Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 824  —  493. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2020.


1. Inngangur.
    Meginviðfangsefni Evrópuráðsþingsins á árinu 2020 voru áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á málefnasvið Evrópuráðsins, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Einnig fjallaði þingið m.a. um jafnréttismál, málefni flóttamanna, áhrif þróunar gervigreindar, mótmæli í kjölfar forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi og vopnuð átök í Nagorno-Karabakh.
    Fyrsti þingfundur ársins var að venju haldinn í Strassborg í janúar en eftir að heimsfaraldur kórónuveiru breiddist út í aðildarríkjum Evrópuráðsins færðust fundir Evrópuráðsþingsins yfir í fjarfundi. Evrópuráðsþingið brást hratt við aðstæðum og stjórnarnefnd þingsins samþykkti afbrigði við starfsreglur þingsins í byrjun maí sem gerðu nefndum kleift að funda með fjarfundarbúnaði. Í nóvember samþykkti stjórnarnefnd breytingar á starfsreglum þingsins þar sem bætt var við ákvæðum um fyrirkomulag fjarfunda þingsins. Þingið nýtti fjarfundarbúnaðinn KUDO, sem gerir þinginu kleift að greiða atkvæði um ályktanir og túlka fundi á öll sex tungumál þingsins. Skrifstofa þingsins átti gott samstarf við starfsmenn í hugbúnaðarþróun fyrir KUDO og gat komið með sínar óskir um virkni búnaðarins. Nefndastarf þingsins tók fljótt við sér og þingmenn voru virkir og afkastamiklir. Alls samþykkti þingið 47 ályktanir og tilmæli á árinu eftir að fundir í raunheimum lögðust af.
    Íslandsdeild var að venju virk í starfi þingsins og tóku meðlimir þátt í fjölda fjarfunda nefnda. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu um pólitíska fanga í Aserbaísjan á þingfundi í janúar og Rósa Björk Brynjólfsdóttir var framsögumaður skýrslu um skilvirkt gæslumannakerfi fyrir fylgdarlaus börn í Evrópu á fjarfundi stjórnarnefndar í desember. Þess utan voru þær skipaðar framsögumenn fyrir fimm skýrslur til viðbótar og sinntu vinnu við þær. Rósa Björk gegndi einnig embætti varaformanns nefndar um fólksflutninga og málefni flóttamanna á árinu.
    Á fyrsta fjarfundi stjórnarnefndar þingsins var samhljómur meðal þingmanna um að fylgjast með áhrifum heimsfaraldursins á málefnasvið Evrópuráðsþingsins, á stöðu mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins í Evrópu. Í sérstakri umræðu um faraldurinn kom fram að sóttvarnaaðgerðir hefðu óhjákvæmilega í för með sér skerðingu á frelsi borgaranna auk þess sem þjóðþing ættu mörg hver erfitt með að starfa eðlilega. Standa þyrfti vörð um þrískiptingu ríkisvalds í aðildarríkjunum og tryggja aðhald með valdhöfum. Í ályktun sinni í júní ítrekaði stjórnarnefnd að takmörk á frelsi almennings þyrftu að vera nauðsynleg, tímabundin og í stöðugri endurskoðun. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, ávarpaði fund stjórnarnefndar, fór yfir stöðu faraldursins á heimsvísu, aðgerðir stofnunarinnar í baráttunni gegn honum og horfur í þeim efnum. Í október samþykkti þingið ályktanir um áhrif faraldursins á lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og stöðu flóttafólks. Ángel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, fór yfir hagræn áhrif faraldursins og brýndi fyrir þingmönnum að nauðsynlegt væri að útrýma veirunni til að vernda efnahagslífið.
    Þrátt fyrir að heimsfaraldurinn væri fyrirferðamikill settu stórpólitískir viðburðir í Evrópu svip sinn á starf þingsins. Harkaleg viðbrögð stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi við mótmælum í kjölfar forsetakosninga þar í landi í ágúst voru rædd á stjórnarnefndarfundi í september. Þingið samþykkti yfirlýsingu þar sem kallað var eftir lýðræðislegum umbótum í Hvíta-Rússlandi. Einnig gáfu framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, forseti Evrópuráðsþingsins og forseti ráðherranefndarinnar út sameiginlega yfirlýsingu þar sem ofbeldi stjórnvalda gagnvart mótmælendum var fordæmt. Meðlimir Íslandsdeildar voru auk þess aðilar að yfirlýsingu landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslanda á Evrópuráðsþinginu um málið. Í október tók stjórnarnefnd sérstaklega fyrir vopnuð átök í Nagorno-Karabakh-héraði og aðgerðir tyrkneskra stjórnvalda gegn stjórnarandstöðu í landinu.
    Þrátt fyrir þessa miklu virkni þingsins var ákveðið hlutverk þingsins sem lá niðri á árinu. Þingið er sú stofnun Evrópuráðsins sem velur dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og kýs til embætta Evrópuráðsins. Starfsreglur þingsins kváðu á um að kosningar til embætta skyldu fara fram í þingsal með atkvæðaseðlum í eigin persónu. Ný ákvæði starfsreglna, sem samþykkt voru í nóvember, gerðu þinginu kleift að kjósa í embætti og velja dómara með rafrænu kosningakerfi í þeim tilvikum þegar þingfundur er haldinn með fjarfundarbúnaði. Sem betur fór hafði þessi töf ekki áhrif á starfshæfni Mannréttindadómstólsins þar sem reglur kveða á um að fráfarandi dómari sitji þar til staðgengill hans hefur tekið við.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 af tíu Vestur-Evrópuríkjum. Aðildarríkin eru nú 47 talsins með samtals um 800 milljónir íbúa og mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með það að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Mannréttindasáttmálinn er þeirra þekktastur og á honum grundvallast Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn tekur til meðferðar kærur frá aðildarríkjum, einstaklingum og hópum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmálans og eru dómar hans bindandi að þjóðarétti fyrir viðkomandi ríki.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007.
    Framkvæmdavald Evrópuráðsins er í höndum ráðherranefndarinnar, en í henni sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna eða fastafulltrúar þeirra í Strassborg. Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga aðildarríkjanna en einnig hafa sveitar- og héraðsstjórnir aðildarríkjanna samráð á Ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Á Evrópuráðsþinginu eiga 324 fulltrúar sæti og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Hlutverk þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúlsamningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins. Istanbúlsamningurinn tók gildi árið 2014 og Ísland fullgilti hann í apríl 2018.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins árið 2020 voru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Pírata, og Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Miðflokksins. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
          Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Stjórnarnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Laga- og mannréttindanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
          Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Bergþór Ólason.
          Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Bergþór Ólason.
          Jafnréttisnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    Flokkahópar Evrópuráðsþingsins skipuðu Íslandsdeildarmeðlimi í eftirfarandi nefndir:
          Reglunefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
          Eftirlitsnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Birgir Þórarinsson.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var kjörinn varaformaður nefndar um fólksflutninga og málefni flóttamanna í janúar. Hún var jafnframt tengiliður Alþingis við herferð Evrópuráðsþingsins um afnám ofbeldis gegn konum og skipuð í undirnefnd stjórnmálanefndar um málefni Miðausturlanda. Rósa Björk sótti málstofu um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi í Rússlandi í Jekaterínbúrg í febrúar. Auk þess sat hún tvo fjarfundi sameiginlegrar nefndar Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins í júní og í október og fjarfund formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslanda innan Evrópuráðsþingsins í ágúst. Á árinu var Rósa Björk skipuð framsögumaður skýrslu um hlutverk Evrópuráðsins í stjórnmálum Evrópu og skýrslu um kynjasjónarmið í stefnu um málefni flóttamanna. Hún var einnig skipuð annar tveggja framsögumanna skýrslu um framfylgd skuldbindinga Möltu gagnvart Evrópuráðinu.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók þátt í kosningaeftirliti á vegum Evrópuráðsþingsins í Aserbaísjan í febrúar. Hún var einnig skipuð framsögumaður skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi og skýrslu um nauðsyn þess að styrkja fjármálaeftirlitsstofnanir.
    Landsdeildir Norðurlanda og Eystrasaltslanda á Evrópuráðsþinginu gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um málefni Hvíta-Rússlands í september. Í yfirlýsingunni kom fram að forsetakosningar þar í landi í ágúst hefðu verið langt frá því að uppfylla alþjóðlega viðurkennda staðla lýðræðis og réttarríkja. Þingmennirnir kölluðu eftir því að hvítrússnesk stjórnvöld létu tafarlaust af kúgun og ofsóknum á hendur mótmælendum, létu lausa alla pólitíska fanga og rannsökuðu ofbeldisverk lögreglunnar. Þingmennirnir ítrekuðu stuðning sinn við fullveldi Hvíta-Rússlands og velferð og réttindi hvítrússnesku þjóðarinnar. Yfirlýsingunni var komið á framfæri við forseta Evrópuráðsþingsins og framkvæmdastjóra Evrópuráðsins auk þess sem hún var birt á vefsíðum þjóðþinganna átta og send öllum landsdeildum á Evrópuráðsþinginu.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2020.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru að jafnaði haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 27.–31. janúar 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, varamaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins voru m.a. mál pólitískra fanga í Aserbaísjan, virkni lýðræðisins í Póllandi og sameiginleg viðbrögð þingsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins við brotum gegn skuldbindingum aðildarríkja.
