Ferill 795. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1669  —  795. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um ríkisstyrki til fyrirtækja og stofnana á fræðslumarkaði.


     1.      Hefur ráðuneytið tekið afstöðu til kvörtunar Félags atvinnurekenda vegna niðurgreiðslu ríkisins á sumarnámi sem beint var til ráðuneytisins og síðar Eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppniseftirlitsins?
    Já, mennta- og menningarmálaráðuneyti lýsti í svari til Samkeppniseftirlitsins, 25. september 2020, afstöðu til kvörtunar Félags atvinnurekenda. Samkeppniseftirlitið hafði kvörtun frá Félagi atvinnurekenda til meðferðar frá ágúst 2020 uns málinu var lokið með bréfi eftirlitsins til ráðuneytisins, dags. 17. maí 2021. Fjármála- og efnahagsráðuneyti skilaði umsögn um kvörtun Félags atvinnurekenda til ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA með bréfi, dags. 16. september 2020. Stofnunin gaf út bráðabirgðaálit um kvörtun Félags atvinnurekenda 1. október 2020 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að fjárveiting til sértækra námsúrræða í háskólum sumar 2020 hafi ekki falið í sér ólögmæta ríkisstyrki. Fjármála- og efnahagsráðuneyti skilaði umsögn til ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA öðru sinni með bréfi, dags. 30. nóvember 2020 með áréttingu á þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda að fjárveiting til umræddra námsúrræða hafi ekki falið í sér ólögmæta ríkisstyrki.

     2.      Hefur ráðuneytið lagt mat á áhrif þessa fyrirkomulags ríkisstyrkja til náms á samkeppni á fræðslumarkaði? Ef svo er, hver eru áhrifin að mati ráðuneytisins?
    Nei, svonefnt samkeppnismat fór ekki fram þar sem kennsla og rannsóknir á viðurkenndum fræðasviðum háskóla skv. 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, og starfsemi viðurkenndra framhaldsskóla, sbr. 12. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, felur ekki í sér starfsemi af efnahagslegum toga í skilningi ríkisstyrkja- og samkeppnisreglna Evrópuréttarins, sbr. og 2. mgr. 92. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016.

     3.      Ef það hefur ekki verið gert, hver eru rök ráðuneytisins fyrir því að ekki þurfi að leggja mat á áhrif ríkisstyrkjanna á samkeppni á fræðslumarkaði?
    Eitt af skilgreiningaratriðum hugtaksins ríkisaðstoð í Evrópurétti er að hún getur aðeins verið veitt aðilum sem selja vöru eða þjónustu á markaði, þ.e. sinna efnahagslegri starfsemi. Af hálfu stjórnvalda er lagt er til grundvallar að starfsemi háskóla og framhaldsskóla, þar á meðal umrædd námsúrræði, falli undir almannaþjónustu sem er ekki af efnahagslegum toga og fjárveitingar til þeirra geti þannig ekki falið í sér ríkisaðstoð. Að sama skapi falla kennsla og rannsóknir í háskólum og kennsla í framhaldsskólum utan gildissviðs laga um opinber innkaup og laga um þjónustukaup á innri markaði EES-svæðisins. Framlög til kennslu og rannsókna í háskólum, sem og kennslu í framhaldsskólum, sem veitt eru á grundvelli fjárheimilda innan málefnasviða 21.10 og 20 Framhaldsskólastig í fjárlögum falla undir almannaþjónustu í skilningi ríkisstyrkja- og samkeppnisreglna. Kennslu- og rannsóknastarfsemi sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra skv. 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, sbr. einnig 12. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, fellur utan við svonefndan fræðslumarkað, þ.e. um er að ræða starfsemi sem er ekki af efnahagslegum toga, sbr. svar við 2. spurningu og sjónarmið í tveimur dómum EFTA-dómstólsins, annars vegar dómi frá 21. febrúar 2008 í málinu E-5/07 Private Barnehagers Landsforbund gegn Eftirlitsstofnun EFTA (EFTA-dómaskrá [2008], bls. 62, mgr. 83) og hins vegar dómi frá 17. nóvember 2020 í málinu E-9/19 Abelia og WTW gegn Eftirlitsstofnun EFTA (mgr. 88).

