem að er stefnt. Líklegt er að beinn útlagður kostnaður ríkissjóðs muni hækka en á móti kemur aukin atvinna og umsvif og minni hætta á gjaldþrotum. Til lengri tíma er líklegt að þessar breytingar skili samfélaginu meiri heildarávinningi en ella.
    Í fyrsta lagi er lagt til að tekjufallsviðmiðið verði lækkað í 45% og að þrepaskipting styrkfjárhæðar, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 5. gr., miðist við 45–75% tekjufall annars vegar og tekjufall sem er hærra en 75% hins vegar.
    Í öðru lagi að unnt verði að velja við umsókn hvort styrkur miðist við 90% tekjufall eða stöðugildi. 1. minni hluti styður breytingartillögu meiri hlutans um að öllum verði heimilt að miða við fjölda stöðugilda í sama mánuði 2019 og umsókn um viðspyrnustyrk varðar.
    Í þriðja lagi að skilyrði um að fyrirtæki megi ekki vera í skilameðferð verði breytt.
    Að framansögðu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað „60%“ í 1. tölul. komi: 45%.
                  b.      4. tölul. orðist svo: Bú hans hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og rekstraraðili er ekki í almennri slitameðferð. Slit sem eru hluti af samruna- eða skiptingarferli rekstraraðila teljast ekki til almennrar slitameðferðar samkvæmt þessu ákvæði.
     2.      Við 5. gr.
                  a.      Í stað „60–80%“ í a-lið 1. mgr. komi: 45–75%.
                  b.      Í stað „80%“ í b-lið 1. mgr. komi: 75%.
                  c.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. er rekstraraðila heimilt að velja hvort hámarksfjárhæð styrks skuli miðast við 90% rekstrarkostnaðar í þeim mánuði sem umsókn um styrk varðar eða tiltekna fjárhæð fyrir hvert stöðugildi eins og greinir í a- og b-lið 1. mgr. Styrkfjárhæð getur þó aldrei orðið hærri en þar segir.

Alþingi, 10. desember 2020.

Jón Steindór Valdimarsson.