Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 231  —  1. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


Á leiðinni missti hann þá í ána.
    Kosningar seint í september eru hræðileg hugmynd þegar á að afgreiða fjárlög fyrir áramót. Auðvitað hjálpar það ekki þegar framkvæmd kosninga klúðrast, en að ríkisstjórn fyrra kjörtímabils taki sér tvo mánuði í að hnoða saman nýjum stjórnarsáttmála og leggi ekki fram fjárlagafrumvarp, sem var tilbúið fyrir kosningar, fyrr en í byrjun desember er á engan hátt ábyrgt. Það kemur ekki á óvart þar sem núverandi ríkisstjórn virðist vera alveg sama um hlutverk þingsins. Þau taka sér fjárveitingavaldið, sem er þingsins, með gríðarlega óaðgengilegu og ógagnsæju fjárlagafrumvarpi. Þau smána löggjafarvaldið með því að gefa þinginu lítinn sem engan tíma fyrir hin ýmsu frumvörp sem snúa að fjárlögum og öðrum tímasetningarmálum, afgreiðsla málanna í nefndum er að langmestu leyti afplánun þangað til ríkisstjórnin hefur púslað saman öllu sem hún gleymdi að gera þessa tvo mánuði sem þau voru að hnoða saman stjórnarsáttmála. Hvernig farið er með eftirlitsvaldið er flóknara.
    Ástæðan fyrir þessu öllu er einfaldlega af því að ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki kunna að fara með eða vita hvernig vald virkar, hvernig aðskilnaður ríkisvaldsins virkar. Við erum til að byrja með með þingbundið lýðræði samkvæmt stjórnarskrá. Þess vegna erum við með þingkosningar en ekki ráðherrakosningar eða dómarakosningar, ekki eins og í Bandaríkjunum þar sem framkvæmdarvaldið er kosið beint í forsetakosningum. Af því að við erum með þingbundið lýðræði þá þýðir það að ráðherrar eru í raun fulltrúar þingsins í framkvæmdarvaldinu en ekki valdhafar. Ráðherrar bera vissulega ábyrgð, en það þýðir ekki að því fylgi völd. Í stjórnarskránni er þetta orðað svo: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum“.
    Rétt er að taka fram að hér er fjallað um hvernig ráðherrar ættu að fara með framkvæmdarvald. Ekki hvernig það hefur verið gert eða jafnvel túlkað samkvæmt þeirri hefð. Hér er einfaldlega bent á að framkvæmdarvaldið er ekki ráðherra að beita samkvæmt eigin geðþótta. En hvernig ætti fyrirkomulagið þá að vera?
    Ef gengið er út frá því að við séum þingbundið lýðræði þýðir það að þungamiðja pólitískrar ákvarðanatöku er hjá þinginu. Það þýðir að ráðherrar eru einungis fulltrúar þingsins í faglegri stjórnsýslu. Framkvæmdarvald ráðherra snýst um að fylgjast með því að fagleg stjórnsýsla fylgi þeirri stefnu sem þingið setur og að það sé gert lögum samkvæmt. Ákvarðanir ráðherra snúast um að votta að stjórnsýslan hafi fylgt öllum kúnstarinnar reglum sem þingið setur með lögum til þess að takmarka mörk framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið má nefnilega bara gera það sem lög segja og ekkert sem lög leyfa ekki sérstaklega. Þess vegna skulu ráðningar í embætti vera byggðar á faglegum sjónarmiðum en ekki pólitískum. Þess vegna var til dæmis Landsréttarmálið svo alvarlegt.
    Ef það væri í alvörunni þannig að þingið væri þungamiðja pólitískrar ákvarðanatöku og ráðherrar væru fulltrúar þingsins í faglegri stjórnsýslu þá væri framkvæmd eftirlits þingsins með allt öðrum hætti. Eftirlit þingsins snýst um eftirlit með ráðherra og ábyrgð hans. En ábyrgð ráðherra er einmitt vel útskýrð í 6. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963: „Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni, sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir, ef honum hefur verið um þær kunnugt og hann hefur látið þær viðgangast án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær.“
    Þetta þýðir ekki að ráðherra taki sjálfur ákvörðun heldur að ákvörðun hans sé faglega framkvæmd. Hér er rétt að gera greinarmun á pólitískri ákvörðun og geðþóttaákvörðun ráðherra. Séu mál faglega undirbúin getur oft verið fleiri en einn möguleiki á úrlausn mála. Fyrir því geta verið einfaldar ástæður þar sem matskenndir þættir eru oft mótsagnakenndir. Á úrlausn máls til dæmis að gæta að friðhelgi eða gagnsæi? Vega byggðasjónarmið meira en skilvirkni? Eru umhverfissjónarmið mikilvægari en orkuöryggi?
    Fagleg stjórnsýsla býður ráðherra upp á greiningu á þeim þáttum sem skipta máli í hvert sinn. Sú greining gerir ekki upp á milli andstæðra sjónarmiða heldur rökstyður kosti og galla hvers sjónarmiðs sem er í boði. Þegar ráðherra velur úr slíkum kostum er ákvörðun ráðherra pólitísk. Það er pólitík að velja orkuöryggi umfram umhverfissjónarmið, eða öfugt, sem dæmi. Slík ákvörðun getur krafist þess að ráðherra axli pólitíska ábyrgð. Þegar ráðherra fer hins vegar gegn þeim valkostum sem fagleg greining byggist á er um geðþóttaákvörðun að ræða. Augljósasta dæmi slíkra ákvarðana eru ákvarðanir fyrrverandi dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu eða fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í Samherjamálinu.
    Aðalatriðið er að ef ráðherrar eru fulltrúar þingsins í faglegri stjórnsýslu þá eru þeir í raun eftirlitsaðilar fyrir þingið innan framkvæmdarvaldsins. Ráðherrar taka vissulega pólitískar ákvarðanir en þær eru allar byggðar á aðgengilegri faglegri greiningu sem ráðherra á að hlakka til þess að greina þinginu frá. Ráðherra ætti miklu oftar að hlakka til þess að koma til þingsins til þess að segja frá því sem stjórnsýslan er að gera. Þannig væri ráðherra að leita svara vegna eftirlits þingsins gagnvart störfum ráðherra í stað þess að reyna að forðast eftirlitið, vegna þess að eftirlit þingsins snýst ekki um pólitískar ákvarðanir ráðherra heldur hvort faglega hafi verið að þeim staðið. Sá ráðherra sem beitir geðþóttavaldi, hins vegar, ætti að hræðast þingið mjög mikið – sem er ástæðan fyrir því að það eru til lög um vernd uppljóstrara. Brjóti ráðherra á hinu faglega ferli ætti að hlakka í stjórnsýslunni að tilkynna þinginu um slíkt. Þannig skapast jafnvægi sem núverandi fyrirkomulag ráðherraræðis setur verulega úr skorðum, af því að meiri hluti þingsins eftirlætur allt vald til ráðherra sinna og ver svo geðþóttavald þeirra fyrir öllu eftirliti.
    Núverandi fyrirkomulag er afurð margra áratuga gamalla hefða og venju. Það er fyrirkomulag hentisemi frekar en nokkurs annars. Sú hentisemi hefur fært okkur frá því hvernig ríkisvaldið ætti að starfa yfir í „hentugra“ fyrirkomulag fyrir ráðamenn. Ekkert á hins vegar að vera hentugt fyrir valdhafa. Þau sem fara með völd eiga alltaf að þurfa að hafa mjög mikið fyrir því að beita valdi, vegna þess að vald spillir. Veigamikil ástæða þess að við höfum haft mikið fyrir því að ná valdi af einráðum, sem beita valdi eftir mjög miklum hentugleika, er að skaðinn af slíku fyrirkomulagi er gríðarlegur. Mannkynssagan er troðfull af slíkum dæmum. Á sama tíma er sagan með jafn margar sögur um hvernig slíkir valdníðingar komust til valda.
    Vítin eru þarna til þess að varast þau og oft má kenna afskiptaleysi um, afskiptaleysi sem lýsir sér í þeirri meðvirkni að „mitt fólk“ geti nú ekki gert svona og að gagnrýni sé bara pólitískt prjál. Þannig hljómar vörn þeirra sem hagnast af geðþóttanum ítrekað. Ef hin gagnrýniverða ákvörðun ráðherra var bara pólitísk en ekki byggð á geðþótta, er ekkert að óttast. Þá þarf bara að standast traust eigin stuðningsmanna og mögulega afleiðingar samkvæmt almennum kosningum. Þess vegna hentar svo vel að útmála alla gagnrýni sem pólitíska en ekki málefnalega. Þannig sleppa þau sem fara illa með vald.
    Það er erfitt að vinna faglega. Það kostar orku og pening. Það kostar tíma. Það er sérstaklega erfitt í fordæmalausum aðstæðum og mikilli óvissu. En það er einmitt erfitt af því að einfalda leiðin er skaðleg. Það er ekki auðvelt að birgja alla brunna áður en börnin detta í þá. Það er erfitt að sjá fyrir mistök og slys geta gerst. Það getur komið fyrir alla að botninn verði eftir norður í Borgarfirði. Þeir verða síður fyrir því sem reyna að gera hlutina vel og vandlega.

Settu þá í vasann.
    58 umsagnir hafa borist nefndinni þegar þetta er skrifað. Í mörgum umsögnum er kvartað undan stuttum umsagnartíma en 1. minni hluta gafst ekki færi á að leggja til viðunandi umsagnarfrest þar sem formaður og varaformaður fjárlaganefndar ákváðu það bara sjálfir án aðkomu annarra í nefndinni og sendu málið til umsagna án þess að kalla saman nefndarfund til þess. Enn eitt dæmið um hversu fjálglega ríkisstjórnarflokkarnir fara með það vald sem þeir taka sér.
    Umsagnaraðilar vöktu athygli á ýmsum málum. Hér fyrir neðan er stutt samantekt um efni hverrar umsagnar fyrir sig.
    ADHD-samtökin 1 hvetja til eflingar á sálfræðiþjónustu, styttingar á biðlistum eftir greiningu, benda á óráð þess að setja aðhaldskröfu á sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun og hvetja að lokum að aukinn kraftur verði settur í snemmtækan stuðning í málefnum barna og fatlaðs fólks.