    Á fyrsta degi þingsins var Rik Daems, þingmaður frá Belgíu og formaður flokkahóps frjálslyndra, kjörinn forseti þingsins. Í ávarpi sínu lagði Daems áherslu á að þingmennirnir sameinuðust um gildi Evrópuráðsins frekar en að þjóna hagsmunum ríkja sinna. Hann kallaði eftir nýrri bókun við mannréttindasáttmála Evrópu um loftslagsmál og sagðist mundu vinna ötullega að framgangi og innleiðingu Istanbúlsamningsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Auk þess lýsti Daems því yfir að hann hygðist heimsækja öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins í þeim tilgangi að auka þekkingu þjóðþinganna á Evrópuráðsþinginu.
    Við upphaf þingfundar voru gerðar athugasemdir við kjörbréf sex landsdeilda á grundvelli þess að þær brytu gegn ákvæði starfsreglna þingsins um kynjahlutföll landsdeilda. Auk þess voru gerðar athugasemdir við kjörbréf tveggja landsdeilda til viðbótar á grundvelli ákvæðis um hlutfall stjórnmálaflokka í landsdeildum. Í kjölfar umfjöllunar reglunefndar um málin voru kjörbréf allra landsdeildanna staðfest og vísað til þess að aðeins væri hægt að gera athugasemdir við kjörbréf ef engin kona væri aðalmaður landsdeildar. Einnig voru gerðar athugasemdir við kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar bæði á efnislegum og formlegum grundvelli. Þingfundur staðfesti kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar en í ályktun sinni ítrekaði þingið afstöðu sína gagnvart ólöglegri innlimun Krímskaga. Pjotr Tolstoj, formaður landsdeildar Rússlands, var kjörinn einn 20 varaforseta Evrópuráðsþingsins í annarri umferð atkvæðagreiðslu.
    Birgir Þórarinsson tók þátt í umræðum um kosningaeftirlit í Hvíta-Rússlandi. Hann lýsti vonbrigðum sínum með það hvernig staðið hefði verið að kosningunum í landinu, sem hvorki hefðu verið frjálsar né gagnsæjar. Niðurstaðan hefði verið að enginn meðlimur stjórnarandstöðunnar hefði verið kjörinn á þing. Nauðsynlegt væri fyrir Vesturlönd að íhuga hvaða áhrif þetta hefði á samskipti þeirra við Hvíta-Rússland. Í umræðum um skýrslu framkvæmdastjórnar þingsins talaði Rósa Björk Brynjólfsdóttir fyrir hönd flokkahóps vinstri manna. Hún sagði mikilvægt að Evrópuráðsþingið héldi kynjajafnrétti á lofti og hvetti aðildarríki til að fylgja ákvæðum starfsreglna um kynjahlutfall sendinefnda.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður ályktunar um pólitíska fanga í Aserbaísjan. Þingið lýsti því yfir að það væri hafið yfir allan vafa að í Aserbaísjan væru pólitískir fangar og að það væri staðfest af Mannréttindadómstól Evrópu. Vandamálið ætti rætur að rekja til kerfisbundinna galla í dómskerfinu og pólitískra áhrifa á dómstóla. Þingið kallaði eftir því að óháðir aðilar færu yfir mál meintra pólitískra fanga og að allir pólitískir fangar, samkvæmt skilgreiningu þingsins frá 2012, yrðu látnir lausir. Í ræðu sinni sagði Þórhildur Sunna ekkert annað aðildarríki Evrópuráðsins hafa hundsað jafnlengi tilmæli um umbætur. Fordæmalausum dómi Mannréttindadómstólsins hefði ekki verið framfylgt og meðlimum stjórnarandstöðu væri meinað að taka þátt í kosningum. Ef asersk stjórnvöld horfðust ekki í augu við vandamálið væri aðild þeirra að Evrópuráðinu í hættu. Þórhildur Sunna sagðist vonast til þess að ályktun þingsins yrði stjórnvöldum í Aserbaísjan hvatning til að gera þær umbætur sem til þyrfti.
    Evrópuráðsþingið samþykkti að hefja virkt eftirlit með framfylgd Póllands á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu. Í ályktun þingsins kom fram að nýlegar umbætur á dómskerfinu hefðu dregið alvarlega úr sjálfstæði dómstólanna. Í ræðu sinni sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að sjálfstæði dómstólanna væri ein grundvallarstoð lýðræðisins. Með því að hindra að vald safnaðist á fárra hendur væri almenningur verndaður gagnvart misbeitingu valdsins. Hún ítrekaði að öryggi Pólverja væri helsta áhyggjuefni þingsins. Þingið bæði nú pólsk stjórnvöld um að halda áfram að standa vörð um gildi Evrópuráðsins og taka þátt í starfi þess.
    Drög að ályktun og tilmælum um trúfrelsi á vinnustað vöktu talsverðar umræður. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talaði fyrir hönd flokkahóps sósíalista og græningja og benti á að trúfrelsi einstaklingsins mætti ekki vera æðra réttindum annarra. Þannig mætti skilja ályktunina sem svo að einstaklingum væri frjálst að mismuna öðrum, t.d. samkynhneigðum eða konum, á grundvelli eigin trúar. Dómar Mannréttindadómstólsins sýndu hins vegar fram á að dómstóllinn áliti réttinn til trúfrelsis ekki mega brjóta á réttindum annarra. Birgir Þórarinsson benti á að aukinn réttur einstaklinga til að iðka trú sína í starfi yki vellíðan í starfi og bætti ímynd fyrirtækja. Að þvinga einstaklinga til að ganga gegn trú sinni í starfi hefði neikvæð áhrif á geðheilsu og ylli ágreiningi á vinnustað. Vinnuveitendur þyrftu að skipuleggja starfið þannig að viðskiptavinum væri tryggð þjónusta á sama tíma og enginn væri þvingaður til að velja á milli þess að ganga gegn trúarskoðunum sínum eða missa lífsviðurværi sitt. Í meðförum þingsins tók ályktunin nokkrum breytingum og í samþykktri útgáfu voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að tryggja að vinnustaðir mismunuðu ekki starfsfólki sínu á grundvelli trúar þeirra. Drögum að tilmælum til ráðherranefndarinnar var hafnað.
    Í ályktun þingsins um fjölmiðlafrelsi og öryggi fjölmiðlafólks í Evrópu var ítrekað að tjáningarfrelsi og frjáls fjölmiðlun væri forsenda lýðræðis. Þingið hvatti aðildarríki til að rannsaka að fullu glæpi gegn fjölmiðlafólki auk þess að berjast gegn áreitni gagnvart fjölmiðlafólki á netinu, sérstaklega gagnvart fjölmiðlakonum og fólki sem tilheyrir minnihlutahópum. Einnig hvatti þingið aðildarríkin til að endurskoða löggjöf sína þannig að fjölmiðlafrelsi væri haft í hávegum, til að mynda í tengslum við lög um guðlast og ærumeiðingar og lög um varnir gegn hryðjuverkum. Í ræðu sinni ítrekaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að ekkert aðildarríki Evrópuráðsins væri saklaust þegar kæmi að takmörkunum á tjáningarfrelsi fjölmiðla. Íslenskur fjölmiðill hefði fengið á sig lögbann skömmu fyrir kosningar vegna umfjöllunar sinnar um tengsl forsætisráðherra við grunsamlega fjármálagjörninga í aðdraganda íslenska efnahagshrunsins. Dómstólar hefðu ógilt lögbannið og bent á að það hefði mögulega haft áhrif á niðurstöður kosninga þar sem almenningur hefði ekki fengið upplýsingar sem hann hefði átt rétt á. Rósa Björk Brynjólfsdóttir benti á að alvarlegum tilvikum ógnana við líf fjölmiðlafólks færi fjölgandi og einhverjir fjölmiðlamenn væru undir stöðugri vernd lögreglu. Nauðsynlegt væri að snúa þessari ógnvekjandi þróun við.
    Þingið tók til sérstakrar umfjöllunar stöðu barna fólks sem gengið hefði til liðs við hryðjuverkasamtökin sem kalla sig Íslamskt ríki. Í ályktun þingsins var kallað eftir því að aðildarríki Evrópuráðsþingsins flyttu börnin heim án tafar með vísun í skuldbindingar landanna gagnvart sáttmálum Evrópuráðsins og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ítrekað var að börnin bæru ekki ábyrgð á ákvörðunum foreldra sinna eða aðstæðum sínum. Rósa Björk Brynjólfsdóttir benti á að málið væri í raun einfalt. Aðildarríki Evrópuráðsins hefðu skuldbundið sig til að verja réttindi barna. Líkt og kæmi fram í skýrslunni væri heimkoma þeirra líka í þágu þjóðaröryggis til framtíðar.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók einnig til máls í sameiginlegri umræðu um ályktanir um aðgerðir gegn mansali og smygli á fólki annars vegar og horfin börn á faraldsfæti hins vegar. Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga aðildarríkja, ólöglega verslun með líffæri og vefi, ígræðsluferðamennsku og um áhrif tækniþróunar á netinu á lýðræðið. Þá hélt þingið sérstaka umræðu um stjórnmálaþróun í Líbíu og Miðausturlöndum.
    David Zalkaliani, utanríkisráðherra Georgíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins og Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti skýrslu sína. Einnig ávörpuðu þingið Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, og Igor Dodon, forseti Moldóvu. Mattias Guyomar var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Frakkland. Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með landsdeildum Norðurlanda og Eystrasaltslanda.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París 6. mars 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður. Samhliða stjórnarnefndarfundi fundaði sameiginleg nefnd þingsins og ráðherranefndarinnar um frambjóðendur til embættis varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Stjórnarnefnd samþykkti ályktun um baráttu gegn ofbeldi og mismunun gagnvart trúarlegum minnihlutahópum meðal flóttamanna í Evrópu.

