Ferill 698. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1177  —  698. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (greiðsludreifing staðgreiðslu og tryggingagjalds, úttekt séreignarsparnaðar).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem fengið hafa frest til skila á afdreginni staðgreiðslu af launum vegna ársins 2020 til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VI og 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII geta sótt um að þeim greiðslum verði dreift í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur, að uppfylltum skilyrðum 3. mgr.
    Umsókn um greiðsludreifingu skal berast Skattinum eigi síðar en 10. júní 2021. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður.
    Skilyrði fyrir greiðsludreifingu samkvæmt ákvæði þessu er að aðili sé á umsóknardegi í skilum með önnur opinber gjöld, skatta og skattsektir en greinir í 1. mgr. sem komin voru á eindaga 31. desember 2020. Álagðir skattar og gjöld á árinu 2020 skulu ekki vera byggð á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum, skýrslum og skilagreinum. Bú aðila skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila hafa verið slitið. Umsækjandi skal staðfesta í umsókn að hann uppfylli skilyrði fyrir greiðsludreifingu.
    Fyrsti gjalddagi greiðsludreifingar er 1. júlí 2022. Gjalddagi kröfu í greiðsludreifingu skv. 1. mgr. er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.
    Hafi krafa í greiðsludreifingu skv. 1. mgr. ekki verið greidd á eindaga skal greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Verði vanskil á þremur frestuðum greiðslum skv. 1. mgr. fellur greiðsludreifing niður og ógjaldfallnar kröfur í greiðsludreifingu falla í gjalddaga. Gjalddagi kröfu skv. 1. málsl. er fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að greiðsludreifing féll niður og eindagi er 14 dögum síðar. Sé krafan ekki greidd á eindaga leggjast á dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá gjalddaga.
    Ekki er heimilt að gera greiðsluáætlun um gjaldfallnar kröfur sem eru í greiðsludreifingu.
    Verði bú aðila sem nýtur heimildar til greiðsludreifingar tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið á tímabili greiðsludreifingar fellur greiðsludreifing niður og kröfur falla í gjalddaga, sbr. 6. mgr.
    Óheimilt er að skuldajafna inneignum á móti ógjaldföllnum kröfum í greiðsludreifingu. Falli greiðsludreifing niður, sbr. 6. mgr., skal skuldajafna inneignum á móti gjaldföllnum kröfum sem voru í greiðsludreifingu.
    Ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun umsóknar um greiðsludreifingu má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem fengið hafa frest til greiðslu staðgreiðslu tryggingagjalds vegna ársins 2020 til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða X og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XI geta sótt um að dreifa þeim greiðslum í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr.
    Um umsókn um greiðsludreifingu, gjalddaga, skilyrði fyrir heimildum skv. 1. mgr., undanþágur og framkvæmd gildir að öðru leyti ákvæði til bráðabirgða IX í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

III. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:
     a.      Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2021“ í 1. mgr. kemur: 1. janúar 2022.
     b.      Í stað dagsetningarinnar „1. apríl 2020“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 1. apríl 2021.

4. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2021“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IX í lögunum kemur: 1. janúar 2022.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu, sem er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samvinnu við Skattinn, eru lagðar til lagabreytingar vegna þeirrar áframhaldandi óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins þar sem fyrir liggur að heimsfaraldur kórónuveiru dragist á langinn. Fyrirséð er að áhrif á ferðaþjónustu, þ.m.t. hótelrekstur og flugrekstur, verði áfram mikil.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á árinu 2020 gripu stjórnvöld til margvíslegra aðgerða til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Ein þessara aðgerða var að veita lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri, sem lentu í tímabundnum rekstrarörðugleikum, aukið svigrúm til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum vegna tekjumissis. Með setningu laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald (frestun gjalddaga), nr. 17/2020, var helmingi af greiðslu á staðgreiðslu launamanna og tryggingagjaldi vegna launa í febrúar 2020 frestað hjá öllum launagreiðendum. Með lögunum var þannig lengdur sá tími sem mátti líða án þess að vanskilaviðurlögum væri beitt á helming þeirrar fjárhæðar sem var á gjalddaga í mars 2020. Upphaflega náði fresturinn til 1. apríl 2020 í stað lögbundins gjalddaga 1. mars en með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var fresturinn framlengdur til 1. janúar 2021. Auk þess var lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri heimilað að fresta greiðslu á þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds á tímabilinu 1. apríl til og með 1. desember 2020 til 15. janúar 2021. Þá var veitt heimild til að fresta greiðslum enn frekar eða fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Sækja þurfti um aukinn greiðslufrest til og með 15. janúar 2021. Með 10. gr. laga nr. 141/2020 var heimilað að fresta greiðslu á allt að tveimur gjalddögum frá og með 1. janúar til og með 1. desember 2021. Nýr gjalddagi var samkvæmt því 17. janúar 2022.