    Akureyrarbær 2 leggur áherslu á eflingu sveitarstjórnarstigsins og hvetur til þess að ríkið kostnaðarmeti ákvarðanir sem hafa áhrif á rekstur sveitarfélaga. Kostnaður vegna málefna fatlaðs fólks er áhyggjuefni. Akureyrarbær leggur áherslu á ýmis verkefni sem myndu styrkja sveitarfélagið í áætlunum sínum um að vera svæðisborg.
    Almannarómur – miðstöð máltækni 3 minnir á mikilvægi máltækniverkefnisins og hvetur til þess að það sé fjármagnað vel. Þar er bent á að fjárheimild málaflokksins lækki um 228 millj. kr. á síðasta ári verkefnisins.
    Alþýðusamband Íslands 4 (ASÍ) minnir á að gera verði stórátak í húsnæðismálum og að velferð og félagslegur stöðugleiki verði ekki notuð sem hagstjórnartæki. Þar er minnt á þær langtímaáskoranir sem birtast okkur í hlutfallslegri fjölgun eldra fólks, skorti á viðbrögðum við veikleikum í skattkerfinu sem nýtast frekar þeim hærra launuðu, ívilnar þeim sem eru með hærri tekjur. Þá er fjallað um uppsafnaða þörf í opinberri fjárfestingu og ítarlega fjallað um barnabótakerfið. Að lokum er minnt á að almanna- og atvinnuleysistryggingar halda ekki í við launaþróun, að lítil áhersla sé á menntamál og hversu lítill hluti veiðigjöld séu af auðlindarentu.
    Arkitektafélag Íslands 5 mælir með því að úrræðið Allir vinna verði framlengt en harmar að mannvirkjasjóður sé lagður af og sameinaður samkeppnissjóðum Rannís.
    Atvinnufjelagið 6 kvartar yfir áformum þess að hækka tryggingagjaldið um 0,25% og vill að gjaldið taki mið af stærð fyrirtækja. Einnig er bent á að flöt gjaldtaka leggist hlutfallslega þungt á smærri fyrirtæki. Hvatt er til þess að lífeyrissjóðir geti komið að fjárfestingum í smærri fyrirtækjum og áframhaldandi sölu banka úr opinberri eigu. Efla skal skatteftirlit til að jafna stöðu fyrirtækja gagnvart þeim sem skjóta undan skatti eða stunda kennitöluflakk. Minnt er á að smærri fyrirtæki eru mikilvægur aðili þegar kemur að kjarasamningum og einnig að þar sé nýsköpun mest.
    Bandalag háskólamanna 7 hvetur til aukinna framlaga til heilbrigðiskerfisins, að barnabætur séu ekki meðhöndlaðar eins og fátæktarstyrkur, lýsir yfir vonbrigðum með samdrætti til lista og menningar, bendir á alvarlegan vanda langtímaatvinnulausra háskólamenntaðra, að ekki sé enn búið að jafna laun BHM, BSRB og KÍ samkvæmt samningi við ríki og sveitarfélög frá 2016 og að háskólamenntaðir hafi komið verr út úr nýliðinni kjarasamningalotu en aðrir.
    Bandalag íslenskra listamanna 8 harmar 17% samdrátt á málefnasviði umbjóðenda sinna í fjármálaáætlun. Bandalagið bendir á sérstakar aðstæður faraldursins fyrir sjálfstætt starfandi listamenn og bendir á að starfslaun úr launasjóðum listamanna hafi dregist aftur úr almennri launaþróun sem nemur um 40% lækkun á síðastliðnum tíu árum. Áfram þarf að tryggja Barnamenningarsjóði fjármagn og auknar fjárheimildir þarf fyrir þjóðaróperu.
    Bandalag sjálfstæðra leikhúsa 9 bendir á að framlög í fjárlagafrumvarpi fyrir 2022 sé afturhvarf til ársins 2017, í krónum talið. Miðað við launaþróun ætti upphæðin að vera að lágmarki 128,3 millj. kr.
    Blaðamannafélag Íslands 10 hvetur til þess að 2% aðhaldskrafan verði felld niður. Starfandi fólki í fjölmiðlum hefur fækkað um 45% frá árinu 2018. Hvatt er til þess að í stað þess að lækka framlög um 2% verði þau hækkuð í takt við hækkun til RÚV, eða um 8%.
    BSRB 11 hvetur til stefnu um vöxt í stað stöðnunar og aðhalds og minnir á að það þurfi einnig aðgerðir á tekjuhlið ríkissjóðs til að sporna við eignaójöfnuði og öðrum vanda núverandi skattkerfis. Bandalagið leggur sérstaka áherslu á eflingu almannaþjónustu, sér í lagi heilbrigðisþjónustu. Of margir búa við kröpp kjör og ein helsta krafa launafólks sé um öruggt húsnæði. Barnabætur séu of lágar miðað við samanburðarlönd þar sem almannatryggingar dragast enn meira aftur úr lágmarkslaunum. Lengja þurfi tímabundið réttindatímabil atvinnuleysistrygginga á meðan áhrifa faraldursins gæti. Einnig þurfi að hækka atvinnuleysisbætur. BSRB fagnar sjálfstæðu markmiði um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en hefur áhyggjur af fjármögnuninni.
    Byggðastofnun 12 sendir inn lögbundna umsögn sína og fjallar þar um skýrslu um langtímahorfur í efnahagsmálum, hvernig ekki er fjallað um mat á byggðaþáttum í þeirri skýrslu, hvernig efla þarf hagsýslugerð og grunnskrár, hvernig ekki er fjallað um fjármuni í nýsköpunarsjóð Lóu sem eru nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina. Önnur umfjöllun er í málaflokkum almanna- og réttaröryggis, samgöngu- og fjarskiptamálum, orkumálum, vegna Menntasjóðs námsmanna og aðgengis að þjónustu.
    Bændasamtök Íslands 13 kvarta undan hækkun á áburðarverði og minna á að mikið þurfi að gera til þess að ná metnaðarfullum áætlunum í loftslagsmálum sem helst snúa að losun vegna búfjár og köfnunarefnisáburðar.
    Félag atvinnurekenda 14 fjallar um ívilnanir og stuðningsaðgerðir vegna heimsfaraldurs sem eru að falla úr gildi og hvetur til endurskoðunar á þeirri ákvörðun. Þá er fjallað um tryggingagjaldið, áfengisskatta, framlög til lyfjamála og ríkisábyrgð til Icelandair.
    Félag atvinnurekenda, Frumtök og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu inn sameiginlega umsögn 15 þar sem er fjallað nákvæmlega um vanda fjárheimilda í lyf og lækningavörur.
    Félag íslenskra leikara og sviðslistafólks 16 minnir á að það eru enn horfur á takmörkunum vegna faraldurs og að sviðslistamenn eru án kjarasamninga, að á sama tíma er skorið niður í fjárframlögum til málaflokksins.
    Félagið Femínísk fjármál 17 fagnar því að í fyrsta sinn skili ráðuneyti mati á áhrifum fjárlaga á jafnrétti kynjanna, og hefur sérstaklega áhyggjur af álagi vegna faraldursins á konur. Athugasemd er gerð við að 10% viðbótarálag atvinnuleysisbóta sé fellt niður meðan enn séu rúmlega 10 þúsund manns atvinnulaus og langtímaatvinnuleysi sé mikið. Helmingur atvinnulausra er undir 35 ára að ótöldum stúdentum.
    Félagsráðgjafafélag Íslands 18 lýsir vonbrigðum með að ekki sé kveðið á um fjármagn til að tryggja aðgengi að sálfræðimeðferð og annarri gagnreyndri samtalsmeðferð, svo sem félagsráðgjöf.
    Fjórðungssamband Vestfirðinga og Vestfjarðastofa 19 hafa áhyggjur af samkeppnisstöðu innviða á Vestfjörðum miðað við aðra landshluta og vísa til ályktana 66. fjórðungsþings Vestfirðinga. Einnig er fjallað um vetrarþjónustu á vegum, fiskeldissjóð, menningarmál, sóknaráætlanir, náttúrustofur, háskólasetur, heilbrigðisstofnanir, orkutengingar og aðrar gagnatengingar og fjarskipti. Að lokum er fjallað um vinnumarkaðsúrræðin Nám er tækifæri og Allir vinna svo og erfiðan rekstur sveitarfélaga, sérstaklega A-hluta þeirra á Vestfjörðum.
    Geðhjálp 20 óskar eftir samningi til fleiri ára en eins árs í senn. Umsögnin reifar helstu verkefni Geðhjálpar og fjallar stuttlega um stöðu geðheilbrigðismála í landinu. Samtökin telja fjárlagafrumvarp vera vonbrigði með tilliti til geðheilbrigðismála og benda á nokkur dæmi um ógagnsæja framsetningu á þó því sem ætlað er í málaflokkinn á næsta ári. Að lokum eru lagðar til níu aðgerðir til þess að setja geðheilsu í forgang.
    Heilbrigðisstofnanir. 21 Umsögnin er einföld, beiðni um meira fjármagn vegna styttingar vinnutíma og breytinga á vaktavinnu, vegna kjarasamninga, eflingar heilsugæslu á landsbyggðinni, vegna þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðinni, í rekstur hjúkrunarheimila á landsbyggðinni og vegna fjölgunar íbúa á ákveðnum svæðum.
    Húseigendafélagið 22 biður um að átakinu Allir vinna verði framhaldið.
    Landspítalinn 23 sendi tvær umsagnir, sú fyrri lýsir langvarandi fjárhagsvanda sem ekki hefur náðst að hagræða á móti. Allar auknar fjárheimildir fara í ný verkefni sem leiðir til þess að um er að ræða 387 millj. kr. raunlækkun á grunnrekstri. Átakið Betri vinnutími sem snýst um vaktavinnuskipulag í styttri vinnutíma tekur til sín fjármagn sem almennt er notað í raunvöxt í kerfinu vegna fjölgunar íbúa og eldra fólks. Umsögnin lýsir því hvernig framlög til tækjakaupa hafa svo dregist saman ásamt því að gengi evru hefur hækkað ofan á lægri fjárheimildir til tækjakaupa.
    Seinni umsögn Landsspítalans 24 fjallar um leyfisskyld lyf og ástæður vaxandi kostnaðar vegna þeirra. Þær eru helst raktar til skorts á heimsmarkaði á immúnóglóbúlíni á undanförnum árum og öðrum framförum í þróun líftæknilyfja. Þar stefnir í að vanta um 2 milljarða kr.
