Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 210  —  1. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fjölmörgum fundum og fengið til sín gesti frá umsagnaraðilum og ráðuneytum. Þeir voru frá Alþingi, ASÍ, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Bandalagi íslenskra listamanna, BHM, BSRB, Bændasamtökum Íslands, dómsmálaráðuneytinu, Félagi atvinnurekenda, félagsmálaráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, Hagstofu Íslands, heilbrigðisráðuneytinu, Landspítalanum, Landssamtökunum Þroskahjálp, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Ríkisendurskoðun, SÁÁ, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, Viðskiptaráði Íslands og Öryrkjabandalaginu.
    Á fund nefndarinnar komu fjölmargir fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og gerðu frumvarpinu, einstökum greinum þess og köflum í greinargerð með því ítarleg skil. Auk þess komu fulltrúar allra annarra ráðuneyta á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir þau heyra.
    Nefndinni bárust samtals 58 umsagnir auk fjölmargra annarra erinda og minnisblaða.

Umfjöllun og verklag nefndarinnar.
    Auk umsagna um frumvarpið sjálft bárust nefndinni erindi og óskir sem fólu í sér beiðni um stuðning, hreinar fjárbeiðnir eða viðbótarframlög. Nefndin fylgdi því verklagi að áframsenda slíkar beiðnir til ráðherra málaflokksins. Það er í samræmi við ábyrgð ráðherra, sem kemur helst fram í 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál, á þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir hann heyra. Þá hefur nefndin í ríkari mæli en áður kallað eftir skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála sem fram komu í umsögnum og á fundum með umsagnaraðilum. Tíðkast hefur að senda skriflegar fyrirspurnir og beiðnir um minnisblöð og hefur sá háttur verið hafður á eins og áður.

Heildaráhrif breytingartillagna – afkoma ríkissjóðs.
    Gerðar eru breytingartillögur við sundurliðun 1, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins, um 3.217,2 m.kr. til hækkunar tekna, og við sundurliðun 2, sem eru gjaldaheimildir málefnasviða og málaflokka, um 13.968,5 m.kr. til hækkunar gjalda.
    Heildarafkoman verður þá neikvæð um 179.299,4 m.kr. en það rúmast innan þess óvissusvigrúms sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn samkvæmt þessu verður um 5% af vergri landsframleiðslu (VLF). Í töflunni að aftan koma fram breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur eru sundurliðuð samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Helstu markmið frumvarpsins.
    Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015. Í 16. gr. laganna er tilgreint hvernig tölugrunnur frumvarpsins er byggður upp og settur fram. Í 14. gr. kemur fram að það skuli vera í samræmi við markmið gildandi fjármálaáætlunar sem var samþykkt á Alþingi 31. maí sl. og tekur til áranna 2022–2026.
    Samhliða frumvarpinu var lögð fram fjármálastefna nýrrar ríkisstjórnar eins og tilgreint er í lögunum. Áætluð afkoma og skuldir ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu eru vel innan þeirra marka sem tilgreind eru í stefnunni. Á næsta ári er áætlað að halli af rekstri ríkissjóðs verði um 4,7% af vergri landsframleiðslu (VLF) en í stefnunni er hámarkið sett við 5,5% af VLF.
    Endurreisn efnahagslífsins og ríkisfjármálanna í kjölfar heimsfaraldursins er stærsta verkefnið við upphaf kjörtímabilsins. Meginmarkmið ríkisfjármálaáætlunarinnar fólust í því að vaxa út úr kreppunni sem leiddi af heimsfaraldri kórónuveiru. Leiðarljós áætlunarinnar voru:
     1.      Svigrúm í krafti árangurs í ríkisfjármálum.
     2.      Áhersla á nýsköpun og innviðauppbyggingu.
     3.      Byrðum létt af fólki og fyrirtækjum.
     4.      Arðsemi og atvinnusköpun í fyrirrúmi við fjárfestingar.
     5.      Skuldasöfnun stöðvuð á áætlunartímanum.
    Áherslur og forgangsmál frumvarpsins eru í beinu framhaldi af stefnumörkun áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að aðhaldsstig ríkisfjármála verði aukið á næsta ári og dregið úr hallarekstri án þess að hamla viðspyrnu hagkerfisins. Leiðarljósið er áfram að stuðla að efnahagslegum stöðugleika.
    Nauðsynlegt er að endurheimta styrka fjárhagsstöðu ríkissjóðs og tryggja sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma. Þá þarf ríkisfjármálastefnan að vinna með peningastefnunni og stuðla að lækkandi verðbólgu og efnahagslegum stöðugleika.
    Fram hafa komið sterkar vísbendingar um að þær fjölmörgu aðgerðir sem gripið var til vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldursins hafi skilað góðum árangri.
    Nefna má að:
     1.      Landsframleiðslan er nú talin meiri en í bjartsýnni sviðsmynd frá því í fyrra.
     2.      Atvinnuleysi hefur lækkað hratt á árinu 2021.
     3.      Áætlað er að afkoma ríkissjóðs batni um 120 mia.kr. milli áranna 2021 og 2022.
     4.      Afleiðing þessa, ásamt eignasölu, er bætt skuldastaða ríkissjóðs til lengri tíma litið.

Samanburður við fjármálaáætlun.
    Í meginatriðum er útfærsla frumvarpsins í samræmi við stefnumið fjármálaáætlunar 2022–2026. Hins vegar er nú gert ráð fyrir betri afkomu en áætlað var í vor vegna bættra efnahagshorfa. Þá var áætlað að halli næsta árs gæti orðið sem nemur 6,6% af VLF en nú er áætlað að hann verði um 4,7% af VLF. Þar munar um 54 mia.kr.
    Afkomubatinn skýrist nær alfarið af hærri tekjum. Tekjuáætlun hefur verið uppfærð miðað við nýja þjóðhagsspá sem gerir ráð fyrir kröftugri hagvexti en gengið var út frá í fjármálaáætluninni.
    Samtals er gert er ráð fyrir 66 mia.kr. hærri tekjum. Á gjaldahlið eru líka breytingar tengdar þjóðhagsspánni, t.d. hækkanir vegna hærra verðlags og vaxtastigs, en á móti vegur lægra atvinnuleysi. Að auki hafa bæst við nokkur brýn mál sem nú er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Þar má nefna viðbót til reksturs Landspítalans sem að hluta til tengist heimsfaraldrinum, svo sem opnun hágæslurýma og endurhæfingarrýma, framlög til kaupa á bóluefni og til að standa undir nemendafjölgun framhalds- og háskóla. Auk þess var tekin ákvörðun um sérstaka viðbótarhækkun bóta örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og hækkun frítekjumarks atvinnutekna ellilífeyrisþega. Samanlagt leiða þessar hækkanir til 12 mia.kr. hækkunar gjalda umfram það sem samþykkt var í fjármálaáætlun.

Breytingar á útgjaldaramma milli ára í frumvarpinu.
    Í greinargerð frumvarpsins er tafla á bls. 108 sem sýnir í stórum dráttum frávik frá fjárlögum yfirstandandi árs, bæði á tekna- og gjaldahlið. Skipting útgjalda á málefnasvið er sýnd í töflu á bls. 126.
    Rammafjárlagagerð byggist á því að áhersla er lögð á breytingar á milli ára. Á heildina litið hækka heildargjöld málefnasviða um samtals 11,4 mia.kr. milli ára, þar af vega launa- og verðlagsbætur 37,2 mia.kr. Þar með lækka útgjöldin að raungildi um 25,8 mia.kr. milli ára. Lækkunin skýrist að miklu leyti af tímabundnum ráðstöfunum vegna heimsfaraldursins sem eru að renna sitt skeið á enda.
    Sundurliðun breytinga á einstök málefnasvið er í töflunni. Eins og sjá má eru það tvö málefnasvið sem skýra yfirgnæfandi hluta lækkunar að raungildi. Annars vegar 45,3 mia.kr. vegna vinnumarkaðar og atvinnuleysis þar sem atvinnuleysi á næsta ári verður væntanlega mun minna en í ár, sbr. umfjöllun um efnahagshorfur. Hins vegar 8,2 mia.kr. lækkun í samgöngu- og fjarskiptamálum þar sem sérstakt fjárfestingarframlag til samgönguframkvæmda fjármagnað með umframarðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum fellur niður í kjölfar þess að átakinu lýkur á árinu 2021. Jafnframt dregur úr sérstöku fjárfestingarátaki sem farið var í til að mæta efnahagssamdrætti vegna heimsfaraldursins.
    Á móti vegur hækkun fjölmargra málefnasviða. Mest 15,2 mia.kr. til sjúkrahúsþjónustu sem m.a. skýrist af auknum viðbúnaði heilbrigðiskerfisins vegna heimsfaraldursins. Aðrar veigamiklar hækkanir koma fram á öðrum málefnasviðum heilbrigðismála sem og félagsmála. Samtals nemur heildarhækkun málefnasviða sem heyra undir ýmis heilbrigðisráðuneyti eða félagsmálaráðuneyti 44 mia.kr.
    Í fjárhæðum talið er mesta hækkunin, utan heilbrigðis- og félagsmála, vegna vaxtagjalda, 5,9 mia.kr. og 4,3 mia.kr. til sveitarfélaga og byggðamála. Vaxtakostnaður hækkar vegna hækkunar verðbóta af verðtryggðum lánum ríkissjóðs þar sem verðbólgan er nú áætluð hærri en áður var. Hjá málefnasviði sveitarfélaga munar langmest um hækkun hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna breytinga á lögbundnum tekjum sjóðsins sem fylgja hækkun skatttekna.
    Breytingar milli ára hjá öðrum málefnasviðum eru hlutfallslega mjög misjafnar og skýrast oft af breytingum á stofnkostnaðarframlögum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Efnahagsforsendur.
    Í efnahagsforsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að efnahagsbatinn verði öflugur á næsta ári en Hagstofa Íslands spáir þar 5,3% hagvexti. Þetta er nokkuð í samræmi við það sem aðrir helstu greiningaraðilar hafa verið að spá fyrir árið 2022. Í nýlegum spám er Seðlabanki Íslands til að mynda með 5,1% hagvöxt og OECD með 5,0% hagvöxt fyrir árið 2022. Helstu drifkraftar hagvaxtar á næsta ári verða útflutningur á vöru og þjónustu og einkaneyslan.
    Hagstofan áætlar að fjöldi ferðamanna á næsta ári verði um 1.430.000. Þetta er nokkuð undir þeim fjölda sem var fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar, þegar fjöldi ferðamanna fór mest í um tvær milljónir. Talið er að fjöldi ferðamanna verði orðinn svipaður og fyrir faraldurinn á árunum 2023–2024.
    Gert er ráð fyrir að verðbólga á næsta ári fari lækkandi en verði þó enn nokkuð yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands eða um 3,3%. Helstu orsakir verðbólgu hafa verið húsnæðisverð og erlendar verðhækkanir vegna hrávöru og launahækkana. Þá er spáð minnkandi atvinnuleysi en horfur eru á að atvinnuleysi í ár verði að meðaltali um 6,5% en verði 5,3% á næsta ári.
    Þess ber að geta að í forsendum fjármálaáætlunar fyrir 2022–2026, sem samþykkt var í vor, var gert ráð fyrir um 4,8% hagvexti 2022 og hefur því hagvaxtarspáin hækkað um 0,5 prósentustig. Þó hafa verðbólguhorfur versnað frá síðustu hagspá Hagstofunnar en þá var reiknað með 2,4% verðbólgu 2022 en nú, eins og fyrr segir, 3,3% verðbólgu. Taflan sýnir samanburð á forsendum fjármálaáætlunar frá því í mars 2021 og forsendum frumvarpsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Reikna má með að hærri hagvaxtarspá og uppfærð verðlagsspá leiði til hærri tekna ríkissjóðs um sem nemur í kringum 50 mia.kr. Þá hefur minna atvinnuleysi áhrif á útgjöld vegna atvinnuleysisbóta. Hvert prósentustig í atvinnuleysi kostar tæpa 7 mia.kr.

Hagspár og heimsfaraldurinn.
    Við hagspárgerð er sumt nokkuð auðvelt að sjá fyrir. Leiðandi mælikvarðar við hagspárgerð geta t.d. verið fjármál hins opinbera, fiskveiðikvóti næsta árs og að einhverju leyti fjárfestingar. Hins vegar er erfitt eða nánast ómögulegt að sjá fyrir t.d. miklar náttúruhamfarir eða skaðvænlegan veirufaraldur, sem geta haft umtalsverð áhrif á hagkerfið.
    Þegar ljóst var að heimsfaraldur kórónuveirunnar mundi hafa umtalsverð áhrif á hagkerfið breyttust forsendur fyrri spár með tilheyrandi aðlögun á hagvaxtartölum. Þá hefur faraldurinn valdið milli óvissu í hagspám, sérstaklega hvað varðar tímalengd á faraldrinum og fjölda erlendra ferðamanna. Þess ber að geta að eitt það mikilvægasta og jafnframt það flóknasta við kynningu á hagspám er að útskýra óvissuna í þeim.
    Síðasta spá Hagstofu Íslands fyrir heimsfaraldur kórónuveiru var í nóvember 2019. Þá var gert ráð fyrir hóflegum hagvexti fyrir árin 2020–2022. Í töflunni hér að aftan má sjá hvernig spáin um hagvöxt hefur breyst miðað við nýjustu spá Hagstofunnar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.










    Sjá má að í nóvember 2019 var spáð 1,7% hagvexti en reyndin varð samdráttur upp á 6,5% sem er frávik upp á um 8,2%. Áhrifin hér eru að langmestu leyti vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Í þeim spám sem Hagstofan hefur birt eftir að áhrifa kórónuveirufaraldurs fór að gæta var ljóst að mikill samdráttur yrði í hagkerfinu 2020. Í öllum spám hefur svo verið gert ráð fyrir að hagkerfið færi að taka aftur við sér 2021. Á myndinni hér að aftan má sjá þróun á hagvaxtarspám Hagstofu Íslands eftir útgáfum fyrir árin 2020, 2021 og 2022.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

    Eins og fram hefur komið í álitinu og í greinargerð frumvarpsins eru fjölmargar gjaldabreytingar milli ára tengdar tímabundnum aðgerðum vegna heimsfaraldursins. Í töflunni koma fram viðbætur vegna faraldursins sem samtals nema 7,4 mia.kr. en á móti eru niðurfellingar að fjárhæð 65,3 mia.kr. og í því liggur meginskýringin á raungjaldalækkun milli ára. Þess utan er fjárfestingarátakið 2021–2023 undanskilið í töflunni.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Útgjaldaþróun rammasettra málefnasviða á föstu verðlagi.
    Nefndin hefur til glöggvunar á útgjaldaþróun ríkissjóðs og framfylgd stefnu ríkisstjórnar tekið saman gögn um þróun útgjalda málefnasviða frá árinu 2017.
    Í töflunni koma fram breytingar að raungildi á rammasettum útgjöldum málefnasviða frá árinu 2017. Með rammasettum útgjöldum er ætlunin að gefa betri mynd af undirliggjandi útgjaldaþróun en með því að miða við heildargjöldin. Þá eru lífeyrisskuldbindingar, vaxtagjöld og framlög vegna atvinnuleysis undanskilin. Svokölluð markaðsleiga sem stofnanir greiða í leigu til ríkisins er líka undanskilin í gögnunum til þess að árið 2017 sé sem sambærilegast við frumvarpið 2022.
    Frá árinu 2017 hafa rammasett gjöld aukist mjög mikið, eða um 212,7 mia.kr. sem er 27% hækkun fram til frumvarpsins 2022.
    Hækkunin er mismikil eftir málefnasviðum og skýrist það af forgangsröðun ríkisstjórnar allt frá árinu 2017. Í fjárhæðum talið kemur langmesta hækkunin fram á málefnasviði sjúkrahúsþjónustu, eða 32,6 mia.kr., sem skýrist mest af stofnkostnaði við nýjan Landspítala en einnig af verulegri raunaukningu til rekstrar.
    Næstmest hækka framlög vegna örorku og málefna fatlaðs fólks eða um 21,1 mia.kr. og endurspeglar það bæði áherslur á að bæta kjör öryrkja sem og fjölgun þeirra, sérstaklega á fyrri hluta tímabilsins. Heldur hefur dregið úr nýgengi örorku á síðastliðnum þremur árum.
    Málefnasvið fjölskyldumála og málefna aldraðra hækka bæði um rúmlega 17 mia.kr. að raungildi á tímabilinu. Undir þá málaflokka flokkast ellilífeyrir sem hækkaði verulega árið 2017 í kjölfar kerfisbreytingar, fæðingarorlof og annar stuðningur við fjölskyldur og börn. Hlutfallslega er hækkunin mun meiri vegna fjölskyldumála sem skýrist að miklu leyti af lengingu fæðingarorlofs.
    Hækkun til málefnasviðs nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina er 15,3 mia.kr. að raungildi og hlutfallslega er það meira en tvöföldun á tímabilinu. Sýnir það glögglega áherslur ríkisstjórnarinnar sem hefur sérstaklega hækkað framlög til sviðsins. Framlög í samkeppnissjóði hafa stóraukist auk þess sem endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja hefur margfaldast.
    Framlög til samgöngumála aukast um 15,3 mia.kr. þrátt fyrir lækkun í frumvarpinu 2022 frá fyrra ári. Það sýnir hvað ríkisstjórnin hefur frá 2017 stóraukið framkvæmdir í vegakerfinu, svo sem með áðurnefndu fjárfestingarátaki.
    Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa hækkar um 13,4 mia.kr. eða 25% og skýrist alfarið af mikilli styrkingu heilsugæslunnar á sl. árum auk þess sem mjög hefur verið dregið úr greiðsluþátttöku þeirra sem sækja þjónustu heilsugæslunnar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hlutfallslega hækkar nýsköpunin langmest af öllum málefnasviðum eða um 105% og næst kemur þróunarsamvinnan með 82% hækkun, æðsta stjórnsýslan 65% vegna stofnkostnaðar og 54% vegna fjölskyldumála.

Samstæðuyfirlit A-hluta.
    Í frumvarpinu hefur flokkun ríkisaðila verið breytt frá því sem áður var. Ýmsir ríkisaðilar, einkum fyrirtæki og sjóðir sem áður féllu undir svokallaðan B- og C-hluta ríkisins, flokkast nú til A-hluta. Samhliða þessari breytingu er gert ráð fyrir breytingu á lögum um opinber fjármál til samræmis við nýja flokkun í frumvarpinu.
    Tilgangurinn er að gæta samræmis við uppgjör Hagstofu Íslands á flokkun ríkisaðila í þjóðhagsreikningum. Þar með telst til A-hluta öll starfsemi og verkefni sem eru fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum. Eftir sitja í B-hluta eingöngu þeir ríkisaðilar sem ekki eru sameignar- eða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins sem starfa á markaði og standa undir kostnaði við starfsemi sína með sölu á vörum og þjónustu til almennings og fyrirtækja. Til C-hluta teljast aðilar sem afla tekna með sama hætti og B-hlutinn en eru sameignar- eða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins. Að auki telst Seðlabanki Íslands til C-hlutans.
    Endurflokkunin er viðamikið verkefni og gerir það að verkum að umfang A-hluta eykst verulega. Í því skyni að gæta samræmis í samanburði við fyrri ár er A-hlutanum skipt í þrennt. Undir A1 falla sömu aðilar og áður töldust til A-hluta. Í áliti þessu einskorðast umfjöllunin við þá aðila. Undir A2 og A3 falla þeir aðilar sem áður töldust til B- og C-hluta en færast nú til A-hlutans. Breytingar á lögum um opinber fjármál hafa að markmiði að sem minnst rask verði á því fyrirkomulagi sem hefur verið frá gildistöku laganna.
    Í greinargerð frumvarpsins koma fram ítarlegar skýringar á þessum breytingum og jafnframt er gerð grein fyrir samstæðuyfirliti fyrir allan A-hlutann í heild sinni. Það er sett fram í fyrsta sinn og samkvæmt því eru heildartekjur A-hlutans áætlaðar 995 mia.kr. á næsta ár sem er 40 mia.kr. hærra en heildartekjur A1-hlutans sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins. Heildargjöldin eru áætluð 1.171 mia.kr. sem er 47 mia.kr. hærra en gjöldin skv. 1. gr. frumvarpsins.