    Ljóst er að mörg fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri glíma enn við rekstrarerfiðleika vegna faraldursins. Í frumvarpi þessu er lagt til að þeim aðilum sem nýttu sér framangreint úrræði og frestuðu greiðslum til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 verði gefinn kostur á enn frekari fresti með greiðsludreifingu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Um er að ræða ívilnandi úrræði sem gerir lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri, sem lent hafa í greiðsluvanda, kleift að dreifa greiðslubyrði ógreiddrar staðgreiðslu og tryggingagjalds ársins 2020 á lengra tímabil.
    Á árinu 2010 var lögfest sambærilegt ívilnandi úrræði fyrir gjaldendur með þágildandi lögum um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, nr. 24/2010. Með lögunum var rekstraraðilum sem voru í tímabundnum greiðsluvandræðum vegna efnahagshruns í október 2008 gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum sem voru í vanskilum og setja vanskil á skuldabréf til fimm ára. Fjölmargir lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri nýttu sér úrræðið og gefin voru út 463 skuldabréf. Í frumvarpi þessu er lagt til að greiðsludreifing verði framkvæmd með einfaldari hætti í gegnum Tekjubókhaldskerfi ríkisins. Þannig er lögð til skilvirkari leið til greiðsludreifingar í stað útgáfu skuldabréfa.
    Í mörgum tilvikum er um verulega háar fjárhæðir að ræða og því viðbúið að mikið hagsmunamál margra þeirra sem sóttu um frest á greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds sé að dreifa greiðslubyrði enn frekar. Þá er talið að hagsmunum ríkissjóðs sé betur borgið með frekari greiðsludreifingu.
    Auk frestunar gjalddaga staðgreiðslu og tryggingagjalds hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða af hálfu stjórnvalda til að létta undir með rekstraraðilum í kórónuveirufaraldrinum. Má þar nefna niðurfellingu álags á virðisaukaskatt, frestun á greiðslu álagðs tekjuskatts 2020, tímabundna niðurfellingu gistináttaskatts og lækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki. Verði frumvarp þetta að lögum bætist við ívilnandi úrræði sem er til þess fallið að auka möguleika lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri til að halda velli þegar efnahagslífið kemst á réttan kjöl.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að einstaklingum verði heimilað að nýju að taka tímabundið út ákveðinn hluta af séreignarsparnaði sínum. Samhljóma heimild var á meðal þeirra úrræða sem gripið var til snemma í faraldrinum og gilti sú heimild út árið 2020. Úrræðið var talsvert nýtt og nokkuð er um að einstaklingar hafi óskað eftir því við stjórnvöld að úttekt verði heimiluð að nýju. Þar sem áhrifa faraldursins gætir mun lengur en talið var í fyrstu og atvinnuleysi er enn mikið er talið rétt að endurnýja heimildina til að veita einstaklingum sem verða fyrir tekjumissi tækifæri til að nýta úrræðið á sömu forsendum og áður giltu til jafns við þá sem þegar hafa nýtt sér úrræðið. Það er ekki síst með tilliti til jafnræðissjónarmiða sem talið er tilefni til að endurvekja heimildina og af þeim sökum eru lögð til sömu viðmið um fjárhæðir og tímabil og giltu á árinu 2020.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna tillögu um heimild fyrir lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri til að dreifa greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjalds sem frestað var á árinu 2020 samkvæmt lögum um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald (frestun gjalddaga), nr. 17/2020, og lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Lagt er til að tekið verði á móti umsóknum um greiðsludreifingu á þjónustusíðu Skattsins óháð lögheimili og að framkvæmd úrræðisins og innheimta verði á höndum Skattsins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að umsóknir og framkvæmd úrræðisins verði að öðru leyti rafræn.