Ferill 400. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 574  —  400. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála (einföldun úrskurðarnefnda).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
a.      Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Viðurkenndir úrskurðaraðilar og kærunefnd vöru- og þjónustukaupa skulu vísa málum frá ef kvörtun heyrir undir, er til meðferðar eða hefur hlotið meðferð hjá öðrum viðurkenndum eða lögbundnum úrskurðaraðila sem ráðherra hefur skráð og tilkynnt, erlendum úrskurðaraðila sem er á skrá yfir tilkynnta úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla á Evrópska efnahagssvæðinu, kærunefnd vöru- og þjónustukaupa eða dómstólum.
b.      C-liður 1. mgr. fellur brott.

2. gr.

    2. mgr. 16. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „og 2. mgr. 16. gr.“ í c-lið 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: eða 2. mgr. 14. gr.

II. KAFLI

Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki“ í 1. mgr. kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
     b.      2. mgr. fellur brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki skv. 2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
     b.      2. mgr. fellur brott.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki skv. 2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
     b.      2. mgr. fellur brott.

V. KAFLI

Breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „úrskurðarnefndar skv. 2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „úrskurðarnefndar skv. 2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
     b.      2.–4. mgr. falla brott.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

9. gr.

    Í stað orðanna „47. gr. sömu laga“ í 3. tölul. 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

10. gr.

    Í stað orðanna „úrskurðarnefnd til úrlausnar skv. 141. gr.“ í 3. mgr. 15. gr. laganna kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.


11. gr.

    Í stað orðanna „úrskurðarnefnd skv. 141. gr.“ í lokamálsl. 1. mgr. 31. gr., 1. málsl. 2. mgr. 51. gr., 4. mgr. 76. gr., lokamálsl. 1. mgr. 94. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 124. gr. laganna kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

12. gr.

    141. og 141. gr. a laganna falla brott.

13. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019.

14. gr.

    XII. kafli laganna, Ágreiningur, fellur brott.

15. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015.

16 gr.

    4. mgr. 19. gr. og 20. gr. laganna falla brott.

17. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Með frumvarpinu er lagt til að breyta gildandi fyrirkomulag nokkurra úrskurðarnefnda.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Almennt.
    Með lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, er kveðið á um að skjóta megi ýmsum ágreiningi samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum en úrskurðarnefndin hafði við setningu laganna verið starfandi um nokkurt skeið á grundvelli samkomulags milli stjórnvalda, Neytendasamtakanna og vátryggingafélaga. Nefndin fjallar um ýmsan einkaréttarlegan ágreining við vátryggingafélög, m.a. varðandi bótaskyldu, þ.m.t. sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags og kveður upp rökstudda úrskurði. Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi gagnvart vátryggingafélögum nema viðkomandi félag tilkynni nefndinni og gagnaðila innan tveggja vikna með rökstuðningi að það hyggist ekki una úrskurðinum. Nefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
    Með lögum um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum, nr. 75/2010, varð sú breyting á lögunum að kveðið skyldi á um að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki starfaði samkvæmt samningi milli efnahags- og viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja, svo og samkvæmt samþykktum er hún setti sér. Með breytingalögunum var lagastoð skotið undir tilvist úrskurðarnefndarinnar sem var þegar starfandi á grundvelli samnings milli framangreindra aðila. Nefndin fjallar um ýmsan einkaréttarlegan ágreining við fjármálafyrirtæki og kveður upp rökstudda úrskurði. Fjármálafyrirtæki eru skuldbundin til að hlíta úrskurðum nefndarinnar nema úrskurður hafi veruleg útgjöld í för með sér eða hafi ríkt fordæmisgildi og er fjármálafyrirtækjum þá heimilt að tilkynna gagnaðila skriflega innan fjögurra vikna með rökstuðningi að það hyggist ekki sætta sig við úrskurð nefndarinnar. Nefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
    Með lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, er kveðið á um að viðskiptamönnum fasteignasala (kaupendum og seljendum) sé heimilt að bera ágreining um þóknun og skaðabótaskyldu fasteignasala undir eftirlitsnefnd fasteignasala og afla álits hennar um kæruefnið. Eftirlitsnefndin skilar skriflegu rökstuddu áliti.
    Með lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, voru í fyrsta skipti sett heildarlög um úrskurðaraðila utan dómstóla á sviði neytendamála. Með lögunum var komið á fót almennum úrskurðaraðila fyrir neytendur, kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, sem er bær til þess að úrskurða um allra handa ágreining sem neytendur eiga við seljendur vegna samninga um kaup á vörum eða þjónustu. Samkvæmt lögunum hefur nefndin lögsögu í öllum málum sem falla undir gildissvið laganna nema lögbundnir eða viðurkenndir úrskurðaraðilar hafi lögsögu. Með viðurkenndum úrskurðaraðilum er átt við frjálsa úrskurðaraðila sem stofnað er til af starfsgreinasamtökum og samtökum neytenda og sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra. Með viðurkenningu ráðherra geta frjálsir úrskurðaraðilar tekið lögsögu undan kærunefnd vöru- og þjónustukaupa ef þeir uppfylla gæðakröfur laganna og reglugerðar nr. 900/2019 um viðurkenningu frjálsra úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Með lögunum var skotið styrkari stoðum undir starfsemi frjálsra úrskurðaraðila og úrlausn einkaréttarlegs ágreinings neytenda við fyrirtæki.