     4.      Hvernig skiptist niðurgreiðslan eftir námskeiðum, námsleiðum og skólum?
    Fjármagni til sumarnáms var skipt á milli háskóla sem hafa hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra skv. 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, í samræmi við hlutfallstölur í fjárlögum og með tilliti til reiknilíkans háskóla. Úthlutun fjárveitingar til staðfestingar voru opinberum háskólum send fjárveitingarbréf og gerðir voru samningsviðaukar um sumarnám við einkarekna háskóla. Innan hvers háskóla var fjármagni til sumarnáms skipt eftir fræðasviðum og deildum í samræmi við deililíkan innan hvers háskóla. Fjárveitingar til sértækra námsúrræða í háskólum sumar 2020 skiptust með eftirfarandi hætti:

Háskóli Heildarkostnaður
Háskóli Íslands 254.068.000
Háskólinn Akureyri 41.638.907
Háskólinn á Bifröst 37.575.000
Háskólinn í Reykjavík 84.639.335
Háskólinn á Hólum 19.151.114
Landbúnaðarháskóli Íslands 13.800.000
Listaháskóli Íslands 49.955.268
Samtals 500.827.624

    Skipting greiðslna milli einstakra skóla var eins og fram kemur í töflunni. Skipting framlags til hvers og eins skóla var í höndum skólanna sjálfra í samræmi við reikniflokka náms og eigin deililíkan háskólanna. Reiknilíkani háskólanna er ætlað að gegna þrenns konar hlutverki. Í fyrsta lagi að meta kostnað við rekstur skólanna og fjárveitingar til þeirra. Í öðru lagi að skipta því fé sem fjárveitingarvaldið veitir til skólanna og tryggja jafnræði þeirra. Loks er reiknilíkanið hugsað sem stjórntæki til að efla eða draga úr stuðningi við tiltekin fagleg, fjárhagsleg eða pólitísk markmið, bæði almenn og sértæk. Framlög til háskólanna til kennslu, rannsókna og annarra rekstrarþátta eru ákveðin á grundvelli reglna nr. 646/1999, um fjárveitingar til háskóla og samninga við háskólana á grundvelli laga nr. 63/2006, um háskóla. Upphæðir kennsluframlaga til hvers skóla eru ákvarðaðar á grundvelli reiknilíkans sem uppfært er árlega.
    Stikar í reiknilíkaninu eru eftirfarandi:
    x Einingaverð reikniflokka. Námsgreinum í háskólum er nú skipt niður á fimmtán reikniflokka. Einingaverð í hverjum flokki byggist að hluta til á almennum forsendum en einnig er tekið tillit til fyrirkomulags náms í hverjum reikniflokki fyrir sig.
    x Fjöldi ársnemenda. Við útreikning á kennsluframlögum til hvers skóla er hafður til hliðsjónar fjöldi ársnemenda síðustu ára og yfirstandandi árs. Ársnemandi er sá sem gengur til prófa í 60 ECTS-einingum á almanaksári.
    x Brautskráningarframlög. Háskólar fá greidd brautskráningarframlög á grundvelli fjölda brautskráninga. Útreikningur framlaganna miðast við einingaverð, sem eru misjöfn eftir námsgráðum, og meðalfjölda brautskráninga tveggja síðustu ára í hverjum skóla.

