Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 648  —  372. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og lögum um fjársýsluskatt (fjármálaþjónusta o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 16. desember.)


I. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      9. tölul. fellur brott.
     b.      10. tölul. orðast svo: Sala á og milliganga um fjármálaþjónustu, þó ekki eignaleigu lausafjár, útleigu geymsluhólfa eða ráðgjafarþjónustu, tækniþjónustu og aðra þjónustu sem ekki er veitt í beinum tengslum við sölu fjármálaþjónustu. Undir ákvæðið fellur m.a.:
                  a.      vátryggingastarfsemi og dreifing vátrygginga,
                  b.      móttaka innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi,
                  c.      útlánastarfsemi,
                  d.      greiðsluþjónusta,
                  e.      viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti,
                  f.      rekstur verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða,
                  g.      útgáfa rafeyris.

2. gr.

    Orðin „9. og“ í 7. málsl. 2. mgr. 3. gr. og í g-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 25. gr. laganna:
     a.      2. málsl. orðast svo: Endurgreiðsla má þó aðeins fara fram ef álagning virðisaukaskatts á fyrra uppgjörstímabili, einu eða fleiri, er ekki byggð á áætlun skv. 2. málsl. 2. mgr. þessarar greinar eða 1.–3. mgr. 26. gr.
     b.      3. málsl. fellur brott.

4. gr.

    Í stað „50 g“, „55 g“ og „60 g“ í 2. tölul. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum kemur: 40 g; 45 g; og: 50 g.

5. gr.

    Í stað orðanna „til og með 31. desember 2018“ í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIX í lögunum kemur: frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023.

6. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2020“ í 1.–4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIV í lögunum kemur: 31. desember 2021.

7. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 13. gr. er á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 heimilt að falla frá eða fresta innheimtu og skilum á virðisaukaskatti vegna sölu skattskyldrar þjónustu sem innt er af hendi á grundvelli skriflegra samninga til a.m.k. tveggja ára um fasteignaleigu og til a.m.k. sex mánaða um aðstöðuleigu og leigu lausafjármuna að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:
     a.      Leigutaki á við verulega rekstrarörðugleika að stríða á tímabilinu vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innan lands og á heimsvísu sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru.
     b.      Fyrir liggur skriflegur samningur milli leigusala og leigutaka um tímabundna niðurfellingu leigugjalds eða um tímabundna frestun á innheimtu þess vegna rekstrarörðugleika leigutaka, sbr. a-lið. Í samningi aðila skulu m.a. koma fram upplýsingar um viðkomandi fasteign eða leigumun, þar á meðal heimilisfang og fastanúmer fasteignar og skráningarnúmer leigumunar, ef um það er að ræða, leigutímabil, leigufjárhæðir og um upphaf og áætluð lok þess tímabils sem samningur kveður á um. Leigusali skal senda afrit samnings til Skattsins með skilum á virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga þess uppgjörstímabils þegar samningur er undirritaður eða eigi síðar en 31. desember 2021.
     c.      Leigusali fasteignar hefur fengið heimild til frjálsrar skráningar á virðisaukaskattsskrá, sbr. ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga þessara og II. kafla reglugerðar nr. 577/1989 um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.
    Kveði samningur skv. b-lið 1. mgr. á um frestun á innheimtu leigugjalds skal uppgjör virðisaukaskatts af leigugjaldinu fara fram með skilum á virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga næsta uppgjörstímabils eftir að samkomulagið fellur úr gildi en í síðasta lagi 5. febrúar 2022.
    Að uppfylltum skilyrðum a–c-liðar 1. mgr. er leigusala heimilt að bakfæra skattskylda veltu og útskatt vegna ógreiddra leigugjalda frá og með 1. mars 2020 enda skili hann skýrslu vegna þess uppgjörstímabils sem óskast leiðrétt á fyrsta uppgjörstímabili eftir gildistöku ákvæðisins. Samhliða bakfærslu skv. 1. málsl. skal fara fram leiðrétting á innskatti leigutaka vegna ógreiddra leigugreiðslna.
    Samningar milli tengdra aðila, sbr. 9. gr., ganga ekki gegn þessu ákvæði.

    b. (II.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skal sala á stökum aðgangi að streymi frá tónleikum, listdanssýningum og leiksýningum, sbr. 2. málsl. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr., vera undanþegin virðisaukaskatti á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 30. júní 2021, enda sé um einskiptissölu að ræða og aðgangur að upptöku af atburðinum ekki aðgengilegur lengur en í 48 klst. frá kl. 12 daginn eftir að viðburði lýkur. Jafnframt er skilyrði að viðburður sem streymt er frá sé háður fjöldatakmörkunum vegna sóttvarnaráðstafana, sbr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.

II. KAFLI
Breyting á lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.
8. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „9. tölul.“ í 1. tölul. 2. gr. laganna kemur: 10. tölul.

9. gr.

    Orðin „9. og“ í 2. tölul. 5. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021. Þó öðlast 7. gr. þegar gildi.