Fjarfundir stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 30. apríl og 7. maí 2020.
    Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins fundaði með fjarfundarbúnaði og teygðist dagskrá fundarins yfir tvo fundardaga. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundunum Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru viðbrögð aðildarríkja Evrópuráðsins við heimsfaraldri kórónuveiru og afbrigði við starfsreglur þingsins til að gera Evrópuráðsþinginu kleift að funda með fjarfundarbúnaði.
    Stjórnarnefnd samþykkti að halda sérstaka umræðu um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru með tilliti til mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins. Framsögumaður, Jacques Maire, þingmaður frá Frakklandi, sagði alla geta sammælst um að Evrópuráðsþingið ætti að standa vörð um lýðræðið á þessum erfiðleikatímum. Fjölmörg aðildarlönd Evrópuráðsins hefðu lýst yfir neyðarástandi og aukið þannig vægi framkvæmdarvaldsins á kostnað dómstóla og þjóðþinga. Þrískipting ríkisvaldsins væri óljósari og aðhald með valdhöfum væri minna. Aðgerðir stjórnvalda í álfunni hefðu takmarkað frelsi almennra borgara, t.d. ferðafrelsi, samkomufrelsi, réttinn til að sækja um hæli og réttindi barna, auk þess sem þær hefðu valdið áhyggjum af öryggi gagna og persónuupplýsinga. Mikilvægast væri að takmarkanir á frelsi almennra borgara væru tímabundnar, nauðsynlegar og löglegar. Aðhald löggjafans með framkvæmdarvaldinu yrði að tryggja. Í umræðum kom fram að heimsfaraldurinn hefði þegar þróast úr heilbrigðisvanda í efnahagskreppu og að það væri stjórnmálamanna að koma í veg fyrir að hann þróaðist í mannréttindavanda.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði nauðsynlegt að hafa í huga áhrif aðgerða stjórnvalda á jaðarhópa í samfélaginu. Til að mynda bærust fréttir af vaxandi heimilisofbeldi í tengslum við útgöngubann og samkomubann. Rósa Björk sagði þingmenn gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn heimilisofbeldi, m.a. með því að tryggja fjárveitingar til athvarfa og aðgengi að aðstoð í hjálparsíma. Sérstaklega væru aðstæður flóttafólks í móttökulöndum Evrópusambandsins alvarlegar. Heilbrigðisþjónustu hefði hrakað vegna álags á heilbrigðiskerfi Evrópulanda af völdum heimsfaraldursins og smithætta væri mikil í fjölmennum flóttamannabúðum. Auk þess hefðu mörg ríki norðar í álfunni stöðvað móttöku flóttamanna og þannig lengdist sá tími sem flóttamenn mættu sitja í flóttamannabúðum í suðurhluta álfunnar. Hún tók undir ákall tveggja breskra þingmanna, Dundee lávarðar, sem sat á Evrópuráðsþinginu, og Dubs lávarðar, sem sat á ÖSE-þinginu, um að Evrópulönd tækju þegar til sín fylgdarlaus börn sem byggju við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðum á grísku eyjunum.
    Fyrir fundi lá samþykkt framkvæmdastjórnar um fyrirkomulag fjarfunda í nefndum þingsins. Stjórnarnefnd staðfesti þessa samþykkt og heimilaði þannig ákvarðanatöku nefnda með fjarfundarbúnaði. Einnig samþykkti stjórnarnefnd að fela fimm málefnanefndum þingsins að fjalla um afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveiru fyrir stjórnmál og lýðræði, mannréttindi, heilbrigðismál, jafnréttismál og málefni flóttamanna og innflytjenda.
    Forseti upplýsti meðlimi stjórnarnefndar um ákvörðun framkvæmdastjórnar um að fresta júnífundum Evrópuráðsþingsins vegna heimsfaraldursins. Áfram væri þó stefnt að því að halda þingfund áður en kæmi að októberfundum þingsins og mundi framkvæmdastjórn taka ákvörðun um dagsetningu funda í lok júní.

Fjarfundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 26. júní 2020.
    Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins fundaði með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru m.a. viðbrögð við útbreiðslu COVID-19-sjúkdómsins, barátta gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og aðgengi að getnaðarvörnum, auk þess sem stjórnarnefnd fékk á sinn fund dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
    Í ávarpi sínu sagði Ghebreyesus að Evrópa mætti ekki sofna á verðinum gagnvart útbreiðslu kórónuveirunnar. Faraldurinn væri í vexti á heimsvísu og meiri hluti íbúa Evrópu væri enn berskjaldaður fyrir sýkingu. Hann ítrekaði að ekki væri um að ræða val á milli þess að bjarga mannslífum eða að standa vörð um mannréttindi heldur yrðu stjórnvöld að gera hvort tveggja. Það væri gert með því að skima fyrir veirunni, finna þá smituðu og einangra þá. Stærsta ógnin nú væri skortur á samstöðu milli landa og skortur á alþjóðlegri forystu. Hann bað þingmennina að styðja ákall sitt eftir evrópskri forystu um samstöðu, heiðarleika og jöfnu aðgengi að bóluefnum, hlífðarbúnaði og lækningatækjum. Ghebreyesus sagði faraldurinn hafa sýnt fram á mikilvægi heilsu og nauðsyn þess að búa yfir sterku heilbrigðiskerfi. Lönd heimsins þyrftu ekki aðeins að bregðast hratt við heimsfaraldrinum heldur einnig að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu, heima fyrir og á heimsvísu. Heilsa væri ekki lúxusvara heldur hornsteinn öryggis, stöðugleika og hagsældar.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir spurði Ghebreyesus um áhrif heimsfaraldursins á flóttafólk og innflytjendur og bað hann að fjalla nánar um viðvaranir stofnunarinnar vegna fjölgunar smita í Evrópu. Ghebreyesus sagði stofnunina hafa strax í upphafi faraldursins unnið náið með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til að verja flóttamenn og flóttamannabúðir fyrir útbreiðslu sjúkdómsins. Innflytjendur og farandverkamenn hefðu einnig verið taldir í aukinni hættu þar sem þeir ættu erfiðara með að nálgast ýmsa þjónustu og upplýsingar auk þess sem húsakynni farandverkafólks gætu aukið smithættu. Mikilvægt væri að hafa í huga að enginn væri öruggur nema allir væru öruggir. Varðandi aukinn fjölda smita sagði hann mikilvægt að fagna ekki sigri í baráttunni of snemma. Löndum Vestur-Evrópu hefði mörgum tekist vel að draga úr smitum og fækka dauðsföllum meðal sjúklinga en veiran gæti náð sér hratt aftur á strik. Áfram þyrfti að skima, rekja smit og beita sóttkví og einangrun og tryggja viðbragðsgetu heilbrigðiskerfisins. Mögulega mundi fylgja vetrinum önnur bylgja faraldursins en einnig mundu heilbrigðiskerfin þurfa að kljást við árlegan inflúensufaraldur. Til þess að minnka álagið á heilbrigðiskerfið væri mikilvægt að sem flestir væru bólusettir fyrir inflúensu, sérstaklega eldra fólk og fólk í áhættuhópum. Ghebreyesus sagðist ekki vilja missa almenna borgara úr sjúkdómi sem hægt væri að fyrirbyggja á sama tíma og barist væri við veiru sem ekki væri hægt að verja sig gegn.
    Miltiadis Varvitsiotis, aðstoðarutanríkisráðherra Grikklands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynnti áherslur grískra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði. Varvitsiotis sagði heimsfaraldur kórónuveiru hafa gjörbreytt fyrirhuguðum áherslum grísku stjórnarinnar. Faraldurinn væri fyrsta dæmið í sögu Evrópuráðsins um viðburð sem hefði stöðvað frjálsa för fólks. Viðbrögð við heimsfaraldrinum hefðu þannig haft áhrif á grunngildi ráðsins um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Mikilvægt væri að Evrópuráðið nýtti tækifærið og skilgreindi hvernig best væri að bregðast við í sams konar tilvikum í framtíðinni, þannig að full virðing væri borin fyrir mannréttindum og lýðræðislegum stjórnarháttum. Tilmæli evrópskra stjórnvalda til borgaranna hefðu miðað að því að vernda líf og almenna heilsu og almenningur hefði brugðist við af miklum þroska og sýnt nærgætni og aðgæslu. Hann ítrekaði þó að ekki mætti líta á þessar takmarkanir á frelsi sem fordæmisgefandi fyrir framtíðina. Í hvers kyns neyðarástandi þyrftu takmörk á frelsi almennings að vera nauðsynleg, tímabundin og í stöðugri endurskoðun, og jafnframt þyrfti að gæta meðalhófs í hvívetna.
    Stjórnarnefnd samþykkti ályktun og tilmæli til ráðherranefndarinnar um áhrifarík og réttindamiðuð viðbrögð við útbreiðslu COVID-19. Í ályktuninni kom fram að viðbrögð stjórnvalda við heimsfaraldri þyrftu að byggjast á þekkingu og gögnum og taka mið af mannréttindavernd. Sum ríki hefðu brugðist við með einangrunarhyggju, þjóðernishyggju og einræðistilburðum en viðbrögð annarra hefðu einkennst af umhyggju, gagnreyndum vísindum, alþjóðlegum samskiptum og virðingu fyrir mannréttindum. Í skýrslu framsögumanns með ályktuninni var bent á að árangur Íslendinga sýndi að hægt væri að ná tökum á útbreiðslu veirunnar án þess að þurfa að setja á allsherjarútgöngubann; slíkum árangri mætti ná með því að bregðast snemma og markvisst við og skima í stórum stíl. Tekið var fram að útgöngubann hefði óhjákvæmilega í för með sér takmörk á grundvallarréttindum fólks. Þingið mæltist til þess að stjórnvöld í Evrópu brygðust við heimsfaraldrinum með því að auka fjarlægð milli fólks, eftir því sem kostur væri, með tilmælum til almennings en annars með útgöngubanni. Í baráttunni við útbreiðsluna skyldi beita víðtækri skimun, smitrakningu með virðingu fyrir persónuvernd, sóttkví og einangrun. Þingið kallaði einnig eftir umbótum á Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, m.a. með því að hækka hlutfall reglulegra fjárframlaga til stofnunarinnar.
    Í ályktun um baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum varaði þingið við aukinni hættu á misnotkun barna vegna heimsfaraldursins. Börn væru einangruð og væru þolendur í mörgum tilvikum í smitvari með gerendum ofbeldisins og fjarri þeim sem gætu veitt misnotkun eftirtekt, t.d. kennurum, íþróttaþjálfurum, heilbrigðisstarfsfólki eða lögreglu. Þingið hvatti aðildarlönd Evrópuráðsins til að setja baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum í forgang og tryggja vernd þolenda ofbeldis. Aðildarlönd voru hvött til að fara að íslensku fordæmi Barnahúss við skýrslutöku og vitnaleiðslur yfir börnum til að forðast það að auka á áfall þolenda. Í tilmælum þingsins til ráðherranefndarinnar var einnig hvatt til þess að aðildarlönd fullgiltu samning Evrópuráðsins um baráttu gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum, eða Lanzarotesamninginn. Najat Maalla M'jid, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um málefnið, hvatti þingmenn til að tryggja nauðsynlega fjármuni til að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Hún ítrekaði að afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku væru bæði víðtækar og langvinnar og að þolendur kæmu oft ekki fram fyrr en löngu eftir að brotin hefðu verið framin.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir fagnaði því að minnst væri á starf Barnahúss í ályktun þingsins og skýrslu framsögumanns og sagði Barnahús gegna mikilvægu hlutverki við að vernda þolendur kynferðislegs ofbeldis. Hún sagði tímabært að líta á kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sem heimsfaraldur. Áhrif ofbeldisins væru fjölþætt og víðtæk á heilsu og líf fólks. Hún sagði einnig nauðsynlegt að skoða nánar áhrif klámvæðingar á kynferðislegt ofbeldi. Það væri sláandi að sjá í skýrslunni að meðalaldur barna þegar þau sæju fyrst klámfengið efni væri aðeins 9–11 ár.
    Stjórnarnefnd samþykkti einnig ályktun um valdeflingu kvenna með bættu aðgengi að getnaðarvörnum í Evrópu. Kallað var eftir því að getnaðarvarnir yrðu aðgengilegar öllum á viðráðanlegu verði og að kynfræðsla yrði hluti námskrár í öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Einnig var kallað eftir því að forgangsraðað yrði í þágu kyn- og æxlunarheilbrigðis á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru og ítrekað að aðgengi að neyðargetnaðarvörnum skyldi flokkast sem nauðsynleg heilbrigðisþjónusta.
    Að lokum flutti formaður nefndar um eftirlit með þingkosningum í Aserbaísjan í febrúar 2020 stjórnarnefnd skýrslu nefndarinnar sem var mjög gagnrýnin á framkvæmd kosninganna. Forseti upplýsti meðlimi stjórnarnefndar um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar að fella endanlega niður júnífundi Evrópuráðsþingsins sem hafði verið frestað fram á haust. Samþykkt var að halda næsta fund stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Chania í Grikklandi 15.–16. september.

Fundur formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslanda á Evrópuráðsþinginu 31. ágúst 2020.
    Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru fyrirhugaðar kosningar til embætta þingsins og ástandið í Hvíta-Rússlandi.
    Ingjerd Schou, formaður landsdeildar Noregs, kynnti framboð Bjørns Berge til varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Sem starfandi framkvæmdastjóri ráðherranefndar Evrópuráðsins hefði hann einstaka þekkingu á Evrópuráðinu og hefði auk þess langa reynslu af starfi fyrir norska utanríkisráðherra. Einnig var rætt um val á framkvæmdastjóra þingsins. Starfandi framkvæmdastjóri, Wojciech Sawicki, sæktist eftir endurkjöri en Despina Chatzivassiliou-Tsovilis, deildarstjóri fyrir stjórnmálanefnd þingsins, væri einnig í framboði. Fundarmenn bentu á að óvenjulegt væri að sækjast eftir þriðja skipunartímabili, líkt og Sawicki gerði.
    Rætt var um stöðuna í Hvíta-Rússlandi og hvað hægt væri að gera til að sýna mótmælendum stuðning. Ákveðið var að landsdeildir Norðurlanda og Eystrasaltslanda á Evrópuráðsþinginu gæfu út sameiginlega yfirlýsingu.

Fjarfundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 15. september 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru m.a. málefni Hvíta-Rússlands, sanngirni kosningakerfa og siðferði í vísindum.
    Miltiadis Varvitsiotis, aðstoðarutanríkisráðherra Grikklands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, sagði aðildarríkin standa frammi fyrir miklum áskorunum. Áfram þyrftu ríkin að vinna ötullega að því að lágmarka neikvæð áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á samfélagið, samstöðu, efnahagslífið og vinnumarkað. Á tímum einangrunar hefðu félagsleg vandamál á borð við heimilisofbeldi orðið meira aðkallandi og því væri sorglegt að aðildarríki hefðu lýst yfir vilja til að segja sig frá samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúlsamningurinn. Hann sagði ráðherranefndina beina sjónum sínum að málefnum Hvíta-Rússlands og ítrekaði ákall Evrópuráðsins um að mótmælendum yrði sleppt úr haldi.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók til máls í sérstökum umræðum um ástandið í Hvíta-Rússlandi og sagði stöðuna í landinu ótrygga. Mótmæli hefðu staðið nær sleitulaust frá forsetakosningunum í ágúst en fólk væri dauðhrætt. Forsetaframbjóðandinn Svetlana Tíkhanovskaja hefði flúið land og ekki væri hægt að útiloka að utanaðkomandi aðilar mundu reyna bein afskipti af málefnum landsins. Rósa Björk vakti athygli á sameiginlegri yfirlýsingu landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á Evrópuráðsþinginu, sem birt var 4. september, þar sem hvítrússnesk stjórnvöld voru hvött til samræðna við stjórnarandstöðuna og kallað eftir rannsókn á ofbeldisverkum lögreglunnar. Hún lýsti einnig stuðningi sínum við tillögur um að senda til landsins sendinefnd Evrópuráðsþingmanna. Í kjölfar umræðna samþykkti stjórnarnefnd yfirlýsingu þar sem kallað var eftir lýðræðislegum umbótum í Hvíta-Rússlandi. Þingið fordæmdi virðingarleysi hvítrússneskra stjórnvalda gagnvart grundvallarmannréttindum og harðar aðgerðir yfirvalda gegn friðsamlegum mótmælendum. Þá bauð þingið fram aðstoð sína við hvítrússnesk stjórnvöld á vegferð þeirra til lýðræðislegra umbóta.
    Stjórnarnefnd samþykkti ályktun þar sem lagt var til að stofnað yrði embætti umboðsmanns internetsins. Embættið gæti á sjálfstæðan hátt lagt mat á hvort birt efni á netinu væri löglegt. Þingið ítrekaði mikilvægi þess að koma í veg fyrir dreifingu falsfrétta og skaðlegs efnis. Þó væri skýr togstreita á milli tjáningarfrelsisins og tilrauna til að fjarlægja ólöglegt efni af netinu. Embætti umboðsmanns internetsins gæti aðstoðað við að finna jafnvægi á milli þessara póla með því að gefa út leiðbeiningar og úrskurða í vafamálum.
    Í ályktun um staðla fyrir kosningakerfi benti þingið á að ólík kosningakerfi hefðu áhrif á það hversu vel þjóðþing endurspegluðu val kjósenda. Þannig skiluðu ekki öll kosningakerfi sanngjörnum niðurstöðum þegar litið væri til fjölda atkvæða á bak við hvert þingsæti. Þingið benti á að kosningakerfi sem leiddu af sér mikinn mun á milli fjölda atkvæða og fjölda þingsæta væru merki um lýðræðislegan halla og gætu vakið efasemdir um sanngirni þeirra. Þingið hvatti Feneyjanefndina til að skoða ólík kosningakerfi með tilliti til sanngirni þeirra og gefa út leiðbeiningar um lágmarksstaðla fyrir kosningakerfi.
    Stjórnarnefnd samþykkti einnig ályktun og tilmæli til ráðherranefndarinnar um siðferði í vísindum. Þingið hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að styðja við opinbera umræðu um framfarir í tækni og vísindum til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum. Nauðsynlegt væri að virkja almenna borgara í umræðu og stefnumótun á þessum vettvangi. Bent var sérstaklega á leiðbeiningar lífsiðfræðinefndar Evrópuráðsins um mannréttindi í vísindum og læknisfræði.
    Forseti upplýsti meðlimi stjórnarnefndar um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar að kalla saman fundi stjórnarnefndar í október í stað þess að halda venjubundinn þingfund samkvæmt starfsáætlun. Fundirnir færu fram 12.–13. október og 22.–23. október í fjarfundarbúnaði. Öllum þingmönnum yrði þó boðið að tengjast fundunum og taka þátt í umræðum, ekki aðeins meðlimum stjórnarnefndar.