2.2. Tilefni endurskoðunarinnar.
    Markmið frumvarpsins er að deilur neytenda við fjármálafyrirtæki, vátryggingafyrirtæki, vátryggingamiðlara og fasteignasala verði leystar hjá frjálsum viðurkenndum úrskurðaraðilum í stað lögbundinna úrskurðaraðila. Með því móti verður starfsemi úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki færð nær upprunalegu fyrirkomulagi með samningi starfsgreinasamtaka og samtaka neytenda án þess að skerða aðgengi neytenda að skilvirkri og faglegri málsmeðferð utan dómstóla. Markmiðið er jafnframt að leggja niður úrskurðarnefnd um dreifingu vátrygginga, en nefndin hefur ekki tekið til starfa og munu verkefni hennar að óbreyttu færast undir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa en að öðrum kosti undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum verði ákveðið að útvíkka gildissvið þeirrar nefndar. Markmið frumvarpsins er einnig að gera starfsemi eftirlitsnefndar fasteignasala skilvirkari og auka svigrúm hennar til eftirlits. Þá er markmið frumvarpsins að gera fyrirkomulag nefndanna skýrara í lagalegu tilliti og sveigjanlegra að því er varðar aðstöðu og rekstur. Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir að endurskoða megi hýsingu nefndanna, svo sem með þjónustusamningum við ráðherra eða með yfirtöku samtaka á rekstri þeirra. Nánar tiltekið eru ástæður endurskoðunarinnar eftirtaldar.

2.2.1. Óskýr stjórnsýsluleg staða úrskurðarnefnda.
    Í skýrslu forsætisráðuneytisins árið 2019 um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir eftir dr. Pál Hreinsson er fjallað um stjórnsýslulega stöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Í skýrslunni kemur fram að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi nokkra sérstöðu sérstöðu þar sem nefndunum hafi verið komið á fót með samningi en í framhaldi af því hafi verið sett ákvæði í lög um þær og er fyrirkomulag nefndanna talið óvenjulegt. Í skýrslunni eru nefndirnar taldar sjálfstæðar stjórnsýslunefndir. Í skýrslunni segir að draga megi í efa að skynsamlegt sé að koma nefnd á fót með einkaréttarlegum samningi og síðan með lögum. Þá kemur fram í skýrslunni að slíkt Janusareðli nefndar geti leitt til ágreinings um túlkun annars vegar á texta laganna og hins vegar hinna einkaréttarlegu ákvæða sem um hana gilda en þar á milli geti hæglega komið upp ósamræmi. Þó beri að hafa í huga að þar eigi lög jafnan að ganga framar.

