Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1395  —  367. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn styður markmið og meginefni frumvarpsins enda er rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi með þeim hætti að ástæða er til að hlaupa þar undir bagga.
    Samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla er mjög skekkt vegna umsvifa alþjóðlegra risa sem ekki þurfa að greiða skatta eða laun hér á landi né standa straum af öðrum kostnaði, og hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er slík að enn minna verður til skiptanna fyrir aðra innlenda fjölmiðla. Lýðræðislegt og menningarlegt mikilvægi fjölmiðla verður ekki nógsamlega undirstrikað. Í þessu umhverfi eiga óháðir fjölmiðlar sérlega erfitt uppdráttar, en auðmenn geta varið broti af eignum sínum til að reka fjölmiðla. Slíkar kringumstæður geta kallað á að eigendur fjölmiðlanna þrýsti á starfsmenn að skrifa fréttir og greinar þar sem dreginn er taumur eigendanna.
    Minni hlutinn er sammála því markmiði að efla frjálsa fjölmiðlun á Íslandi og hefur miklar áhyggjur af stöðu fjölmiðlafrelsis á Íslandi. Líkt og kemur fram í umsögnum smærri fjölmiðla þá mundi meiri hluti af áætluðum styrkjum renna til stærstu fjölmiðlanna á Íslandi ef frumvarpið verður samþykkt í óbreyttri mynd. Styrkirnir fela þannig ekki í sér hvata til að viðhalda sjálfbæru rekstrarumhverfi, sem smærri fjölmiðlum hefur mörgum hverjum tekist með útsjónarsemi og ráðdeild. Að mati minni hlutans þjónar frumvarpið því ekki nógu vel yfirlýstum tilgangi sínum að stuðla að fjölbreytni og búa litlum og nýjum fjölmiðlum ásættanlegt rekstrarumhverfi.
    Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki þegar kemur að aðhaldi með valdhöfum. Öflugt fjórða vald er einn af hornsteinum lýðræðislegs samfélags. Uppljóstranir undanfarinna missera og ára hafa sýnt okkur hversu mikilvæg störf þeirra eru og hversu öflugt aðhaldstæki þeir geta verið þegar kemur að baráttunni gegn spillingu. Fjölmiðlar eiga undir högg að sækja á mörgum vígstöðvum og fjölmiðlafólk hefur þurft að verjast tilhæfulausum málsóknum og rógsherferðum þeirra sem fjallað er um. Það er að mati minni hlutans mikilvægt hagsmunamál fyrir almenning að hafa aðgang að fjölmiðlum þar sem kappkostað er að segja fréttir með faglegum hætti, viðtekin vinnubrögð blaðamanna eru í heiðri höfð og siðareglur Blaðamannafélags Íslands hafðar að leiðarljósi. Það auðveldar fólki að mynda sér skoðanir á grundvelli staðreynda og upplýsinga fremur en falsfrétta og spuna hagsmunaaðila.
    Í umsögn Samkeppniseftirlitsins er minnt á að meginmarkmið laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, sé að stuðla að fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/2011 kemur það sjónarmið fram að markmið laganna sé „að tryggja menningarlega og stjórnmálalega fjölbreytni og stuðla að því að borgarar geti metið, tekið afstöðu til og tekið þátt í lýðræðislegum ákvörðunum“. Minni hlutinn er sammála framangreindum sjónarmiðum og telur að huga verði sérstaklega að markmiðum um fjölræði og fjölbreytni og samkeppnisstöðu smærri fjölmiðla.
    Minni hlutinn telur að markmiði frumvarpsins verði betur náð fram með því að hafa styrkina fleiri og fjárhæðirnar lægri, líkt og ætlunin var í því frumvarpi sem lagt var fram af mennta- og menningarmálaráðherra á 150. löggjafarþingi (458. mál). Slíkt fyrirkomulag geti skipt sköpum um rekstur smærri fjölmiðla og ætti að tryggja að fleiri miðlar, og með fjölbreyttari efnistök en ella, fái styrkari rekstrargrundvöll en nú er.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. mgr. f-liðar 2. gr. orðist svo:
    Rekstrarstuðningur skal að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjanda, sbr. 62. gr. h. Stuðningur til hvers umsækjanda skal þó ekki nema hærri fjárhæð en 50 millj. kr.

Alþingi, 7. maí 2021.

Guðmundur Andri Thorsson,
frsm.
Olga Margrét Cilia.