Verðflokkar, án frádráttarliða Verð þús. kr. Verðhlutfall
Aðfararnám að námi á háskólastigi 828,5 0,9
Nám á sviði félags- og mannvísinda, guðfræði, lögfræði og annað hliðstætt nám
915,7

1,0
Nám á sviði tölvunarfræði, stærðfræði og annað hliðstætt nám 1.221,0 1,3
Kennaranám og annað hliðstætt nám sem m.a. felst í æfingakennslu 1.272,0 1,4
Hjúkrunarnám og hliðstætt nám sem felst m.a. í þjálfun við meðhöndlun sjúklinga
1.629,8

1,8
Nám í raunvísindum, verk- og tæknifræði sem krefst verklegra æfinga og sérhæfðs búnaðar
1.691,3

1,8
Lækninum sem felst m.a. í verklegum æfingum, notkun sérhæfðs búnaðar og þjálfun
2.323,9

2,5
Nám í tannlækningum 3.445,2 3,8
Listnám – myndlist 2.336,8 2,6
Listnám – danslist 2.737,2 3,0
Listnám – tónlist 2.813,2 3,1
Listnám – leiklist 4.527,7 4,9
Listnám – hönnun og arkitektúr 1.963,5 2,1
Hestafræði í Hólaskóla – Háskólanum á Hólum 2.172,6 2,4
Starfsmenntanám í Landbúnaðarháskóla Íslands 2.057,2 2,2


Upphæðir í millj. kr.
Fjöldi brautskráðra til greiðslu Reiknað framlag 2020
Háskóli Íslands 2.902 446,9
Háskólinn á Akureyri 425 52,5
Landbúnaðarháskóli Íslands 32 4,7
Hólaskóli – Háskólinn á Hólum 68 5,7
Háskólinn á Bifröst 143 19,6
Háskólinn í Reykjavík 864 122,6
Listaháskóli Íslands 150 21,3
Samtals 4.584 673,3
         
Ársnemendur HA LBHÍ HH HB HR LHÍ Fjárlög 2020 Fjárlög 2019
Aðfararnám 47 151 198 218
Félags- og mannvísindi 4.300 709 101 388 917 6.415 6.623
Tölvufræði og stærðfræði 354 556 910 895
Kennaranám o.þ.h. 1.556 260 122 44 1.982 1.910
Hjúkrunarfræði 633 372 1.005 935
Verkfræði 1.586 106 132 22 720 19 2.585 2.555
Læknisfræði 390 390 390
Tannlækningar 75 75 75
Listnám – myndlist 90 90 90
Listnám – danslist 18 18 18
Listnám – tónlist 100 100 100
Listnám – leiklist 19 19 19
Listnám – hönnun og arkitektúr 154 154 162
Hestafræði 60 60 61
Starfsmenntanám 169 169 183
Samtals, fjárlög 2020 8.894 1.447 301 183 435 2.466 444 14.170 14.234
Fjárlög 2019 8.955 1.456 297 184 436 2.466 440 14.234
Meðalverðhlutfall 2020 1,4 1,3 2,1 1,6 1,0 1,3 2,5

Framhaldsskólar.
    Fjármagni til sumarnáms 2020 var skipt á milli framhaldsskóla, jafnt opinberra framhaldsskóla sem og einkaskóla á framhaldsskólastigi. Úthlutun fjárveitinga var staðfest með því að senda styrkjabréf ásamt skilmálum um styrkveitingu til framhaldsskólanna.
    Fjárveitingar til sértækra námsúrræða í framhaldsskólum sumar 2020 skiptust með eftirfarandi hætti:

Framhaldsskóli

Styrkupphæð
Fjöldi áfanga í boði Fjöldi nemenda Fjöldi eininga Skólinn nýtti framlag að upphæð
Borgarholtsskóli 9.000.000 9 69 45 5.569.373
Fisktækniskóli Íslands 19.100.000 8 31 32 17.366.732
Keilir 2.900.000 5 19 3 1.612.500
M.Í.T. Menntaskóli í tónlist 3.460.000 4 60 8 3.460.000
Menntaskólinn í Reykjavík 3.800.000 1 110 3 3.800.000
Menntaskólinn við Hamrahlíð 7.300.000 5 54 17 7.300.000
Menntaskólinn við Sund 4.700.000 6 64 28 4.700.000
Myndlistaskólinn í Reykjavík 14.666.000 3 64 30 14.666.000
Tækniskólinn 28.000.000 22 187 154 17.552.313
Samtals 92.926.000 63 658 320 76.026.918