2.2.2. Aðskilnaður stjórnsýslueftirlits og úrlausn einkaréttarlegs ágreinings.
    Eftirlitsnefnd fasteignasala sinnir bæði frumkvæðiseftirliti með fasteignasölum og úrlausn einkaréttarlegs ágreinings vegna þóknunar og skaðabóta á grundvelli innsendra kvartana. Talið er að verkefnin kunni að vera ósamrýmanleg, þ.e. að eftirlitsnefndin starfi annars vegar sem hlutlaus úrskurðaraðili og hins vegar sem eftirlitsaðili sem sinnir frumkvæðiseftirliti. Heppilegra er að skilja á milli eftirlits annars vegar og úrlausn ágreinings hins vegar. Með aðskilnaði er líklegra að aukið ráðrúm verði fyrir eftirlitsnefndina til að sinna eftirlitsverkefnum.

2.2.3. Bætt aðgengi neytenda að málsmeðferð utan dómstóla.
    Með tilkomu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er tryggt að neytendur hafi aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð og úrlausn einkaréttarlegs ágreinings sem fellur undir gildissvið laganna. Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa getur að flestu leyti úrskurðað um ágreining neytenda við seljendur í þeim málum sem eftirlitsnefnd fasteignasala, úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefnd um dreifingu vátrygginga úrskurða nú um. Samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, getur ráðherra ekki viðurkennt úrskurðaraðila sem er þegar kveðið á um í lögum. Til þess að frjálsir viðurkenndir úrskurðaraðilar geti tekið við hlutverki fyrrgreindra nefnda er nauðsynlegt að leggja þær niður í núverandi mynd með lögum. Auk framangreinds tryggir gæðakerfi laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð þegar um er að ræða frjálsa viðurkennda úrskurðaraðila. Gæði málsmeðferðar hjá úrskurðaraðila versna því ekki við að verkefni þeirra verði færð til frjálsra viðurkenndra úrskurðaraðila.