    Landssamband eldri borgara 25 vill að ellilífeyrir hækki um sömu upphæð og almenn laun, að almennt frítekjumark verði hækkað, að rekstur hjúkrunarheimila verði tryggður og að Framkvæmdasjóður aldraðra verði ekki notaður í rekstur.
    Landssamtökin Þroskahjálp 26 benda á erfiðan rekstur, sérstaklega vegna þess að samningur við félagið er einungis til eins árs í senn ásamt óvissu um árlegan styrk frá fjármálaráðuneytinu. Í umsögninni er framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks að öðru leyti gagnrýnd mjög ítarlega, hvernig þjónusta sveitarfélaga er ekki trygg, að ekki sé búið að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks né heldur fullgilda valkvæðan viðauka við þann samning. Samtökin benda á að ekki er enn búið að uppfylla lagaskilyrði um framlagningu frumvarps um bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Ítarlega er svo farið yfir réttindamál fatlaðs fólks, þar sem aðgengi að dómstólum er ábótavant, það vanti sjálfstæða mannréttindastofnun, réttindagæslu fyrir fatlað fólk, aðgengismálum er ábótavant, fjallað um tækifæri og ógnanir gervigreindar, framsetningu texta í auðskiljanlegu máli, NPA, húsnæðismál fatlaðs fólks, örorkubætur, skóla án aðgreiningar, almenna heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðismál og meðferð vegna fíknar. Menntamálin fá sína kafla, sem og fötluð börn, innflytjendur, hælisleitendur og þróunarsamvinna með tilliti til fatlaðs fólks. Þetta er umsögn sem allir ættu að lesa vandlega.
    MATVÍS, KLIPP, Rafiðnarsamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Samiðn 27 leggja til áframhald á átakinu Allir vinna. Umsögnin reifar skort á fjármagni í iðn- og verknám og að tryggja þurfi vinnustaðanámssjóði aukið fjármagn.
    N4 ehf. 28 bendir á misræmi þess að minnka framlög til einkarekinna fjölmiðla á meðan fjármagn til RÚV er aukið. Þar er fjallað um aðstöðumun milli einkareksturs og opinbers reksturs sem og í höfuðborginni og á landsbyggðinni.
    NPA-miðstöðin 29 bendir á að ríkið fjármagni mun færri NPA-samninga en lög gera ráð fyrir.
    Öryrkjabandalag Íslands 30 spyr hvort 1,5% raunhækkun á milli ára sé nóg þegar framfærsluviðmið eru enn talsvert undir lágmarkslaunum. ÖBÍ leggur til 14 breytingar á fjárlagafrumvarpinu í umsögn sinni sem fjalla um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, um hækkun frítekjumarks, afnám tekjuskerðingar, NPA, húsnæðisstuðning, sálfræðiþjónustu, greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu, hjálpartæki, styrki til bifreiðakaupa, íþrótta- og æskulýðsmál, aukið aðgengi að vinnumarkaði, aukið aðgengi að háskólum, réttindagæslu fatlaðs fólks og OPCAT-verkefni umboðsmanns Alþingis.
    Reykjavíkurborg 31 fjallar um fjármögnun á verkefnum sveitarfélaga og hvernig mikilvægir málaflokkar eru vanfjármagnaðir. Þar undir er rekstur grunnskóla, þjónusta við fatlað fólk, og almennt fjármögnun velferðarmála. Þar vantar einnig fjármagn í farsældarlögin, uppbyggingu á sértæku húsnæði og lagt til að herbergissambýli verði lögð niður. Þá er fjallað um vanda heimilislausra og rekstur hjúkrunarheimila. Önnur mikilvæg málefni eru almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, skilavegir, móttaka kvótaflóttafólks og fjármagnstekjuskattur sveitarfélaga. Að lokum er fjallað um undanfarna 20 mánuði í faraldri og erfiðleika vegna vanfjármögnunar á þeim málaflokkum sem fluttir hafa verið frá ríki til sveitarfélaga.
    Ríkisendurskoðun 32 fjallar um nýja flokkun ríkisaðila í A1, A2 og A3, afkomu og skuldir ríkissjóðs, lántökuheimild vegna Betri samgangna ohf. og breytingar á skattheimtu af ökutækjum vegna rafbíla.
    SÁÁ – Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann 33 hafa áhyggjur af vanfjármögnun á þeim verkefnum sem SÁÁ sinnir. Verulega skortir fjárheimildir til þess að bregðast við ópíóðafíkn, sem dæmi. SÁÁ sinnir einnig verkefnum eins og skimun og meðferð smitsjúkdóma, geðheilbrigðisþjónustu, bráðaþjónustu og velferðarþjónustu. Að lokum fjallar umsögnin um ávinning af auknu fjárframlagi til SÁÁ.
    Samband íslenskra sveitarfélaga 34 fjallar ítarlega um nauðsyn þess að vinna betri hagskýrslur, vegna t.d. heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Sambandið minnir á mikilvægi nýsköpunar á landsbyggðinni, sóknaráætlanir, skipulagssjóð, fjármögnun sameiningar sveitarfélaga, byggðaáætlun, uppbyggingu og viðhald í samgöngukerfinu, fjármögnun skilavega og almenningssamgangna. Minnt er á uppbyggingu innviða og rannsókna í ferðaþjónustu og verkefni náttúrustofa og ofanflóðasjóðs. Þar er minnt á að það vantar fjármagn vegna tónlistarnáms og menntamála almennt. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við börn af erlendum uppruna og til þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Heilbrigðismálin fá gott pláss í umsögninni og í óbreyttri mynd lýsir frumvarpið stórfelldum niðurskurði í rekstri og þjónustu hjúkrunarheimila landsins. Það vantar fjármagn í málaflokk fatlaðs fólks og til þess að innleiða farsældarlögin. Skilmerkilega er svo minnt á húsnæðisvandann.
    Samband sveitarfélaga á Austurlandi 35 hvetur stjórnvöld til þess að skapa sveitarfélögum svigrúm til að sinna hlutverki sínu, þar sé innviðauppbygging á svæðinu mikilvæg. Samgöngumál eru þar stór hluti en heilbrigðismál síður svo. Sambandið fjallar um sóknaráætlun og umhverfismál, menntun og rannsóknir, menningarmál, atvinnuþróun og nýsköpun, markaðs- og kynningarmál vegna ferðamanna, skógrækt, náttúrustofu Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarð, fiskeldissjóð, ofanflóðasjóð og almanna- og réttaröryggi.
    Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum 36 sendir stutta umsögn þar sem minnt er á aðgerðaáætlun fyrir Suðurnes sem ekki sést að sé brugðist við í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022.
    Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja 37 fjallar um átak í fráveitumálum, aðgerðir í loftslagsmálum og uppbyggingu grænna innviða.
    Samtök atvinnulífsins 38 sendir umsögn í glærubúningi þar sem lögð er áhersla á þrjú atriði. Aukna árangurstengingu og endurmat útgjalda, lækkun álagna og einföldun regluverks og umbætur á vinnumarkaði. Vandi ríkisrekstrar er sagður þríþættur; aðhaldsleysi, traust á vöxt atvinnulífsins og óskilvirkur vinnumarkaður. Þríþættur vandi með þríþættri lausn í fimm atriðum.
    Samtök ferðaþjónustunnar 39 fjallar um bjartsýni í fjárlagafrumvarpi og umfjöllun um góðan árangur. Umsögnin fjallar um að fjármagna þurfi verkefnið saman í sókn, að umfjöllun um skattastyrki taki tillit til raunverulegra áhrifa þess ef ferðaþjónusta væri í hæsta þrepi virðisaukaskatts. Umsögnin fjallar svo um aflagningu gistináttaskatts, framlengingu átaksins Hefjum störf, aukna fjárveitingu í aðgerðaáætlun ferðamála, auknar og bættar rannsóknir í ferðaþjónustu og orkuskipti.
    Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi 40 lýsa áhyggjum af fjárskorti til rannsókna á lífríki sjávar.
    Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu 41 skila ítarlegri umsögn um vanda hjúkrunarheimila. Grunnvandinn lýsir sér í að rekstrargrunnur hjúkurnarheimila er allt of lágur vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, styttingar vinnuviku, kjarasamninga og breytinga í vaktavinnu. Þar er einnig minnst á aðstoð vegna heilabilana og meðferðarúrræða SÁÁ.
    Samtök iðnaðarins 42 hvetja til sjálfbærni í ríkisrekstri og fagna því að markmiðið sé að vaxa út úr kreppunni. Samtökin fagna fjárfestingum í innviðum, menntun, nýsköpun og rannsóknum. Samtökin mótmæla hækkun tryggingagjaldsins og hvetja til áframhalds verkefnisins Allir vinna. Umsögnin fjallar um að bæta þurfi samkeppniseftirlit með opinberum fyrirtækjum, að verulegt fjármagn vanti í netöryggismál, áhyggjur vegna lækkunar í fjárfestingar á framhaldsskólastiginu, harma stöðuna á framlögum í vinnumarkaðssjóð og mótmæla niðurskurði til framkvæmda á vegakerfinu. Gera þarf átak í regluverki og stjórnsýslu húsnæðismála og tryggja frekari fjármögnun Asks – mannvirkjasjóðs. Loftslagssjóður skal einnig fjármagnaður í samræmi við gjöld sem fyrirtæki greiða fyrir losunarheimildir. Samtökin kvarta yfir skorti á gagnsæi hvað varðar innheimtu umhverfisgjalda og hvetja til þess að íslensk bókverk séu prentuð á Íslandi.
    Samtök sunnlenskra sveitarfélaga 43 taka undir ábendingar sem fram koma í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kallað er eftir áframhaldandi 100% hlutfalli í átakinu Allir vinna, að verkefni og ábyrgð sem sveitarfélögum eru falin af hálfu ríkisins verði fjármögnuð á fullnægjandi hátt, að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir, að jöfnunarsjóður verði endurskoðaður og framsetning fjárlaga verði gagnsærri. Umsögnin fjallar um grunnþjónustu eins og löggæslu, heilsugæslu, hjúkrunarheimili, sjúkraþyrlur og heilsueflingu aldraðra sem og málefni fatlaðra og barna. Samgöngur, fjarskipti, flugsamgöngur og ljósleiðaravæðing fá sitt pláss í umsögninni. Þá er fjallað um byggðamál, umhverfismál, afhendingaröryggi raforku, nýsköpun, matvælaframleiðslu, skógrækt, störf án staðsetningar, menntun, Garðyrkjuskólann og Sigurhæðir.
    Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 44 byrja umsögn sína á umfjöllun um þjónustu við fatlað fólk og yfirfærslu vega frá ríki til sveitarfélaga (skilavegi). Því næst er ítarleg umfjöllun um almenningssamgöngur vegna samgöngusáttmálans.
    Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 45 fjalla um sóknaráætlanir landshluta, atvinnuþróun Byggðastofnunar og landshlutasamtaka, samgöngur og málefni fatlaðs fólks.
    Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi 46 byrja á umfjöllun um málefni fatlaðra og fjalla svo um útsvar og átaksverkefnið Allir vinna. Hjúkrunar- og dvalarheimili er áhersluatriði sem og samgöngumál, byggðamál og nýsköpun.
    Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra 47 senda umsögn vegna sjúkrahússins á Akureyri, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Verkmenntaskólans á Akureyri og Háskólans á Akureyri. Því er fagnað að fjármagn fáist fyrir stækkað flughlað og flugstöð á Akureyri og stjórnvöld eru hvött til að bæta úr vetrarþjónustu á vinsælum ferðamannastöðum sem og vegaþjónustu um Tröllaskagann. Hvatt er til áframhaldandi vegagerðar og stuðnings við atvinnuþróun og nýsköpun.
    Samtök um Danshús – Dansverkstæðið 48 senda inn umsögn vegna niðurskurðar í sviðslistasjóð.
    Samtökin '78 49 fjalla um þau verkefni sem samtökin sinna, ráðgjöf, stuðning, fræðslu og ungmennastarf og hvetja til stuðnings við samtökin.
    Seðlabanki Íslands 50 hvetur til aðhalds í ríkisfjármálum til að auðvelda fyrir peningastefnunni.
    Sjúkraliðafélag Íslands 51 telur fjárheimildir til heilbrigðiskerfisins ekki duga, það er fjallað um mönnunarvanda, neyðarástand á bráðamóttöku LSH, vanda hjúkrunarheimila, eflingu heilsugæslu og innleiðingu stafrænna lausna.
    Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Festa lífeyrissjóður 52 leggja til að eftirlitsgjald lífeyrissjóða verði eingöngu miðað við eignahlutfall.
    Staðlaráð Íslands 53 leggur til að einstaka stöðlunarverkefni sem vísað er í úr lögum séu fjármögnuð.
    Ungir umhverfissinnar 54 benda á að það skorti fjármagn til þess að ná að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030. Það vanti fjármagn í náttúruvernd og til annarra umhverfismála.
    Uppkast ehf. 55 bendir á samkeppni við nýsköpunarfyrirtæki vegna áforma um þróun á streymisveitu fyrir íslenskt efni.
    Verkfræðingafélag Íslands 56 bendir á að vísindaleg þekking er forsenda allra framfara, þ.m.t. í loftslagsmálum og hvetur til eflingar á raungreinakennslu. Félagið bendir á að vandi íslensks byggingariðnaðar sé ekki regluverk heldur slæleg vinnubrögð og fúsk, nær væri að efla staðla í byggingariðnaði. Að lokum er minnt á mikilvægi rannsókna í íslenskum byggingariðnaði.
    VIRK Starfsendurhæfingarsjóður 57 bendir á að mistök séu í fjárlagafrumvarpinu, framlagið til VIRK eigi að vera 848,5 millj. kr. en ekki 648,5 millj. kr.
    Viðskiptaráð Íslands 58 varar við hættu á verðbólgu, varar við aukningu útgjalda, vilja lækka skatta á fólk og fyrirtæki, halda tryggingagjaldi óbreyttu, virkja í krafti einkaframtaksins og samkeppni, vara við höfrungahlaupi og spyrja um skuld ríkissjóðs vegna ÍL-sjóðs vegna breyttrar flokkunar ríkisaðila.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögur um styrki til 43 mismunandi aðila eða verkefna. Alls bárust fjárlaganefnd 41 umsókn um styrki frá eftirtöldum aðilum:
          Beiðni frá Tækniminjasafni Austurlands um rekstrarstyrk til þriggja ára, 15 millj. kr.
          Bjarmahlíð, 7 millj. kr.
          Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, breytingartillaga ríkisstjórnar 1 milljarður kr.
          Málefni Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, desember 2019, 4,5 millj. kr.
          Norðurslóðanet, 25 millj. kr.
          Rannsóknarsetur Háskóla Íslands og Svartárkots, menningar og náttúru í umhverfishugvísindum, 6 millj. kr.
          Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN, 5 millj. kr.
          Styrkumsögn fyrir varðskipið Óðin, 10 millj. kr.
          Bandalag sjálfstæðra leikhúsa, með myndlistarsjóði, 50 millj. kr.
          Flugsafn Íslands, 8 millj. kr.
          Fornleifastofnun Íslands, 10 millj. kr.
          Sigurhæðir, menningarhús, 8,5 millj. kr.
          Sigurhæðir, meðferðarúrræði, 6 millj. kr.
          Skólanefnd Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.
          Skógræktarfélag Íslands, 95 millj. kr.
          Austurbrú, 30 millj. kr.
          Fjölmennt, 15 millj. kr.
          Grindavíkurbær.
          Umsókn um styrk vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu stofnlagnar hitaveitu frá Langhúsum í Fljótum að Hrolleifsdal, 72,5 millj. kr.
          Fisktækniskólinn, 42 millj. kr.
          Sólheimar, sjálfbært samfélag, 6,5 millj. kr.
          Borgarleikhúsið, aukning í sviðslistasjóð og myndlistarsjóð upp á 50 millj. kr.
          Fjárheimildir umboðsmanns Alþingis, breytingartillaga ríkisstjórnar 36 millj. kr.
          Samtökin ´78, 25 millj. kr.
          Framlög af fjárlögum 2022 til Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri, 20 millj. kr.
          Gaflaraleikhúsið, aukning í sviðslistasjóð og myndlistarsjóð upp á 50 millj. kr.
          Barnamenningarsjóður Íslands, 3,8 millj. kr.
          Áskorun Samtaka náttúrustofa til alþingismanna vegna fjárlaga 2022, 48 millj. kr.
          Hraðið – nýsköpunarmiðstöð, 20 millj. kr.
          Nýsköpunarvirkni fatlaðra einstaklinga.
          Styrkumsókn vegna nýs matskála í Vatnaskógi, desember 2021.
          KFUM, 60 millj. kr.
          Afstaða, félag fanga á Íslandi, 3 millj. kr.
          Undraveröld Pálshúss, 8 millj. kr.
          Ósk um styrkveitingu vegna uppbyggingar landsmótssvæðis á Rangárbökkum á Hellu fyrir Landsmót hestamanna 2022, 20 millj. kr.
          Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, 15 millj. kr.
          Fjarvinnslustöð í Langanesbyggð, 10 millj. kr.
          Ósk um fjárveitingu til Samhjálpar vegna reksturs Hlaðgerðarkots 2022, 48 millj. kr.
          Ósk um styrk frá Krabbameinsfélagi Íslands.
          Steinshús, 1,5 millj. kr.
          Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, 10,5 millj. kr.
          Tré lífsins, bálstofa og minningargarðar.
          Sögusetur hestsins, 3 millj. kr.
    Af öllum styrkbeiðnaumsóknunum styrkir meiri hluti nefndarinnar 36 af þeim umsóknum en sleppir 5. Sumir myndu kalla það ágætis úthlutunarhlutfall.
    Að auki leggur meiri hluti fjárlaganefndar til styrki til eftirtalinna verkefna án þess að til sé styrkbeiðni fyrir þeim í skjalakerfi þingsins:
          Minjastofnun vegna brunavarna eldri kirkjuhúsa, 20 millj. kr.
          Sóknaráætlanir, 100 millj. kr.
          NPA, 100 millj. kr.
          Björgunarbátur, 40 millj. kr.
          SÁÁ, 120 millj. kr.
          Björgunarbátar, viðhald – Landsbjörg, 30 millj. kr.
          lögreglan á landsbyggðinni, 120 millj. kr.
          Hafrannsóknastofnun, 96 millj. kr.
    Í 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, er fjallað um styrkveitingar. Þar er heimild fyrir ráðherra til þess að veita tilfallandi styrki og framlög til einstakra verkefna í þeim málaflokkum sem ráðherra ber ábyrgð á. Ráðherra á sérstaklega að gæta að jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og samkeppni og gera grein fyrir útgjöldum vegna slíkra styrkja í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga. Þar eru styrkirnir skilgreindir á þann hátt að framlög samkvæmt þeim skulu „háð skilyrðum um fullnægjandi skýrslugjöf um framvindu verkefna og reikningsskil“.
    Þegar um er að ræða slíka styrki sem meiri hluti fjárlaganefndar veitir eru engar slíkar reglur eða kvaðir gagnvart þeim sem fá slíka styrki. Það er ekkert umsóknareyðublað eða umsóknarferli. Það er enginn stór takki á vefsíðu þingsins með „sæktu um styrk“. Það veit enginn að það er hægt að sækja um styrk nema þeir sem þingmenn segja kannski að senda inn beiðni. Með þessu fyrirkomulagi er meiri hluti fjárlaganefndar einfaldlega að lýsa yfir vantrausti á ráðherra til þess að fara með þær fjárheimildir sem þingið samþykkir. Það er ekkert jafnræði. Það er engin hlutlægni. Það er ekkert gagnsæi, eins og sést greinilega í áliti meiri hluta þar sem ekki er gerð ítarlega grein fyrir því um hvaða fjárheimildir er að ræða. Það þýðir óútskýrð aukafjárheimild í málaflokka ráðherra. Afleiðingin af því er þá sú að ráðherra fær einfaldlega bara auknar fjárheimildir án þess að vita í raun í hvað þær fjárheimildir eiga að fara. Það þýðir að ráðherra getur bara notað þær fjárheimildir í verkefni innan hvers málaflokks eins og honum sýnist.