    Nokkrir skólar til viðbótar við þessa sóttu um að bjóða upp á sumarnám, en hættu við þegar í ljós kom að aðsókn var lítil.
    Markhópur sérstakra námsúrræða á framhaldsskólastigi voru nemendur í framhaldsskólum, nýútskrifaðir nemendur úr grunnskólum, nemendur með annað móðurmál en íslensku sem vildu auka hæfni sína í íslensku, einstaklingar sem vildu styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, brúa færnibil eða skipta um starfsvettvang.
    Alls buðu níu framhaldsskólar upp á námstilboð fyrir 658 nemendur. Í boði voru um 63 áfangar og 320 einingar á afar breiðu áhugasviði, þar á meðal bóknámsáfangar í helstu kjarnagreinum, svo sem í íslensku, ensku og stærðfræði og í íslensku sem öðru tungumáli. Listnámsáfangar voru í boði, þar á meðal í lagasmíðum, tónfræði, grunnþáttum í keramiki, teikningu og grafík, og þá var boðið upp á áfanga í klassískum ballet, jassdansi, nútímadansi. Nokkrir buðu upp á fjölbreytt iðn-, verk- og starfsnám svo sem kynningaráfanga í tréiðngreinum, rafiðngreinum og matreiðslu sem sérstaklega voru hugsaðir fyrir nemendur sem voru að hefja nám í framhaldsskóla og fyrir atvinnuleitendur. Samræmt framlag til skólanna var ákveðið á þann veg að ráðuneytið greiddi 8.000 kr. fyrir einingu í fjarnámi, 12.500 kr fyrir eina einingu í bóknámi og 17.500 krónur fyrir eina einingu í iðn- og verknámi.

     5.      Hvernig nýttist niðurgreiðslan ólíkum hópum, þ.m.t. nemendum skólanna, atvinnuleitendum og öðrum hópum?
    Markmið sértækra námsúrræða í framhaldsskólum og háskólum sumar 2020 var að sporna gegn atvinnuleysi og efla menntun ungs fólks. Markhópur átaksins voru framhaldsskólanemendur, nemendur sem ljúka námi úr framhaldsskóla á vorönn og vildu sækja undirbúningsnám fyrir háskólanám, aðrir framtíðar háskólanemar, núverandi háskólanemar, sem og einstaklingar sem vildu styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, brúa færnibil eða skipta um starfsvettvang. Háskólum var gert að skila upplýsingum um þátttakendur, kyn, aldur búsetu, fjölda þeirra sem uppfylltu kröfur um námsframvindu, námslok o.fl. Allir íslenskir háskólar buðu upp á sumarnám. Námsframboð var mjög fjölbreytt og af öllum fræðasviðum háskóla. Alls voru í boði 260 námskeið við háskólana og 63 áfangar í framhaldsskólum. Mikil þátttaka var í átakinu en alls nýttu 4.913 einstaklingar tækifæri til sumarnáms í háskólum og 658 nemendur í framhaldsskólum. Margir nemendur skráðu sig á fleiri en eitt námskeið þannig að heildarskráningar í háskólum urðu alls 7.822 talsins. Kynjaskipting í sumarnámi í háskólum var ójöfn en 32,5% þátttakenda voru karlar og 67,5% konur sem er í samræmi við kynjaskiptingu almennt í háskólum. Samkvæmt aldursdreifingu nemenda í háskólum voru 72% þátttakenda yngri en 35 ára. Langflestir, eða 86% nemenda voru með íslenskt ríkisfang. Nemendur með erlent ríkisfang voru 700 talsins og stærstur hluti þeirra sótti áfanga í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands. 80% nemenda í sumarnámi 2020 voru innritaðir í ECTS einingabært nám, 20% nemenda voru innritaðir í nám sem er opið almenningi án eininga en getur nýst til frekara náms á háskólastigi. Lykiltölur og skilagreinar sem ráðuneytið safnar frá háskólum hafa ekki að geyma frekari upplýsingar um sundurliðun nemenda enda var kennsla fyrir alla nemendur óháð félagslegri stöðu og uppruna fjármögnuð með sama hætti, þ.e. af fjárheimildum málefnasviðs 21.10 Háskólastig í fjárlögum.
    Framhaldsskólunum var gert að skila greinargerðum um verkefnin sem fólu í sér staðfestingu á kennslu áfanga, þátttakendafjölda, hve margir voru innritaðir í hvern áfanga og hve margir luku námi. Þá var óskað eftir upplýsingum um þátttakendur, svo sem kyn og aldur. Forsenda lokagreiðslu var að ráðuneytið féllist á að markmiðum verkefnis hafi verið náð og að styrkþegi hafi uppfyllt skilmála styrksins. Í ljós kom að kynjaskipting var nokkurn veginn jöfn í sumarnámi í framhaldsskólum. Þátttakendur voru langflestir framhaldsskólanemendur undir 25 ára aldri, en nokkrir áfangar í verknámi og listnámi höfðuðu til eldri einstaklinga. Til dæmis var meðalaldur í verknámsáföngum sem Tækniskólinn bauð upp á 27–36 ára eftir áföngum og 64% þeirra sem luku myndlistaráföngum voru yfir 25 ára.