2.2.4. Frávísunarákvæði laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019.
    Lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, voru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB.
    Í c-lið 1. mgr. 14. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, segir að viðurkenndir úrskurðaraðilar og kærunefnd vöru- og þjónustukaupa geti vísað málum frá þegar kvörtun hefur verið eða er til umfjöllunar hjá dómstóli eða öðrum úrskurðaraðila samkvæmt lögunum. Tilvísun ákvæðisins til annarra úrskurðaraðila er ekki nógu nákvæm og getur boðið upp á þá túlkun að heimilt sé að vísa frá málum ef þau heyra undir úrskurðaraðila sem hafa ekki verið tilkynntir eða viðurkenndir samkvæmt lögunum. Í slíku tilfelli er ekki tryggt að neytandi hafi aðgang að málsmeðferð sem uppfyllir kröfur tilskipunarinnar. Er sú aðstaða til þess fallin að vera í andstöðu við II. kafla tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB um lausn deilumála neytenda utan dómstóla.
    Í 2. mgr. 16. gr. laganna segir að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa skuli vísa frá kvörtun sem heyrir undir eða er til meðferðar hjá öðrum lögbundnum eða viðurkenndum úrskurðaraðila. Í fyrsta lagi er ekki samræmi milli 14. og 16. gr. laganna. Í öðru ákvæðinu er kveðið á um skyldu til frávísunar en í hinu heimild til frávísunar þótt efnislega sé fjallað um sama tilvik. Skýrara væri að kveða einungis á um skyldu til frávísunar. Í öðru lagi er hætta er á að kærunefndin vísi máli frá sem heyrir undir lögbundinn aðila sem hefur ekki verið tilkynntur. Í slíku tilfelli gæti neytandi hvergi fengið úrlausn einkaréttarlegs ágreinings nema hjá dómstólum. Sú staða er einnig í andstöðu við II. kafla tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB um lausn deilumála neytenda utan dómstóla.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í I. kafla er lagt til að breyta 1. mgr. 14. gr. og fell brott 2. mgr. 16. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, til þess að gera frávísunarákvæði laganna skýrari. Með breytingunni er stefnt að því að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB um lausn deilumála neytenda utan dómstóla verði réttilega innleidd og að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að faglegri og skilvirkri málsmeðferð utan dómstóla vegna ágreinings við seljendur sem fellur undir gildissvið laganna.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í II.–VI. kafla varða allar lög sem fjalla með einum eða öðrum hætti um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Lagt er til að afnema ákvæði um nefndina úr lögum og þar með skylduaðild fjármálafyrirtækja að nefndinni. Í stað úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki er lagt til að neytendum verði vísað á þann úrskurðaraðila sem er bær til að taka ágreining neytenda til meðferðar samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Þar getur verið eftir atvikum um að ræða frjálsan viðurkenndan úrskurðaraðila, eins og gert er ráð fyrir að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki verði, eða kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.
    Í VII.–VIII. kafla er lagt til að fella úr gildi ákvæði laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, og laga um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, sem fjalla um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og úrskurðarnefnd um dreifingu vátrygginga. Lagt er til að í stað vísunar til úrskurðarnefndanna komi vísun til viðeigandi úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Þar getur verið eftir atvikum um að ræða frjálsan viðurkenndan úrskurðaraðila, eins og gert er ráð fyrir að úrskurðarnefnd um í vátryggingamálum verði, eða kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.
    Í IX. kafla er lagt til að fella brott ákvæði laga um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, sem fjalla um meðferð eftirlitsnefndar fasteignasala á kvörtunum seljanda eða kaupanda vegna tjóns af störfum fasteignasala eða ágreinings um þóknun fasteignasala. Gert er ráð fyrir að neytendur geti framvegis beint kvörtunum vegna slíks ágreinings til frjáls viðurkennds úrskurðaraðila eða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.
    Að lokum er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. september 2021. Er það lagt til svo að starfsgreinasamtökum og samtökum neytenda gefist nægur tími til að endurskipuleggja starf nefndanna og sækja um viðurkenningu þeirra samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Með þessu móti er tryggt að nefndirnar verði eftir atvikum viðurkenndar fyrir gildistöku laganna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstaka ástæðu til að ætla að það fari gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir neytendur, starfsemi eftirlitsnefndar fasteignasala, úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og starfsgreinasamtök á sviði fjármálamarkaðar og fasteignasölu.
    Sérstakt samráð var haft við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefndar um dreifingu vátrygginga. Þá var samráð haft við Neytendasamtökin, Samtök fjármálafyrirtækja og Félag fasteignasala við ritun frumvarpsins.
    Áform um lagasetninguna kynnt öðrum ráðuneytum sérstaklega 20. ágúst sl. og fóru í framhaldinu í formlegt innra samráð milli ráðuneyta í sama mánuði, en engar athugasemdir bárust. Áformin voru ekki birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem endanlegar tillögur að lagabreytingum lágu ekki fyrir á þeim tíma.
    Drög frumvarpsins voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 4. nóvember 2020 og frestur til umsagna veittur til 18. nóvember 2020 (mál nr. S-237/2020). Engar umsagnir bárust í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið samþykkt verður ekki lengur kveðið á um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefnd um dreifingu vátrygginga í lögum. Með breytingunni verður starfsgreinasamtökum og samtökum neytenda gert kleift að semja um stofnun frjálsra úrskurðaraðila og sækja um viðurkenningu ráðherra. Þá mun eftirlitsnefnd fasteignasala ekki lengur fjalla um einkaréttarlegan ágreining vegna starfa fasteignasala. Með breytingunni verður Félagi fasteignasala og samtökum neytenda gert kleift að semja um stofnun úrskurðaraðila vegna þjónustu fasteignasala.
    Áformað er að nýta svigrúm sem þannig myndast til að endurskoða fyrirkomulag nefndanna, þ.m.t. daglegan rekstur og hýsingu þeirra eftir atvikum.
    Samþykkt frumvarpsins mun ekki skerða aðgengi neytenda að úrlausn einkaréttarlegs ágreinings utan dómstóla þar sem tryggt er að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa getur tekið nær allan ágreining til meðferðar sem úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, úrskurðarnefnd um dreifingu vátrygginga og eftirlitsnefnd fasteignasala tók áður til meðferðar. Auk þess er gert ráð fyrir að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum muni starfa áfram í breyttri mynd og þá sem frjálsir viðurkenndir úrskurðaraðilar og ættu áhrif á þá málaflokka því að vera takmörkuð.
    Gert er ráð fyrir að fjárhagsáhrif verði óveruleg en að þau verði fremur til þess fallin að draga úr kostnaði ríkissjóðs en að auka hann. Kostnaði vegna mögulegra þjónustusamninga við frjáls félagasamtök eða starfsgreinasamtök verður ráðstafað innan núverandi útgjaldaramma.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að gera frávísunarákvæði laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, skýrari en þau eru nú. Lagt er til að viðurkenndir úrskurðaraðilar og kærunefnd vöru- og þjónustukaupa skuli vísa frá málum sem eiga undir lögsögu annarra viðurkenndra eða lögbundinna úrskurðaraðila sem hafa verið skráðir og tilkynntir skv. 1. mgr. 12. gr., sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þessi frávísunarskylda á einnig við í þeim tilfellum sem viðurkenndur eða lögbundinn úrskurðaraðili sem ágreiningurinn heyrir undir hefur vísað málinu frá á þeim grundvelli að virði kröfu er undir eða yfir skilgreindum fjárhæðarmörkum, sbr. d-lið 1. mgr. 14. gr. laganna.
    Auk þess er lagt til að viðurkenndir úrskurðaraðilar eða kærunefnd vöru- og þjónustukaupa skuli vísa frá málum sem eiga undir lögsögu erlenda úrskurðaraðila sem eru á skrá yfir tilkynnta úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu er átt við skrá skv. 3. mgr. 6. gr. laganna en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birtir skrána, sbr. 4. mgr. 20. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB um lausn deilumála neytenda utan dómstóla.
    