Fjármögnun betri vinnutíma í vaktavinnu.
    Nefndin hefur kynnt sér forsendur og markmið verkefnis um betri vinnutíma í vaktavinnu og fjármögnun þeirra breytinga. Helstu breytingarnar eru að vinnuvika vaktavinnufólks, í fullu starfi, styttist úr 40 klukkustundum í 36. Frekari stytting í 32 klukkustundir er möguleg. Markmið breytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess á að samþætta betur vinnu og einkalíf. Breytingarnar ættu að stuðla að meiri stöðugleika í mönnun stofnana, draga úr þörf og hvata fyrir yfirvinnu og bæta starfsumhverfi og gæði opinberrar þjónustu.
    Styttingin myndar mönnunargat sem kallar á fleiri stöðugildi ef halda á sömu þjónustu og verið hefur. Kostnaðarmat tekur mið af þessu og áætlaður heildarkostnaður nemur 5,4 mia.kr. á ársgrundvelli. Miðast það við ríkisstarfsmenn, aðallega heilbrigðisstarfsfólk og löggæslu, en einnig starfsmenn hjúkrunarheimila.
    Gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta útgjaldasvigrúm heilbrigðisráðuneytisins sem er til staðar í fyrirliggjandi fjármálaáætlun upp í þennan kostnað. Endanleg kostnaðar- og hagræðingaráhrif af verkefninu eru enn óljós og skýrast ekki fyrr en seint á næsta ári. Af þeim sökum eru settar á varasjóð fjárheimildir til að mæta kostnaðinum.

Staða fjárfestingarverkefna.
    Fram kom fyrir fjárlaganefnd að áætlanir um opinberar fjárfestingar hafi ekki gengið eftir jafn hratt og ætlað var og því mikið af fjárfestingarheimildum fært á milli ára. Samkvæmt samgönguyfirvöldum eru ýmsar ástæður fyrir því að töluverð óvissa er um fjárflæði til framkvæmda í vega- og brúargerð. Um er að ræða langan undirbúningstíma með rannsóknum, hönnun, samningum við landeigendur, útboðsferli og leyfisferli tengdu skipulagi, mati á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfi. Þá er framvinda framkvæmda við vega- og brúargerð verulega háð árstíðum.
    Þess ber að geta að framkvæmdaáætlun höfuðborgarsáttmálans hefur raskast verulega vegna framangreindra atriða. Sveitarfélagið Bláskógabyggð benti á að það gæti ekki haldið áfram með sína skipulagsvinnu þar sem Vegagerðin hefði ekki gert umhverfismat vegna færslu Biskupstungnabrautar við Geysi og vegna Kjalvegar. Vegna eðlis samgönguframkvæmda hefur verið hægt að flýta öðrum vegaframkvæmdum til að halda uppi framkvæmdastigi í samræmi við fjárheimildir.
    Er því beint til Vegagerðarinnar að huga að nauðsynlegum undirbúningi framkvæmda eins og umhverfismati, hönnun og leyfisveitingum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur að gerð langtímaáætlana í opinberum framkvæmdum með það að markmiði að gera þær hagkvæmari og skilvirkari í framkvæmd. Meiri hluti fjárlaganefndar telur mikilvægt að slíkar úrbætur gangi eftir til að opinberar framkvæmdir verði hagkvæmari og að áætlanir standist í tíma.

Samningar Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um skilavegi.
    Skilavegir eru vegir sem Vegagerðinni var gert heimilt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í vegalögum, nr. 80/2007, að semja um við sveitarfélög að flytja úr flokki stofnvega yfir til sveitarfélaganna með samningi. Áttu viðkomandi samningar upphaflega að taka gildi fyrir árslok 2019 en vegna samningsleysis var heimildin framlengd til ársloka 2021.
    Samkomulag þarf að nást um þrjú atriði.
     1.      Hvaða vegir munu falla undir samkomulagið.
     2.      Ástand veganna þegar umráðaskipti eiga sér stað.
     3.      Hvaða aðili sér um veghald veganna.
    Eftir atvikum getur komið til þess að millifæra þurfi fjármagn til veghalds frá Vegagerðinni til viðkomandi sveitarfélags. Í erindum til fjárlaganefndar kom fram að samningar séu langt komnir um ástand veganna og að tryggja þurfi að fjármagn sé til staðar til að koma þeim í viðunandi ástand en óleyst og órætt sé um veghaldið. Meiri hluti fjárlaganefndar beinir því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að leysa úr þessum málum svo að vegir sem falla undir það að vera skilavegir verði þjónustaðir frá og með 1. janúar nk.

Styrkir til almenningssamgangna.
    Framlag til almenningssamgangna hækkar um 150 m.kr. Framlaginu er ætlað að stuðla að umhverfisvænni almenningssamgöngum og breyttum ferðavenjum til að ná árangri í loftslagsmálum. Í yfirliti 6 með fylgiriti fjárlaga er ekki tilgreindur stuðningur við áætlunarakstur á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Svör ráðuneytisins voru á þá leið að ekki stæði til að hætta þeim stuðningi enda fjármagn til staðar í málaflokkinn en enn hefði ekki tekist að ganga frá samningi þess efnis. Meiri hlutinn hvetur til þess að gengið verði frá slíkum samningi í samræmi við samkomulag þar um frá 26. september 2019.

Endurmat útgjalda.
    Setja þarf aukinn kraft í verkefni Stjórnarráðsins um markvisst endurmat útgjalda og stafræna þróun. Hvort um sig ætti að stuðla að skilvirkari nýtingu opinbers fjár án þess að koma niður á mikilvægi grunnþjónustu. Meiri hlutinn væntir þess að sjá árangur af þessari vinnu strax við vinnu fjármálaáætlunar.

Breytingar á frumvarpinu.
    Í kjölfar greiningarvinnu nefndarinnar við yfirferð á umsögnum og svörum ráðuneyta við spurningum nefndarinnar eru gerðar allnokkrar breytingartillögur við frumvarpið. Þá hefur ný ríkisstjórn komið með fjölmargar tillögur til nefndarinnar til umfjöllunar. Breytingar á tekjuhlið eru nokkrar en óverulegar í samanburði við margar tillögur á gjaldahliðinni.
    Einnig eru gerðar tillögur til breytinga á 5. gr. sem fjallar um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir og á 6. gr. sem fjallar um heimildir ráðherra til að kaupa og selja fasteignir, lóðir, jarðir og hlutabréf.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í töflunni sést heildarumfang allra breytingartillagna á gjaldahlið og í kjölfarið fylgir stutt umfjöllun um þau málefnasvið og málaflokka þar sem veigamestu breytingarnar koma fram.
    Allar breytingartillögur á gjaldahlið eru skýrðar í sérstökum kafla aftast í álitinu.

Umfjöllun um nokkur málefnasvið.
01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir samtals 7,3 mia.kr. á málefnasviðinu. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur og munar mest um 36 m.kr. styrkingu embættis umboðsmanns Alþingis í ljósi aukinna verkefna, m.a. tengdra svokölluðu OPCAT-eftirliti.

03 Æðsta stjórnsýsla.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir samtals 3,5 mia.kr. á málefnasviðinu. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur og munar mest um 56 m.kr. hækkun vegna ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra og 40 m.kr. vegna tímabundinna endurbóta á Þingvallabænum.

04 Utanríkismál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir samtals 13,8 mia.kr. á málefnasviðinu. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur, m.a. vegna tímabundinna verkefna, svo sem 30 m.kr. til undirbúnings vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og aðrar 30 m.kr. til að styrkja rekstur Þýðingamiðstöðvarinnar með því að nýta betur og fjölga starfsfólki á starfsstöðvum utan höfuðborgarsvæðisins.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins samtals 39,1 mia.kr. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur vegna skattamála. Þyngst vega 160 m.kr. til að vega upp sértekjutap Skattsins vegna tollafgreiðslugjalds og 140 m.kr. framlag vegna átaks vegna skiptameðferðar þeirra aðila sem ekki sinna skyldu sinni til skráningar á raunverulegum eigendum.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins samtals 29,9 mia.kr. Af breytingartillögum munar langmest um 1.259 m.kr. hækkun endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Fleiri fyrirtæki sækja um endurgreiðslu og umfang tillagna hefur aukist verulega frá því í fyrra. Gerð er bókhaldsleg breyting í þá veru að framlög til sprota- og nýsköpunarsjóðsins Kríu eru eignfærð en ekki gjaldfærð og því er 2 mia.kr. fjárheimild felld niður. Það hefur engin áhrif á starfsemi sjóðsins.
    Meiri hlutinn vekur einnig athygli á nokkrum minni styrkjum, svo sem til nýsköpunarmiðstöðvarinnar Hraðsins og til nýsköpunarvirkni fatlaðra einstaklinga.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins samtals 26,7 mia.kr. Framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er yfirgnæfandi hluti heildargjaldanna. Gerðar eru þrjá breytingartillögur þar sem mest munar um 100 m.kr. styrkingu á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta. Sóknaráætlanir hafa sannað sig sem öflugt tæki til að efla atvinnu- og menningarlíf á landsbyggðinni. Sérstaklega skal hugað að verkefnum sem hafa þurft að takast á við afleiðingar heimsfaraldurs.

09 Almanna- og réttaröryggi.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins samtals 34,3 mia.kr. Veigamesta breytingartillagan er 200 m.kr. hækkun til lögreglunnar til að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota og efla forvarnir og þjónustu við þolendur kynferðisbrota í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála. Með 157 m.kr. tillögu er gert ráð fyrir að innleiða komu- og brottfararkerfi á Keflavíkurflugvelli og fjölga landamæravörðum.
    Þá er gerð tillaga um 120 m.kr. til að styrkja löggæsluna á landsbyggðinni en verkefni lögreglu hafa aukist í heimsfaraldri, auknar áskoranir eru varðandi skipulagða glæpastarfsemi og spár gera ráð fyrir fjölgun ferðamanna á ný.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins samtals 51,3 mia.kr. Breytingartillögur eru óverulegar. Lagt er til að veita 186 m.kr. heimild til verðbóta fjárheimilda verkefnisins um samgöngusáttmála.
    Með samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu frá 26. september 2019 lýstu aðilar þess vilja sínum til þess að vinna sameiginlega að endurskoðun samkomulags um tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og framlengingu á gildistíma þess um 12 ár, til 2034, en gildandi samkomulag rennur sitt skeið á næsta ári.
    Í samkomulaginu frá 2019 kom fram að miðað yrði við að árleg framlög til verkefnisins í tillögum ráðherra til þingsályktunar um samgönguáætlun yrðu að lágmarki óbreytt að raunvirði út tímabilið. Þá verði í tengslum við uppbyggingu samgönguinnviða höfuðborgarsvæðisins horft til uppfærðra rekstraráætlana almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. um rekstur borgarlínu.
    Starfshópur viðkomandi ráðuneyta og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að gerð tillögu að endurskoðuðu samkomulagi í samræmi við framangreint. Í umsögn Ríkisendurskoðunar um fjárlagafrumvarpið komu fram ábendingar um framgang og eftirfylgni við höfuðborgarsáttmálann.
    Félagið Betri samgöngur er félag um innviðaframkvæmdir og fjármögnun með eftirfarandi hætti: beinum framlögum, framsali á ríkiseignum og sölu þeirra ásamt framlagi sveitarfélaga. Einnig er áætlunin að notkunargjöld verði hluti af fjármögnun þeirra. Meiri hluti fjárlaganefndar ítrekar að eftirfylgni með samningum og framkvæmdir þurfa að vera með markvissum og skýrum hætti.
    Einnig tekur meiri hlutinn undir álit Ríkisendurskoðunar um að endurskoðun gjalda af umferð þurfi að hraða. Æskilegt er að sú endurskoðun horfi einnig til upptöku á notkunargjöldum af samgöngumannvirkjum.

12 Landbúnaður.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins samtals 18,5 mia.kr. Eina breytingartillagan sem leiðir til hækkunar gjalda felur í sér 700 m.kr. framlag til stuðnings bændum vegna hækkunar áburðarverðs í kjölfar heimsfaraldursins sem greitt verður í gegnum búvörusamninga.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 8,8 mia.kr. Gerð er ein breytingartillaga um 95 m.kr. til að styrkja bæði grunnrannsóknir og mat á nytjastofnum hjá Hafrannsóknastofnun. Á undanförnum árum hefur komið fram misræmi í sambandi milli vísitalna um magn ungþorsks og metinnar stofnstærðar. Kortleggja á dreifingu þorskungviðis við landið, merkja þorsk til að varpa ljósi á farhegðun auk þess sem greina á fæðu þorsks, m.a. með það að markmiði að greina hvort breytingar hafi orðið í fæðuvali í ljósi minnkandi loðnugengdar undanfarna áratugi.

14 Ferðaþjónusta.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 2,1 mia.kr. Gerð er ein breytingartillaga um 200 m.kr. til að standa straum af markaðssetningu verkefnisins Saman í sókn. Verkefnið var hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins og er framlengt þar sem faraldurinn hefur dregist meira á langinn en gert var ráð fyrir.

15 Orkumál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 5,8 mia.kr. Veigamesta breytingartillagan felst í 247 m.kr. framlagi til hækkunar á jöfnunarkostnaði raforku í dreifbýli. Markmiðið er að með þessu náist 100% jöfnun. Jafn dreifikostnaður orku, óháð búsetu, er ein forsenda byggðaþróunar og jafnra búsetuskilyrða og atvinnutækifæra á landsvísu.

17 Umhverfismál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 25,3 mia.kr. Veigamestu breytingartillögurnar eru annars vegar 69 m.kr. til Vatnajökulsþjóðgarðs vegna rekstrarkostnaðar með tilkomu nýrrar gestastofu í Skútustaðahreppi og hins vegar 48 m.kr. til að styrkja rekstur náttúrustofa um allt land.
    Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að fara yfir fjármögnun náttúrustofa. Sveitarfélög greiða framlög til rekstrar þeirra. Ráðast ber í stefnumörkun um hlutverk þeirra og sérhæfingu. Starfsemi náttúrustofa er einn af þeim þáttum sem undirbyggja dreifingu starfa um landið.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 17,5 mia.kr. Gerðar eru fjölmargar breytingartillögur til að styrkja bæði einstök söfn og menningarstarfsemi víða um land auk þess sem bætt er í myndlistarsjóð, sviðslistasjóð og veitt tímabundið 55 m.kr. framlag vegna nýrrar kvikmyndastefnu. Samtals nema breytingartillögur 415 m.kr.

20 Framhaldsskólastig.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 40,4 mia.kr. Gerðar eru nokkrar breytingartillögur sem samtals nema 182 m.kr. Þar munar mest um 50 m.kr. vegna aukins grunnframlags til tónlistarfræðslu og aðra 50 m.kr. fjárveitingu til Menntanets Suðurnesja. Þá eru veittar 42 m.kr. til Fiskvinnsluskólans í Grindavík.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að mikilvægt er að svigrúm verði tryggt innan framhaldsskólakerfisins til að mæta auknum þörfum atvinnulífsins og fjölbreyttari vinnumarkaði sem er í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála um að auka aðgengi og fjölbreytni náms sem og að efla iðn- og tækninám um allt land. Nemendafjöldi getur verið breytilegur bæði þegar nýjar námsbrautir eru settar á fót og í einstökum iðn- og verkgreinum á milli ára.
    Þá hefur heimsfaraldurinn haft mikil áhrif á nemendafjölda. Slíkar sveiflur geta haft slæm áhrif á rekstrarstöðu framhaldsskóla, sérstaklega þeirra minni, eins og erindi Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellsýslu til fjárlaganefndar ber með sér.

21 Háskólastig.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 55,1 mia.kr. Veigamesta breytingartillagan snýr að breytingu á fyrirkomulagi húsnæðis Háskóla Íslands sem mun framvegis greiða leigu til félags í eigu ríkisins sem heldur utan um allar fasteignir skólans. Tillagan hefur þannig engin bein áhrif á afkomu ríkissjóðs eða fjárhag skólans.
    Af öðrum tillögum vegur þyngst 120 m.kr. stofnkostnaðarframlag til úrbóta á húsnæði Háskólans á Hólum.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að framgangi samstarfssamnings um undirbúning að stofnun háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 6,1 mia.kr. Breytingartillögur nema samtals 101 m.kr. Veigamest er 80 m.kr. hækkun til geðheilbrigðismála og 15 m.kr. tímabundið framlag til Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 136,6 mia.kr. og er það umfangsmesta málefnasvið ríkisins. Gerðar eru breytingartillögur sem samtals nema 1.112 m.kr. Þar vegur þyngst 849 m.kr. framlag til almennrar sjúkrahúsþjónustu. Ákveðið hefur verið að fjölga sjúkrarýmum hjá heilbrigðisstofnunum á Suðurlandi og Suðurnesjum til að létta álagið hjá Landspítalanum.
    Tillögurnar gera ráð fyrir um 750 m.kr. hækkun til Landspítalans frá frumvarpinu og felst einkum í millifærslum af safnlið og liðum vegna lyfjakostnaðar. Fjárheimild spítalans er þá komin í 90 mia.kr. og hækkar um 9,9 mia.kr. frá fjárlögum 2021 eða um 12%. Hækkunin er tilkomin vegna aukinna verkefna, svo sem reksturs hágæslurýma og endurhæfingarrýma á Landakoti í samræmi við viðbúnað heilbrigðiskerfisins við heimsfaraldrinum.
    Þar að auki hefur spítalinn fengið fulla fjármögnun, í frumvarpi til fjáraukalaga, á öllum viðbótarkostnaði vegna heimsfaraldursins.
    Á undanförnum árum hefur spítalinn fengið sérstakar fjárveitingar sem nema um 1,8% árlegri hækkun til að vega upp á móti öldrun þjóðarinnar. Nú gengur sú raunhækkun framlags upp á móti áætluðum kostnaði við verkefnið um bættan vinnutíma vaktavinnufólks.
    Meiri hlutinn bendir á að ef í ljós kemur á næsta ári að kostnaður við það verkefni hafi verið vanmetinn þá fellur það undir notkun á varasjóði fjárlaga.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 66,5 mia.kr. Breytingartillögur nema 263 m.kr. og þar munar mest um 180 m.kr. heimild vegna breytinga á kröfu um starfsreynslu talmeinafræðinga.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 70,2 mia.kr. og breytingartillögur nema samtals 1.140 m.kr. þar sem þyngst vegur 1.000 m.kr. styrking rekstrargrunns hjúkrunarheimila í framhaldi af skýrslu starfshóps um greiningu á rekstri stofnana. Þar að auki er áætlað fyrir kostnaðarauka vegna verkefnis um betri vinnutíma í vaktavinnu, samtals 1.200 m.kr. á málefnasvið varasjóðs fjárlaga. Einnig eru veitt tímabundin framlög til SÁÁ og Hlaðgerðarkots.

26 Lyf og lækningavörur.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 31,5 mia.kr. og hafa hækkað hlutfallslega mjög mikið á allra síðustu árum. Fjárlaganefnd spurðist fyrir um áhrif lagabreytinga um innkaup á lyfjum. Ábendingar umsagnaraðila voru um að fjárhæðin væri vanáætluð. Fram kom að áhrif lagabreytingar væru ekki að fullu komin fram. En lyf hafa hækkað verulega vegna áhrifa heimsfaraldursins.
    Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að yfirfara fyrirkomulag lyfjakaupa og leita hagræðingar, svo sem að skoða kosti þess að heimila í meira mæli notkun samheitalyfja. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar sl. vor kom fram ábending um að endurskoða fyrirkomulag lyfjakaupa hjúkrunarheimila og láta lyfjakaup íbúa heimilanna falla að almennu fyrirkomulagi stuðnings við lyfjakaup. Það eitt og sér mundi jafna rekstur hjúkrunarheimila og stöðu þeirra.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 88,8 mia.kr. Breytingartillögur eru helstar 450 m.kr. til að lækka skerðingarhlutfall grunnlífeyris þannig að það fari úr 25% í 11% sem mun eyða svokölluðu falli á krónunni svo til alveg. Einnig er lögð til 320 m.kr. tímabundin hækkun vegna NPA-samninga til að standa straum af áframhaldandi framlagi ríkisins vegna gildandi samninga og til að fjármagna nýja samninga á næsta ári.

