Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 209  —  5. mál.
Nýr liður.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (bifreiðagjald, olíu- og kílómetragjald, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu.
    Nefndinni barst umsögn um málið frá Skattinum.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um bifreiðagjald, lögum um olíu- og kílómetragjald og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Breytingarnar miða að því að skýra og einfalda innheimtu skatta á ökutæki. Þá er lagt til að fella brott ákvæði til að draga úr aðkomu faggiltra skoðunarstöðva og Samgöngustofu að eftirfylgni og aðkomu að innheimtu skatta á ökutæki.

Umfjöllun nefndarinnar.
Breytingar á lögum um bifreiðagjald.
    Með b-lið 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að í kjölfar eigendaskipta ákvarði ríkisskattstjóri endurálagningu bifreiðagjalda og endurgreiði á grundvelli hennar seljanda bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabili þegar eigendaskipti fara fram en innheimti það sem eftir stendur hjá kaupanda. Í umsögn Skattsins er lögð áhersla á mikilvægi þess að enginn vafi leiki á um viðkomandi tímamark og að skýrleiki þess sé fullnægjandi. Ákjósanlegt væri að fram kæmi að endurálagning bifreiðagjalds og endurgreiðsla þegar greidds gjalds skuli miðast við skráningu eigendaskipta í ökutækjaskrá. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti leggur hún til breytingu þess efnis.

Breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald.
    Í umsögn Skattsins eru lagðar til nokkrar breytingar sem miða að því að auka skýrleika og samræmi. Láðst hafi að gera ráð fyrir hlutverki Vegagerðarinnar samhliða faggiltum skoðunarstofum og tollyfirvöldum þrátt fyrir að hún hafi haft hlutverk við álestur í tilvikum þar sem mikil fjarlægð er til næstu skoðunarstöðvar. Auk þess bendir Skatturinn á að ákjósanlegra væri að gæta samræmis í hugtakanotkun og vísa því einungis til „ökumælis“ en ekki jafnframt til „kílómetramælis“. Þá telur Skatturinn rétt að árétta að ríkisskattstjóri ákvarði að loknu álestrartímabili kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald bæði ökutækja sem færð hafa verið til álestrar og ökutækja þar sem álestur hefur farið fram með rafrænum hætti.
    Varðandi fyrirhugaðar breytingar á 3. mgr. 14. gr. laganna bendir Skatturinn á að telja verði eðlilegt að í tilvikum þegar ökutæki er fært til álestrar utan álestrartímabils og í tilvikum þar sem gerð er grein fyrir álestri með rafrænum hætti utan álestrartímabils þá séu réttaráhrifin hin sömu.
    Að lokum telur Skatturinn tilefni til breytingar að því er varðar frest í kjölfar tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar á kílómetragjaldi eða sérstöku kílómetragjaldi til samræmis við önnur ákvæði skattalaga. Þannig verði 15 daga frestur talinn frá dagsetningu tilkynningar en ekki póstlagningu hennar.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Skattsins og leggur að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti til breytingar þess efnis.

Aðrar skyldur faggiltra skoðunarstöðva.
    Nefndin styður að öðru leyti efni frumvarpsins en vekur þó athygli á því að verði frumvarp þetta að lögum hvíla enn skyldur á faggiltum skoðunarstöðvum að annast innheimtu annarra gjalda, svo sem umferðaröryggisgjalds, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og vanrækslugjalds, sbr. 74. gr. umferðarlaga. Að mati nefndarinnar er rétt að fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við innviðaráðherra, taki fyrirkomulag framangreindra gjalda einnig til endurskoðunar í ljósi sjónarmiða að baki lögum um opinber fjármál og lögum um innheimtu opinberra gjalda og í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um skilvirkni innheimtu opinberra gjalda.
    Að öðru leyti styður nefndin efni frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „fara fram“ í fyrri efnismálslið b-liðar 1. gr. komi: eru skráð í ökutækjaskrá.
     2.      Við II. kafla bætist ný grein sem verði 3. gr., svohljóðandi:
                 Í stað orðsins „póstlagningu“ í 2. málsl. 2. mgr. 12. gr. kemur: dagsetningu.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      1. tölul. a-liðar orðist svo: Á eftir orðunum „koma með ökutæki til álestraraðila“ í 2. málsl. kemur: sem er faggilt skoðunarstöð, tollyfirvöld við innflutning og útflutning eða eftir atvikum Vegagerðin.
                  b.      Í stað orðsins „kílómetramæli“ í 2. tölul. a-liðar komi: ökumæli.
                  c.      Við b-lið bætist nýr liður, svohljóðandi: Á eftir orðinu „álestrar“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: eða geri grein fyrir álestri með rafrænum hætti.
                  d.      Í stað dagsetningarinnar „1. júní“ í 2. málsl. c-liðar komi: 1. júlí.
     4.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 17. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „því að hún var tilkynnt“ í 1. málsl. kemur: dagsetningu tilkynningar.
                  b.      Í stað orðsins „póstlagningu“ í 2. málsl. kemur: dagsetningu.

Alþingi, 20. desember 2021.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson, frsm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Daði Már Kristófersson. Diljá Mist Einarsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Halldóra Mogensen. Jóhann Páll Jóhannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.