Einnig er kveðið á um að viðurkenndir úrskurðaraðilar skuli vísa máli frá ef það á undir lögsögu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.
    Að lokum er lagt til að skylt verði að vísa frá málum sem eiga undir lögsögu dómstóla.
    Í öllum fyrrgreindum tilfellum er lagt til að máli beri að vísa frá ef kvörtun heyrir undir, er til meðferðar hjá eða hefur hlotið meðferð hjá fyrrgreindum aðilum. Um tilefni breytinganna vísast að öðru leyti til skýringa í kafla 2.2.

Um 2.–3. gr.

    Í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. er lagt til að 2. mgr. 16. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála verði felld brott og tilvísunum í c-lið 2. mgr. 17. gr. laganna verði breytt til samræmis.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að fella brott ákvæði um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 160/2002. Í samræmi við þá breytingu er lagt til að breyta ákvæði 1. mgr. 19. gr. a laganna um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja um réttarúrræði. Fjármálafyrirtæki þurfa framvegis að hafa aðgengilegar upplýsingar um viðeigandi nefndir sem neytendur geta leitað til, m.a. samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019.

Um 5.–8. gr.

    Með greinunum er lagt til að breyta öðrum lögum þar sem fjallað er um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og upplýsingaskyldu um hana. Breytingarnar eru með svipuðu sniði og í 3. gr.

Um 9.–15. gr.

    Með 9.–11. gr. er lagt til að í stað þess að vísa til úrskurðarnefndar um dreifingu vátrygginga í lögum um vátryggingarsamninga og úrskurðarnefndar í vátryggingamálum verði vísað til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
    Í 12.–14. gr. er lagt til að felldar verði brott 141. og 141. gr. a laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, auk ákvæðis til bráðabirgða við lögin um skipan úrskurðarnefndar um dreifingu vátrygginga. Einnig falli brott XII. kafli laga um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, þar sem kveðið er á um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og úrskurðarnefnd um dreifingu vátrygginga.
    Í 15. gr. er lagt til að ákvæði til bráðabirgða II í lögum um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, sem kveður á um skipan úrskurðarnefndar um dreifingu vátrygginga, falli brott í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í 14. gr.

Um 16. gr.

    Með greininni er lagt til að breyta hlutverki eftirlitsnefndar fasteignasala á þann hátt að nefndin taki ekki lengur til meðferðar einkaréttarlegan ágreining um þóknun eða tjón vegna starfa fasteignasala.

Um 17. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. september 2021 svo að starfsgreinasamtök og samtök neytenda hafi ráðrúm til að sækja um viðurkenningu úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, áður en lögin taka gildi.