Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 219  —  174. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021, sbr. lög nr. 78/2021.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Stærsti útgjaldaliðurinn sem ríkisstjórnin bætir við er vegna átaksins Hefjum störf, upp á 6,1 milljarð kr. Verkefnið var kynnt í upphafi árs á þann hátt að „með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi fengið fullar grunnatvinnuleysisbætur með hverjum atvinnuleitanda“. Nú eru
grunnatvinnuleysisbætur rétt rúmlega 300 þús. kr. á mánuði. Einfaldur rassvasareikningur segir manni að 7.000 manns kosti þá 2,1 milljarð kr. á mánuði. Fjárheimildin sem ríkisstjórnin lagði til ætti því bara að duga í um tvo mánuði, þrjá ef maður er gjafmildur og gerir ráð fyrir því að ekki séu allir á hæstu mögulegu atvinnuleysisbótum. Það rétt dekkar einmitt sumarið og eins og framsögumaður þessa nefndarálits sagði við afgreiðslu frumvarps til fjáraukalaga í vor: „Þegar ég var að spyrja um þetta í fjárlaganefnd þá fékk ég vissulega baunatalningu á því hversu mörg störf þetta á að skapa, 7.000 manns geta fengið vinnu í gegnum þetta, en það klárast svona u.þ.b. í kringum kosningarnar. Þá klárast þetta úrræði.“
    Það sem gerðist hins vegar er að ríkisstjórnin er að koma með 6,1 milljarðs kr. framúrkeyrslu í þessu verkefni sínu í fjáraukalögum fyrir árið sem er að líða og 3,4 milljarða kr. í viðbót fyrir næsta ár. Við erum að tala hérna um 13,8 milljarða kr. fyrir eitthvað sem átti að kosta 4,3 milljarða kr. og átti aðallega að vera fyrir námsmenn (2,4 milljarðar kr. á móti 1,9 milljörðum kr. í ráðningarstyrk fyrir atvinnuleitendur). Hver voru áhrifin af þessu? Í staðinn fyrir að atvinnuleysið væri 10,8% eins og það var í apríl á þessu ári samkvæmt tölum Hagstofu – með 22.200 atvinnulausa – þá var hægt að segja að atvinnuleysið væri þeim mun minna í kosningabaráttunni, af því að ríkisstjórnin bókstaflega borgaði vinnuveitendum pening til þess að taka fólk af atvinnuleysisskránni.
    Vitum við hvað verður um þetta fólk þegar meðgjöfinni lýkur? Nei. Vonandi halda sem flestir vinnunni þegar úrræðið rennur út. Hefði verið hægt að ná betri árangri til lengri tíma með því að nýta 13,8 milljarða kr. í einhver önnur verkefni – t.d. nýsköpunarverkefni sem hefðu líka dregið fólk af atvinnuleysisskránni? Við vitum það ekki vegna þess að það var ekki einu sinni reynt að meta það.

Breytingartillaga.
    1. minni hluti flytur sameiginlega breytingartillögu með allri nefndinni sem snýst um eingreiðslu og er nánar reifuð í áliti meiri hluta.

Alþingi, 20. desember 2021.

Björn Leví Gunnarsson.