     6.      Hefur ráðuneytið óskað álits Samkeppniseftirlitsins á framkvæmd ríkisstyrkjanna?
    Nei, en fyrir liggur niðurstaða í athugun Samkeppniseftirlitsins í tilefni af kvörtun Félags atvinnurekenda, dags. 17. maí 2021.

     7.      Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið af hálfu ráðuneytisins til að gæta að samkeppnisstöðu fræðslufyrirtækja utan opinbera geirans?
    Framlög til sértækra námsúrræða í háskólum sumar 2020 stóðu öllum viðurkenndum framhaldsskólum og háskólum til boða, jafnt opinberum skólum sem einkareknum skólum eins og Tækniskólanum, Listaháskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík, sem tóku allir þátt í átakinu.

     8.      Hvernig er tryggt að ríkisstyrkur til háskóla og framhaldsskóla rúmist innan ákvæða laga og EES-samningsins?
    Sem fyrr segir er eitt af skilgreiningaratriðum hugtaksins ríkisaðstoð í Evrópurétti er að hún getur aðeins verið veitt aðilum sem selja vöru eða þjónustu á markaði, þ.e. sinna efnahagslegri starfsemi. Í bráðabirgðaáliti ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 1. október 2002, hefur verið staðfest að umrædd námsúrræði, teljast til almannaþjónustu sem er ekki af efnahagslegum toga og því feli fjárveitingar til framhaldsskóla og háskóla ekki í sér ríkisaðstoð.

     9.      Hefur ráðuneytið tekið til skoðunar tillögu um ávísanakerfi, sambærilegt ferðagjöfinni, sem tryggi að hægt sé að velja á milli námskeiða hjá háskólum sem njóta ríkisframlaga og námskeiða hjá einkareknum fræðslufyrirtækjum?
    Í samræmi við 29. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og 21. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, sbr. 43. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, verður fjárheimildum innan málefnasviða 20 Framhaldsskólastig og 21.10 Háskólastig í fjárlögum eingöngu ráðstafað til stofnana sem hlotið hafa viðurkenningu skv. 3. gr. laga um háskóla og 12. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Ef haga hefði átt fjárveitingum til sumarnáms með öðrum hætti hefði fjárveitingarvaldið, þ.e. Alþingi, þurft að kveða sérstaklega á um annað fyrirkomulag sem hefði þá verið háð samþykki ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA.