Ferill 754. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1620  —  754. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um biðtíma og stöðugildi sálfræðinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu langur biðtími er nú eftir viðtali við sálfræðing hjá eftirfarandi stofnunum:
                  a.      Heilbrigðisstofnun Austurlands,
                  b.      Heilbrigðisstofnun Norðurlands,
                  c.      Heilbrigðisstofnun Suðurlands,
                  d.      Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,
                  e.      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,
                  f.      Heilbrigðisstofnun Vesturlands,
                  g.      Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins?
     2.      Hversu mörg stöðugildi sálfræðinga eru nú við hverja þessara stofnana og hversu mörg telur ráðherra að þau þurfi að vera til að tryggja viðunandi þjónustu?


    Spurningum þingmanns er svarað eftir heilbrigðisumdæmum. Forstjóri heilbrigðisstofnunar skipuleggur heilbrigðisþjónustu á upptökusvæði viðkomandi stofnunar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Þörf fyrir þjónustu sálfræðinga er því mat forstjóra hverrar stofnunar og kemur það mat fram hér í upplýsingum um hverja heilbrigðisstofnun. Biðtími eftir sálfræðiþjónustu er misjafn á landinu. Þegar upp koma forgangsmál barna og fullorðinna þá er allra leiða leitað til þess að veita sálfræðiþjónustu sem allra fyrst. Þrátt fyrir að hér sé aðeins óskað eftir yfirliti um stöður sálfræðinga og þarfir í mönnun sálfræðiþjónustu þá eru fjölmargar aðrar starfsstéttir innan heilbrigðisþjónustunnar sem veita geðheilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA).
    1.    Biðtími fullorðinna eftir matsviðtali er tveir til þrír mánuðir og biðtími eftir meðferð sálfræðings er fjórir til fimm mánuðir. 64 börn undir 18 ára aldri eru á biðlista hjá stofnuninni. Forgangsmál bíða skemmri tíma en þau sem ekki eru talin eins brýn.
    2.    Stöðugildi sálfræðinga eru 3,7. Í svari forstjóra HSA er talið að þörf sé fyrir allt 5–5,5 stöðugildi hjá stofnuninni.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN).
    1.    Biðtími barna eftir viðtali við sálfræðing er tvær til fjórar vikur. Biðtími eftir sálfræðiþjónustu vegna meðgöngu- og ungbarnaverndar er tvær til fjórar vikur. Biðtími fullorðinna eftir sálfræðiþjónustu í heilsugæslu er tveir til þrír mánuðir fyrir forgangsmál og sex til átta mánuðir fyrir aðra. Biðtími eftir sálfræðiþjónustu geðheilsuteymis er sex til tólf mánuðir.
    2.    Stöðugildi sálfræðinga á HSN eru 8,2. Setnar stöður eru nú aðeins 7,3. Í svari forstjóra HSN er talið að þörf fyrir sálfræðinga hjá HSN sé allt að 14,5 stöðugildi.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU).
    1.    Biðtími eftir sálfræðiþjónustu í geðheilsuteymi eru fjórir til sex mánuðir. Biðtími barna eftir þjónustu er breytilegur eftir heilsugæslustöðvum.
    2.    Stöðugildi sálfræðinga eru 5,2. Í svari forstjóra HSU er talið að þörf sé fyrir eitt til tvö stöðugildi til viðbótar eða 7,2 stöðugildi alls.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS).
    1.    Um sex til sjö mánaða bið er eftir viðtali hjá sálfræðingi bæði fyrir börn og fullorðna.
    2.    Í maí 2021 eru 8,2 stöðugildi sem heyra undir sálfélagslega þjónustu. Sálfræðingar í geðteymi fylla 5,7 stöðugildi. Í svari forstjóra HSS er þörf fyrir sálfræðinga í heilsugæslu fyrir börn metin 5,6 stöðugildi. Þörf fyrir sálfræðinga fyrir fullorðna í heilsugæslu er metin 4,3 stöðugildi.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST).
    1.    Frá því að beiðni berst til geðteymis líða um tvær til þrjár vikur þangað til fyrsta viðtal við sálfræðing hefur farið fram eða hefur verið bókað.
    2.    Sálfræðingar eru í samtals 0,4 stöðugildum og starfa sem verktakar. Í svari forstjóra HVEST er þörf fyrir sálfræðinga talin vera 1,5 stöðugildi. Erfitt hefur verið fyrir stofnunina að manna þær stöður og auglýsingar eftir starfskrafti ekki borið árangur.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE).
    1.    Biðtími barna og fullorðinna getur verið nokkrir mánuðir en biðlistar eru misjafnir eftir heilsugæslusvæðum. Erfitt hefur verið fyrir stofnunina að manna þær stöður sálfræðinga sem til staðar eru.
    2.    Stöðugildi sálfræðinga eru nú 5,8 í heildina. Þörf fyrir sálfræðinga í heilsugæslu fyrir börn er talin vera 4 stöðugildi og þörf fyrir sálfræðinga fyrir fullorðna í heilsugæslu er talin vera 3 stöðugildi. Einnig er talin þörf fyrir eitt stöðugildi sálfræðings til viðbótar í geðheilsuteymi. Mönnuð stöðugildi eru 3,8 en í svari forstjóra HVE er þörfin metin 8 stöðugildi.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH).

    1.    Að meðaltali er 86 daga bið eftir viðtali við sálfræðing sem sinnir sálfræðiþjónustu við börn og 93 dagar eftir viðtali við sálfræðing sem sinnir sálfræðiþjónustu við fullorðna.
    2.    Fjöldi sálfræðinga fyrir fullorðna er 15,7 stöðugildi og 13,3 stöðugildi barnasálfræðinga. Í svari forstjóra HH kemur fram að þörf sé fyrir u.þ.b. 30 stöðugildi sálfræðinga fyrir fullorðna og 37,4 stöðugildi fyrir barnasálfræðinga og unnið er að ráðningum fleiri sálfræðinga.