29 Fjölskyldumál.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 49,5 mia.kr. og breytingartillögur nema samtals 2.249 m.kr. Þar vegur þyngst 1.627 m.kr. hækkun til Fæðingarorlofssjóðs þar sem fæðingar hafa verið óvenjumargar á yfirstandandi ári og stefnir í að metið frá 2010 verði slegið nú í ár. Þá hafa feður tekið meira orlof en verið hefur á undanförnum árum.
    Þá er gerð tillaga um 100 m.kr. heimild til að styrkja íþrótta- og tómstundaiðkun barna á tekjulágum heimilum.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 50,2 mia.kr. og breytingartillögur nema samtals 5 mia.kr. Þar vegur þyngst 3,4 mia.kr. framlag vegna ráðningarstyrkja. Tæplega 40% styrkjanna eru vegna nýrra úrræða sem tengjast átakinu Hefjum störf en 60% eru vegna hefðbundinna ráðningarstyrkja og reyndist ásókn í þá styrki vera mun meiri en ráð var fyrir gert og er viðbótarheimild tilkomin vegna þeirra.
    Einnig hækka framlög til VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs um 200 m.kr. með millifærslu af lið örorkubóta þar sem dregið hefur úr nýgengi örorku.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 14,5 mia.kr. Breytingartillögur eru samtals 316 m.kr. og þar af eru 95 m.kr. til að styrkja rekstrargrunn Sjúkratrygginga Íslands.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 35,4 mia.kr. Þar af eru 17,9 mia.kr. vegna afskrifta skattkrafna. Breytingartillögur eru bæði til hækkunar og lækkunar. Hér er áætlað fyrir kostnaðarauka hjúkrunarheimila vegna vaktavinnu, 1,2 mia.kr., en á móti vegur almenn lækkun varasjóðs um 500 m.kr. Breytt skipan Stjórnarráðsins er með 450 m.kr. kostnaðaráætlun sem gert er ráð fyrir á sérstöku viðfangsefni.
    Loks er lækkun sem nemur 640 m.kr. þar sem meiri hlutinn leggur áherslu á að farið verði yfir utanferðir í öllum ráðuneytum og stofnunum sem miði að því að flokka erlend samskipti eftir því að hvaða marki þeim verði sinnt með fjarfundum. Er því gerð tillaga um að nálægt 40% af fjárveitingu sem veitt var í frumvarpinu til að hækka að nýju fjárveitingar vegna ferðakostnaðar falli niður.

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
    Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir málefnasviðsins 10,7 mia.kr. og taka mið af því markmiði stjórnvalda að verja skuli 0,35% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Gerð er breytingartillaga til lækkunar um 456 m.kr. að teknu tilliti til tvöfaldra stofnfjárframlaga til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA), sem greiðast á næsta ári vegna heimsfaraldurs, og aðlagaðrar aðferðafræði við útreikninga þess hluta kostnaðar við móttöku kvótaflóttafólks og umsækjenda um vernd sem telst til þróunarsamvinnu. Auk þess sem launa- og verðlagsbætur sem höfðu verið reiknaðar inn í ramma málefnasviðsins falla út ásamt aðhaldskröfu.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
01.10 Alþingi.

    Gerð er tillaga um 10 m.kr. framlag til að styrkja heimsþing kvenleiðtoga á Íslandi, Women Leaders Global Forum, 2022, í samræmi við samstarfsyfirlýsingu forsætisráðherra, forseta Alþingis og WPL um að styrkja heimsþingið sem haldið er í Hörpu í nóvember á hverju ári.

01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis.
    
Gerð er tillaga um 30 m.kr. framlag til að manna tvær stöður lögfræðinga hjá umboðsmanni Alþingis til að anna verkefnum embættisins. Forseti Alþingis sendi fjármála- og efnahagsráðherra bréf um málið í september og desember 2021 þar sem bent er á mikilvægi þess að tryggja að umboðsmaður Alþingis geti með viðunandi hætti sinnt OPCAT-eftirliti í samræmi við ákvarðanir sem Alþingi hefur tekið og jafnframt þess að gætt sé að því að embættið hafi bolmagn til að sinna öðrum reglubundnum verkefnum sínum. Innkomin erindi til umboðsmanns á þessu ári eru orðin 530 en í fjármálaáætlun var gert ráð fyrir að þau yrðu um 440.
    Jafnframt er gerð tillaga um framlag til að jafna á móti aðhaldskröfu umboðsmanns þar sem rekstrarkostnaður embættisins er nær allur launakostnaður. Ekki er hægt að færa aðhaldskröfuna til innan málefnasviðsins þar sem hinar stofnanirnar eiga nóg með sinn hluta af aðhaldskröfu málefnasviðsins.

02 Dómstólar.
02.20 Héraðsdómstólar.
    
Gerð er tillaga um 30 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár til héraðsdómstóla vegna kostnaðar við einfalda og hefðbundna slita/skiptameðferð tiltekinna aðila vegna breytinga á lögum um skráningu raunverulega eigenda, nr. 82/2019 (slit/skipti). Skv. 17. gr. þeirra laga getur ríkisskattstjóri krafist skipta á skráningarskyldum aðilum sinni þeir ekki skráningarskyldu sinni. Alls hafa 1.287 skráningarskyldir aðilar ekki uppfyllt skráningarskyldu sína samkvæmt lögum nr. 82/2019. Gert er ráð fyrir að 378 aðilar muni fara í hefðbundna skiptameðferð skv. 17. gr. laganna og 909 aðilar fari í einfalda slitameðferð. Hér er verið að bregðast við þeim kostnaði sem verður hjá héraðsdómstólum vegna fjölda aðila sem verða sendir til héraðsdómstólanna í slita/skiptameðferð (einfalda og hefðbundna) á árinu 2022.

02.40
Dómstólasýslan.
    
Gerð er tillaga um 8 m.kr. hækkun rekstrarframlags með breytingu á hagrænni skiptingu af fjárfestingu yfir á rekstur. Framlaginu er ætlað að mæta auknum kostnaði vegna meðdómenda.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.20
Ríkisstjórn.
    
Gerð er tillaga um 56,3 m.kr. hækkun útgjalda vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna í samræmi við skipan ríkisstjórnarinnar þann 28. nóvember sl. Ráðherrum fjölgar um einn og aðstoðarmönnum um tvo.

03.30 Forsætisráðuneyti.
    
Lagt er til að 10 m.kr. verði veittar til verkefna er snúa að stjórnarskrá líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var 28. nóvember sl. en þar segir:
    „Ríkisstjórnin mun setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði. Efnt verður til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar. Framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar verður metið í framhaldinu.“
    Lagt er til að veitt verði 35 m.kr. fjárveiting vegna nefndar sem forsætisráðherra skipaði 31. ágúst sl. til að vinna að úttekt á viðbrögðum stjórnvalda við COVID-19. Meginverkefni nefndarinnar eru að greina áfallastjórnun vegna faraldursins. Í úttekt nefndarinnar verður m.a. fjallað um hvernig stjórnvöld voru undirbúin til að takast á við faraldurinn, hvernig ákvarðanatöku var háttað, hvernig upplýsingum var miðlað og hvernig reynslan hafi verið nýtt jafnharðan til aðlögunar á stefnu og áætlanagerð. Þá mun nefndin fjalla um helstu samfélagslegu áhrif faraldursins. Gert er ráð fyrir að nefndin skili úttekt sinni eigi síðar en 1. mars 2022.
    Lagt er til tímabundið 40 m.kr. fjárfestingarframlag til tveggja ára vegna innri endurbóta á Þingvallabænum. Í því felst m.a. viðgerð á loftum innan dyra, að fjarlægja panil og plötuklæðningu af sperrum, grindarefni og það rakavarnarlag sem þar er að finna. Gengið verður frá rakavörnum innan dyra og loftin grunnklædd að nýju. Kostnaðarmat og fjárþörf er metin á þessu stigi 40 m.kr. hvort árið, eða alls 80 m.kr. Vera má að fjárþörf breytist að einhverju leyti þegar uppfærð og endurskoðuð kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkiseigna liggur fyrir.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    
Gerð er tillaga um 25 m.kr. fjárheimild til að setja á stofn upplýsingakerfi til þess að halda utan um þann mikla fjölda erinda sem berast borgaraþjónustunni í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Mikilvægt er að innleiða kerfi sem býður upp á sjálfvirknivæðingu beiðna sem berast borgaraþjónustunni, sem mun gera starfið skilvirkara og einfaldara og leiða til hagræðingar fyrir starfsemina. Þá þarf að vera hægt að skrá beiðnir í kerfið frá aðalskrifstofu ráðuneytisins og öllum 26 sendiskrifstofum Íslands víða um heim.
    Lagt er til að veita 20 m.kr. tímabundið framlag vegna ráðherrafundar EFTA 2022. Komið er að Íslandi að halda fundinn. Ísland fer með formennsku í Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, frá l. júlí 2021 til 30. júní 2022. Það kemur því í hlut Íslands að halda ráðherrafund EFTA í lok júní það ár, áður en formennskunni lýkur. Þessir fundir eru ávallt fjármagnaðir á grundvelli tímabundinna fjárframlaga og mikilvægt er að tekið sé tillit til þessa. EFTA-ráðherrafundur felur í sér, auk fundar ráðherranna, fund ráðherra með þingmannanefnd EFTA annars vegar og ráðgjafarnefnd EFTA hins vegar. Einnig funda ráðgjafar- og þingmannanefnd hvor í sínu lagi og sameiginlega undir hatti EES-samstarfsins. Algengt er að undirrituð sé viljayfirlýsing um viðræður um fríverslunarsamning eða fríverslunarsamningur undirritaður við eitt erlent ríki í tengslum við ráðherrafundinn og eru þá fulltrúar þess ríkis viðstaddir undirritunarathöfn og hátíðarkvöldverð fundarins. Gestir á fundinum eru að jafnaði um 130–140 talsins, að meðtöldum íslenskum fundarmönnum. Gera má ráð fyrir að kostnaður vegna fundarins verði 20 m.kr.
    Gerð er tillaga um 30 m.kr. tímabundið framlag til undirbúnings formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2023. Ísland verður með formennsku í nefndinni árið 2023, sem er ári fyrr en gert var ráð fyrir, vegna skipta við Svíþjóð. Í fjármálaáætlun hefur verið gert ráð fyrir framlögum til að mæta kostnaði við formennskuna á formennskuárinu. Formennskuríkið þarf að leggja fram formennskuáætlun og er því nú þegar farið að huga að undirbúningi, en hann mun hefjast af fullum krafti á árinu 2022. Þessi verkefni eru ávallt fjármögnuð á grundvelli tímabundinna fjárframlaga og mikilvægt er að tekið sé tillit til þessa.
    Lögð er til 30 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Fjöldi starfsfólks þar er nú 30 en gert er ráð fyrir að fjöldi starfsfólks þurfi að vera 33–34. Af 30 starfsmönnum eru 10 starfsmenn staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins, fimm á Akureyri, þrír á Ísafirði og tveir á Seyðisfirði. Aðhald sem þýðingamiðstöðin hefur sætt til jafns við aðra starfsemi hefur ekki gengið upp í framkvæmd. Núverandi framlag nær ekki að fjármagna launakostnað og hefur allur annar kostnaður, svo sem vegna aðstöðu og stoðþjónustu, verið færður á aðalskrifstofu ráðuneytisins. Áætlað er að varanlegt framlag þurfi að hækka sem nemur 60 m.kr. til þess að geta staðið undir rekstri miðað við fulla mönnun og eðlilegan rekstrarkostnað. Áfram verður horft til þess að byggja upp starfsemi miðstöðvarinnar með því að nýta betur og fjölga starfsfólki á starfsstöðvum utan höfuðborgarsvæðisins.
    Lagt er til að veittar verði 27 m.kr. vegna árlegs þings Hringborðs norðurslóða, 15 m.kr. til að mæta húsaleigu á Hörpu, 5 m.kr. vegna móttöku ráðherra og 7 m.kr. vegna starfa fyrrverandi forseta Íslands. Um nokkurt skeið hefur verið veitt tímabundið framlag til verkefnisins og er hér lagt til að framlagið verði gert varanlegt enda hefur ráðstefnan Hringborð norðurslóða fest sig í sessi á alþjóðavettvangi.
    Lagt er til að hækka fjárheimild um 22 m.kr. til að styrkja sendiráð Íslands í London vegna verkefna sem leiðir af nýjum fríverslunarsamningi og vegna annarra samninga við Bretland. Gert er ráð fyrir að framlagið sé varanlegt. Fjárveitingin er til að sinna hagsmunagæslu vegna samninga við Bretland í kjölfar úrsagnar þess úr ESB. Gert er ráð fyrir varanlegri styrkingu í sendiráði Íslands í London vegna þeirra fjölmörgu samninga sem þarf að vinna að í tengslum við þessar breytingar. Sendiráðið fékk tímabundna fjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 2018 vegna BREXIT sem féll niður í árslok 2019. Mikið verk er enn fyrir höndum við samninga við Bretland í kjölfar úrsagnar þess úr ESB og hér er því lagt til að ráðuneytið fái fjárveitingu á ný til að sinna þessu brýna verkefni.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    
Gerð er tillaga um 20 m.kr. framlag til að standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd útboðs vegna leigu á ljósleiðara, sbr. umfjöllun þar að lútandi í skýrslu starfshóps utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Gera þarf breytingar á ljósleiðarakerfi Atlantshafsbandalagsins hér á landi til þess að gera það aðgengilegt fyrir nýjan leigutaka og þar með auka framboð á fjarskiptaþjónustu.

05
Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
    
Gerð er tímabundin breyting á hagrænni skiptingu Skattsins þar sem fjárfestingarframlögum að upphæð 75 m.kr. er breytt í rekstrarframlög. Fjárfestingum hefur verið frestað hjá stofnuninni sem hefur til umráða uppsafnaða fjárfestingarheimild sem nýst getur á árinu 2022. Því er gerð tillaga um tímabundna breytingu á hagrænni skiptingu þar sem meiri þörf er á rekstrarframlögum á næsta ári, m.a. vegna fyrirhugaðra flutninga í nýtt húsnæði.
    Gerð er tillaga um 50 m.kr. framlag til Skattsins til að bæta stofnuninni það tap sem hún varð fyrir þegar ársreikningaskrá var gerð gjaldfrjáls. Þegar lög um breytingu á lögum um endurskoðendur og endurskoðun (gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga) voru samþykkt leiddi það til þess að Skatturinn varð af 54,5 m.kr. í sértekjum eins og kom fram í kafla um áhrifamat í frumvarpinu. Þá á eftir að taka tillit til þess sparnaðar sem myndast vegna þess að ekki þarf lengur að ljósrita ársreikninga. Tekjur Skattsins árið 2019 skiptust í 49 m.kr. vegna sölu ársreikninga til miðlara og 5 m.kr. vegna ljósritaðra ársreikninga. Tekjurnar voru því að mestu vegna sölu á ársreikningum til miðlara og miðaðist við verð fyrir hvern ársreikning. Ekki var um beina skönnun að ræða heldur fengu miðlarar aðgengi að skránni og voru rukkaðir fyrir hvern ársreikning sem þeir nálguðust. Tekjurnar af þessu voru nýttar til að viðhalda og sinna nauðsynlegu eftirliti með ársreikningaskránni sjálfri sem í raun er hluti af þjónustunni.
    Gerð er tillaga um 160 m.kr. framlag til Skattsins vegna sértekjutaps af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Árið 2020 voru samþykkt lög nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og samkvæmt þeim skal ekki innheimta tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla frá og með 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021. Það sértekjutap var bætt sérstaklega. Tollafgreiðslugjald verður tekið upp aftur 1. janúar 2022 en áætlanir gera ráð fyrir mun minni flugumferð en áður var og því er fyrirséð að sértekjur Skattsins verði mun lægri en verið hefur undanfarin ár. Ef gert er ráð fyrir að erlendir ferðamenn verði 1,5 milljónir á árinu 2022 má gera ráð fyrir að sértekjur vegna tollafgreiðslugjalda verði 246 m.kr. lægri en að meðaltali árin 2017–2019. Hér er gert ráð fyrir að stofnuninni verði bætt þetta tap að hluta en í annarri tillögu er miðað að því að nýta útgjaldasvigrúm til að mæta þessu tapi að einhverju leyti.
    Þá er gerð tillaga um 139,5 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár til að standa straum af kostnaði við hefðbundna skiptameðferð þeirra aðila sem sinna ekki skyldu sinni til skráningar á raunverulegum eigendum samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, en skv. 17. gr. þeirra laga getur ríkisskattstjóri krafist skipta á skráningarskyldum aðilum sinni þeir ekki skráningarskyldu sinni. Alls hafa 1.287 skráningarskyldir aðilar ekki uppfyllt skráningarskyldu sína samkvæmt lögum nr. 82/2019. Gert er ráð fyrir að af þeim þurfi 378 aðilar að fara í hefðbundna skiptameðferð, og að kostnaðurinn við hana verði 350.000 kr. skiptatrygging á hvern aðila, sem samtals svarar til 132,2 m.kr. Auk þess þarf að greiða 19.000 kr. gjald skv. 2. mgr. 3. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs fyrir hvern aðila, sem gera samtals 7,2 m.kr. Heildarkostnaður við að senda 378 aðila í hefðbundna skiptameðferð er því 139,5 m.kr.

06 Hagskýrslugerð og grunnskrár.
06.10 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
    
Gerð er tillaga um að 41 m.kr. verði millifærð frá Þjóðskrá Íslands (06-601-101) til sýslumanna vegna rekstrar og þróunar starfakerfa sýslumanna. Með lögum nr. 181/2011, um breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum (gjaldtökuheimild), var lögfest hækkun á gjaldi fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók. Gjaldið hækkaði um 220 kr., úr 630 kr. í 850 kr., og skyldi renna óskipt til Þjóðskrár Íslands. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að hækkun gjaldsins skyldi standa straum af þróun og rekstri starfakerfa sýslumanna sem Þjóðskrá Íslands hefur annast síðan. Samkomulag hefur orðið um það milli Þjóðskrár Íslands og sýslumanna að sýslumenn taki að sér rekstur starfakerfanna frá og með 1. janúar 2022. Með því flytjast fjárheimildir sem Þjóðskrá Íslands hefur haft til reksturs kerfanna til sýslumanna.
    Gerð er tillaga um að 15 m.kr. verði millifærðar af fjárlagalið 14-190-190 Ýmis verkefni á málefnasviði 17 yfir á fjárlagalið 14-310 Landmælingar Íslands á málefnasviði 06. Um er að ræða verkefnið LAN-092 Landupplýsingakerfi sem var ranglega fært í fjárlögum fyrir árið 2021.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    
Gerð er tillaga um að 50 m.kr. framlag verði flutt af liðnum 04-511-661 Tækniþróunarsjóður til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hjá félagsmálaráðuneyti. Um er að ræða framlag í samkeppnissjóð um bygginga- og mannvirkjarannsóknir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun halda utan um og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fjármagnar með þjónustusamningi, sbr. lög um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, en með þeim lögum var Nýsköpunarmiðstöð Íslands lögð niður.

07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    
Gerð er tillaga um að 2 milljarða kr. fjárheimild til Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, verði felld niður og þess í stað verði veitt heimild í 6. gr. til útgreiðslu til Kríu. Fjárheimild Kríu er nú rekstrartilfærsla. Núverandi framsetning er sú að heildarfjárveiting á árunum 2020–2024 verði 8 milljarðar kr. Útgreiðsluáætlun sjóðsins liggur nú fyrir og mun útgreiðsla þessara 8 milljarða kr. ná til ársins 2033. Lagt er til að útgreiðsla verði greidd samkvæmt útgreiðsluþörf. Eign Kríu í sjóðum mun koma fram í efnahagsreikningi ríkisins og því ætti framlag til Kríu að vera eiginfjárframlag og fara í gegnum sjóðstreymi. Framlagið yrði greitt úr ríkissjóði við útgreiðsluþörf. Þessi heimild væri í heimildargrein fjárlaga á ári hverju til ársins 2033 og meta þyrfti útgreiðsluþörf árlega.
    Gerð er tillaga um aukna fjárheimild sem nemur 1.259 m.kr. til endurgreiðslna rannsóknar- og þróunarkostnaðar samkvæmt kostnaðaráætlun Rannís. Í áætluninni er gert ráð fyrir að heildarendurgreiðslur verði 11,7 milljarðar kr. á árinu 2022. Hækkun milli umræðna skýrist af því að áætlun Rannís var ekki tilbúin þegar 1. umræða fór fram. Nú hefur Rannís unnið áætlun um heildarendurgreiðslur á árinu 2022 sem unnin er út frá umsóknum sem borist hafa á árinu 2021. Umfang tillagna er meira en á síðasta ári og einnig er um fleiri fyrirtæki að ræða. Rannís notast við reikniformúlur þar sem áætluð er líkleg endurgreiðsla og hefur líkanið skilað góðu samræmi milli áætlana og álagningar hjá Skattinum.
    Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag vegna starfshóps um þátttöku fatlaðs fólks í nýsköpun.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til Hraðsins, nýsköpunarmiðstöðvar, sem er dæmi um frumkvöðlasetur þar sem flæði þekkingar er á milli vísindasamfélags og atvinnulífs. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytis vísinda að gera samning við Hraðið svo að uppbygging geti haldið áfram enda í takti við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10
Framlög til sveitarfélaga.
    
Gerð er tillaga um 25 m.kr. tilfærslu fjárveitinga sem rennur til uppbyggingar á aðstöðu fatlaðs fólks með búsetu á Sólheimum. Á liðnum árum hefur félagsmálaráðuneyti veitt 25 m.kr. framlag til frekari uppbyggingar á aðstöðu, bætts aðgengis og innviða í þágu fatlaðs fólks með búsetu á Sólheimum í Grímsnesi. Framlag þetta hefur verið greitt í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem síðan hefur gert samning við Sólheima. Gert er ráð fyrir að fjárveiting færist af liðnum Ýmis framlög félagsmálaráðuneytis á lið Jöfnunarsjóðs, málefni hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Gerð er tillaga um 30,0 m.kr. framlag sem rennur til hækkunar á kostnaðarþátttöku í aðal- og svæðisskipulagi í samræmi við áætlun Skipulagsstofnunar.
    Gerð er tillaga um 44 m.kr. aukna fjárheimild tímabundið til eins árs vegna þróunar, uppsetningar og innleiðingar skipulagsgáttar. Skipulagsstofnun er falið með nýjum breytingum á skipulagslögum, sbr. einnig ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, að koma á fót skipulagsgátt, landfræðilegri samráðs- og upplýsingagátt um skipulag, umhverfismat og leyfi. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að breytingu á skipulagslögum er gert ráð fyrir að kostnaður við smíði gáttarinnar nemi um 55 m.kr., að hann falli á árin 2022–2023 og verði greiddur úr Skipulagssjóði. Af þessum 55 m.kr. eru 11,0 m.kr. í formi vinnu og kostnaðar Skipulagsstofnunar við utanumhald og gagnaöflun. Samkvæmt skipulagslögum skal skipulagsgáttin vera komin í rekstur 1. desember 2022.
    Í árslok 2018 var 215,6 m.kr. jákvæður höfuðstóll á fjárlagalið 14-303-113 og færðist hann að fullu á milli ára. Við meðferð á árslokastöðu 2019 var höfuðstóll liðarins færður niður um 108 m.kr. og einungis 79,5 m.kr. færðar yfir á milli áranna 2019 og 2020 vegna reglna um yfirfærslu árslokastöðu þar sem tilfærsluliðir færast ekki almennt á milli ára. Frá og með áramótunum 2020 og 2021 var engin yfirfærsla á jákvæðum höfuðstól sem nam 28,7 m.kr. í árslok 2020. Höfuðstóllinn hefur undanfarin ár verið nýttur til að jafna sveiflur á endurgreiðslum til sveitarfélaga og til að greiða fyrir lögbundin verkefni.

08.20 Byggðamál.
    Gerð er tillaga um að færa 40 m.kr. af rekstrargjöldum yfir á rekstrartilfærslur hjá Byggðastofnun í samræmi við annan rekstur stofnunarinnar.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja verkefnið um sóknaráætlanir landshluta. Sóknaráætlanir hafa sýnt sig að vera öflugt tæki til að efla atvinnu og menningarlíf á landsbyggðinni. Sérstaklega skal hugað að verkefnum sem hafa þurft að takast á við afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveiru.

09
Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    
Gerð er tillaga um 58 m.kr. aukið framlag til mönnunar sólarhringsvaktar lögreglu á Bessastöðum. Vegna öryggishagsmuna er mjög brýnt að fjölga lögreglumönnum við gæslu á Bessastöðum til að tryggja samfellda öryggisgæslu allan sólarhringinn. Öryggisgæslan miðar að því að tryggja öryggi staðarins, forsetans og fjölskyldu hans og þeirra sem þar starfa og sækja staðinn heim.
    Gerð er tillaga um 157 m.kr. hækkun framlags til að mæta innleiðingu komu- og brottfararkerfisins Entry Exit System á árinu 2022 sem er hluti af Schengen-upplýsingakerfunum. Framlaginu er ætlað að mæta fjölgun landamæravarða úr 31 í 44.
    Gerð er tillaga um 3,6 m.kr. hækkun fjárfestingarframlags með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu. Framlaginu er ætlað að mæta átaki í endurnýjun á ýmsum búnaði.
    Gerð er tillaga um 200 m.kr. hækkun framlags til að mæta tillögum að aðgerðum til að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota og efla forvarnir og þjónustu við þolendur kynferðisbrota í samræmi við áherslur stjórnarsáttmála. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að þörf er á að hugsa um kerfið í heild sinni þannig það taki til allra áskorana sem meðferð kynferðisbrota felur í sér. Þar þarf að hugsa málið frá upphafi með öflugum forvörnum til að koma í veg fyrir brot og stuðla að betra samfélagi. Þá þarf að huga að þolendum, að þeir fái þá þjónustu sem þörf er á í samræmi við eðli brota, fái faglegt og vandað viðmót innan kerfisins og njóti réttlátrar málsmeðferðar og mál þeirra séu afgreidd innan eðlilegs tíma. Kerfið þarf að geta mætt breyttum þörfum samfélagsins til að sinna þessum málum á fullnægjandi hátt. Kærum til lögreglu vegna kynferðisbrota hefur fjölgað umtalsvert og það sem af er árinu 2021 eru þær 595. Í kjölfar aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota sem tók til tímabilsins 2018–2022 voru í fjárlögum fyrir árið 2018 samþykktar tillögur til umtalsverðrar eflingar lögregluembættanna til að mæta þeim áskorunum sem þau stóðu frammi fyrir við rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Sú viðbót dugði ekki til þar sem fjöldi mála jókst umfram þá styrkingu. Efla þarf enn frekar þann mannskap hjá lögreglu og ákæruvaldi sem sinnir meðferð kynferðisofbeldismála auk annarra þátta, svo sem á sviði upplýsingatækni, til þess að ná fram bættum málshraða sem tillögunni er ætlað að mæta.
    Gerð er tillaga um 69,7 m.kr. hækkun framlags til að mæta kostnaði við að fjölga nemendum í lögreglunámi. Tillagan snýr að verklega hluta námsins og byggist á því að ráðist verði í sex ára átak sem miðar að því að fjölga háskólamenntuðum lögregluþjónum. Heildartillaga til fjölgunar nemenda í lögreglunámi hljóðar upp á 100 m.kr. og skiptist sú fjárheimild milli dómsmála- og menntamálaráðuneytis. Verklegi hluti tillögunnar heyrir undir dómsmálaráðuneyti og bóklegi hlutinn heyrir undir menntamálaráðuneyti. Tillagan kallar á viðbótarfjárveitingu árið 2023 að fjárhæð 100 m.kr. Þannig verður 200 m.kr. varið árlega til verkefnisins fram til ársins 2026 og lýkur með 100 m.kr. framlagi árið 2027.
    Gerð er tillaga um 120 m.kr. tímabundið framlag til lögreglunnar á landsbyggðinni í ljósi þess að fjölbreytni verkefna lögreglu hefur aukist í heimsfaraldri kórónuveiru, auknar áskoranir eru varðandi skipulagða glæpastarfsemi og spár gera ráð fyrir fjölgun ferðamanna á ný.
    Gerð er tillaga um 70 m.kr. tímabundið framlag vegna björgunarskipa og er hún tvíþætt. Annars vegar er gerð tillaga um 30 m.kr. framlag til að framlengja tímabundið samkomulag um greiðslur úr ríkissjóði til viðhalds og endurbóta á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hins vegar er forgangsmál að tryggja kaup á björgunarskipi til Flateyrar en leita eftir samstarfi við Landsbjörg um kaup á tveimur til þremur björgunarskipum til viðbótar. Í frumvarpinu er 75,5 m.kr. framlag til kaupa á björgunarskipi til Flateyrar. Mikilvægi þess að hafa í umsjón björgunarsveita öflugt björgunarskip kom vel í ljós í snjóflóði þar þegar flytja þurfti fólk og búnað sjóleiðina þegar samgöngur á landi brugðust. Meiri hlutinn bendir á að með breyttum atvinnuháttum, auknum strandveiðum, fiskeldi og stöðugri aukningu á farþegaflutningum á sjó er mikilvægt að bjargir á sjó við strendur landsins séu efldar. Meiri hlutinn beinir því til innanríkisráðherra að leita samstarfs við Landsbjörg um eflingu á sjóbúnaði björgunarsveita. Því leggur til meiri hlutinn til hækkun á framlagi um 40 m.kr.

10 Rétt. einstakl., trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.10 Persónuvernd.
    
Gerð er tillaga um 25 m.kr. tímabundið framlag til að framlengja samstarfsverkefni Persónuverndar og sýslumannsins á Norðurlandi eystra um þjónustuver á Húsavík.

10.20 Trúmál.
    
Lagt er til að veitt verði fjárheimild sem nemur 129,6 m.kr. til Þjóðkirkjunnar vegna launa- og verðlagsbóta ársins 2022. Leiðrétting þessi er til þess að uppfylla samning íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar sem var óbættur við gerð fjárlaga.

10.30 Sýslumenn.
    
Gerð er tillaga um 1,8 m.kr. lækkun rekstrarframlags með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri yfir á fjárfestingu. Tillögunni er ætlað að mæta átaki í endurnýjun á ýmiss konar búnaði.
    Gert er ráð fyrir að 41 m.kr. verði millifærðar af Þjóðskrá Íslands (06-601-101) til sýslumanna vegna rekstrar og þróunar starfakerfa sýslumanna. Með lögum nr. 181/2011, um breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum (gjaldtökuheimild), var lögfest hækkun á gjaldi fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók. Gjaldið hækkaði um 220 kr., úr 630 kr. í 850 kr., sem renna skyldi óskipt til Þjóðskrár Íslands. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að hækkun gjaldsins skyldi standa straum af þróun og rekstri starfakerfa sýslumanna sem Þjóðskrá hefur annast síðan. Samkomulag hefur orðið um það milli Þjóðskrár og sýslumanna að sýslumenn taki yfir rekstur starfakerfanna frá og með 1. janúar 2022. Með því flytjast fjárheimildir sem Þjóðskrá hefur haft til reksturs kerfanna yfir til sýslumanna.
    Gerð er tillaga um 18 m.kr. framlag til að mæta áhrifum laga um breytingar á hjúskaparlögum sem fjármagnað verður með breytingum á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Breytingin snýr m.a. að könnun hjónavígsluskilyrða sem alfarið er lagt til að fari fram hjá sýslumönnum. Tekið verður 4.500 kr. gjald fyrir útgáfu vottorðs vegna hjónavígsluskilyrða og gert ráð fyrir að umfang þeirra verði um 4.000 á ári. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við eitt og hálft starfshlutfall hjá einu af sýslumannsembættum landsins.
    Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til sýslumannsins á Norðurlandi eystra til að styrkja starfsstöð embættisins á Þórshöfn.

10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    
Gerð er tillaga um 3 m.kr. lækkun rekstrarframlags með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu. Framlaginu er ætlað að standa undir reglulegri endurnýjun skrifstofubúnaðar.

10.50 Útlendingamál.
    
Gerð er tillaga um 0,6 m.kr. lækkun rekstrarframlags með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri yfir á fjárfestingu. Framlagið er ætlað til endurnýjunar á skrifstofubúnaði.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    
Lagt er til að Vegagerðin fái fjárveitingu sem nemur 186 m.kr. en um er að ræða andvirði launa- og verðlagsbóta til verkefnis um samgöngusáttmála. Fjárheimild til samgöngusáttmálans er um 2.000 m.kr. á ári en fjármálaráðuneytið millifærir hins vegar 2.186 m.kr. af framkvæmdalið Vegagerðarinnar sem þarf að leiðrétta. Vegagerðin hefur þegar greitt 237 m.kr. til Betri samgangna í þeirri vissu að það fáist bætt í fjárlögum fyrir árið 2022 og auk þess eru 186 m.kr. teknar af fjárheimild Vegagerðarinnar vegna áætlaðra verðbóta 2022. Þetta þarf að óhjákvæmilega að leiðrétta þar sem fjárheimild var ranglega tekin af framkvæmdalið Vegagerðarinnar. Um er að ræða áfallnar verðbætur sem eiga að skila sér 2022.

11.20 Fjarskipti.
    
Gert er ráð fyrir að 101,2 m.kr. rekstrarframlag á liðnum Samningar um póst- og fjarskiptamál renni til Íslandspósts vegna alþjónustu í pósti og á því að flokkast sem rekstrartilfærsla í stað rekstrargjalda.

12 Landbúnaður.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    
Gerð er breyting á hagrænni skiptingu fjárveitingar Matvælastofnunar þannig að fjárfesting hækkar um 14,4 m.kr. á móti samsvarandi lækkun annarra gjalda
    Gerð er tillaga um að 8,1 m.kr. framlag, sem lagt var til í frumvarpinu, verði millifært af 04-811 á 04-981 í málaflokki 12.20. Um er að ræða hækkun á framlagi í samræmi við tekjur af gjaldi fyrir hvert útflutt hross. Samkvæmt lögum nr. 27/2011, um útflutning hrossa, er kveðið á um innheimtu sérstaks gjalds (skatts) af hverju útfluttu hrossi (3.500 kr.) Skatturinn hefur ekki innheimt þetta gjald þrátt fyrir að kveðið sé á um það í fyrrgreindum lögum en nú hefur Skatturinn staðfest að sú innheimta muni hefjast. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að gjaldið renni í stofnverndarsjóð sem er í umsýslu Bændasamtakanna og er því um skýra mörkun að ræða. Erfitt er að segja til um tekjur af gjaldinu á þessu ári og næsta, en það miðast við fjölda útfluttra hrossa. Árið 2019 voru þau 1.509 en árið 2020 voru þau 2.320. Sé miðað við að fjöldinn verði svipaður og 2020 yrðu tekjurnar í kringum 8,1 m.kr.
    Gerð er tillaga um 700 m.kr. framlag til stuðnings bændum vegna hækkunar áburðarverðs í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru sem greitt verður í gegnum búvörusamninga. Tillagan byggist á upplýsingum um fyrirséðar verðhækkanir á áburði. Áburðarvísitala Alþjóðabankans hefur hækkað um 93% frá lokum síðasta áburðartímabils, m.a. vegna hækkunar á jarðgasi og framboðsáhrifum vegna heimsfaraldurs. Komi sú hækkun að öllu leyti fram í áburðarkaupum bænda fyrir árið 2022 má áætla að kostnaður bænda aukist um allt að 2,5 mia.kr. að óbreyttu magni. Gera má ráð fyrir að notkun áburðar verði minni á næsta ári vegna þessa. Bændasamtök Íslands áætla að áburðarverð hækki um 60% og aukinn kostnaður bænda geti numið 1,5 mia.kr. Tillögunni er ætlað að koma til móts við þessa hækkun.
    Gert er ráð fyrir að 75 m.kr. framlag til loftslagsaðgerða í landbúnaði, sem lagt var til í frumvarpinu , verði millifært af 04-981 á 04-983. Millifærslan felur í sér samsvarandi flutning fjárheimildar af málaflokki 12.2 á 12.1 en réttara þykir að verkefnið sé vistað undir þeim málaflokki.

12.20
Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum.
    
Gert er ráð fyrir að flytja 14 m.kr. af 04-981 á fjárlagalið 04-432 vegna kostnaðar við áhættumatsnefnd sem heyrir undir fjárlagalið 04-432.
    Gert er ráð fyrir að 8,1 m.kr. framlag, sem lagt var til í frumvarpinu , verði millifært úr málaflokki 12.10, af 04-811 á 04-981. Um er að ræða hækkun á framlagi í samræmi við tekjur af gjaldi fyrir hvert útflutt hross. Samkvæmt lögum nr. 27/2011, um útflutning hrossa, er kveðið á um innheimtu sérstaks gjalds (skatts) af hverju útfluttu hrossi (3.500 kr.) Skatturinn hefur ekki innheimt þetta gjald þrátt fyrir að kveðið sé á um það í fyrrgreindum lögum en nú hefur Skatturinn staðfest að sú innheimta muni hefjast. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að gjaldið renni í stofnverndarsjóð sem er í umsýslu Bændasamtakanna og er því um skýra mörkun að ræða. Erfitt er að segja til um tekjur af gjaldinu á þessu ári og næsta, en það miðast við fjölda útfluttra hrossa. Árið 2019 voru þau 1509 en árið 2020 voru þau 2320. Sé miðað við að fjöldinn verði svipaður og 2020 yrðu tekjurnar í kringum 8,1 m.kr.
    Gert er ráð fyrir að 75 m.kr. framlag til loftslagsaðgerða í landbúnaði, sem lagt var til í frumvarpinu , verði millifært af 04-981 á 04-983. Millifærslan felur í sér samsvarandi flutning fjárheimildar af málaflokki 12.2 yfir á 12.1 en réttara þykir að verkefnið sé vistað undir þeim málaflokki.

13
Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis.
    Gerð er tillaga um að 28 m.kr. tímabundið framlag í frumvarpinu til Fiskistofu vegna umbótaverkefna hjá stofnuninni gangi til baka. Í stað þess er gert ráð fyrir að verkefnin verði fjármögnuð með breyttri forgangsröðun fjárheimilda innan útgjaldaramma málefnasviðsins á yfirstandandi ári. Þannig flytjast 28 m.kr. af málaflokki 13.10 á málaflokk 13.20.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    
Gerð er tillaga um 96 m.kr. tímabundið framlag til Hafrannsóknastofnunar til að koma til móts við þarfir fyrir grunnrannsóknir á lífríki sjávar og til að bæta vöktun á nytjastofnum. Á undanförnum árum hefur komið fram misræmi í sambandi milli vísitalna um magn ungþorsks og metinnar stofnstærðar. Kortleggja á dreifingu þorskungviðis við landið, merkja þorsk til að varpa ljósi á farhegðun auk þess sem greina á fæðu þorsks, m.a. með það að markmiði að greina hvort breytingar hafi orðið í fæðuvali í ljósi minnkandi loðnugengdar undanfarna áratugi.
    Gerð er tillaga um að 28 m.kr. tímabundið framlag í frumvarpinu til Fiskistofu vegna umbótaverkefna hjá stofnuninni gangi til baka. Í stað þess er gert ráð fyrir að verkefnin verði fjármögnuð með breyttri forgangsröðun fjárheimilda innan útgjaldaramma málefnasviðsins á yfirstandandi ári. Þannig flytjast 28 m.kr. af málaflokki 13.10 á málaflokk 13.20.

14 Ferðaþjónusta.
14.10
Ferðaþjónusta.
    
Gerð er tillaga um 200 m.kr. fjárheimild til að standa straum af neytendamarkaðssetningu undir merkjum markaðsverkefnisins Saman í sókn. Verkefnið var hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru árið 2020 og var upphaflega ætlað að gilda fram á vor 2021 en var framlengt til ársloka 2021 þar sem ekki var tímabært að hefja öfluga markaðssókn samkvæmt verkáætlunum í ljósi þróunar heimsfaraldursins. Þar sem faraldurinn hefur dregist meira á langinn en gert var ráð fyrir er lagt til að viðbótarfjármagn verði veitt í verkefnið til að tryggja viðspyrnu ferðaþjónustunnar á árinu 2022 með viðunandi almannatengslastarfi og birtingu á því efni sem þegar hefur verið útbúið til að viðhalda ímynd og samkeppnisstöðu landsins. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að horft verði til þess að framlengja verkefnið. Tekjuforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2022 byggjast m.a. á spá um komu 1,4 milljóna ferðamanna til landsins á árinu og er mikilvægt að styðja við að svo geti orðið.

15 Orkumál.
15.10 Stjórnun og þróun orkumála.
    
Gerð er tillaga um að auka fjárheimild Orkustofnunar um 50 m.kr. svo að komið verði til móts við aukin verkefni hennar. Er það gert í kjölfar nýrrar stefnumótunar Orkustofnunar og til að leiða aðgerðir úr nýlegri orkustefnu fyrir Ísland. Í ljósi núverandi ástands í orkubúskap landsins, t.d. skerðingar á afhendingu raforku, er brýnt að flýta þessu verkefni og efla enn frekar mikilvægt hlutverk Orkustofnunar við slíkar aðstæður. Einnig þarf að fyrirbyggja að slíkar aðstæður geti skapast. Til að fjármagna framangreindar tvær aðgerðir er lagt til að framlög til Orkustofnunar verði aukin um 50 m.kr., og kemur það til viðbótar við þær 50 m.kr. sem vísað er til í frumvarpinu um aukið útgjaldasvigrúm innan málaflokksins.
    Gerð er tillaga um 247,2 m.kr. framlag til að jafna enn frekar raforkukostnað í dreifbýli. Um er að ræða áframhald á auknum framlögum úr ríkissjóði frá fyrra ári til að jafna kostnað við dreifingu raforku á landsbyggðinni með það að markmiði að ná 100% jöfnun. Breytingin kemur til viðbótar 28,2 m.kr. hækkun á framlaginu sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu. Jafn orkukostnaður, óháð búsetu, er ein forsenda byggðaþróunar og jafnra búsetuskilyrða og atvinnutækifæra á landsvísu. Gert er ráð fyrir að framlagið verði fjármagnað með samsvarandi aukningu tekna af jöfnunargjaldi.
    Lagt er til að veitt verði 72,5 m.kr. tímabundið framlag vegna stofnlagnar hitaveitu frá Langhúsum í Fljótum að Hrolleifsdal. Fjárheimildin verður aukning á fjárheimild til byggðamála og er ætluð til eflingar byggðar og búsetu á svæðinu.

17 Umhverfismál.
17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla.
    
Gerð er tillaga um 17 m.kr. aukna fjárheimild tímabundið til eins árs vegna vinnu við stefnumótun um vernd Breiðafjarðar og vegna aukinnar landvörslu.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. leiðréttingu á fjárlagatillögu í frumvarpinu sem færist af liðnum 14-211-641 Umhverfisstofnun m.a. á liðinn Vatnajökulsþjóðgarð vegna breyttra forsendna og nýrrar forgangsröðunar verkefna. Jafnframt er verið að breyta hagrænni skiptingu í rekstrarframlög.
    Gerð er tillaga um 69 m.kr. aukna fjárheimild til Vatnajökulsþjóðgarðs vegna aukins kostnaðar við stækkun á norðursvæði þjóðgarðsins og aukins rekstrarkostnaðar á því svæði með tilkomu nýrrar gestastofu í Skútustaðahreppi sem rekin verður í samstarfi við Umhverfisstofnun, Landgræðsluna og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Hluta af fjárheimildinni er einnig ætlað að koma til móts við aukinn kostnað vegna innleiðingar á betri vinnutíma í vaktavinnu.

17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
    
Gerð er tillaga um 39 m.kr. millifærslu af liðnum 14-190-190 Styrkir, framlög og verkefni, í málaflokki 17.50 á liðinn 14-412 Veðurstofa Íslands vegna stofnunar skrifstofu um loftslagsþjónustu og aðlögun á Veðurstofunni. Með skrifstofunni verður til vettvangur þar sem sinnt verður brýnum verkefnum á sviði aðlögunar, og lagðar til sviðsmyndir loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra ásamt því sem afleiðingar þeirra verða vaktaðar. Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar verður vettvangur fyrir vísindasamfélagið, fagstofnanir og hagaðila að því er snertir aðlögun. Auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og sinna miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings.
    Gerð er tillaga um breyting á hagrænni skiptingu 20 m.kr. fjárheimildar vegna aðgerðar úr tillögum átakshóps um úrbætur á innviðum í kjölfar óveðurs í desember 2019 vegna verkefnisins LAN-032 Vél- og hugbúnaðarkerfi Veðurstofu Íslands. Verkefnið er rekstrarlegs eðlis en var upphaflega skráð sem fjárfesting vegna mistaka.
    Gerð er tillaga um 48 m.kr. tímabundið framlag til náttúrustofa. Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að fara yfir fjármögnun náttúrustofa. Sveitarfélög greiða framlög til rekstrar þeirra. Ráðast ber í stefnumörkun um hlutverk þeirra og sérhæfingu. Starfsemi náttúrustofa er einn af þeim þáttum sem undirbyggja dreifingu starfa um landið.

17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    
Lagt er til að 39 m.kr. verði millifærðar af 14-190-190 styrkir framlög og verkefni og yfir á 14-412 Veðurstofa Íslands, í málaflokki 17.20, vegna stofnunar skrifstofu um loftslagsþjónustu og aðlögun á Veðurstofunni. Með skrifstofunni verður til vettvangur þar sem sinnt verður brýnum verkefnum á sviði aðlögunar, og lagðar til sviðsmyndir loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra ásamt því sem afleiðingar þeirra verða vaktaðar. Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar verður vettvangur fyrir vísindasamfélagið, fagstofnanir og hagaðila að því er snertir aðlögun. Auk þess mun skrifstofan sinna samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og sinna miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings.
    Gerð er tillaga um 14 m.kr. aukna fjárheimild á liðnum Styrkir, framlög og verkefni vegna stefnumótunarvinnu um líffræðilega fjölbreytni.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. millifærslu af fjárlagalið 14-190 190 Ýmis verkefni á málefnasviði 17 á fjárlagalið 14-310 Landmælingar Íslands á málefnasviði 06. Um er að ræða verkefnið LAN-092 Landupplýsingakerfi sem var ranglega fært í fjárlögum fyrir árið 2021.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er eina stofnunin hér á landi sem hefur það lögbundna hlutverk að sinna málefnum norðurslóða. Mikilvægt er að þróa áfram þá miðstöð norðurslóðamála á Íslandi sem þegar hefur myndast á Akureyri í samstarfi við áhugasama aðila af landinu öllu.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    
Gerð er tillaga um breytingar á hagrænni skiptingu hjá Þjóðminjasafni Íslands; fjárfestingarheimild er hækkuð um 12,5 m.kr. en laun lækkuð um 9 m.kr. og önnur gjöld um 3,5 m.kr.
    Gerð er tillaga um 75 m.kr. framlag til Þjóðskjalasafns Íslands vegna rafrænnar langtímavörslu skjala og endurnýjunar opinberrar skjalavörslu. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð áhersla á að sett verði stefna um rafræna langtímavörslu skjala og að rafrænir innviðir opinberrar skjalavörslu verði endurnýjaðir til að mæta þeim kröfum. Stöðumat á skjalaskrárkerfi Þjóðskjalasafns Íslands var unnið af KPMG á árinu og niðurstaðan varð sú að styrkja þyrfti rafræna innviði safnsins með nýrri þekkingu og ráðningu starfsfólks. Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur tekið jákvætt í stuðning við nauðsynlega fjárfestingu í tækjabúnaði til að svara þörf Þjóðskjalasafnsins. Fjármagn vantar því til að ráða fólk til að sinna upplýsingatæknimálum, skönnun og miðlun. Þjóðskjalasafnið óskar eftir sjö stöðugildum sem samtals útheimta 75 m.kr. árið 2022.
    Jafnframt er gerð er tillaga um 22 m.kr. framlag til Þjóðskjalasafns sem færist af stofnkostnaðarlið málaflokksins, lið 02-968-610 Stofnkostnaður safna, vegna geymsluhúsnæðis sem tekið var á leigu að Höfðabakka 7. Upphaflega stóð til að veita fé af stofnkostnaðarliðnum í framkvæmdir vegna geymsluhúsnæðis safnsins, en horfið var frá þeirri ráðstöfun og í staðinn tekið á leigu húsnæði sem hentar til geymslu á safnkosti. Lagt er því til að framlag verði fært af stofnkostnaðarlið á rekstur Þjóðskjalasafnsins.
    Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til viðhalds á varðskipinu Óðni.

18.20 Menningarstofnanir.
    
Lagt er til að 98 m.kr. tímabundnu framlagi vegna nýrrar kvikmyndastefnu sem sett hefur verið á rekstrarviðfang Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á fjárlagalið 02-981-101 verði skipt upp á þann hátt að 55 m.kr. verði fluttar á viðfang 02-981-110 Kvikmyndasjóðir, í málaflokki 18.30, þar sem um er að ræða framlag til beinna styrkja sem stofnunin veitir.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag vegna brunavarna eldri kirkjuhúsa. Minjastofnun styrkir endurgerð gamalla húsa og hefur sérstakan flokk vegna gamalla kirkjuhúsa. Tímabundinni hækkun á framlagi um 20 m.kr. er ætlað til að styrkja sérstaklega brunavarnir í gömlum kirkjuhúsum. Menningararfur þjóðarinnar í húsum er að miklu leyti í gömlum kirkjum. Viðhald þeirra og endurgerð er mjög kostnaðarsöm en meginmáli skiptir að verja þær frekari skemmdum.
    Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til Söguseturs íslenska hestsins.

18.30 Menningarsjóðir.
    Lagt er til að veitt verði fjárheimild sem nemur 25,8 m.kr. til launasjóðs listamanna. Leiðrétting þessi er til þess að uppfylla lagaákvæði um uppbætur á launasjóði listamanna sem voru óbættar við gerð fjárlaga.
    Lagt er til að 98 m.kr. tímabundnu framlagi vegna nýrrar kvikmyndastefnu sem sett hefur verið á rekstrarviðfang Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á fjárlagalið 02-981-101, í málaflokki 18.20, verði skipt upp á þann hátt að 55 m.kr. verði fluttar á viðfang 02-981-110 Kvikmyndasjóðir þar sem um er að ræða framlag til beinna styrkja sem stofnunin veitir.
    Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag vegna fornminjarannsóknar í Odda á Rangárvöllum.
    Gerð er tillaga um 25 m.kr. tímabundið framlag til Myndlistarsjóðs þar sem enn gætir áhrifa vegna kórónuveirufaraldursins.
    Gerð er tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til Flugsafns Íslands.
    Gerð er tillaga um 8,5 m.kr. tímabundið framlag til starfsemi Menningarhúss í Sigurhæðum.
    Gerð er tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til endurbóta í kjallara Pálshúss og uppsetningar nýrrar sýningar.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar Austurlands.
    Gerð er tillaga um 10,5 m.kr. tímabundið framlag til Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði til að fjármagna stöðugildi forstöðumanns miðstöðvarinnar árið 2022.
    Gerð er tillaga um 6,5 m.kr. tímabundið framlag vegna sögusafns og sýningar að Sólheimum í Grímsnesi sem ætlunin er að setja upp í gamla Sólheimahúsinu.
    Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. tímabundið framlag til framkvæmda við Steinshús, safn til minningar um Stein Steinarr að Nauteyri við Ísafjarðardjúp.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Tækniminjasafns Austurlands.
    Gerð er tillaga um 25 m.kr. tímabundið framlag til starfsemi atvinnuleikhópa þar sem enn gætir áhrifa vegna kórónuveirufaraldursins.
    Gerð er tillaga um 3,8 m.kr. tímabundið framlag til Barnamenningarsjóðs í því skyni að heildarframlag í fjárlögum verði 100 m.kr. í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 18. júlí 2018 um stofnun sjóðsins.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    
Gerð er tillaga um 10 m.kr. framlag vegna undirbúnings fyrir þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. Samkvæmt stjórnarsáttmála er þörf á 30 m.kr. framlagi vegna undirbúnings fyrir slíkan leikvang. Skýrsla starfshóps um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir liggur fyrir. Í stjórnarsáttmála er fjallað um að halda áfram að undirbúa þau verkefni. Næstu skref hvað inniíþróttaleikvang varðar eru viðræður um framkvæmdina, staðsetningu, stærð og mögulega kostnaðarskiptingu.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til Rangárbakka vegna landsmóts hestamanna sem áætlað er að fram fari á Rangárbökkum 3.–10. júlí. Til stóð að halda landsmót á Rangárbökkum 2020 en því þurfti að fresta vegna heimsfaraldurs kórónuveiru með umtalsverðu fjárhagslegu tjóni fyrir Rangárbakka.
    Gerð er tillaga um 60 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar á nýjum matskála í Vatnaskógi sem til stendur að reisa.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til UMFÍ til að vega á móti aðhaldskröfu að fjárhæð 20,4 m.kr. Landsmót UMFÍ eru stór þáttur í starfi samtakanna og mikilvægt er fyrir þau sveitarfélög sem halda slík mót að hafa sjóð til þess að aðstoða við uppbyggingu og viðhald mótssvæða.
    Gerð er tillaga um 4,5 m.kr. tímabundið framlag til Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    
Í frumvarpinu var lagt til að auka við rekstrartekjur hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð í samræmi við fjármálaáætlun 2021-2023. Þær breytingar hafa hins vegar orðið að skólinn er ekki lengur umsýsluskóli fyrir listdans á framhaldsstigi og hefur það þær breytingar á væntar tekjur til skólans að ekki verður aukið við þær.
    Lagt er til að veita 30 m.kr. framlag til eflingar íslensku þeirra sem hafa annað móðurmál. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að efla þurfi íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka stuðning við börn af erlendum uppruna. Unnið hefur verið að því að fá Háskóla Íslands til að útbúa rafrænt hæfnimat í íslensku fyrir þá sem hafa annað móðurmál. Þetta hæfnimat mun nýtast einstaklingum til að meta hæfni sína og þeir geta í framhaldinu valið nám við hæfi. Þá nýtist það kennaranemum til að sýna fram á næga hæfni í íslensku, en kveðið er á um það í viðkomandi lögum, og einstaklingum sem sækja um ríkisborgararétt. Gert er ráð fyrir að tvö ár taki að koma verkefninu til framkvæmda, framlag verði alls 100 m.kr. eða 50 m.kr. hvort ár 2022 og 2023. Að því loknu er gert ráð fyrir að kostnaður við rekstur hæfniprófsins hjá Háskóla Íslands verði 15 m.kr. á ári.
    Lagt er til að veitt verði tímabundið framlag í verkefni á vegum Menntanets Suðurnesja sem nemur 50 m.kr. Ríkisstjórnin samþykkti þann 21. sept. sl. að veita fjárveitingu til verkefna á vegum Menntanets Suðurnesja til að efla samvinnu skóla á Suðurnesjum.
    Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. framlag til undirbúnings að nýjum höfuðstöðvum fyrir Tækniskólann í Hafnarfirði eins og fram kemur í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf. Um er að ræða framlag sem nýtist í áætlun og byrjun á hönnunarferli.
    Gert er ráð fyrir að lækka fjárfestingaheimild hjá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ um 6 m.kr. og hækka laun um 4,5 m.kr. og önnur gjöld um 1,5 m.kr.
    Gerð er tillaga um 42 m.kr. tímabundið framlag til Fisktækniskóla Íslands til eflingar náms í matvælaframleiðslu og iðn- og tæknigreinum. Gert er ráð fyrir fjölgun nemendaígilda um 25 á viðurkenndum námsbrautum í samræmi við ákvæði samnings skólans og menntamálaráðuneytisins.

20.20 Tónlistarfræðsla.
    
Lagt er til að veita 50 m.kr. framlag vegna aukins grunnframlags til tónlistarfræðslu. Um er að ræða samkomulag um stuðning ríkis við rekstur tónlistarskóla gegnum jöfnunarsjóð. Fyrir liggur tillaga frá samráðsnefnd um endurskoðun á samkomulaginu á þann hátt að framlag verði hækkað um 50 m.kr. til að koma til móts við launahækkun tónlistarkennara.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    
Lagt er til að 1.935 m.kr. verði veittar vegna kostnaðar við leigu á húsnæði fyrir starfsemi Háskóla Íslands. Á móti þessari tillögu er gerð tillaga um að vaxtatekjur aukist um sömu upphæð. Samanlagt hafa tillögurnar því engin áhrif á afkomu ríkissjóðs. Árið 2022 mun skólinn greiða í fyrsta sinn leigu vegna húsnæðis til nýs félags, Fasteigna Háskóla Íslands (sem verður hluti af A3-hluta ríkissjóðs), sem heldur utan um eignir sem hýsa starfsemi skólans. Þær eignir sem tilheyra Fasteignum Háskóla Íslands ehf. (FHÍ) eru samtals 35. Þetta eru 34 eignir sem eru kallaðar grunnsafn og síðan Hagatorg 1 sem áður hýsti Hótel Sögu. Hagatorgseignin kemur í stað eigna sem áður hýstu hús skólans í Stakkahlíð 1, Skipholti 37 og Neshaga 16. Grunnsafnið er 82.502 fm, leiga þess á upphafsári er 2.725 m.kr., verðmatið 35.526 m.kr. Fjármagnskostnaður FHÍ er 1.759 m.kr. vegna grunnsafnsins. Þetta er jafnframt sú fjárhæð sem er í hagnað fyrir fjármagnsliði hjá FHÍ vegna grunnsafnsins og auk þess það sama og aukið framlag ríkisins til að standa straum af þeim fjármagnskostnaði. 1.759 m.kr. eru 4,95% vextir af 100% fjármögnun eignanna samkvæmt áðurnefndu verðmati eigna grunnsafnsins. Auk þess verður Hagatorg miðað við kaupvirði hluti af safninu í upphafi, sem þýðir fjármögnun upp á 3.573 m.kr. (73% af 4.895 m.kr.) og viðbótarframlag vegna fjármagnskostnaðar upp á 176,9 m.kr. Eignasafnið samanstendur af 35 eignum sem eru 95.533 fm, leiga á því safni á upphafsári (miðað við kaupverð Hagatorgs) er 3.027 m.kr., verðmat 39.099 m.kr. og fjármagnskostnaður FHÍ vegna safnsins er 1.935 m.kr. Það er jafnframt sú fjárhæð sem er í hagnað fyrir fjármagnsliði hjá FHÍ vegna þessa safns og auk þess það sama og aukið framlag ríkisins til að standa straum af þeim fjármagnskostnaði. 1.935 m.kr. eru 4,95% vextir af 100% fjármögnun eignanna samkvæmt áðurnefndu verðmati eigna grunnsafnsins og kaupverði Hagatorgs að fjárhæð 39.099 m.kr.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til starfsemi í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu sem tengist lífi og störfum Vigdísar Finnbogadóttur. Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Háskóli Íslands gerðu með sér viljayfirlýsingu hinn 17. júní 2021. Yfirlýsingin snýr að samstarfi um sýningarstarfsemi, einkum tengda forsetatíð Vigdísar, auk aðstöðu til fræðastarfs, rannsókna og miðlunar í Loftskeytastöðinni á Melunum. Fyrirhugað er að sýning ásamt annarri aðstöðu verði opnuð á árinu 2022 í tilefni þess að Vigdís hyggst láta Háskóla Íslands/Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í té ýmsa muni frá forsetatíð sinni. Háskóli Íslands lýsir sig reiðubúinn til að hýsa munina í Loftskeytastöðinni og mun samþætta hana starfsemi Vigdísarstofu í Veröld – húsi Vigdísar. Háskóli Íslands mun bera ábyrgð á uppsetningu og rekstri sýningarhalds ásamt annarri fræðastarfsemi í Loftskeytastöðinni.
    Úttekt verkfræðistofunnar Eflu hefur leitt í ljós að mygla er til staðar á öllum hæðum skólahúss Háskólans á Hólum, í kennslustofum, skrifstofum, þvottaherbergi og eldhúsi í kjallara hússins. Ástandið er misalvarlegt eftir rýmum, en þó er ljóst að ráðast þarf í viðamiklar endurbætur til að koma húsinu í ásættanlegt horf. Jafnframt hefur úttektarskýrsla Vinnueftirlitsins leitt í ljós að úrbóta er þörf á innilofti í byggingunni og að fyrirbyggja skal smithættu af líffræðilegum skaðvöldum vegna myglu. Tímafrestur Vinnueftirlitsins til að gera úrbætur vegna þessa rann út 1. október 2021. Enn sem kemur hefur ekki komið til aðgerða af hálfu Vinnueftirlitsins, svo sem lokun húsnæðis að hluta eða öllu leyti. Það gæti þó gerst með litlum fyrirvara. Fyrir liggur að vilji skólans og ráðuneytisins er að húsnæðið færist yfir til Framkvæmdasýslunnar – ríkiseigna. Aðkoma stofnunarinnar að verkefninu er því nauðsynleg. Fulltrúar frá henni hafa farið til Hóla og skoðað lauslega ástand fasteigna skólans. Kostnaðarmat Eflu hljóðar upp á 203 m.kr. en jafnframt er tekið fram í skýrslunni að mjög líklega muni fleiri hlutir koma í ljós, sem tengjast ekki sjálfri myglunni, en þarfnist samt úrbóta. Auk þess er áætlað að kostnaður við úrbætur vegna brunavarna verði um 20 m.kr. Viðbúið er að þegar upp er staðið verði kostnaður við endurbætur umtalsvert meiri en skýrsla Eflu gefur til kynna. Það skýrist þó ekki fyrr en úttekt Framkvæmdasýslunnar er lokið. Lagt er til að 120 m.kr. verði veittar til fyrsta áfanga verkefnisins, til Framkvæmdasýslunnar vegna greininga og úttekta á verkefninu, svo og til fyrstu áfanga í framkvæmdum. Mikilvægt er að verkefnið fari af stað sem fyrst, ekki síst vegna þess tímafrests sem Vinnueftirlitið hefur veitt.
    Gert er ráð fyrir 10 m.kr. tímabundnu framlagi til að ráðast í undirbúning uppbyggingar á framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands og greiningu á rekstrarformi og gjaldtöku af nemendum til framtíðar.
    Gert er ráð fyrir 25 m.kr. framlagi til að auka aðgengi að menntun og vísindastörfum óháð búsetu. Verkefnið felur í sér stuðning við þekkingarsetur og rannsóknamiðstöðvar á landsbyggðinni. Um er ræða uppbyggingu stafrænna innviða til að styðja við starfsemi þeirra, m.a. með frekari þróun á Uglunni.
    Í erindi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti er lagt til að erindi Múlaþings um þróun háskólanáms á Austurlandi verði samþykkt en í því felst samstarf Austurbrúar við University of Highlands and Islands í Skotlandi. Nefnd um málefni Seyðisfjarðar hefur rætt um að fjármagna 25 m.kr. á næsta ári vegna verkefnisins og er tillagan í samræmi við það. Í tillögu Múlaþings var rætt um 25 m.kr. á árinu 2021 og 2022 en þeirri tillögu fylgdi hvorki kostnaðargreining né umfjöllun um hvort hægt væri að fjármagna verkefnið eftir öðrum leiðum. Mögulega þarf meira fjármagn í verkefnið árið 2023 til að fylgja því eftir.
    Gerð er tillaga um 30,3 m.kr. framlag vegna tímabundins átaks í menntun og nýliðun lögreglumanna til að bæta þjónustu og auka gæði lögreglustarfa í takt við þarfir samfélagsins. Um er ræða framlag vegna haustmisseris fyrsta árgangsins sem undir átakið heyrir. Nú þegar eru 40 ársnemar á hvoru námsári í diplómanámi í lögreglufræðum, alls eru því 80 ársnemar í náminu hverju sinni. Hugmyndir eru uppi um að fjölga tímabundið í hverjum árgangi um 35. Það þýðir að alls verða 70 fleiri ársnemar í náminu hverju sinni þegar báðir árgangar eru fullmannaðir. Ef miðað er við að fyrstu 35 nemendurnir hefji nám á haustönn 2022, og miðað er við þann reikniflokk sem notast hefur verið við, er fjárþörf ársins 30,3 m.kr. vegna 17,5 ársnema. Á árinu 2023 þyrfti framlagið að hækka um 60,6 m.kr. og loks um 30,3 m.kr. árið 2024. Fjármagn vegna fullfjármagnaðra tveggja árganga yrði því 121,2 m.kr.

21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    
Í samræmi við stjórnarsáttmálann og stefnu Íslands í norðurslóðamálum er gerð tillaga um 25 m.kr. framlag til Háskólans á Akureyri til að efla svæðisbundið hlutverk hans í því að vera miðstöð Íslands hvað varðar málefni norðurslóða.
    Gerð er tillaga um að veita Austurbrú 30 m.kr. tímabundið framlag.
    Gerð er tillaga um 6 m.kr. tímabundið framlag til fyrirhugaðs rannsóknaseturs Háskóla Íslands og Svartárkots, menningar- og náttúruseturs. Setrið verður staðsett á Skútustöðum í verðandi sameinuðu sveitarfélagi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menn.mála.
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.
    Lagt er til að veita 80 m.kr. framlag til geðheilbrigðismála til samræmis við stjórnarsáttmála.

22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig
    
Lagt er til að millifæra 1,5 m.kr. af fjárlagaliðnum Styrkir til framhaldsfræðslu á fjárlagalið aðalskrifstofu menntamálaráðuneytisins í málaflokki 22.30, vegna stjórnarformannslauna hjá Fræðslusjóði sem lagt er til að verði lokað. Þá er lagt til að liðurinn verði fluttur á liðinn Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar þar sem fjármunir af báðum liðum fara inn í reiknilíkan framhaldsfræðslu og er skipt þaðan á milli símenntunarmiðstöðva. Þannig færast þangað 103,8 m.kr.
    Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    
Lagt er til að millifæra 1,5 m.kr. á fjárlagalið aðalskrifstofu menntamálaráðuneytisins af fjárlagaliðnum Styrkir til framhaldsfræðslu í málaflokki 22.20 vegna stjórnarformannslauna hjá Fræðslusjóði sem lagt er til að verði lokað.
    Gerð er tillaga um 3 m.kr. varanlegt framlag sem er ætlað að styrkja aðgerðir sem snúa að því að vinna námsefni fyrir framhaldsskóla tengt forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Námsefnið skal vera aðgengilegt á vefsvæði Menntamálastofnunar. Um er að ræða áframhaldandi framlag til verkefnisins en í fjárlögum fyrir árið 2021 var veitt 5 m.kr. tímabundið framlag til þess.
    Gerð er tillaga um 3 m.kr. varanlegt framlag til Menntamálastofnunar til að fylgja eftir aðgerðum í þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Um er að ræða áframhaldandi framlag til verkefnisins en í fjárlögum fyrir árið 2021 var veitt 4,1 m.kr. tímabundið framlag til þess.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    
Í fjárlögum fyrir árið 2021 var samþykkt tillaga um millifærslu 28 m.kr. af fjárlagalið lyfja með S-merkingu yfir á safnlið heilbrigðisstofnana. Millifærslan var gerð vegna kostnaðarhækkana sem breytingar á flokkun lyfja sem áður tilheyrðu lyfjum með S-merkingu yfir á almenn lyf hafa í för með sér. Nú liggur fyrir mat sem byggist á notkun alls ársins 2020 og er því gerð tillaga um millifærslu 12 m.kr. til viðbótar en nýtt mat hljóðaði upp á um 40 m.kr. Af þeirri upphæð er endurmat vegna Sjúkrahússins á Akureyri um 28 m.kr. Gerð er tillaga um millifærslu fjárheimildarinnar til sjúkrahússins. Af sömu ástæðu eru millifærðar til Landspítala 175 m.kr. af fjárlagalið lyfja með S-merkingu til viðbótar en nýtt mat hljómaði uppá 382 m.kr
    Gerð er tillaga um millifærslu 345 m.kr. af lið brýnnar meðferðar sjúkratrygginga til Landspítala. Um er að ræða fjárveitingar vegna niðurfelldra þjónustusamninga vegna samninga um endurnýjun rafhlaðna í rafskautum sem grædd hafa verið í sjúklinga, innæðaaðgerðir með þræðingartækni og nýrnaígræðslur. Landspítali hefur innheimt greiðslu fyrir þessa þjónustu hjá Sjúkratryggingum frá því að verkefnin fluttust yfir en talið er rétt að fjárheimildin liggi þar sem til kostnaðar er stofnað. Hér er einnig um að ræða hluta af kostnaði við klíníska framleiðslu og ætti því að vera innan DRG-fjármögnunar.
    Í byrjun árs 2022 mun Landspítali taka við hluta af rannsóknum vegna skimana við krabbameini í leghálsi. Danskur rannsóknaraðili í Hvidovre mun áfram sinna hluta rannsókna árið 2022. Í fjárlagaramma heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2021 er 71 m.kr. til þess að mæta kostnaðinum við samninginn við Hvidovre. Þeim samningi hefur verið sagt upp og liggur fyrir nýr samningur til eins árs sem metið er að muni kosta um 45 m.kr. Gerð er tillaga um að millifæra mismuninn, 26 m.kr., í fjárlagaramma Landspítala.
    Þá er jafnframt lagt til að hækka fjárheimild um 50 m.kr. vegna flutnings rannsókna á leghálsskimunum frá Danmörku. Í ljósi þess að kostnaður mun aukast við flutning rannsóknanna til Íslands er gerð tillaga um 50 m.kr. viðbótarheimild vegna verkefnisins.
    Gert er ráð fyrir 100 m.kr. lækkun á fjárheimild liðarins 08-373-101 og sambærilega hækkun á lið 08-373-601. Um er að ræða breytingar vegna tímabundins tilflutnings heimilda milli liða á síðasta ári sem gengur nú til baka.
    Gerð er tillaga um millifærslu 270 m.kr. fjárveitingu af málaflokki 23.10 yfir á 23.20 vegna fjölgunar liðskiptaaðgerða innan lands. Stefnt er að opnun liðskiptaseturs hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á árinu.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    
Gerð er tillaga um millifærslu 270 m.kr. fjárveitingu af málaflokki 23.10 á 23.20 vegna fjölgunar liðskiptaaðgerða innan lands. Stefnt er að opnun liðskiptaseturs hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á árinu.
    Í fjárlögum fyrir árið 2021 var samþykkt tillaga um millifærslu 28 m.kr. af fjárlagalið lyfja með S-merkingu á safnlið heilbrigðisstofnana. Millifærslan var gerð vegna kostnaðarhækkana sem breytingar á flokkun lyfja sem áður tilheyrðu lyfjum með S-merkingu yfir á almenn lyf hafa í för með sér. Nú liggur fyrir mat sem byggist á notkun alls ársins 2020 og er því gerð tillaga um millifærslu 12 m.kr. til viðbótar en nýtt mat hljóðaði upp á um 40 m.kr. Af þeirri upphæð er endurmat vegna Sjúkrahússins á Akureyri um 28 m.kr. Gerð er tillaga um millifærslu fjárheimildarinnar til sjúkrahússins.
    Gerð er tillaga um 849,3 m.kr. viðbótarfjárveitingu til almennrar sjúkrahúsþjónustu. Ákveðið hefur verið að fjölga sjúkrarýmum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að létta álagið hjá Landspítalanum. Annars vegar er um að ræða 10 rými og hins vegar 19 rými hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Um tímabundna ráðstöfun er að ræða og er gert ráð fyrir rekstri rýmanna á árinu 2022.

23.30 Erlend sjúkrahúsþjónusta.
    
Gerð er tillaga um millifærslu 345 m.kr. af lið brýnnar meðferðar sjúkratrygginga til Landspítala. Um er að ræða fjárveitingar vegna niðurfelldra þjónustusamninga vegna samninga um endurnýjun rafhlaðna í rafskautum sem grædd hafa verið í sjúklinga, innæðaaðgerðir með þræðingatækni og nýrnaígræðslur. Landspítali hefur innheimt greiðslu fyrir þessa þjónustu hjá Sjúkratryggingum frá því verkefnin fluttust yfir en talið er rétt að fjárheimildin liggi þar sem til kostnaðar er stofnað. Hér er einnig um að ræða hluta af kostnaði við klíníska framleiðslu og ætti því að vera innan DRG-fjármögnunar.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10
Heilsugæsla.
    
Gert er ráð fyrir breyttri hagrænni skiptingu í fjárlögum á liðnum 08-500. 600 m.kr. færast af tilfærslum á laun.
    Í byrjun árs 2022 mun Landspítali taka við hluta af rannsóknum vegna skimana við krabbameini í leghálsi. Danskur rannsóknaraðili í Hvidovre mun áfram sinna hluta rannsókna árið 2022. Í fjárlagaramma heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2021 er 71 m.kr. til þess að mæta kostnaðinum við samninginn við Hvidovre. Þeim samningi hefur verið sagt upp og liggur fyrir nýr samningur til eins árs sem metið er að muni kosta um 45 m.kr. Gerð er tillaga um að millifæra mismuninn, 26 m.kr., í fjárlagaramma Landspítala.
    Gerð er tillaga um 40,2 m.kr. millifærslu fjárveitingar til Heilsugæslustöðvarinnar í Lágmúla. Lækniskostnaður vegna samninga við heimilislækni utan heilsugæslu flyst til heilsugæslunnar.
Samkvæmt ósk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er gerð tillaga um að færa gjöld vegna heimahjúkrunar í Grindavík á milli málefnasviða, af hjúkrunarrýmum yfir á heilsugæslusvið, 58,5 m.kr.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    
Gerð er tillaga um að færa 50 m.kr. til sjúkratrygginga til að standa straum af samningi um neyslurými.
    Gerð er tillaga um 40,2 m.kr. millifærslu fjárveitingar til Heilsugæslustöðvarinnar í Lágmúla. Lækniskostnaður vegna samninga við heimilislækni utan heilsugæslu flyst til heilsugæslunnar.

24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun.
    
Lagt er til að hækka fjárheimild um 180 m.kr. vegna breytinga á kröfu um starfsreynslu talmeinafræðinga. Ekki hefur náðst samningur við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga vegna kröfu sem er gerð af hálfu Sjúkratrygginga Íslands um tveggja ára starfsreynslu til að geta unnið á samningi við SÍ um þjónustuna. Talið er að talmeinafræðingum á samningi fjölgi þegar fallið verður frá þessari kröfu og áætlað að kostnaður hækki um 180 m.kr. á ári. Breytingin mun leiða til þess að biðlistar eftir þjónustunni styttist. Samþykkt hefur verið að stofna starfshóp fulltrúa frá heilbrigðisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti til að vinna heildstæðar tillögur um þjónustu talmeinafræðinga við börn. Fyrir liggur að Alþingi hefur samþykkt að leggja fjármuni í að innleiða nýtt þjónustukerfi fyrir börn sem kveðið er á um í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem miðar m.a. að því að grípa sem fyrst inn í vanda sem börn glíma við.

25
Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    
Gerð er tillaga að breyttri hagrænni skiptingu að því er snertir Framkvæmdasjóð aldraðra þar sem öll fjárheimildin, 30,4 m.kr., er nú á tilfærslum. Laun stjórnarmanna Framkvæmdasjóðs aldraðra eru bókuð á laun, og þjónustusamningur heilbrigðisráðuneytis vegna umsýslu sjóðsins er bókaður á önnur gjöld. Engin fjárheimild er til staðar á þessum tegundum.
    Í framhaldi af skýrslu starfshóps um greiningu á rekstri hjúkrunarheimila, sem Gylfi Magnússon veitti formennsku og skilað var heilbrigðisráðherra í apríl 2021, tók til starfa vinnuhópur til að greina niðurstöður nánar. Vinnuhópnum var stýrt af heilbrigðisráðuneyti en auk fulltrúa þess sátu í honum fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Vinnuhópurinn var sammála um að til þess að hjúkrunarheimili gætu að meðaltali rekið sig með svipuðu sniði og þau gera núna, en hallalaust, vanti um 1 mia.kr. í rekstrargrunn þeirra árlega. Alls eru 97% af fjármagni til hjúkrunarheimila á daggjöldum SÍ vegna hjúkrunarrýma og 3% eru vegna dvalarrýma. Því er gerð tillaga um 1 mia.kr. hækkun fjárheimilda samtals til að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila þar sem upphæðinni er skipt á tvö fjárlagaviðföng, eða 970 m.kr. á 08-403-101 Hjúkrunarrými og 30 m.kr. á 08-403-111 Dvalarrými.
    Samkvæmt ósk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er gerð tillaga um að færa 58,5 m.kr. gjöld vegna heimahjúkrunar í Grindavík á milli málefnasviða, af hjúkrunarýmum yfir á heilsugæslusvið, málaflokk 24.10.

25.20 Endurhæfingarþjónusta.
    
Gerð er tillaga um 120 m.kr. tímabundið framlag til SÁÁ. Framlaginu er ætlað að gera SÁÁ kleift að sinna hlutverki sínu betur og tryggja að samtökin hafi meiri fjármuni til þjónustu, svo sem til aukinnar þjónustu bæði göngudeildar og legudeildar og til að koma upp fjarmeðferð svo að hægt sé að auka við þjónustu við fólk alls staðar á landinu. Einnig er mikilvægt að SÁÁ geti haldið úti öflugu forvarna- og fræðslustarfi. Nánari ráðstöfun á framlaginu verði ákveðin af heilbrigðisráðuneytinu og í samningi milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands líkt og lög gera kröfu um.
    Gerð er tillaga um 48 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Hlaðgerðarkots.
    Gerð er tillaga um 30 m.kr. tímabundið framlag til að vinna gegn fíknisjúkdómum. Meiri hlutinn leggur til að heilbrigðisráðuneytið nýti fjármagnið til samningagerðar við frjáls félagasamtök sem hafa að markmiði að vinna gegn fíknisjúkdómum.

26 Lyf og lækningavörur.
26.10
Lyf.
    Í fjárlögum fyrir árið 2021 var samþykkt tillaga um millifærslu 207 m.kr. af fjárlagalið lyfja með S-merkingu á lið Landspítala. Millifærslan var gerð vegna kostnaðarhækkana sem breytingar á flokkun lyfja sem áður tilheyrðu lyfjum með S-merkingu yfir á almenn lyf hafa í för með sér. Nú liggur fyrir mat sem byggir á notkun alls ársins 2020 og er því gerð tillaga um millifærslu 175 m.kr. til viðbótar en nýtt mat hljómaði upp á 382 m.kr.
    Þá var í fjárlögum fyrir árið 2021 sömuleiðis samþykkt tillaga um millifærslu 28 m.kr. af fjárlagalið lyfja með S-merkingu yfir á safnlið heilbrigðisstofnana. Millifærslan var gerð vegna kostnaðarhækkana sem breytingar á flokkun lyfja sem áður tilheyrðu lyfjum með S-merkingu yfir á almenn lyf hafa í för með sér. Nú liggur fyrir mat sem byggist á notkun alls ársins 2020 og er því gerð tillaga um millifærslu 12 m.kr. á safnliðinn til viðbótar en nýtt mat hljómaði upp á um 40 m.kr.
27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.10 Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir.
    
Gerð er tillaga um að 200 m.kr. sértækar aðhaldsráðstafanir á tilfærslukerfi almannatrygginga, sem áætlað var að yrðu á málefnasviði 30 verði færðar á málefnasvið 27. Vísbendingar eru um að áhersla á endurhæfingu og starfsendurhæfingu dragi úr nýgengi örorku, sem mælist um þessar mundir 0,5%. Er því rétt að færa endurmatið á örorkulífeyri, enda ekki um að ræða tilfærslukerfi almannatrygginga á málefnasviði 30. Fleiri þættir gætu þó átt hlut að máli og þarf nokkur ár til að meta þróunina.
    Gerð er tillaga um að framlög til örorkulífeyris lækki um 450 m.kr. til viðbótar endurmati útgjalda vegna lækkunar á nýgengi örorku á árinu 2021. Nýgengi örorku það sem af er ári er um 0,5% en ekki 2,5% eins og gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Ekki er ljóst hvort þessi þróun heldur áfram og er því ekki gert ráð fyrir frekari lækkun. Þetta getur þó gefið vísbendingu um að áhersla á endurhæfingu hafi dregið úr nýgengi örorku.

27.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka.
    
Gerð er tillaga um 450 m.kr. til að lækka skerðingarhlutfall grunnlífeyris örorkulífeyris og aldurstengdrar örorkuuppbótar þannig að það fari úr 25% í 11% sem mun eyða svokölluðu falli á krónunni svo til alveg. Þegar bætur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega eru hækkaðar án þess að frítekjumark sé hækkað samtímis eða ráðist í aðrar aðgerðir til að bæta þann vanda sem oft kallast „fall á krónunni“, lýsir það sér þannig að örorkubætur geta lækkað um tugi þúsunda við það að tekjur viðkomandi hækka um eina krónu. Samkvæmt gildandi reglum geta greiðslur tekjutryggingar og heimilisuppbótar til öryrkja samhliða einni krónu í örorkulífeyri (grunnlífeyri) orðið samtals 107.215 kr. á mánuði. Hækki tekjur um eina krónu glatar viðkomandi rétti sínum til framangreindra bótaflokka og ráðstöfunartekjur hans lækka þannig um 107.214 kr. Með sérstakri 1% viðbótarhækkun til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega eykst fall krónunnar og fjárhæðin sem einstaklingur getur misst við það eitt að örorkulífeyrir hans fellur niður vegna hækkunar tekna um eina krónu hækkar um u.þ.b. 9.000 kr. og fer upp í 116.236 kr. á mánuði.

27.30 Málefni fatlaðs fólks.
    
Gerð er tillaga um tímabundna fjárheimild að fjárhæð 220 m.kr. vegna NPA-samninga til að standa straum af áframhaldandi kostnaði ríkisins vegna gildandi samninga og til að fjármagna nýja samninga á árinu 2022. Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, er gert ráð fyrir allt að 20 nýjum samningum árið 2022 og þarf einnig að gera ráð fyrir því í kostnaði. Nýlega gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á innleiðingu og framkvæmd laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í niðurstöðu sinni bendir ríkisendurskoðandi á að skýra þurfi fyrirkomulag fjármögnunar NPA-samninga þannig að ákvæði laganna verði uppfyllt og að NPA-samningar verði ekki háðir fyrirvörum vegna óvissu um fjármögnun. Hér ber að hafa í huga að ekki hefur legið fyrir hvaða fjárhæð félagsmálaráðuneyti hefur fengið úthlutað til málaflokksins fyrr en í lok hvers árs. Hefur þetta leitt til óvissu um framkvæmd NPA-þjónustu á Íslandi. Mikilvægt er að framlag ríkisins í NPA-samningum fyrir árið 2022, bæði fyrir samninga sem þegar eru í gildi og nýja samninga, verði tryggt í frumvarpinu. Á næstu vikum skilar starfshópur um endurskoðun á málefnum fatlaðs fólks á Íslandi niðurstöðum sínum til félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Í þeim tillögum verður m.a. fjallað um fyrirkomulag og kostnað NPA- samninga og mögulegar breytingar sem gera þarf á lagaumhverfi og framkvæmd. Er af þeirri ástæðu aðeins gerð tillaga tímabundið fjármagn til eins árs meðan unnið er að framtíðarskipulagi.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. tímabundna hækkun á framlagi til þess að hægt sé að standa við þegar gerða NPA-samninga í samræmi við fyrirætlanir þar um samkvæmt frumvarpi sem varð að lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

29 Fjölskyldumál.
29.20 Fæðingarorlof.
    
Gerð er tillaga að 1.627 m.kr. hækkun framlags til Fæðingarorlofssjóðs. Mikil fjölgun hefur orðið á fæðingum 2021 og stefnir í að það verði hið stærsta til þessa samkvæmt Fæðingarorlofssjóði en í byrjun desember höfðu yfir 4.300 börn verið skráð hjá Fæðingarorlofssjóði vegna orlofstöku. Mestur hefur fjöldinn orðið 4.521 barn en það var árið 2010. Útgjöld 2021 stefna í að verða 19.3 m.kr. Jafnframt er áætlað að fæðingarárið 2022 geti orðið sambærilega stórt og 2021 hvað varðar fjölda barna. Samhliða lengingu fæðingarorlofsréttar 2020 og 2021 hefur nýting réttarins einnig smám saman verið að dreifast á lengri tíma, og þá sérstaklega hjá feðrum.

29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    
Í þingsályktunartillögu félags- og barnamálaráðherra, Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á Alþingi í júní sl. kemur fram nýtt hlutverk umboðsmanns barna er varðar réttindagæslu barna. Markmiðið með þeirri breytingu er að börn og/eða foreldrar þeirra geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoði þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum, telji þau brotið gegn réttindum þess. Þar er enn fremur tiltekið undir lið 3.2.2. Aðgerð: „Embætti umboðsmanns barna verði tryggt fjármagn til að ráða starfsmann til að sinna réttindagæslu til tveggja ára í tilraunaskyni. Starfsmaðurinn hafi reynslu og/eða menntun í því að vinna með börnum og eiga samtöl við börn. Hlutverk embættisins í að taka á móti erindum frá börnum, veita þeim stuðning, ráðgjöf og aðstoð við að leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum verði þannig eflt. Úrræðið verði jafnframt sérstaklega kynnt börnum svo þau séu upplýst um þennan rétt sinn.“ Með hinni fyrirhuguðu réttindagæslu verður hlutverk embættisins útvíkkað. Fámennt starfslið embættisins getur ekki, án viðbótarfjármagns, tekið að sér að sinna réttindagæslu við einstök börn á þann hátt sem stefnan gerir ráð fyrir, en vísbendingar eru um að mikil ásókn verði í slíka þjónustu, og að hvert mál geti tekið langan tíma í vinnslu. Þörf er á 17 m.kr. fjárveitingu til embættis til tveggja ára í tilraunaskyni svo að það geti sinnt því hlutverki sem Alþingi samþykkti í júní sl.
    Gerð er tillaga um millifærslu að fjárhæð 36 m.kr. frá Barnaverndarstofu til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála vegna flutnings verkefna vegna eftirlits með meðferðarheimilum í barnavernd sem hefur verið hjá Barnaverndarstofu en flyst nú til Gæða- og eftirlitsstofnunar.
    Gerð er tillaga að fjárhæð 7 m.kr. vegna aðgerða A4 og B2 í þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreiti, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025. Aðgerð A4 lýtur að námskeiðum fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum og aðgerð B2 snýr að þróun námsefnis fyrir leikskóla.
    Gerð er tillaga um millifærslu að fjárhæð 48 m.kr. til Gæða- og eftirlitsstofnunar barnaverndar og félagsþjónustu. Fjárheimildin er vegna nýrra verkefna sem koma með gildistöku laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Samhliða tillögunni er gerð önnur tillaga um breytta hagræna skiptingu á fjárheimildinni.
    Gerð er tillaga um fjárheimild að fjárhæð 150 m.kr. vegna öryggisvistunar. Fjárheimild samkvæmt frumvarpinu er ríflega 320 m.kr. og dugar ekki til að standa undir árlegum skuldbindingum vegna samninga um vistun einstaklinga sem þurfa á öryggisþjónustu að halda. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna samninga á árinu 2022 verði um 560 m.kr. Þó að fjöldi einstaklinga sem þurfa á sérhæfðri þjónustu öryggisvistunar séu ekki margir er þjónustan mjög kostnaðarsöm því að einstaklingarnir eru hættulegir umhverfi sínu og þurfa mikla gæslu. Gert er ráð fyrir nýjum samningum vegna einstaklinga í Grindavík og í Mosfellsbæ og vegna rýmkunardóma á árinu 2022. Unnið er að lokafrágangi á frumvarpi um öryggisþjónustu og unnið er að stefnumótun í málaflokknum. Þegar bygging sérhæfð húsnæðis í Reykjanesbæ hefst verður samhliða unnið að umbótum og greiningu kostnaðar vegna þjónustunnar.
    Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri.
    Gerð er tillaga um 6 m.kr. tímabundið framlag til Sigurhæða á Selfossi sem er þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi sem Soroptimistaklúbbur Suðurlands hefur haft forgöngu um að koma á fót.

Íþrótta- og tómstundaiðkun barna á tekjulágum heimilum.
     Gerð er tillaga um tímabundna fjárheimild að fjárhæð 100 m.kr. til að styrkja íþrótta- og tómstundaiðkun barna á tekjulágum heimilum. Í fjáraukalögum vorið 2020 samþykktu stjórnvöld að veita sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki til barna sem búa á tekjulágum heimilum. Aðgerðin var hluti af viðspyrnu stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, markmiðið að tryggja jöfn tækifæri barna til íþrótta- og tómstundastarfs. Styrkurinn nam 50.000 fyrir hvert barn, samtals 600 m.kr., til fjölskyldna þar sem samanlagðar atvinnutekjur, atvinnuleysisbætur og örorkulífeyrir foreldra á heimili var lægri en 740 þús.kr. á mánuði, sem var rúmlega tvöföld lágmarkstekjutrygging á almennum markaði. Þannig átti að tryggja að úrræðið beindist að börnum foreldra í lágtekjustörfum eða með lægri tekjur en ella vegna atvinnumissis eða hlutaatvinnuleysisbóta en nýttist jafnframt börnum á heimilum einstæðra foreldra og börnum öryrkja. Forsjáraðilar gátu kannað rétt til styrks á Ísland.is en sótt var um styrkinn hjá lögheimilissveitarfélagi þar sem styrkurinn var yfirleitt greiddur út gegn kvittun fyrir útlögðum kostnaði. Styrktímabilið var skólaárið 2020–2021 og sumarið 2021. Nýtingarhlutfallið var rúmlega 36% á tímabilinu.
    Við gerð fjárlaga fyrir árið 2021 samþykktu stjórnvöld að veita 300 m.kr. til þess að veita íþrótta- og tómstundastyrki á haustönn 2021, alls 25.000 kr. fyrir hvert barn. Afgreiðslufyrirkomulagi styrkjanna var breytt og geta forsjáraðilar nú nýtt styrkinn með sama hætti og almennan frístundastyrk sveitarfélaga, þ.e. rafrænt og til niðurgreiðslu tómstundaiðkunar (með þeim fyrirvara að skráning sé rafræn). Styrkurinn miðast við að heildartekjur heimilisins hafi verið að meðaltali lægri en 787.200 kr. á mánuði, á tímabilinu mars til júní 2021. Alls náði styrkurinn til ríflega 13 þúsund grunnskólabarna. Í nóvember var rafrænt nýtingarhlutfall komið í 51% en ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarnýtingu þar sem ekki er vitað hve margir hafa fengið styrkinn greiddan með öðrum hætti hjá sveitarfélögum. Hægt er að sækja um styrk til áramóta.
    Lagt er til að 320 m.kr. verði veittar til íþrótta- og tómstundastyrkja fyrir börn frá tekjulágum heimilum árið 2022. Markmiðið er að jafna tækifæri til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Sjá heimsmarkmið nr. 10 og stjórnarsáttmála (íþróttir, æskulýðsstarf og heilsa).
    Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarnýtingu styrks fyrir haustönn 2021 er ekki hægt að gera nákvæmt mat á fjárþörf fyrir árið 2022. Ef miðað er við þær forsendur að nýtingarhlutfallið verði um 80% árið 2022 og að jafn mörg börn falli að skilyrðum og á yfirstandandi ári (ríflega 13.000) má gera ráð fyrir að um 10.400 börn nýti styrkinn á komandi ári. Sé upphæðin kr. 50.000 fyrir hvert barn má gera ráð fyrir að kostnaðurinn verði 520 m.kr. Gert er ráð fyrir að um 200 m.kr. afgangur verði af fjárveitingu verkefnisins á árinu 2021 og því er áætluð fjárþörf fyrir árið 2022 um 320 m.kr.

Endurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
     Gerð er tillaga um fjárheimild að fjárhæð 50 m.kr. til þriggja ára vegna endurskoðunar á þjónustu við eldra fólk.
    Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að endurskoða þjónustu við eldra fólk hér á landi, samþætta og endurskipuleggja þvert á kerfi. Þetta mun auka lífsgæði eldra fólks en er auk þess mikilvægt til þess að tryggja að þjónustukerfi hér á landi muni ráða við vænta fjölgun eldra fólks á næstu árum en gangi mannfjöldaspá Hagstofu Íslands eftir verður 20% mannfjöldans eldri en 65 ára árið 2039 og árið 2057 yfir 25%. Enn fremur verða þeir sem eru eldri en 65 ára fleiri en þeir sem eru 19 ára og yngri frá árinu 2046.
    Samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og samkvæmt forsetaúrskurði nr. 125/2021 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er það hlutverk félagsmálaráðuneytisins að annast stefnumótun og áætlanagerð í málefnum eldra fólks fyrir landið í heild, að frátöldum málum er varðar hjúkrunarheimili, dvalarheimili og dagdvalir aldraðra, sem er á hendi heilbrigðisráðuneytisins.
    Meginstefna stjórnvalda í málefnum aldraðra kemur fram í 1. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þar sem segir að markmið laganna sé að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Þá er einnig markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Ekki hefur tekist að uppfylla þessi markmið með fullnægjandi hætti. Eldra fólk sem getur búið heima en þarf meiri þjónustu en boðið er upp á frá opinberum aðilum, hafa þurft að sækja um stofnanaþjónustu, sem takmarkað framboð er á, eða treysta á aðstoð ættingja og vina.
    Þverfaglegt samstarf á milli félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu í málefnum eldra fólks er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja fullnægjandi þjónustu við þennan stækkandi þjóðfélagshóp. Lagt er til að farið verði í heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að bæta lífsgæði þeirra með markvissri, samþættri og einstaklingsmiðaðri þjónustu sem veitt er á þeim tíma og á þeim stað sem hennar er þörf. Þjónustan snúist um einstaklinginn, sé aðlöguð þörfum hans og stuðli að því að eldra fólk njóti lífsgæða á efri árum og lifi sjálfstæðu lífi sem lengst. Samfélagslegur ávinningur af slíkum breytingum er verulegur en fyrir utan aukin lífsgæði eldra fólks eru miklir fjárhagslegir hagsmunir af því að fjölga þeim einstaklingum sem virkan þátt taka í samfélaginu og fækka þeim einstaklingum sem dveljast þurfa inni á stofnunum eða Landspítala.
    Vinnan verði leidd af félags- og vinnumarkaðsráðherra en í nánu samstarfi við heilbrigðisráðherra. Unnið verði á grundvelli upplýsinga um núverandi stöðu í þjónustu við eldra fólk og lagðar fram tillögur um breytingar á löggjöf, reglugerðum og framkvæmd þjónustunnar með það að markmiði að styrkja og samhæfa þjónustu og tryggja samfellu þvert á þjónustukerfi. Tryggja þarf víðtækt samráð við hagsmunaaðila við allan undirbúning breytinganna, svo sem við eldra fólk, sérfræðinga á málefnasviðinu og aðra hagaðila.
    Mikilvægt er að félagsmálaráðuneytið fái tímabundið aukið fjármagn til undirbúnings og vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, 200 m.kr. á ári næstu 3 ár, sem geri því jafnframt kleift að ráðast samhliða í aðgerðir til að bregðast við núverandi stöðu t.d. með afmörkuðum tímabundnum verkefnum þvert á þjónustukerfi sem miða að því að efla þróun nýrra úrræða, t.d. um heilsueflingu aldraðra og heimaþjónustu félagsþjónustu, auka aðgang að vissum þjónustuúrræðum, t.d. hjá félagsþjónustu og heilsugæslu og/eða tímabundinni fjölgun stöðugilda í stofnunum og mikilvægum þjónustueiningum.

Félagslegur stuðningur við fötluð börn í viðkvæmri stöðu.
    Gerð er tillaga um tímabundna fjárheimild að fjárhæð 150 m.kr. vegna félagslegs stuðnings við fötluð börn í viðkvæmri stöðu. Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft mikil áhrif á líf og aðstæður fatlaðra barna og ungmenna og fjölskyldur þeirra. Mikilvægt er að áframhaldandi stuðningur verði á aðgerðum sem stuðla að aukinni þátttöku fatlaðra barna og ungmenna í félags- og tómstundastarfi á árinu 2022 með sérstakri áherslu á að vinna gegn félagslegri einangrun, efla félagsstarf og styðja við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Lagt er til að 150 m.kr. verði veittar til félagslegs stuðnings við fötluð börn og ungmenni og stuðnings við foreldra fatlaðra barna og ungmenna vetur og sumar 2022.
          Félagsstarf fatlaðra barna og ungmenna sumarið 2021.
                  Áframhald og efling á verkefnum í anda ævintýrabúða, námskeiða og fjölskyldudvalar á hóteli með stuðningi sem starfrækt sumarið 2020 og 2021 og gáfu afar góða raun.
          Félaga- og jafningjasetur.
                  Fötluðum börnum og ungmennum yrði úthlutað til viðbótar almennum stuðningi sveitarfélagsins. Hægt væri að nýta virka daga eftir skóla ásamt því að nýta helgar. Þetta er gert til að rjúfa félagslega einangrun barna og ungmenna með fötlun og/eða sérþarfir og létta álagi af fjölskyldum þeirra eftir þær aðstæður sem hafa skapast við útbreiðslu kórónuveirunnar.
          Styðja við þróun lausna fyrir fötluð börn í íþrótta- og tómstundastarfi.
                  Áframhald þróunar hugmynda um frekar stuðning við við fötluð börn íþrótta og tómstundastarfi, bæði í formi stuðnings við íþróttafélögin til að styrkja þekkingu og færni þjálfara og annars aðstoðarfólks og styrkja íþróttafélög sem eru að þróa góðar lausnir fyrir fötluð börn og ungmenni.
    
29.60 Bætur vegna veikinda og slysa.
    
Gerð er tillaga um 189 m.kr. framlag vegna viðbótarkostnaðar sem kemur til vegna breytinga á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, sem samþykkt voru 1. júlí 2021 og taka gildi 1. janúar 2022. Breytingar miða að því að hinn slysatryggði eigi auðveldara með að fá upplýsingar um réttindi sín vegna þeirra slysa sem lögin taka til auk þess sem réttindi slysatryggðra aukast ef slys verða. Með breytingunum teljast fleiri slysatryggðir auk þess sem bætur verða að jafnaði hærri. Breytt skilgreining á slysi og breyting á ákvæði laganna um atvinnusjúkdóma ættu að leiða til þess að umsóknum um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga fjölgar. Þá eiga breytingar á greiðslufyrirkomulagi og minni skerðingar vegna greiðslna frá Tryggingastofnun að leiða til hærri greiðslna til slysatryggðra.

29.70 Málefni innflytjenda og flóttamanna.
    
Gerð er tillaga um tímabundna fjárheimild að fjárhæð 30 m.kr. vegna áframhaldandi starfsemi Ráðgjafarstofu innflytjenda. Ráðgjafarstofa innflytjendamála hefur verið starfrækt í tíu mánuði. Þegar hefur verið sýnt fram á að mikil þörf er fyrir úrræðið en 2.400 erindi hafa borist stofunni frá opnun, alls yfir 1.800 einstaklingar. Erindin sem hafa borist Ráðgjafarstofunni snúa helst að vinnumarkaðnum, lögmætri dvöl, sköttum, heilsu, menntun og húsnæði. Auk þess að svara erindum hefur stofan verið virk á samfélagsmiðlum og deilt mikilvægum upplýsingum m.a. um heimsfaraldurinn og jarðhræringar. Stofan hefur verið í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun, Almannavarnir, Neytendasamtökin, Mannréttindaskrifstofu Íslands og félagasamtök svo að dæmi sé nefnt. Ráðgjafarstofan býður upp á svarbox á sjö tungumálum sem er mikið nýtt, sérstaklega þegar samkomutakmarkanir eru í gildi. Með tilkomu Ráðgjafarstofunnar hefur létt verulega á stofnunum og sveitarfélögum en stofan nær að afgreiða um helming erinda án þess að þurfa að vísa þeim áfram. Ráðgjafarstofan hefur verið starfrækt sem reynsluverkefni frá febrúar og er fjármagn tryggt til hennar fram í miðjan marsmánuð. Lagt er til að reynsluverkefnið verði lengt um sex mánuði og verður sá tími nýttur til þess að leggja fram tillögur um framtíðarskipulag er varðar ráðgjafarþjónustu við innflytjendur. Kostnaður við þetta nemur 30 m.kr.

30
Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10
Vinnumál og atvinnuleysi.
    
Gerð er tillaga um 112 m.kr. tímabundna fjárheimild vegna greiðslu launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Úrræðinu var upphaflega markaður gildistími út ágúst 2020 en frá þeim tíma hefur það verið framlengt tvívegis. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna framlengingar á greiðslu launa í sóttkví nemi um 162 m.kr. miðað við að gildistími úrræðisins verði lengdur út árið 2022. Að teknu tilliti til 50 m.kr. tímabundinnar fjárheimildar sem er nú þegar inni í ramma vegna þessa úrræðis þá er viðbótarfjárþörf á árinu 2022 112 m.kr. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var heildarfjöldi umsókna á grundvelli laganna á tímabilinu mars 2020 til og með október 2021 samtals 5.653 vegna launa 10.513 einstaklinga og námu heildargreiðslur samtals 654,5 m.kr. en um var að ræða alls 41.827 sóttkvíardaga. Meðalgreiðslur á hvern sóttkvíardag nema því 15.648 kr. Þannig greiddi Vinnumálastofnun sem nemur 2.091 sóttkvíardegi að meðaltali í hverjum mánuði á umræddu tímabili. Stofnunin gerir ráð fyrir að með framlengingu úrræðisins út árið 2022 verði fjöldi greiddra sóttkvíardaga að meðaltali lægri en á árinu 2021 eða um 825 á mánuði.
    Gerð er tillaga um 245 m.kr. hækkun framlags til atvinnuleysisbóta vegna framfærsluskyldu gagnvart börnum. Greiðslur vegna framfærslu barna atvinnuleitenda voru hækkaðar tímabundið þannig að frá 19. maí 2020 hefur verið miðað við 6% í stað 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni eftir að tekjutengdu tímabili lýkur en gildistími ákvæðis til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að miða skuli við 6% af grunnatvinnuleysisbótum rennur út 31. desember 2021. Lagt er til að ákvæðið verði gert varanlegt frá og með 2022. Kostnaður vegna þessa nemur 245 m.kr. á ársgrundvelli miðað við 5,5% skráð atvinnuleysi. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fengu um 3.900 foreldrar sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins greiðslur vegna um 6.600 barna í október 2021.
    Gerð er tillaga að 3.400 m.kr. framlagi vegna ráðningarstyrkja sem veittir voru á árinu 2021 en hluti útgjalda vegna þeirra fellur til á árinu 2022. Vinnumálastofnun áætlar að í árslok 2021 hafi verið gerðir tæplega 7.900 samningar vegna ráðningarstyrkja á árinu 2021. Tæplega 40% þeirra voru vegna greiðslu nýrra úrræða sem kynnt voru í átaksverkefninu Hefjum störf og 60% vegna hefðbundinna ráðningarstyrkja sem komu í kjölfar átaksverkefnisins. Atvinnurekendur geta sótt um ráðningarstyrk vegna Hefjum störf til 31. desember 2021 og getur styrkur verið í allt að 6 mánuði. Því mun hluti útgjalda vegna ráðningarstyrkja falla til á árinu 2022. Samkvæmt Vinnumálastofnun er árangur af ráðningarstyrkjum sá að 20–30% þeirra sem fara á ráðningarstyrk fara aftur á atvinnuleysisskrá þegar styrktímabili samnings lýkur. Gert er ráð fyrir að útgjöld sem falla til vegna ráðningarstyrkja sem veittir voru á árinu 2021 verði um 11,7 mia.kr. 2021 og 3,4 mia.kr. á árinu 2022. Munur á upphaflegu kostnaðarmati og raunútkomu og áætlun ársins 2022 skýrist fyrst og fremst af því að ásókn í ráðningarstyrkina varð tvisvar sinnum meiri en gert hafði verið ráð fyrir (7.900 í stað 4.000) þar sem samhliða Hefjum störf átaki stjórnvalda margfaldaðist ásókn atvinnurekenda í hina hefðbundnu ráðningarstyrki Vinnumálastofnunar sem kallast Ráðning með styrk. Í byrjun árs 2021 höfðu aðeins 128 samningar verið gerðir í gegnum það úrræði en þeir voru orðnir 2.800 í nóv. sl. Er því um tuttugufalda aukningu ásóknar að ræða í úrræðið. Þá sköpuðust jafnframt fleiri störf á hinum almenna markaði en áætlað var og kostnaður ríkissjóðs á hvern samning því hærri en í upphaflegu mati þar sem gert var ráð fyrir að fleiri störf sköpuðust hjá sveitarfélögum og félagasamtökum.
    Gerð er tillaga um að 200 m.kr. sértækar aðhaldsráðstafanir á tilfærslukerfi almannatrygginga sem áætlað var að yrðu á málefnasviði 30 verði færðar á málefnasvið 27. Vísbendingar eru um að áhersla á endurhæfingu og starfsendurhæfingu dragi úr nýgengi örorku, sem mælist um þessar mundir 0,5%. Er því rétt að færa endurmatið á örorkulífeyri, enda ekki um að ræða tilfærslukerfi almannatrygginga á málefnasviði 30. Fleiri þættir gætu þó átt hlut að máli og þarf nokkur ár til að meta þróunina.
    Gerð er tillaga um 1.000 m.kr. framlag til viðspyrnustyrkja til rekstraraðila vegna COVID-19. Þótt efnahagsumsvif hafi vaxið hratt frá miðju ári og veruleg veltuaukning hafi orðið undanfarna mánuði í flestum greinum hagkerfisins hafa hertar sóttvarnaráðstafanir vegna fjölgunar smita frá því í nóvember ekki síst haft áhrif í veitingarekstri. Bætist þessi þróun við áhrif samkomutakmarkana, færri ferðamanna og breyttrar samfélagshegðunar fólks frá upphafi faraldursins. Áhrifin eru þó talsvert misjöfn milli hópa innan geirans. Frá því að faraldurinn hófst hefur kortavelta í veitingarekstri verið nær 40 mia.kr. lægri en velta á árinu 2019, sem er 23% samdráttur að raunvirði. Tekjutapið má að mestu rekja til minni kortaveltu erlendra ferðamanna en erlend kort stóðu að baki nær þriðjungi greiðslukortanotkunar hjá fyrirtækjum í greininni árið 2019. Eftir því sem ferðamönnum fjölgaði frá sumarmánuðum jókst veltan í greininni. Á haustmánuðum var veltan hærri að nafnvirði en á sama tíma 2019. Merkja má nokkurn veltusamdrátt í nóvember og desember 2021 og þónokkur óvissa er um áhrif faraldursins á rekstur í greininni á næstu mánuðum. Þegar áhrifa faraldursins gætti sem mest nutu rekstraraðilar í veitingaþjónustu víðtæks stuðnings frá ríkissjóði, en heildarstuðningur stjórnvalda til fyrirtækja í veitingaþjónustu nemur um 45% af tekjufalli greinarinnar til þessa miðað við árið 2019. Hertar sóttvarnaaðgerðir frá því í nóvember, sem m.a. styttu opnunartíma veitingahúsa, virðast fyrst og fremst hafa haft áhrif á rekstraraðila í veitingageiranum. Þessi áhrif koma þó fram með mjög ólíkum hætti en koma fram á sama tíma og helstu efnahagsúrræði stjórnvalda renna sitt skeið. Af þeim sökum er lagt til að þeim rekstraraðilum í veitingaþjónustu sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum núgildandi sóttvarnaráðstafana verði veittur styrkur úr ríkissjóði. Umgjörð styrkjanna mun byggjast eftir því sem kostur er á fyrri úrræðum stjórnvalda í þessum efnum.

30.20 Vinnumarkaður.
    Gerð er tillaga að breyttri hagrænni skiptingu fjárheimilda ríkissáttasemjara þannig að 3,3 m.kr. færist af rekstrarviðfangi stofnunarinnar yfir á fjárfestingarviðfang.

31 Húsnæðisstuðningur.
31.10 Húsnæðisstuðningur.
    
Gerð er tillaga um að lækka framlag til vaxtabóta um 400 m.kr. Útgjaldaferli fyrir vaxtabætur er breytt til samræmis við áætlaðar rauntölur útgreiðslu 2022. Miðað er við óbreytt kerfi sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verða þær sömu á árinu 2022 og 2021. Verið er að vinna að heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda á ýmsum sviðum, svo sem vaxtabótakerfi, húsaleigubótakerfi, félagslegri aðstoð o.fl.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    
Lagt er til að hækka fjárheimild um 30 m.kr. til að styrkja sóttvarnasvið embættis landlæknis. Í fjárlögum fyrir árið 2021 samþykkti Alþingi tímabundna fjárveitingu til eins árs til sóttvarnasviðs embættis landlæknis sem nam um tveimur stöðugildum sérfræðinga. Reynslan af heimsfaraldri kórónuveiru sýnir að brýn þörf er á áframhaldandi styrkingu á starfsemi sóttvarnalæknis. Því er gerð er tillaga um styrkja grunn sóttvarnasviðs landlæknis með tveimur stöðugildum sérfræðinga sem nemur um 30 m.kr. Gerð er tillaga um að bæta einum starfsmanni í greiningarteymi og öðrum í teymi rafrænna upplýsingakerfa á heilbrigðisupplýsingasviði sem sinna sérstaklega þróun upplýsingakerfa sóttvarnalæknis, öflun gagna um smitsjúkdóma og vöktun smitsjúkdóma með greiningu og miðlun þessara gagna. Starf þessara tveggja viðbótarstarfsmanna mun verulega styðja við starf sérfræðinga á sóttvarnasviði og efla vöktun og nýtast við að taka ákvarðanir um viðbrögð og aðgerðir.
    Lagt er til að veitt verði fjárheimild sem nemur 6,3 m.kr. til Lyfjastofnunar. Við útreikning fjárheimilda Lyfjastofnunar fyrir árið 2022 voru rekstrartekjur Lyfjastofnunar ofmetnar um 6,3 m.kr. sem er leiðrétt hér.

32.20 Jafnréttismál.
    
Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til að fjármagna stöðu forvarnafulltrúa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að fullu. Í þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021– 2025, er tiltekin aðgerð að innan Sambands íslenskra sveitarfélaga starfi forvarnafulltrúi sem hafi það hlutverk að fylgja eftir aðgerðaáætluninni. Fulltrúinn styðji við skólaskrifstofur sveitarfélaganna við miðlun fræðslu og forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, bæði í leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Fulltrúinn miðli einnig þekkingu og fræðslu til grunnskóla og leikskóla sem ekki heyra undir skólaskrifstofur sveitarfélaga, þar á meðal sjálfstæðra skóla. Fulltrúinn hafi jafnframt það hlutverk gagnvart framhaldsskólum að miðla þekkingu og styðja framhaldsskóla við að efla kennslu og forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þá safni forvarnarfulltrúinn gögnum um árangur einstakra aðgerða.
    Gerð er tillaga um 25 m.kr. tímabundið framlag til Samtakanna ´78.

32.30
Stjórnsýsla heilbrigðismála.
    
Gerð er tillaga um að færa 50 m.kr. af ýmsum framlögum velferðarráðuneytis til sjúkratrygginga til að standa straum af samningi um neyslurými.
    Gerð er tillaga um 95 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja rekstrargrunn Sjúkratrygginga Íslands. Fram undan eru aukin verkefni m.a. í tengslum við innleiðingu samninga um þjónustutengda fjármögnun (DRG) sem þegar hafa verið gerðir bæði við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Gerð er tillaga um 50 m.kr. tímabundið framlag til Alzheimersamtakanna. Í apríl 2020 gaf heilbrigðisráðuneytið út aðgerðaáætlun um þjónustu við einstaklinga með heilabilun, þá fyrstu hérlendis. Aðgerðum úr áætluninni hefur verið hrundið af stað eins og efni hafa staðið til en þar eru einnig aðgerðir sem ekki hafa verið fjármagnaðar. Dæmi um það er þjónustumiðstöð á vegum Alzheimersamtakanna sem m.a. hefur það hlutverk að veita einstaklingum greindum með alzheimer og fjölskyldum þeirra stuðning frá greiningusjúkdómsins en mikil þörf er á að sá stuðningur sé veittur. Samtökin hafa síðustu misseri unnið að því að koma á fót slíkri þjónustumiðstöð í Lífsgæðasetrinu á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Gerð er tillaga um breytta tegundaskiptingu vegna millifærslu að fjárhæð 13,7 m.kr. til aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins.
    Gerð er tillaga um millifærslu að fjárhæð 48 m.kr. til Gæða- og eftirlitsstofnunar barnaverndar og félagsþjónustu. Fjárheimildin er vegna nýrra verkefna sem koma með gildistöku laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Samhliða tillögunni er gerð önnur tillaga um breytta hagræna skiptingu á fjárheimildinni.
    Gerð er tillaga um millifærslu að fjárhæð 36 m.kr. frá Barnaverndarstofu til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála vegna flutnings verkefna vegna eftirlits með meðferðarheimilum í barnavernd sem hefur verið hjá Barnaverndarstofu en flyst nú til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
    Gert er ráð fyrir að 25 m.kr. framlag verði flutt af liðnum 07-190-198 Ýmis framlög félagsmálaráðuneytis á liðinn 10-801-112 Málefni fatlaðra hjá innviðaráðuneyti (samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti). Á liðnum árum hefur félagsmálaráðuneytið veitt 25 m.kr. framlag til frekari uppbyggingar á aðstöðu, bætts aðgengis og innviða í þágu fatlaðs fólks með búsetu í Sólheimum í Grímsnesi. Framlag þetta hefur verið greitt til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem síðan hefur gert samning við Sólheima.
    Gerð er tillaga að 50 m.kr. framlag verði flutt af Tækniþróunarsjóði á málaflokki 7.10 yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Um er að ræða framlag í samkeppnissjóð um bygginga- og mannvirkjarannsóknir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun halda utan um og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fjármagnar með þjónustusamningi, sbr. lög um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, en með þeim lögum var Nýsköpunarmiðstöð Íslands lögð niður.
    Gerð er tillaga að 50 m.kr. framlagi í samkeppnissjóð um bygginga- og mannvirkjarannsóknir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun halda utan um. Fyrir er tillaga um 50 m.kr. millifærslu frá Tækniþróunarsjóði til samkeppnissjóðsins. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði fjármagnaður sameiginlega af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
34.10
Almennur varasjóður.
    
Gerð er tillaga um 1,2 mia.kr. fjárveitingu vegna betri vinnutíma í vaktavinnu. Í vor var áætlað að kostnaður vegna betri vinnutíma í vaktavinnu hjá hjúkrunarheimilum á daggjöldum hjá Sjúkratryggingum Íslands yrði um 1,2 mia.kr. á ársgrundvelli, en gera átti frekari greiningu á kostnaðinum og breyta fyrri áætlun ef með þyrfti til samræmis við niðurstöður. Verkefnastjórn á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur unnið með Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að þessari greiningu og er þeirri vinnu ekki lokið. Því er í þessari tillögu miðað við fyrstu áætlun um aukin útgjöld vegna betri tíma í vaktavinnu þangað til niðurstaða liggur fyrir.
    Gerð er tillaga um 1.700 m.kr. lækkað framlag til almenna varasjóðsins vegna breytts umfangs. Samkvæmt lögum um opinber fjármál skal hann nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga.
    Meiri hlutinn bendir á að mikilvæg reynsla af fjarsamskiptum á tímum kórónuveirufaraldursins verði nýtt til að marka nýja stefnu um að færa erlent samstarf á vegum ríkisins eins og kostur er úr því horfi að starfsmenn þurfi að sækja fundi og ráðstefnur í útlöndum yfir í að þátttaka í slíkum samskiptum verði í miklum mæli með fjarfundum. Lagt er til að farið verði yfir utanferðir í öllum ráðuneytum og stofnunum út frá gátlista sem miði að því að flokka erlend samskipti eftir því að hvaða marki þeim verði sinnt með fjarfundum. Er því gerð tillaga um að nálægt 40% af fjárveitingu sem veitt var í frumvarpinu til að hækka að nýju fjárveitingar vegna ferðakostnaðar á yfirstandandi ári verði tímabundið felld brott, eða sem nemur 640 m.kr. Sundurliðun fjárhæðarinnar er sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögu meiri hlutans.

34.20 Sértækar fjárráðstafanir.
    
Gert er ráð fyrir 450 m.kr. framlagi vegna breyttrar skipunar Stjórnarráðsins. Samkvæmt forsendum fjármála- og efnahagsráðuneytis nemur árlegur launakostnaður ásamt launatengdum gjöldum vegna stofnunar nýs ráðuneytis um 130 m.kr. vegna ráðuneytisstjóra, ritara, bílstjóra og þriggja almennra starfsmanna. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður um 40 m.kr. á ári fyrir hvort ráðuneyti. Því til viðbótar þarf að gera ráð fyrir tímabundnum viðbótarkostnaði við húsaleigu fyrir eitt ráðuneyti, allt að 40 m.kr. Jafnframt þarf að gera ráð fyrir einskiptisfjárfestingu í búnaði og tækjum, 15 m.kr. fyrir hvort ráðuneyti. Þar sem ekki liggur fyrir á þessu stigi endanlegt innra skipulag nýrra ráðuneyta, tilfærsla núverandi starfsmanna og breyttar starfsáherslur, m.a. í tengslum við stefnumál ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmála, er óvissa um í hvaða mæli ráða þarf til starfa aukið starfslið. Að samanlögðu má telja að heildarkostnaður við stofnun tveggja nýrra ráðuneyta gæti numið um 505 m.kr. fyrsta árið, en þar af færast 450 m.kr. á þennan málaflokk. Útgjaldatilefni sem ákveðið er að fjármagna úr málaflokknum geta heyrt undir ábyrgðarsvið hvaða ráðuneytis sem er. Þannig felur ráðstöfun úr málaflokki sértækra fjárráðstafana í sér að fjárveiting er millifærð til þess verkefnis þar sem kostnaður sem mæta á er gjaldfærður í ríkisreikningi. Samhliða breytingum á Stjórnarráðinu hefur verið ákveðið að endurskoða fyrirkomulag stoðþjónustu ráðuneyta með það að markmiði að auka samrekstur. Gert er ráð fyrir að slík breyting muni leiða til aukins hagræðis í rekstri. Ekki er gert ráð fyrir þeim ávinningi í framangreindum forsendum.

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
35.10
Þróunarsamvinna.
    
Gerð er tillaga um leiðrétta fjárheimild til samræmis við markmið um að 0,35% af vergum þjóðartekjum eigi að fara í alþjóðlega þróunarsamvinnu, hún verði því 456 m.kr. lægri. Vegna kerfisvillu var launa- og verðbótum bætt í frumvarpið sem hækkuðu fjárheimildina fram yfir áðurnefnt 0,35% markmið.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 20. desember 2021.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Vilhjálmur Árnason.
Bryndís Haraldsdóttir. Stefán Vagn Stefánsson. Ingibjörg Isaksen.