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að heimild til úttektar á séreignarsparnaði taki gildi að nýju. Lagt er til að rétthöfum séreignarsparnaðar verði heimilt að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað upp að ákveðnu marki sem almennt er laus til útborgunar við 60 ára aldur, örorku eða fráfall rétthafa. Í frumvarpinu er lagt til að sömu viðmið gildi um umsóknartímabil og úttektarfjárhæð og giltu á árinu 2020. Þannig verði heimilt að sækja um úrræðið út árið 2021 og samanlögð fjárhæð geti numið allt að 12 millj. kr. sem greiddar verði út á 15 mánaða tímabili frá því að umsókn barst vörsluaðila.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér tillögur um greiðsludreifingu staðgreiðslu og tryggingagjalds og áframhaldandi heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Frumvarpið er hluti af viðbrögðum stjórnvalda við efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru en náið hefur verið fylgst með horfum á því sviði. Framhald á fleiri úrræðum er til skoðunar en talið var tímabært að leggja fram frumvarp um þau atriði sem í frumvarpinu felast. Frumvarpið var ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda sökum þess hve áríðandi þótti að leggja það fram á Alþingi. Samráð var haft við Skattinn við vinnslu þess.

6. Mat á áhrifum.
    Dreifing greiðslubyrðar vegna frestunar á staðgreiðslu launagreiðenda mun hafa þau áhrif að fresta og dreifa útgjöldum launagreiðenda sem nýta munu úrræðið. Um aukinn frest á greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna ársins 2020 sótti 831 aðili, þar af voru 46 einstaklingar í atvinnurekstri og 785 lögaðilar. Um aukinn frest á greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna ársins 2020 sótti 831 aðili, þar af voru 46 einstaklingar í atvinnurekstri og 785 lögaðilar. Samtals var greiðslum að fjárhæð 8,4 milljarðar kr. frestað. Megnið af því voru greiðslur lögaðila en einstaklingar frestuðu greiðslum á 8,4 millj. kr. eða um 0,1% af heildarfjárhæð frestaðra greiðslna.
    Viðbúið er að mikið hagsmunamál margra þeirra sem sóttu um frest á greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds sé að dreifa greiðslubyrði enn frekar þar sem fyrirséð er að tekjuflæði mun enn um sinn vera skert vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Þá er talið að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með frekari greiðsludreifingu, verði frumvarp þetta að lögum, og það muni tryggja betur greiðslur þeirra gjalda sem frestað var. Áætlað er að margir muni nýta sér úrræði til frekari frestunar og fjárhæðin í heild muni nema á bilinu 6,5–7,5 milljörðum kr.
    Tillaga frumvarpsins um framhald á heimild til úttektar á séreignarsparnaði kemur til móts við vanda einstaklinga og heimila en mörg heimili búa við skertar tekjur vegna ástandsins á vinnumarkaði. Samhljóða úrræði var í gildi 2020 og þá sóttu alls 18.386 einstaklingar um úrræðið. Þar af voru 57% umsækjenda karlar. Í febrúar 2021 höfðu 25,5 milljarðar kr. verið greiddir út og lágu þá fyrir áætlanir um greiðslu 3 milljarða kr. til viðbótar fram í mars 2022. Um 65% fjárhæðarinnar rennur til karla. Þeir sem hafa nýtt sér úrræðið hafa tekið að meðaltali 1,6 millj. kr. út á því tímabili sem úrræðið hefur verið í boði og meðalúttekt 2020 var 500 þús. kr. á mánuði. Þeir einstaklingar sem hafa nýtt sér úrræðið hafa gert það í þrjá mánuði að meðaltali. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu stór hluti hópsins sem nýtti úrræðið var á sama tíma atvinnulaus en úrræðið hefur, ásamt öðrum úrræðum fyrir heimilin, stuðlað að því að varðveita kaupmátt þeirra í faraldrinum. Þess ber þó að geta að þeir fjármunir sem heimilin nýta nú verða ekki tiltækir síðar og mun því draga úr ráðstöfunartekjum þessara heimila síðar að öðru óbreyttu.