Fjarfundir stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 12.–13. og 22.–23. október 2020.
    Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru komu stjórnarnefndarfundir í stað hefðbundins þingfundar. Öllum þingmönnum Evrópuráðsþingsins bauðst að taka þátt í umræðum á fundinum en aðeins meðlimir stjórnarnefndar höfðu atkvæðisrétt. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru gervigreind, réttindi og öryggi lögfræðinga og aðgerðir gegn stjórnarandstöðu í Tyrklandi auk þess sem þingið fjallaði um áhrif kórónuveirufaraldursins á lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og málefni flóttafólks. Þá ávarpaði framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) fundinn.
    Ángel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, sagði þjóðir heims standa frammi fyrir sínum mestu erfiðleikatímum með tilliti til heilbrigðis, samfélags og efnahagslífs. Gurría sagði ekki hægt að tala um togstreitu á milli þess að berjast gegn veirunni og vernda mannslíf annars vegar og að standa vörð um efnahagslífið og vernda lífsviðurværi fólks hins vegar. Þetta væri ekki raunveruleg togstreita því ekki væri um neitt val að ræða. Það væri nauðsynlegt að útrýma veirunni til þess að vernda efnahagslífið. Gurría sagði efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda til að örva hagkerfið vera af hinu góða en alls ekki mætti stöðva innspýtinguna of snemma. Það hefðu verið stærstu mistökin í viðbrögðum landa við efnahagskreppunni 2008–2009. Einnig þyrfti að hafa í huga að ólíkt þeirri kreppu væru áhrifin nú fyrst og fremst á ósérhæft vinnuafl en síður á menntaða og tekjuhærri hópa. Hann benti á að efnahagskreppan í kjölfar heimsfaraldursins yrði erfiðari viðureignar í þróunarlöndum og millitekjulöndum þar sem væri minna svigrúm til að örva hagkerfin og halda uppi félagslegri þjónustu. Hann hvatti aðildarríkin því til að auka framlög sín til þróunarlanda á þessum tímum og benti á að það væri dropi í hafið samanborið við þá fjármuni sem Evrópulönd hefðu sett í baráttuna gegn veirunni. Einnig hvatti Gurría aðildarríki Evrópuráðsins til að fjárfesta í grænum lausnum í uppbyggingu innviða í kjölfar kreppunnar, bæta orkunýtingu og endurheimta vistkerfi í þágu komandi kynslóða. Hægt væri að nýta hvatann til umbreytinga og samstöðumáttinn til að móta betri stefnu í þágu betra lífs. Rósa Björk Brynjólfsdóttir spurði Gurría hverjar hann teldi líkurnar vera á að aðildarríki OECD mundu fylgja tilmælum samtakanna um að leita grænna leiða út úr kreppunni. Hún benti einnig á að heimsfaraldurinn og efnahagsþrengingar í kjölfarið hefðu meiri áhrif á viðkvæma hópa og spurði hvernig best væri að koma í veg fyrir að kreppan hefði þau áhrif að auka enn á ójöfnuð innan samfélaga. Gurría sagði OECD hafa fylgst náið með aukningu á ójöfnuði í heiminum síðasta áratuginn. Þannig skapaði heimsfaraldur kórónuveiru ekki vandamálið heldur yki enn frekar á þróun sem þegar hefði verið til staðar. Hlutverk OECD væri að skrásetja þróunina, fordæma hana og koma með tillögur að stefnubreytingu til að stöðva hana.
    Miltiadis Varvitsiotis, aðstoðarutanríkisráðherra Grikklands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, sagði aðildarríkin setja heilsu og mannslíf í forgang á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru, þrátt fyrir vanda efnahagslífsins. Hann sagði ráðherranefndina beina sjónum sínum í auknum mæli að átökum í álfunni og vísaði m.a. til stigvaxandi átaka milli Armena og Asera í Nagorno-Karabakh-héraði og deilu Grikkja og Tyrkja um Kýpur og nærliggjandi hafsvæði. Sömuleiðis væri fylgst náið með ástandinu í Hvíta-Rússlandi og Evrópuráðið hefði fordæmt ofbeldi stjórnvalda gagnvart mótmælendum.
    Dunja Mijatovic, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, flutti þinginu skýrslu um störf sín á árinu 2019 og fjallaði einnig um áhrif faraldursins. Hún sagði útgöngubönn og aðrar aðgerðir stjórnvalda gegn útbreiðslu veirunnar hafa haft mikil áhrif á viðkvæma hópa. Aldraðir væru einangraðir frá fjölskyldum sínum og hefðu jafnvel upplifað vanrækslu og ofbeldi. Sömuleiðis væri fólk á faraldsfæti og flóttafólk í aukinni hættu á Miðjarðarhafinu og Evrópuríki væru enn tregari til að taka á móti hælisleitendum. Tryggja þyrfti aðgengi að getnaðarvörnum og kynheilbrigðisþjónustu þrátt fyrir heimsfaraldurinn og berjast gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi.
    Stjórnarnefnd tók til umfjöllunar fjórar skýrslur um heimsfaraldur kórónuveiru og áhrif hans á málefnasvið Evrópuráðsins. Í ályktun um áhrif faraldursins á lýðræði ítrekaði þingið að ekki mætti fórna lýðræðinu, mannréttindum eða réttarríkinu í baráttunni við veiruna. Þingið varaði ríkisstjórnir við því að nota völd sín á tímum neyðarástands til að þagga niður í stjórnarandstæðingum eða ganga á réttindi borgaranna. Þjóðþing ættu eftir sem áður að gegna hlutverki sínu sem löggjafi, vettvangur fulltrúalýðræðis og eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu. Bent var á að flest þjóðþing Evrópu hefðu haldið áfram störfum á óvenjulegum tímum með sveigjanleika og nýsköpun að leiðarljósi. Einnig var fjallað um kosningar á tímum heimsfaraldurs og mikilvægi þess að laga kosningaeftirlit að aðstæðum. Í tilmælum til ráðherranefndarinnar var mælst til þess að aðildarríkin tryggðu að lækningatæki, lyf og bóluefni væru aðgengileg öllum og að viðkvæmir hópar nytu forgangs.
    Í ályktun um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á mannréttindi og réttarríkið ítrekaði þingið að takmarkanir stjórnvalda á frelsi almennings þyrftu að byggjast á lögum, vera lausar við mismunun og í eðlilegu hlutfalli við alvarleika faraldursins. Mikilvægt væri að takmarkanir væru í stöðugri endurskoðun í ljósi þróunar faraldursins. Í ályktuninni kom fram að aldrei hefðu jafn mörg aðildarríki Evrópuráðsins vikið frá skuldbindingum sínum gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu. Þau hefðu takmarkað ferðafrelsi fólks, komið á samkomubönnum og lokað skólum, íþrótta-, trúar- og menningarstofnunum. Þingið varaði við því að á tímum neyðarástands væri tjáningarfrelsinu ógnað sem og öryggi persónulegra gagna og að aukin útgjöld stjórnvalda til að bregðast við efnahagskreppu gætu aukið líkurnar á spillingu. Þingið kallaði eftir sjálfstæðri úttekt á viðbrögðum aðildarríkja Evrópuráðsins við útbreiðslu veirunnar. Í tilmælum sínum óskaði þingið eftir því að ráðherranefndin skoðaði hvaða tilslakanir aðildarríkin hefðu gert á skuldbindingum sínum gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu.
    Þingið samþykkti einnig ályktun um áhrif faraldursins á mannúðaraðstoð við flóttafólk og fólk á faraldsfæti. Bent var á að þessir viðkvæmu hópar hefðu orðið fyrir miklum áhrifum af takmörkunum á ferðafrelsi og lokunum landamæra. För fólks hefði orðið hættulegri og tafir hefðu orðið á umfjöllun hælisumsókna sem hefði lengt dvöl fólks í haldi og í flóttamannabúðum sem ógnaði verulega heilsu þess. Þingið kallaði eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins héldu landamærum sínum opnum og sendu ferðalanga frekar í skimun og sóttkví og forðuðust að setja hælisleitendur í varðhald.
    Þá samþykkti stjórnarnefnd ályktun um jafnrétti á tímum faraldursins þar sem þingið hvatti stjórnvöld aðildarríkja til að hafa jafnréttissjónarmið og fjölbreytileika að leiðarljósi í viðbrögðum sínum við faraldrinum. Bent var á að í sumum tilvikum hefðu útgöngubönn aukið á mismunun sem þegar var til staðar í samfélaginu, hvort sem hún væri á grundvelli kynferðis, kynþáttar, uppruna, fötlunar, aldurs eða hinseginleika. Í ályktuninni voru stjórnvöld Evrópuráðsríkja hvött til þess að spyrja sig hvort fulltrúar ólíkra hópa hefðu komið að mótun aðgerða til þess að tryggja að einstaklingar féllu ekki milli skips og bryggju. Þingið fordæmdi einnig yfirlýsingar stjórnmálamanna og trúarleiðtoga sem hefðu reynt að kenna einstökum hópum um útbreiðslu veirunnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps vinstri manna og benti á að mismunun hefði þegar verið til staðar í samfélögum Evrópuráðslanda og viðbrögð stjórnvalda við heimsfaraldrinum hefðu aðeins aukið á þá mismunun. Líkt og bent væri á í skýrslunum hefðu jaðarsettir hópar samfélagsins orðið verst úti í kjölfar heimsfaraldursins, þar á meðal fólk á flótta, konur, fatlaðir, þjóðernisminnihlutar og hinsegin fólk. Nauðsynlegt væri að hafa jafnrétti í huga við alla stefnumótun stjórnvalda. Hún benti á og tók undir ákall Feneyjanefndarinnar um að aðildarríki Evrópuráðsins tryggðu öryggi fylgdarlausra barna á flótta.
    Stjórnarnefnd tók til umfjöllunar sjö skýrslur um notkun gervigreindar og áhrif hennar á málefnasvið Evrópuráðsins. Í tilmælum til ráðherranefndarinnar um notkun gervigreindar í heilbrigðisþjónustu kallaði þingið eftir því að gerður yrði sáttmáli um notkun gervigreindar með virðingu fyrir mannréttindum. Í slíkum sáttmála yrði kveðið á um meðhöndlun trúnaðargagna, gagnaöryggi, friðhelgi einkalífs, upplýst samþykki og ábyrgð. Í ályktun og tilmælum um regluverk um sjálfkeyrandi bifreiðar vakti þingið athygli á áhrifum tækniþróunar á þessu sviði á refsilöggjöf og mannréttindi. Í ályktun og tilmælum um þróun taugatækni ítrekaði þingið gagnsemi hennar í læknisfræði, hins vegar þyrfti að standa vörð um mannréttindi og jafnrétti. Í ályktun og tilmælum um áhrif gervigreindar á vinnumarkað voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að búa sig undir tækniþróunina með því að vinna gegn misrétti og auka sveigjanleika á vinnumarkaði. Í ályktun og tilmælum um mismunun í gervigreind var bent á hættuna á auknu misrétti í kjölfar tækniþróunar. Aðildarríki voru hvött til að setja lög um kerfi sem byggjast á gervigreind og skuldbinda sig þannig til að stuðla að jafnrétti. Í ályktun og tilmælum um notkun gervigreindar í dómskerfinu var bent á hættuna við notkun hennar innan löggæslu, meðal saksóknara og dómstóla. Reiknirit gætu verið hlutdræg og orðið til þess að skerða mannréttindi, sérstaklega ef þau byggðust á sögulegri og félagslegri mismunun. Að lokum var í tilmælum og ályktun um lýðræðislega stjórn á gervigreind lagt til að komið yrði á alþjóðlegum sáttmála um gervigreind sem byggðist á virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu. Í ályktuninni kom fram að gervigreind gæti stuðlað að efnahagslegri og félagslegri framþróun og aukinni lýðræðisþátttöku en mætti einnig nota til að vinna gegn lýðræðinu með því að hafa afskipti af kosningum eða sveigja almenningsálit.
    Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu um aðgerðir stjórnvalda í Tyrklandi gegn stjórnarandstöðu og samþykkti ályktun um málið. Í ályktuninni fordæmdi þingið nýjar aðgerðir gegn stjórnarandstöðu og mótmælendum í landinu. Bent var á að rannsakendur og saksóknarar beindu sjónum sínum að núverandi og fyrrverandi þingmönnum, fulltrúum í sveitarstjórnum, meðlimum stjórnarandstöðuflokka og lögfræðingum. Auk þess væru fjölmiðlar og fulltrúar frjálsra félagasamtaka beittir þrýstingi. Þingið kallaði á að tyrknesk stjórnvöld stigju ákveðin skref í átt að því að virða mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Stjórnarnefnd hélt einnig sérstaka umræðu um vopnuð átök milli Armeníu og Aserbaísjans.
    Þingið samþykkti einnig ályktun og tilmæli um vernd og öryggi lögfræðinga. Þingið lýsti áhyggjum sínum af árásum á lögfræðinga og brotum á réttindum þeirra. Bent var á að lögfræðingar í Evrópuráðsríkjum sættu aðkasti vegna vinnu sinnar við mannréttindamál eða þegar þeir töluðu gegn stjórnvöldum eða spillingu. Í tilmælum til ráðherranefndarinnar var kallað eftir sáttmála um öryggi lögfræðinga og vernd þeirra fyrir afskiptum stjórnvalda.

Fjarfundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 20. nóvember 2020.
    Öllum þingmönnum Evrópuráðsþingsins bauðst að taka þátt í umræðum á fundinum þrátt fyrir að aðeins meðlimir stjórnarnefndar hefðu atkvæðisrétt. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru breytingar á starfsreglum þingsins, kynjasjónarmið í utanríkisstefnu og staða Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Michael Roth, aðstoðarráðherra Evrópumála í Þýskalandi og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, sagði mannréttindum og réttarríkinu ógnað í Evrópu. Hann ítrekaði mikilvægi Istanbúlsamningsins, sáttmála Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, og hvatti þau aðildarríki sem ekki hefðu þegar undirritað samninginn til að gera það. Í formennskutíð sinni hygðust Þjóðverjar styðja Evrópuráðsríki við að framfylgja skuldbindingum sínum gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu og setja staðla um mannréttindi í tengslum við notkun gervigreindar. Einnig yrði lögð áhersla á vernd minnihlutahópa og þá sérstaklega réttindi Rómafólks og hinsegin fólks. Roth ítrekaði að hinsegin réttindi væru hvorki forréttindi né sérréttindi heldur mannréttindi.
    Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, sagði frá starfi dómstólsins á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Útgöngubann og aðrar sóttvarnaaðgerðir hefðu leitt af sér einhverjar tafir á málsmeðferð en þó hefði dómstóllinn náð að halda starfi áfram með fjarfundum. Róbert ítrekaði mikilvægi þingsins fyrir sáttmálakerfi Evrópuráðsins, en þingmennirnir kjósa dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Þingmennirnir tækju sæti á Evrópuráðsþinginu í krafti þingmennsku sinnar í heimalandi sínu og tengdu þannig þingið beint við íbúa Evrópuráðslanda. Spurður um umdeilda heimsókn sína til Tyrklands sagði Róbert að forseti dómstólsins hefði skyldum að gegna gagnvart öllum aðildarríkjunum 47. Opinberar heimsóknir þjónuðu þeim tilgangi að gefa skýr skilaboð um starf dómstólsins. Í heimsókninni hefði hann talað um mál tyrkneskra borgara sem biðu umfjöllunar fyrir dómstólnum og gagnrýnt það að ekki væru allir dómar fullnustaðir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagðist hafa áhyggjur af bakslagi í mannréttindamálum í Evrópu. Til að mynda hefði stjórnlagadómstóll Búlgaríu komist að þeirri niðurstöðu að Istanbúlsamningurinn væri andstæður stjórnarskrá landsins og stjórnlagadómstóll Póllands hefði lýst fóstureyðingar í andstöðu við stjórnarskrá. Hún spurði hvernig Mannréttindadómstóllinn gæti beitt sér í þessum málum og hvatt aðildarríkin til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart mannréttindasáttmálanum. Róbert benti á að dómstólnum væri ekki heimilt að gefa út yfirlýsingar eða gera athugasemdir við löggjöf heldur væri hlutverk hans eingöngu að taka afstöðu til þeirra mála sem til dómstólsins væri vísað.
    Stjórnarnefnd samþykkti breytingar á starfsreglum þingsins þar sem bætt var við ákvæðum um fyrirkomulag þingfunda í fjarfundarbúnaði og um atkvæðagreiðslur og kosningar til embætta í þeim tilvikum. Samkvæmt reglunum getur framkvæmdastjórn þingsins ákveðið að halda fjarfund eða blandaðan fund þingsins í stað venjulegs þingfundar við óvenjulegar aðstæður. Við þær kringumstæður gilda strangari reglur um tímafresti í kringum skil á kjörbréfum sendinefnda, innköllun varamanna, skráningu á mælendaskrá og framlagningu breytingartillagna. Í slíkum tilvikum er þinginu einnig heimilt að kjósa til embætta Evrópuráðsins og velja dómara við Mannréttindadómstólinn á annan hátt en með atkvæðaseðlum í þingsal.
    Þá samþykkti stjórnarnefnd einnig breytingar á starfsreglum þingsins sem miða að því að gera þingstörf skilvirkari. Með breytingunum er hægt að sleppa atkvæðagreiðslum um breytingartillögur í þingsal svo fremi að þeim hafi verið hafnað í nefnd af tveimur þriðju hlutum nefndarmanna. Þannig verður hægt að koma í veg fyrir að hægt sé að tefja umfjöllun þingsins um umdeild mál með því að gera við þau ógrynni af breytingartillögum. Einnig lúta breytingarnar að starfsháttum eftirlitsnefndar þingsins og fyrirkomulagi við kjör forseta og varaforseta auk þess sem þingið fær heimild til að halda tvær sérstakar umræður í hverri þingfundaviku.
    Í ályktun um kynjasjónarmið í utanríkisstefnu hvatti þingið aðildarríki Evrópuráðsins til að vinna gegn bakslagi í réttindum kvenna. Bent var á að femínísk utanríkisstefna Svíþjóðar hefði verið öðrum löndum innblástur um hvernig megi nýta utanríkisstefnu til að stuðla að jafnrétti. Bent var á að heimsfaraldur kórónuveiru hefði haft hlutfallslega verri áhrif á félagslega og efnahagslega stöðu kvenna en karla og varpað ljósi á misrétti. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði ályktunina fagnaðarefni, sérstaklega þar sem hún kæmi fram á 30. afmælisári ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og 25 ára afmæli Peking-yfirlýsingarinnar. Hún sagði sterka stöðu Norðurlandanna með tilliti til jafnréttismála ekki vera tilviljun. Norræna módelið væri byggt á velferð og þeirri grundvallarhugsun að allir ættu að hafa sömu tækifæri í lífinu. Það hefði haft það í för með sér að Norðurlöndin væru í fremstu röð í félagsmálum og menningarmálum. Hún ítrekaði að konur hefðu ekki fengið aukin réttindi upp í hendurnar heldur hefðu þær þurft að berjast fyrir þeim. Pólitískur vilji og samstaða væri forsenda jafnréttis.
    Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu um yfirlýsingu ráðherranefndar Evrópuráðsins í Aþenu í nóvember um viðbrögð við neyðarástandi í heilbrigðismálum með virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu. Þingið samþykkti yfirlýsingu þar sem vísað var til ályktana og skýrslna þingsins um heimsfaraldur kórónuveiru og áhrif hans á jafnréttismál, lýðræði, mannréttindi, félagsmál, málefni flóttamanna, menntamál og réttindi barna.
    Þingið samþykkti einnig ályktun og tilmæli til ráðherranefndarinnar um ógnir við akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla í Evrópu.

Fjarfundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 4. desember 2020.
    Öllum þingmönnum Evrópuráðsþingsins bauðst að taka þátt í umræðum á fundinum þrátt fyrir að aðeins meðlimir stjórnarnefndar hefðu atkvæðisrétt. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. bætt kerfi gæslumanna fyrir fylgdarlaus börn og stuðningur við einhverfa.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var framsögumaður skýrslu um skilvirkt gæslumannakerfi fyrir fylgdarlaus börn í Evrópu. Hún harmaði hve mörg fylgdarlaus börn biðu niðurstöðu í málum sínum í Evrópu. Það gæti tekið marga mánuði að úthluta fylgdarlausum börnum gæslumanni og í mörgum tilvikum skorti verulega upp á að aðstæður barnanna væru fullnægjandi. Stjórnarnefnd samþykkti einróma ályktun þar sem gagnrýnt var að kerfi gæslumanna fyrir fylgdarlaus börn væru ekki samræmd milli Evrópulanda. Einnig var bent á að skortur væri á hæfu fólki til að gegna hlutverki gæslumanna og því væru miklar tafir á því að börnum væru skipaðir gæslumenn. Þingið hvatti aðildarríkin til að endurskoða löggjöf sína og tryggja aðgengi að fjármunum og þekkingu fyrir málaflokkinn. Einnig hvatti það ríkin til að tryggja að öllum fylgdarlausum börnum væri útvegaður gæslumaður strax við komu þeirra í móttökuland til að tryggja að börnin fengju þær upplýsingar og aðstoð sem þau ættu rétt á. Rósa Björk þakkaði meðlimum stjórnarnefndar fyrir að veita þessum viðkvæma hópi athygli. Hún sagði mikilvægt að þingmennirnir fylgdu ályktuninni eftir í heimaþingum sínum og tryggðu innleiðingu hennar. Þannig mætti gera móttökukerfi aðildarríkja Evrópuráðsins betri, barnvænni og mannúðlegri fyrir börn á flótta.
    Þingið samþykkti einnig ályktun um stuðning við einhverfa og fjölskyldur þeirra og ályktun og tilmæli um réttindi og skyldur frjálsra félagasamtaka sem aðstoða flóttamenn og fólk á faraldsfæti í Evrópu. Þá samþykkti þingið ályktun um erlenda fjárfestingu og veitingu dvalarleyfa á grundvelli hennar þar sem ítrekað var að tryggja þyrfti gagnsæi og fylgjast með tengslum við peningaþvætti og ólöglega glæpastarfsemi.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Eftir því sem Evrópuráðsþingið þróaði notkun fjarfundarbúnaðar í nefndastarfi fór fundum nefnda fjölgandi. Formaður Íslandsdeildar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sótti fund stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í mars og tók auk þess þátt í átta fjarfundum stjórnarnefndar á árinu. Fjórir þeirra voru opnir öllum meðlimum þingsins og tók Þórhildur Sunna Ævarsdóttir einnig þátt í þeim. Rósa Björk tók enn fremur þátt í sjö fjarfundum flóttamannanefndar, sjö fjarfundum eftirlitsnefndar, sex fjarfundum stjórnmálanefndar og einum fjarfundi undirnefndar um málefni Miðausturlanda. Þórhildur Sunna tók þátt í sjö fjarfundum eftirlitsnefndar, sex fjarfundum laga- og mannréttindanefndar, sex fjarfundum jafnréttisnefndar og þremur fjarfundum reglunefndar. Bergþór Ólason tók þátt í þremur fjarfundum félagsmálanefndar og einum fjarfundi menningarmálanefndar. Birgir Þórarinsson var skipaður í eftirlitsnefnd af sínum flokkahópi á miðju ári og sótti þrjá fjarfundi nefndarinnar á árinu.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Ólafur Þór Gunnarsson,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
varaform.
Bergþór Ólason.

Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2020.


    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2020:

Fyrsti hluti þingfundar 27.–31. janúar:
          Ályktun 2316 um virkni stofnana lýðræðisins í Póllandi.
          Ályktun 2317 um fjölmiðlafrelsi og öryggi fjölmiðlafólks í Evrópu.
          Tilmæli 2168 um sama efni.
          Ályktun 2318 um trúfrelsi á vinnustað.
          Ályktun 2319 um sameiginlegan vettvang Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins til að takast á við tilvik þar sem aðildarríki uppfylla ekki skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu.
          Ályktun 2320 um athugasemdir, á efnislegum grundvelli, við kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar.
          Ályktun 2321 um alþjóðlegar skuldbindingar aðildarríkja til að flytja heim börn ríkisborgara sinna sem tekið hefðu þátt í vopnuðum átökum.
          Tilmæli 2169 um sama efni.
          Ályktun 2322 um pólitíska fanga í Aserbaísjan.
          Tilmæli 2170 um sama efni.
          Ályktun 2323 um aðgerðir gegn mansali og smygli á fólki.
          Tilmæli 2171 um sama efni.
          Ályktun 2324 um horfin börn á faraldsfæti í Evrópu.
          Tilmæli 2172 um sama efni.
          Ályktun 2325 um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga aðildarríkja.
          Ályktun 2326 um áhrif tækniþróunar á netinu á lýðræðið.
          Ályktun 2327 um ígræðsluferðamennsku.
          Tilmæli 2173 um ólöglega verslun með líffæri og vefi.

Stjórnarnefndarfundur 6. mars:
          Ályktun 2328 um baráttu gegn ofbeldi og mismunun gagnvart trúarlegum minnihlutahópum meðal flóttamanna í Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 26. júní:

          Ályktun 2329 um áhrifarík og réttindamiðuð viðbrögð við útbreiðslu COVID-19.
          Tilmæli 2174 um sama efni.
          Ályktun 2330 um baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.
          Tilmæli 2175 um sama efni.
          Ályktun 2331 um valdeflingu kvenna með bættu aðgengi að getnaðarvörnum í Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 15. september:
          Ályktun 2332 um staðla fyrir kosningakerfi til að tryggja frjálsar og sanngjarnar kosningar.
          Ályktun 2333 um siðferði í vísindum.
          Tilmæli 2176 um sama efni.
          Ályktun 2334 um stofnun embættis umboðsmanns internetsins.
Stjórnarnefndarfundir 12.–13. og 22.–23. október:
          Ályktun 2335 um vímuefnastefnu og mannréttindi í Evrópu.
          Tilmæli 2177 um sama efni.
          Ályktun 2336 um baráttu gegn hagræðingu úrslita kappleikja í íþróttum.
          Tilmæli 2178 um sama efni.
          Ályktun 2337 um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á lýðræði.
          Tilmæli 2179 um sama efni.
          Ályktun 2338 um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á mannréttindi og réttarríkið
          Tilmæli 2180 um sama efni.
          Ályktun 2339 um jafnrétti á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru
          Ályktun 2340 um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á mannúðaraðstoð við flóttafólk og fólk á faraldsfæti.
          Ályktun 2341 um lýðræðislega stjórn á gervigreind.
          Tilmæli 2181 um sama efni.
          Ályktun 2342 um notkun gervigreindar í dómskerfinu.
          Tilmæli 2182 um sama efni.
          Ályktun 2343 um mismunun í gervigreind.
          Tilmæli 2183 um sama efni.
          Ályktun 2344 um þróun taugatækni og áhrif hennar á grundvallarréttindi.
          Tilmæli 2184 um sama efni.
          Tilmæli 2185 um notkun gervigreindar í heilbrigðisþjónustu.
          Ályktun 2345 um áhrif gervigreindar á vinnumarkað.
          Tilmæli 2186 um sama efni.
          Ályktun 2346 um regluverk um sjálfkeyrandi bifreiðar.
          Tilmæli 2187 um sama efni.
          Ályktun 2347 um aðgerðir stjórnvalda í Tyrklandi gegn stjórnarandstöðu.
          Ályktun 2348 um vernd og öryggi lögfræðinga.
          Tilmæli 2188 um sama efni.

Stjórnarnefndarfundur 20. nóvember:
          Ályktun 2349 um breytingar á starfsreglum þingsins varðandi skipulag þingfunda við óvenjulegar aðstæður.
          Ályktun 2350 um breytingar á starfsreglum þingsins.
          Ályktun 2351 um kynjasjónarmið í utanríkisstefnu.
          Ályktun 2352 um ógnir við akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla í Evrópu.
          Tilmæli 2189 um sama efni.

Stjórnarnefndarfundur 4. desember:
          Ályktun 2353 um stuðning við einhverfa og fjölskyldur þeirra.
          Ályktun 2354 um skilvirkt gæslumannakerfi fyrir fylgdarlaus börn í Evrópu.
          Tilmæli 2190 um sama efni.
          Ályktun 2355 um erlenda fjárfestingu og veitingu dvalarleyfa á grundvelli hennar.
          Tilmæli 2191 um sama efni.
          Ályktun 2356 um réttindi og skyldur frjálsra félagasamtaka sem aðstoða flóttamenn og fólk á faraldsfæti í Evrópu.
          Tilmæli 2192 um sama efni.