    Eignir séreignarsjóða námu 842 milljörðum kr. í lok árs 2020 og nema því úttektir vegna úrræðisins 3% af heildareignum þeirra. Frá því að úrræðið var innleitt hafa eignir sjóðanna vaxið um 12,3%. Um fjórðungur af eignum séreignardeilda, eða 212 milljarðar kr., eru innlend innlán og er því ekki gert ráð fyrir að vörsluaðilar eigi í vandkvæðum með að fjármagna frekari útgreiðslur. Af sömu sökum er ekki gert ráð fyrir að úrræðið hafi mikil áhrif á fjármálamarkaði þar sem ekki er gert ráð fyrir að vörsluaðilar séreignarsparnaðar muni þurfa að selja eignir í miklum mæli vegna heimildarinnar.
    Tekjuskattur og útsvar er greitt af lífeyrisgreiðslum og gildir það einnig um úttekt séreignarsparnaðar samkvæmt þeirri tímabundnu heimild sem frumvarpið leggur til. Heildaráhrifin af úrræðinu munu ráðast af því hversu margir koma til með að nýta sér það enda er úrræðið valfrjálst. Ef miðað er við þær forsendur að svipuð nýting verði á árinu 2021 og var á 2020 og að flestir sem nýta úrræðið séu með aðrar tekjur en séreignarsparnaðinn, t.d. atvinnuleysisbætur, má gera ráð fyrir að skattgreiðslur á síðasta ári hafi numið liðlega 9 milljörðum kr. vegna úrræðisins, þar af 5,6 milljarðar kr. í tekjuskatt í ríkissjóð. Aðgerðin virkar því sem mótvægisaðgerð á tímum tekjufalls samhliða miklum útgjöldum ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem fengu samþykkta frestun á greiðslu staðgreiðslu launagreiðenda á árinu 2020 geti sótt um að þeim greiðslum verði frestað enn frekar og dreift með jafnháum greiðslum á 48 gjalddaga. Úrræðið tekur til þeirra greiðslna sem frestað var fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 og eru ekki fallnar í gjalddaga.
    Lagt er til í 2. mgr. ákvæðisins að umsókn um greiðsludreifingu verði rafræn og að umsækjendur sæki um á þjónustusíðum Skattsins óháð lögheimili. Þannig er lagt til að Skatturinn hafi með höndum framkvæmd úrræðisins á landsvísu og hafi umsjón með innheimtu gjalda í greiðsludreifingu. Í ákvæðinu kemur fram hver umsóknarfrestur er en lagt er til að umsóknum þurfi að skila eigi síðar en 10. júní 2021. Sú dagsetning er ákvörðuð út frá fyrsta gjalddaga frestaðrar staðgreiðslu og tryggingagjalds sem er 15. júní, júlí og ágúst 2021, sbr. 6. mgr. 2. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020.
    Í 3. mgr. ákvæðisins koma fram skilyrði fyrir frekari fresti og greiðsludreifingu. Lagt er til að umsækjendur þurfi að vera í skilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem álögð voru á árinu 2020 og voru komin á eindaga 31. desember 2020 og að álagðir skattar og gjöld á árinu 2020 séu ekki byggð á áætlunum. Skilyrðin eru að mestu efnislega sambærileg þeim sem komu fram í ákvæði 2. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, og umsækjendur þurftu meðal annars að uppfylla til að fá samþykkta frestun staðgreiðslu og tryggingagjalds til 15. janúar 2021. Til viðbótar þeim skilyrðum sem voru gerð í lögum nr. 25/2020 skal miða við að umsækjendur séu í skilum með gjöld sem voru komin á eindaga 31. desember 2020. Þá skal bú aðila ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið. Lagt er til að umsækjandi staðfesti í umsókn að hann uppfylli framangreind skilyrði.
    Í 4. mgr. ákvæðisins kemur fram að gjalddagi kröfu í greiðsludreifingu skv. 1. mgr. er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Í ákvæðinu er lagt til að gjalddagi og eindagi greiðslna í greiðsludreifingu verði þeir sömu og kveðið er á um í 3. mgr. 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 1. mgr. 10. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, enda um sömu gjaldflokka að ræða.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að hafi krafa í greiðsludreifingu skv. 1. mgr. ekki verið greidd á eindaga skuli greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Í 6. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að verði vanskil á þremur frestuðum greiðslum skv. 1. mgr. falli greiðsludreifing niður og ógjaldfallnar kröfur í greiðsludreifingu falli í gjalddaga fyrsta dag næsta mánaðar. Talið er að í ljósi þess hversu mikil ívilnun felst í þeim greiðslufresti sem veittur hefur verið vegna gjalda skv. 1. mgr. sé eðlilegt að ekki séu heimiluð lengri vanskil áður en til gjaldfellingar kemur og greiðsludreifing falli niður. Þá beri krafan dráttarvexti frá gjalddaga verði hún ekki greidd á eindaga. Er þessi regla til samræmis við lögbundna gjalddaga og eindaga staðgreiðslu og tryggingagjalds skv. 3. mgr. 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 1. mgr. 10. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990.
    Þá kemur fram í 7. mgr. ákvæðisins að ekki sé heimilt að gera greiðsluáætlun um gjaldfallnar kröfur sem þegar njóta ívilnandi úrræðis greiðsludreifingar. Ef greiðsludreifing fellur úr gildi vegna vanskila er hins vegar heimilt að gera greiðsluáætlun um kröfuna samkvæmt verklagsreglum Skattsins og ber hún þá vexti frá gjalddaga gjaldfellingar, sbr. 1. mgr.
    Í 8. mgr. ákvæðisins kemur fram að verði bú aðila sem nýtur heimildar til greiðsludreifingar tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið á tímabili greiðsludreifingar falli greiðsludreifing niður og kröfur sem voru í greiðsludreifingu falli í gjalddaga, sbr. 6. mgr.
    Í 9. mgr. er mælt fyrir um að inneignum verði ekki skuldajafnað á móti ógjaldföllnum kröfum í greiðsludreifingu. Þetta þýðir að skuldajafna skal inneignum á móti kröfum í greiðsludreifingu sem eru gjaldfallnar. Í ákvæðinu er einnig tekið fram að falli greiðsludreifing niður, sbr. 6. mgr., skuli skuldajafna inneignum á móti gjaldföllnum kröfum sem voru í greiðsludreifingu. Fer þá um skuldajöfnun samkvæmt almennum reglum um skuldajöfnun, sbr. 9. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, og reglum um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda, nr. 797/2016.
    Í 10. mgr. ákvæðisins er loks gert ráð fyrir að aðila máls verði heimilt að kæra synjun umsóknar um greiðsludreifingu samkvæmt frumvarpinu til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem fengu samþykkta frestun á greiðslu staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 2020 geti sótt um að þeim greiðslum verði frestað enn frekar og dreift með jafnháum greiðslum á 48 gjalddaga. Úrræðið tekur til þeirra greiðslna sem frestað var fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 og eru ekki fallnar í gjalddaga.
    Þá er í 2. mgr. ákvæðisins vísað í ákvæði til bráðabirgða IX í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2.–10. mgr. 1. gr. frumvarps þessa, um hvernig sótt skal um greiðsludreifingu á staðgreiðslu tryggingagjalds, gjalddaga, skilyrði fyrir heimildum skv. 1. mgr., undanþágur og framkvæmd að öðru leyti.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að einstaklingum verði heimilað að sækja um að taka út allt að 12 millj. kr. af séreignarsparnaði sínum til og með 31. desember 2021. Heimildin er efnislega samhljóða eldri heimild sama efnis sem rann úr gildi 1. janúar 2021.

Um 4. gr.

    Lagt er til að það tímabil þegar vörsluaðilum er heimilt að fresta útgreiðslum séreignarsparnaðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, verði fært til samræmis við framlengingu á 3. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.