    Ef meiri hlutinn vill endilega veita styrki til einstakra verkefna út um allt land eins og ráðherra er heimilt samkvæmt lögum um opinber fjármál verður nefndin að gefa út skýrar reglur um hvernig er sótt um og hvernig á að gera grein fyrir notkun þeirra fjárheimilda. Það er alveg skýrt að þingið getur veitt svona styrki, enda er þingið með fjárveitingavaldið. Það þarf bara að gera það rétt ef það á að gera það yfirleitt. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að það þurfi að gera það sem má gera. 1. minni hluti gagnrýnir þessar ákvarðanir meiri hlutans harðlega. Hversu góð sem þessi verkefni eru þá eru þetta óásættanleg vinnubrögð.
    Ein lagfæring (sem er annað en styrkveiting) á fjárheimildum sem meiri hlutinn gerir er vegna NPA-samninganna, eða samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem eru veittir samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði þeirra laga veitir ríkissjóður mótframlag til sveitarfélaga vegna þessara samninga sem skulu vera:
          Á árinu 2018 vegna allt að 80 samninga.
          Á árinu 2019 vegna allt að 103 samninga.
          Á árinu 2020 vegna allt að 125 samninga.
          Á árinu 2021 vegna allt að 150 samninga.
          Á árinu 2022 vegna allt að 172 samninga.
    Í grein NPA-miðstöðvarinnar 59 kemur fram að fjöldi samninga hefur aldrei náð þeim fjölda sem bráðabirgðaákvæði laganna kveður á um og samt eru biðlistar eftir NPA-samningum hjá ýmsum sveitarfélögum. Biðlistar sem sveitarfélögin segja að þau gangi á um leið og það kemur mótframlag frá ríkinu eins og lög kveða á um. Það er því algerlega skýrt að fjármögnun hefur ekki verið næg og er það engum öðrum um að kenna en ríkisstjórn. Á hverju ári hefur fjárlaganefnd spurt hversu margar milljónir þarf til þess að fjármagna þessa samninga og á hverju ári hefur þingið bætt þeirri upphæð við fjárlögin. Þessa sögu er ekki hægt að segja um fjárlög fyrir árið 2022. Til að byrja með leggur ríkisstjórnin til að þær 300 millj. kr. sem þingið bætti við NPA-samningana fyrir árið 2021 (sem reynast svo samt ekki vera nægar fjárheimildir), falli niður. Þegar félagsmálaráðuneytið er spurt um þetta segir ráðuneytið að það þurfi 321 millj. kr. til þess að halda sama fjölda samninga (vegna launa- og verðlagsþróunar). Því verða allir mjög hissa í fjárlaganefnd þegar það berst breytingartillaga frá ríkisstjórn upp á 220 millj. kr. Svo hissa að meiri hlutinn leggur til 100 millj. kr. í viðbót. En þá vantar að fjármagna þá 22 samninga sem eiga að bætast við á árinu 2022 og þá 57 sem vantar miðað við grein NPA-miðstöðvarinnar fyrir árið 2021. Samtals vantar fjármögnun fyrir 79 samninga til þess að standa við bráðabirgðaákvæði laganna.
    Hver tekur svona ákvörðun? Við vitum að það er fjármálaráðuneytið sem skammtar ráðuneytum fjárheimildir. Það eitt og sér vekur upp mjög margar spurningar um sjálfstæði hinna ýmsu ráðuneyta og skyldur þeirra samkvæmt lögum. Er þetta fagleg ákvörðun stjórnsýslunnar? Ef svo er, á hvaða gögnum um kostnað vegna NPA-samninga er hún eiginlega byggð og af hverju hefur það reiknilíkan ekki verið uppfært miðað við raungögn? Er þetta geðþóttaákvörðun ráðherra að leggja bara til lægri fjárheimildir en duga til þess að fjármagna þennan fjölda samninga og snuða því annaðhvort þá aðila sem þurfa á þessari þjónustu að halda eða sveitarfélögin sem myndu borga mismuninn úr eigin vasa. Ákvörðun hvaða ráðherra er þetta? Fjármála- og efnahagsráðherra, af því að þetta eru samningar sem ríkið gerir? Hvað hefur félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra að segja við því þar sem þessi málaflokkur er á hans ábyrgð? Er þetta kannski ákvörðun hans?
    Það verður að spyrja hver ber ábyrgð á þessu því þolendur vegna þessarar ákvörðunar hljóta að eiga réttmætar væntingar um þessa þjónustu. Hver ætlar að svara þessu? Fjármála- og efnahagsráðherra? Félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra? Stjórnsýslan? Hver ætlar að bera ábyrgð á þessu og hvernig ábyrgð? Er þetta bara pólitísk ábyrgð eða er þetta misnotkun á valdi?

Berðu launin á höfðinu.
    Breytingartillögur ríkisstjórnarinnar eru áhugaverðar af mörgum ástæðum. Það bætast rúmir 15 milljarðar kr. við einungis rúmum hálfum mánuði eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Upphæðin er svo lækkuð niður í rúma 13 milljarða kr. með tilfærslu úr varasjóði, eða eins og það er orðað „breytt umfang almenna varasjóðsins - 1.700,0“. Einnig er tilfærsla frá gjaldahlið í sjóðsstreymi úr Kríu upp á 2 milljarða kr. Á móti kemur svo tilfærsla á markaðsleigu fyrir Háskóla Íslands upp á tæpa 2 milljarða kr.
    Stærsti útgjaldaliðurinn sem ríkisstjórnin bætir við er vegna ráðningarstyrkja, upp á 3,4 milljarða kr. Þetta tengist aðallega verkefninu Hefjum störf 60 sem ákveðið var að fara í síðastliðið vor, þegar það var nýbúið að samþykkja fjármálaáætlun og fjárlög. Ríkisstjórnin var ítrekað skömmuð fyrir slæleg viðbrögð við atvinnuleysinu en samþykkti samt fjármálaáætlun og fjárlög án teljandi aðgerða til að vinna gegn atvinnuleysinu. Örstuttu seinna kemur einfaldlega ákvörðun frá ríkisstjórninni um þetta verkefni Hefjum störf. Það snérist um að meðgreiðslur til atvinnurekenda sem réðu fólk af atvinnuleysisbótum til sín. Ríkisstjórnin lagði fram áætlaðan kostnað upp á 3,4 milljarða kr. í fjáraukalögum í vor fyrir því verkefni. Þær fjárheimildir áttu að skapa 7.000 ný störf og átti stærsti hluti þess fjármagns að fara til þess að ráða skólafólk til starfa síðastliðið sumar.
    Verkefnið var kynnt á eftirfarandi hátt: „með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi fengið fullar grunnatvinnuleysisbætur með hverjum atvinnuleitanda“. Nú eru grunnatvinnuleysisbætur rétt rúmlega 300 þús. kr. á mánuði. Einfaldur rassvasareikningur segir manni að 7.000 manns kosti þá 2,1 milljarð kr. á mánuði. Fjárheimildin sem ríkisstjórnin lagði til ætti því bara að duga í um tvo mánuði, þrjá ef maður er gjafmildur og gerir ráð fyrir því að ekki allir séu á hæstu mögulegu atvinnuleysisbótum. Það rétt dekkar einmitt sumarið og eins og framsögumaður þessa nefndarálits sagði 61 við afgreiðslu fjáraukalaga í vor: „Þegar ég var að spyrja um þetta í fjárlaganefnd þá fékk ég vissulega baunatalningu á því hversu mörg störf þetta á að skapa, 7.000 manns geta fengið vinnu í gegnum þetta, en það klárast svona u.þ.b. í kringum kosningarnar. Þá klárast þetta úrræði.“
    Í nefndaráliti meiri hluta 62 vegna verkefnisins Hefjum störf sagði að það væri tímabundið: „Næst mest vega 4,3 ma.kr. vegna verkefnisins Hefjum störf, sem hefur að markmiði að skapa um sjö þúsund tímabundin störf fyrir langtímaatvinnulausa og námsmenn.“ Hér hljótum við að gera ráð fyrir því að tímabindingin miðist við fjárheimildina. Það er nefnilega mjög auðvelt að reikna hvað þarf mikið fé fyrir 7.000 störf á upphæð grunnatvinnuleysisbóta. Ef úrræðið á að duga í tvo mánuði kostar það í mesta lagi 4,2 milljarða kr., 6,3 ef það á að duga í þrjá mánuði o.s.frv. Það sem gerðist hins vegar er að ríkisstjórnin kemur með 6,1 milljarðs kr. framúrkeyrslu í þessu verkefni sínu í fjáraukalögum fyrir árið sem er að líða og 3,4 milljarða kr. í viðbót fyrir næsta ár. Við erum að tala hérna um 13,8 milljarða kr. fyrir eitthvað sem átti að kosta 4,3 og átti aðallega að vera fyrir námsmenn (2,4 milljarður kr. á móti 1,9 í ráðningarstyrk fyrir atvinnuleitendur). Hver voru áhrifin af þessu? Í staðinn fyrir að atvinnuleysið væri 10,8% eins og það var í apríl á þessu ári samkvæmt tölum Hagstofu, með 22.200 atvinnulausa, var hægt að segja í kosningabaráttunni að atvinnuleysið væri mun minna af því að ríkisstjórnin bókstaflega borgaði vinnuveitendum pening til þess að taka fólk af atvinnuleysisskránni.
    Er vitað hvað verður um þetta fólk þegar meðgjöfinni lýkur? Nei. Vonandi halda sem flestir vinnunni þegar þetta úrræði rennur út. Hefði verið hægt að ná betri árangri til lengri tíma með því að nýta 13,8 milljarða kr. í einhver önnur verkefni? Nýsköpunarverkefni sem hefðu líka dregið fólk af atvinnuleysisskránni til dæmis? Við vitum það ekki vegna þess að það var ekki einu sinni reynt að meta það.
    Önnur stærsta talan eru rúmir 1,9 milljarðar kr. til Háskóla Íslands. Það er hins vegar fjármagn sem fer úr einum vasa í annan þar sem er verið að færa til fasteignir í félag sem innheimtir svo markaðsleigu af Háskólanum. Þetta eru þá fjárheimildir til þess að vega upp á móti því.
    Fjórði stærsti útgjaldaliðurinn í tillögum ríkisstjórnarinnar eru endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar samkvæmt uppfærðri áætlun Rannís. Þetta er liður sem Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á að er varhugaverður vegna möguleika á endurgreiðslum vegna kostnaðar sem ætti ekki að teljast falla undir skilyrði rannsóknar og þróunar.
    Aðrar athyglisverðar tillögur eru til dæmis að ársreikningaskrá verði gerð gjaldfrjáls, sem er samkvæmt frumvarpi Pírata sem ráðherra bætti við í sínar lagabreytingar á síðasta kjörtímabili. Áhugavert er að það hafi gleymst í fjárlagagerðinni. Það er hálfur milljarður króna sem fer í kostnað vegna breytinga á Stjórnarráðinu af því að það þurfti að búa til aukaráðherra og -ráðuneyti til þess að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu. Hvernig aukaráðherra og -ráðuneyti stuðlar eiginlega að því er ráðgáta. Ekki fylgir þessu nein ábatagreining. Það þarf að bæta upp bændum verðhækkun á áburði um 700 millj. kr. Vaxtabótakerfið minnkar svo um 400 millj. kr. til samræmis við raunútgreiðslu bóta, sem er skýrt merki um úreldingu þess kerfis án þess að það sé tekin pólitísk ákvörðun um slíkt.
    Tillögur meiri hlutans benda skýrt á hversu mikill losaragangur er á fjármálum þessarar ríkisstjórnar. Stórir liðir gleymast eða eru hunsaðir og skortur á gagnsæi fyrir umsagnaraðila er gríðarlegt. Staða opinberra fjármála, fyrir þing og þjóð, er í verra ástandi núna en hún var fyrir setningu laga um opinber fjármál. Þar voru fjárheimildir einstakra aðila a.m.k. skýrar. Nú veður framkvæmdarvaldið hins vegar yfir fjárveitingavaldið sem á að liggja hjá Alþingi og stjórnarmeirihlutinn leyfir því að gerast.

Vefðu utan um það grænum blöðum.
    Stjórnvöld settu sér sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það markmið virðist hafa verið sett án þess að ríkisstjórnin hafi hugmynd um hvernig á að ná því markmiði.
    Markmiðið um 55% samdrátt var sett á síðasta ári, rétt fyrir afgreiðslu nýjustu fjármálaáætlunarinnar. Til þess að bregðast við þeirri stefnubreytingu var bætt við 1 milljarði kr. í fjárheimildir málaflokks loftslagsmála til tíu ára. Það þýðir að heildarútgjöld málaflokksins eru 13 milljarðar kr. á næsta ári. Það verður að setja spurningarmerki við þá fjármögnun, því fyrra markmið Íslands var 40% samdráttur í losun ásamt Evrópulöndunum og Noregi. Okkar hlutdeild í þeirri samvinnu var að ná 29% samdrætti í losun á Íslandi. Saman næðu öll löndin 40% samdrætti af því að sum næðu meiri árangri á meðan önnur þyrftu ekki að leggja eins mikið af mörkum. Ákvörðun um 55% sjálfstæðan samdrátt, samkvæmt stjórnarsáttmála, óháð því hversu miklu við þurfum að ná í samstarfi Evrópu og Noregs er því talsvert metnaðarfullt skref miðað við fyrri áætlanir ríkisstjórnarinnar. Sérstaklega ef á bara að fjármagna þau verkefni með 1 milljarði kr. aukalega, því fjármögnun á eldra markmiði um 29% kostaði 12 milljarða kr. á næsta ári. Það þýðir að annaðhvort var byrjað á dýru verkefnunum til þess að minnka losun eða að kostnaðaráætlunin er röng, annaðhvort of há fyrir fyrra markmið, sem virðist ekki vera raunin, eða seinni kostnaðaráætlunin of lág fyrir hærra markmið um samdrátt á losun.
    Ef kostnaðarmatið er rangt, og þá væntanlega of lágt, þá nást augljóslega ekki sett markmið og þá verðum við að spyrja okkur hvort það sé verið að reyna að plata okkur? Hverjum á að kenna um ef við náum ekki settum markmiðum?
    Í umsögn Ungra umhverfissinna er minnst á skýrslu Sameinuðu þjóðanna: „fjármögnun til loftslagsaðgerða þarf að vera a.m.k. 4% af VLF skv. skýrslu Sþ. um takmörkun hnattrænnar hlýnunar við 1,5 gráðu frá iðnbyltingu“. Það er nauðsynlegt að fjalla nánar um þá áskorun sem loftslagsváin er, bæði út af sjálfstæðu markmiði ríkisstjórnarinnar og vegna umfang vandans.
    Þó nokkrar deilur hafa verið í samfélagsumræðunni um hver vandinn sé í raun og veru eða hvort þetta sé yfirleitt vandamál eða ekki. Það er skiljanlegt að mörgu leyti því vísindin hafa ekki verið eins nákvæm og við myndum kannski vilja þegar um svona umfangsmikið verkefni er að ræða. Það er auðvelt að gagnrýna einstök atriði og greiningar fyrir að vera ónákvæmar. Það er auðvelt að benda á að jörðin var einu sinni miklu hlýrri og alls konar staðreyndir sem líta út fyrir að skipta máli fyrir þessa umræðu. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir efasemdunum, að hlusta á þær og svara þeim skipulega. Það er hins vegar líka mikilvægt að hlusta á skýringar og gagnrýna þær á málefnalegan hátt.
    Það er oft notað sem rök í umræðunni að vísindasamfélagið sé almennt sammála þeim niðurstöðum að aukinn koltvísýringur í andrúmsloftinu á undanförnum áratugum sé af mannavöldum. Það eru auðvitað ekki sjálfgefin rök, að af því að meiri hlutinn segir það sé það þannig. Á sama hátt er það heldur ekki satt að af því að nokkrir vísindamenn séu ósammála milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sé ekkert til sem heitir hnattræn hlýnun. Stundum eru það þau fáu sem mótmæla hisminu sem hafa rétt fyrir sér. Við þekkjum það til dæmis mjög vel í Pírötum. En þegar vel er að gáð þá standast vísindin um loftslagsmál alla helstu gagnrýnina. Já, þau eru ekki hárnákvæm. Það er óvissusvigrúm. Það eru mismunandi sviðsmyndir en þær benda allar í sömu átt.
    Við höfum áður glímt við loftslagsvanda vegna annarra efna. Clair Patterson var einna fyrstur til þess að benda á blýmengun í lofti og til þess að sanna mál sitt fór hann heimshornanna á milli í gagnasöfnun. Orsökin var blý í bensíni. Barátta hans skilaði árangri. Annað vandamál voru CFC-gös sem voru að eyða ósónlaginu. 63 Svo óheppilega vill til að sá sem bjó til bæði þessi vandamál var sami vísindamaðurinn, Thomas Midgley Jr. 64 Það var barátta Clair Patterson sem skilaði þeim árangri að blý var fjarlægt úr bensíni og niðurstaða Montreal-samkomulagsins um að stöðva eyðingu ósónlagsins. Á sama tíma var reynt að koma á aðgerðum gegn losun koltvísýrings en olíuiðnaðurinn var einfaldlega með of sterk ítök í pólitíkinni til þess að það næði fram að ganga.
    Síðan þá hafa vísindin orðið nákvæmari og viðameiri. Kannski eins nákvæm og afgerandi og sumir vilja og kannski er notað of sterkt orðalag fyrir suma til þess að lýsa vandanum. 65 En þau verða æ nákvæmari og meira afgerandi með tímanum og staðfesta sífellt mjög slæmar horfur fyrir framtíðina. Það er nefnilega vandi þessa máls í hnotskurn. Afleiðingarnar skella ekki á okkur af fullum þunga núna. Þær vinna á smá saman, yfir mannsævi. Það gerir það að verkum að við verðum síður vör við áhrif þessara breytinga fyrr en það verður of seint. Þess vegna er erfitt að sjá vandann núna og þar af leiðandi erfitt að bregðast við honum. Sem betur fer er lausnin við vandanum góð, hvort sem vandinn er til eða ekki. Því kjarni vandans lýsir sér í ósjálfbærni. Jarðefnaeldsneyti er ósjálfbær orkugjafi til lengri tíma, við þurfum hvort eð er aðrar lausnir og því fyrr sem við innleiðum sjálfbærar lausnir því betra. Ábatinn af því er svo miklu meiri en kostnaðurinn getur nokkurn tímann orðið. Afleiðingarnar af því að gera ekki neitt, hins vegar, geta orðið gríðarlega kostnaðarsamar fyrir mannlegt samfélag því áhrifin af því sem er þegar farið að gerast koma ekki að fullu í ljós fyrr en eftir nokkur hundruð ár jafnvel.
    Það er erfitt að glíma við vandamál sem brennur ekki á okkur í augnablikinu. Það vantar húsnæði og við glímum við fátækt. Það eru raunveruleg vandamál sem við glímum við nú og þarf að leysa strax. Allt annað sem við gerum hlýtur að valda því að nútímavandamálin leysast síður. Ekki satt? Nei, málið er ekki það einfalt. Við verðum að geta gert fleira en eitt í einu, en þá er líka eins gott að það sé gengið í að leysa þessi vandamál yfirleitt. Það er ekki að sjá á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að það sé verið að brúa kjaragliðnun þeirra sem treysta á lífeyri almannatrygginga. Það er ekki verið að laga húsnæðisvandann. Heilbrigðiskerfið er enn í svelti og loftslagsmálin fara. Það gengur ekki að hunsa vandann því annars ágerist hann bara og það verður æ erfiðara að lagfæra það sem úrskeiðis fór.
    Gerum ekki eins og heimski Hans sem leysti vandamál dagsins með lausnum gærdagsins. Hugsum fram í tímann og komum í veg fyrir að vandinn raungerist.

Þú hefðir átt að binda band um hálsinn.
    Lög nr. 123/2015 áttu að vera stór uppfærsla á því hvernig fjárlög eru unnin og samþykkt af Alþingi og ef það væri í alvöru farið eftir lögunum væri það satt. En til þess þá þarf að fara efnislega eftir lögunum og anda þeirra en ekki bara að uppfylla þau samkvæmt þeim stikkorðum sem birtast í texta laganna. Það er ekki nóg að leggja fram fjármálastefnu, fjármálaáætlun, fjárlög, fjárauka, ársskýrslu ráðherra og skýrslu um langtimahorfur. Það er ekki nóg að telja upp grunngildi opinberra fjármála. Það er ekki nóg að fylla bara inn í reitina og líta á sum skilyrði laganna sem valkvæð.
    Lög um opinber fjármál setja stjórnvöldum skilyrði um hvernig þau eiga að haga fjármálum sínum. Stjórnvöld eiga að huga að festu, varfærni, sjálfbærni, stöðugleika og gagnsæi í sinni stefnumörkun. Það eru mjög skýrar ástæður fyrir því að þessar skyldur eru settar í lög. Stjórnvöld eiga nefnilega að geta útskýrt af hverju stefna þeirra býr til betra samfélag. Það þarf að svara spurningunum um hvað stefna stjórnvalda kostar, hver ábatinn er af stefnu stjórnvalda, hvaða aðrir möguleikar eru í boði og af hverju þeir eru ekki eins góðir. Ástæðan fyrir því að við krefjum stjórnvöld um svör við þessum spurningum er að við viljum gera betur ef stefna stjórnvalda stenst ekki væntingar, taka nýjar ákvarðanir ef þær gömlu virka ekki.
    Það er hins vegar skiljanlegt að stjórnvöld þráist við að gera góðar kostnaðargreiningar. Að gera ekki ábatagreiningar. Að gera ekki valkostagreiningar. Í fyrsta lagi er það tímafrekt og ekki auðvelt. Þar er eðlileg hræðsla við mistök. Í öðru lagi gæti kostnaðar- og ábatagreining sýnt fram á óhagræði pólitískra ákvarðana, að „mér finnst“-geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna séu í raun og veru mjög slæmir kostir. Ef slíkur kostur var kosningaloforð, verða stjórnmálamenn þá ekki að svíkja gefið loforð fyrir annan betri kost sem skilar meiri árangri?
    Hér er því enn og aftur ítrekað. Það er skylda stjórnvalda að gera kostnaðar- og ábatagreiningar. Að gera valkostagreiningu og að forgangsraða verkefnum á gagnsæjan hátt. Það er kaldhæðnislegt að helstu ástæður fyrir því að þetta er ekki gert er af því að það er ekki hægt að fá nákvæmar tölur. Það er alltaf einhver óvissa. Það er kaldhæðnislegt af því að tilgangur þessara greininga er einmitt að eyða óvissu og búa til einhverja nákvæmni. Það er ekki beðið um að kostnaðargreiningar séu nákvæmar upp á krónu. Það dettur engum slíkt í hug, nema þeim sem vilja ekki gera svona greiningar og grípa því í jafn fáránleg rök og að það sé ekki hægt að gera nákvæmar greiningar. Fáránleg rök af því að það er enginn að biðja um nákvæmar greiningar. Fyrir áhugasama þá er þetta skólabókardæmi um strámannsrök. Búðu til skoðun fyrir einhvern annan og gagnrýndu svo skoðunina sem þú bjóst til.
    Í fjárlögum er oft að finna fjárlagaliði „ýmissa verkefna“. Þau verkefni eru oft óskilgreind eða það á eftir að útfæra þau. Dæmi um slíka fjárlagaliði er hægt að finna í töflunni hér á eftir.
Liður Millj. kr.
06-190 Ýmis verkefni 198 243,2
10-190 Ýmis verkefni 198 58,1
02-984 Norræn samvinna 198 3,9
08-399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi 198 323,3
07-190 Ýmis verkefni 198 105,2
Samtals 733,7

    Það geta verið málefnalegar ástæður fyrir því að fjárheimildir séu óútfærðar, kannski er búið að gera valkostagreiningu og kostnaðarmeta nokkra möguleika en ekki búið að taka pólitíska ákvörðun um hvaða leið skal fara, en óháð því hvað verður fyrir valinu verður kostnaðurinn álíka mikill. Það á auðvitað ekki við í þessum fjárlögum af því að ríkisstjórnin gerir ekki valkostagreiningar.
    Þingið á hins vegar ekki að samþykkja óútfærðar fjárheimildir. Slíkar fjárheimildir þýða að ríkisstjórnin getur gert hvað sem er við þær fjárheimildir. Þannig virka fjárlög ekki því eins og stendur í stjórnarskránni að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Augljóslega samþykkir þingið til dæmis ekki fjárheimild upp á 1.000 milljarða kr. fyrir ríkisstjórnina „til þess að gera hvað sem henni sýnist“. Það sama á við um fjárheimild fyrir 3,9 millj. kr.

Hvers vegna barstu hann ekki á öxlunum?
    Í framsöguræðu fjárlagafrumvarpsins sagði fjármála- og efnahagsráðherra: „Ég get ekki annað en boðið fram alla aðstoð og allt mitt ráðuneyti til þess að styðja nefndina í þeim störfum sem hennar bíða. Ég óska eftir því að ef eitthvað er þá sé strax haft samband og ég veit að ritari nefndarinnar og aðrir nefndarmenn þekkja það vel að ráðuneytið gerir sitt ýtrasta til að bregðast við hverju því sem á kann að reyna.“
    Í kynningu ráðuneyta spurðu nefndarmenn ýmissa spurninga og mörgum þeirra var fylgt eftir með skriflegum spurningum þar sem þær þóttu kannski helst til yfirgripsmiklar til að hægt væri að svara þeim á einföldum kynningarfundi. Hér á eftir er farið yfir þær spurningar sem nefndin sendi á hina ýmsu aðila til þess að rýna fjárlögin betur og skilja hvað væri verið að biðja um fjárheimildir fyrir, í engri sérstakri röð og með fyrirframafsökun á þessum textavegg. Spurningarnar eru betur uppsettar þegar þær fara frá nefndinni:
     1.      Beðið var um yfirlit um breytingar á 6. gr. fjárlaga ásamt útskýringum á hverri grein fyrir sig. Hvenær heimildin kom fyrst inn í fjárlög og hvernig hefði gengið að nýta heimildina.
     2.      Óskað var eftir minnisblaði frá umboðsmanni Alþingis þar sem lagt er mat á umfang frumkvæðismála og álags þeirra vegna.
     3.      Spurningar vegna NLSH. Hvenær voru ákvarðanir um stækkun teknar, hvenær voru þær kynntar ráðuneytinu, hverjir endurmátu framkvæmdina og komust að því að það þyrfti stækkun? Hvenær liggja fyrir áætlanir um notkun og endurnýjun eldra húsnæðis? Hvenær mun tækjakaupaáætlun nýja húsnæðisins liggja fyrir og hvaða fjárhæðir er verið að miða við vegna tækjakaupa? Liggur fyrir stefnumörkun til lengri tíma um húsnæðisþörf?
     4.      Hvers vegna minnkar fjármagn í fjarskiptasjóð þrátt fyrir að enn eigi eftir að tengja ljósleiðara mjög víða?
     5.      Hafa öryrkjar og ellilífeyrisþegar fengið jólauppbót líkt og í fyrra?
     6.      Greiningar á fjármagnskostnaði. Er til greining á rekstrar- og greiðslugrunni, hvernig uppgreiðsla og endurfjármögnun lána hefur áhrif? Hvað með dráttarvexti tengdum uppgjöri Isavia? Hver eru áhrif breytinga á markaðsvöxtum á vaxtagjöld frumvarpsins?
     7.      Af hverju er nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi rekið fyrir um 800 þús. kr. á fermetra á meðan t.d. Sléttuvegur er rekinn á um 400 þús. kr? Af hverju fær Reykjalundur ekki framlög vegna húsnæðiskostnaðar? Af hverju er gert ráð fyrir því að Landspítali verði rekinn með verulegum halla árið 2022? Óskað er eftir yfirliti um kerfislægan vöxt í heilbrigðiskerfinu. Hverjar eru útistandandi skuldir við birgja og verktaka og hver er vaxtakostnaðurinn af þeim, sundurliðað eftir málefnasviðum? Liggja fyrir meðalútgjöld sjúklinga eftir aldursflokkum? Hver er áætlun sjúkratrygginga Íslands um þróun lyfjakostnaðar á næsta ári og hvaða breytur vega þyngst í því sambandi? Óskað er eftir yfirliti yfir þróun framlaga til Landspítala og sjúkrahúsaþjónustu frá 2005 niðurbrotið eftir rekstrarframlögum, fjárfestingu, launa- og verðlagsbótum og kerfislægum vexti. Markmiðið er að sjá undirliggjandi þróun. Óskað er eftir minnisblaði um með hvaða hætti teknar eru ákvarðanir um byggingu hjúkrunarheimila og fjármögnun þeirra í samstarfi við sveitarfélögin. Hvernig eru ákvarðanir um framlög til rekstrar þeirra teknar? Er mikið um það að aldraðir séu í dýrara vistrými en þörf er á? Ef svo er, er unnt að fá mat á því hve miklu dýrari þau rými eru í heild sinni? Hve mikið mætti spara með því að fólk væri í vistrými sem væri ekki óþarflega dýrt? Myndi fjölgun hjúkrunarrýma létta álaginu á Landspítala? Ef svo væri, hve mikið í fjármagni/vistrýmum og mannafla?
     8.      Eru ný lög um leiðsöguhunda fjármögnuð, og ef svo er, hversu mikið?
     9.      Vísað er til bls. 305 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022. Þar kemur fram að heildargjöld málefnasviðsins aukist um 1,9% á föstu verðlagi. Gert er ráð fyrir 2,5% vexti í fjölda örorkulífeyrisþega. Nefndin óskar eftir upplýsingum um samhengið milli fyrrgreindra hækkana og hvort ráðuneytið telji að fjölgunin verði innan forsendna fjárlagafrumvarpsins.
     10.      Óskað er eftir minnisblaði um átakið Hefjum störf. Hvaða ráðningarstyrki og önnur úrræði varpaði úrræðið ljósi á sem skýrir aukinn kostnað í vinnumarkaðsmálum? Óskað er eftir að gerð verði nánari grein fyrir kostnaðinum, hvernig hann skiptist milli úrræða og hve mörg störf hvert úrræði skapaði. Hvað var gert ráð fyrir mörgum störfum í upphaflegri fjárveitingu og hvað var gert ráð fyrir að hvert starf kostaði að meðaltali? Telur ráðuneytið að í upphaflegum áætlunum hafi kostnaður við átakið verið vanmetinn? Hve lengi er gert ráð fyrir að átakið standi? Fyrir hve mörgum störfum er áætlað í frumvarpi til fjáraukalaga 2021? Hver er skýringin á frávikinu? Í kynningu með fjáraukalagafrumvarpinu kemur fram að verðbætur á rekstrargrunni nemi 9.659 millj. kr. en 125 millj. kr. á greiðslugrunni. Þá kemur fram að liðurinn „annað“ lækki um 3.506 millj. kr. á rekstrargrunni en um 825 millj. kr. á greiðslugrunni, en þar sé um að ræða lægri kostnað vegna minni útgáfu skuldabréfa og víxla. Óskað er eftir að gerð verði ítarlegri grein fyrir því af hverju greiðslugrunnurinn er þetta miklu lægri í hvoru tilfelli fyrir sig. Hvað gera áætlanir ráð fyrir að það kosti að breyta Hótel Sögu þannig að húsnæðið þjóni að fullu þörfum menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta? Hver er áætlaður breytinga-, endurbóta- og viðhaldskostnaður á hvern fermetra hússins? Hvaða áhrif mun það hafa á viðhalds- og endurbótaáætlun fasteignafélags háskólans að standa straum af óvæntum útgjöldum vegna breytinga á hótelinu? Hver er áætlaður árlegur leigukostnaður Háskólans af fasteigninni og hvert er núvirði hans? Óskað er eftir örstuttri lýsingu á því hvernig nýtingarkostnaður sýnir fram á að kaupin, breytingarnar og rekstur eignarinnar sé hagkvæm lausn. Hvert er kaupverð Hótel Sögu og jarðarinnar Mið-Fossa í Borgarbyggð?
     11.      Óskað er eftir afriti af þeim gögnum og forsendum sem sýna rökin fyrir þeirri niðurstöðu að tryggingagjaldið hafi skilað sömu tekjum og árið áður þrátt fyrir lækkun álagningarstuðuls. Óskað er eftir upplýsingum um að hvaða marki fyrra ár hafi haft áhrif í þessu sambandi í ljósi kórónuveiruástandsins. Óskað er eftir upplýsingum um kostnaðinn af því að skattgreiðslur lækkuðu um 5.000 kr. á mánuði hjá einstaklingum sem höfðu yfir 1 millj. kr á mánuði í tekjur. Í því sambandi er vísað til skattalækkana sem hafa kostað 20 milljarða kr. með lækkun neðra þreps. Hversu stór hluti af þeirri upphæð er vegna einstaklinga sem höfðu laun undir 1 millj. kr. á mánuði og hversu stór vegna þeirra sem höfðu hærri tekjur? Meðalframleiðnivöxtur síðustu 20 ára hefur verið 1,9%, og 1,8% síðan 1991. Í langtímaáætlun fjármála- og efnahagsráðuneytisins er gert ráð fyrir að til langs tíma vaxi framleiðni um 1,6%. Hér gætir ósamræmis við 1% viðmiðið sem stuðst er við í fjárlagafrumvarpi. Óskað er eftir útskýringum á þessu ósamræmi að því er virðist. Óskað er eftir mati fjármálaráðuneytisins á því hvaða áhrif breyting á barnabótakerfinu hefur á skattbyrði millitekjuhópanna sem lenda í aukinni skerðingu vegna þessa. Svo virðist sem verið sé að draga úr skattbyrði lágtekjuhópa með því að auka hana hjá millitekjuhópnum. Er það rétt? Hve háar fjárhæðir hafa verið veittar árlega til skatteftirlits? Hvernig er árangur af skatteftirliti metinn?
     12.      Óskað er eftir yfirliti yfir stöðu Fiskeldissjóðs áður en úthlutanir hófust nú í ár. Hve margar voru umsóknir ársins og hver var heildarfjárhæð þeirra? Óskað er eftir yfirliti yfir úthlutanir ársins og upplýsingum um hver úthlutunargeta sjóðsins er á næst ári. Óskað er upplýsinga um kolefnishlutleysi í nautgriparækt og öðrum landbúnaðargreinum. Hver voru markmiðin og mælikvarðarnir í búvörusamningunum? Hver er árangurinn miðað við þau markmið og mælikvarða? Óskað er eftir ábatagreiningu á þeim framlögum ríkissjóðs sem hefur verið varið til fyrrgreindra mála. Óskað er eftir yfirliti yfir breytingar á fjárheimildum vegna nýs hafrannsóknaskips. Hvaða þjóðhagsleg áhrif höfðu framleiðslustyrkir og rafmagnsstyrkir til bænda? Hver voru áhrifin í samanburði við markmið og fyrirframsetta mælikvarða? Fjárheimildir málaflokks 12.10 lækka um 970 millj. kr. vegna niðurfellingar á tímabundnu framlagi til stuðnings bænda vegna áhrifa COVID-19. Hve háum fjárhæðum var varið til stuðningsins? Hvaða áhrif höfðu fyrrgreindar fjárheimildir og hvaða áhrif hafa niðurfellingar þeirra? Óskað er eftir minnisblaði um niðurgreiðslur vegna hitaveituframkvæmda. Hvernig standa þessi mál miðað við þau markmið sem sett hafa verið? Óskað var eftir minnisblaði um aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar í kjölfar COVID-19 og hvernig til tókst miðað við þau markmið sem sett voru. Liggur fyrir mat á fjárfestingaþörf vegna uppbyggingarsjóðs ferðamannastaða?
     13.      Óskað er eftir yfirliti yfir fjárfestingar árin 2020 og 2021. Hverjar voru fjárheimildirnar? Hverjar voru helstu áætlaðar fjárfestingar í hverjum málaflokki? Hve mikið var fjárfest í hverjum málaflokki? Hve háar fjárheimildir flytjast ónotaðar milli ára í hverjum málaflokki? Óskað er eftir helstu skýringum á því að fjárheimildir til fjárfestinga nýtast ekki að fullu innan ársins. Óskað er eftir minnisblaði um betri vinnutíma, sbr. samtal um það milli nefndarinnar og ráðuneytisins á fundi fjárlaganefndar 6. desember sl.
     14.      Óskað er eftir minnisblaði um stöðu framkvæmda á vegum Vegagerðarinnar. Vegna hvaða verkefna voru þær fluttar, sundurliðaðar á hvert verkefni? Hve háar fjárheimildir verða fluttar til ársins 2022 og vegna hvaða verkefna? Óskað er eftir stuttu minnisblaði um verkefnið Ísland ljóstengt þar sem m.a. komi fram: Hver er staða verkefnisins og hverju er ólokið? Yfir hvaða svæði nær kerfið? Hvar eru „gloppur“ í því? Á fundi með ráðuneytinu var ákveðið að sent yrði skriflegt svar við spurningum um niðurgreiðslur á póstþjónustu.
     15.      Óskað er eftir minnisblaði um framlög ríkisins til þróunarsamvinnu, m.a. lýsingu á eldri aðferðafræði og lýsingu á nýrri aðferðafræði. Gerð verði grein fyrir hve stór hluti aukinna framlaga sé vegna breyttra þjóðartekna og annarra liða til þróunarsamvinnu, hvort u.þ.b. 13 milljarða kr. framlagið tengist áherslum Íslands í loftslagsmálum. Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir þeim mismun sem fram kemur í umfjöllun um launa- og verðlagsmálum milli texta og taflna í frumvarpinu
     16.      Eru hærri skerðingarmörk barnabóta fjármögnuð þar sem engin viðbót er við rammann? Hver er upphæðin sem greidd var út á þessu ári miðað við upphæðina sem gert er ráð fyrir að greidd verði út á næsta ári.
     17.      Óskað er eftir minnisblaði um þróun framlaga til Austurbrúar. Óskað er eftir yfirliti um þróun framlaga til Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Óskað er eftir minnisblaði um þróun í aldursskiptingu nemenda í verknámi. Eru uppi áform um að skipta yngri verknámsnemendum og þeim eldri í tvo hópa m.a. til að reyna að fjölga nemum í verknámi? Hvernig hafa fjárframlög til framhaldsskólanna þróast undanfarin ár? Hafa fjárframlög til framhaldsskólanna dregist hraðar saman en fjöldi nemenda? Óskað er eftir minnisblaði um þróun reiknilíkans fyrir framlög til framhaldsskólans. Hvenær var reiknilíkanið uppfært síðast? Ætlar ráðuneytið að senda nefndinni svar við skriflegri fyrirspurn frá Alþingi um kostnaðarskiptingu í leikskólanáminu? Í málaflokki 18.20 segir m.a.: „Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2022 er áætluð 6.105,6 millj. kr. og lækkar um 57,8 millj. kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 269,5 millj. kr.“ Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða. Í sundurliðun breytinga milli ára kemur ekki fram þessi 57,8 millj. kr. lækkun. Þvert á móti virðist um 95,4 millj. kr. hækkun að ræða. Í hverju er þessi munur fólginn? Í stjórnarsáttmála segir: „Unnið verður að því að koma menningararfi þjóðarinnar yfir á stafrænt form til að tryggja varðveislu og aðgengi almennings.“ Á þetta jafnframt við um safn Ríkisútvarpsins? Er ætlunin að fjármagna nýja streymisveitu á vegum ríkisins? Liggur fyrir kostnaðaráætlun? Hefur verið hugað að samkeppnissjónarmiðum? Óskað er eftir minnisblaði um verk- og iðnnám. Í því komi m.a. fram hvert markmið fjölgunar sé – hlutfall af fólki á menntaskólaaldri í iðnnámi. Hversu stór hluti eru fullorðnir aðilar? Er þetta tímabundinn kúfur? Er þetta partur af atvinnuúrræði vegna COVID? Hvert er markmið þessarar fjölgunar? Nýttist Nám er tækifæri þá hér? Hefur verið rætt að skipta þessum hópum upp, ungu fólki og fólki á fullorðinsaldri? Óskað er eftir minnisblaði sem sýnir þróun fjármagns á framhaldsskólanema í ljósi þess að misræmi virðist í fljótu bragði vera varðandi það fjármagn sem situr eftir eftir fjölgunina í fyrra.
     18.      Óskað er eftir upplýsingum um hvar og með hvaða hætti í frumvarpinu sé komið til móts við ný sameiginleg markmið Íslands og fleiri landa um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030, upplýsingum um stöðu Ofanflóðasjóðs og yfirliti yfir verkefni næstu ára, minnisblaði um veðursjár, uppbyggingu kerfisins til næstu ára og kostnað við hana, minnisblaði um skiptingu fjármuna milli málaflokka náttúruverndar, friðunar og loftslagsmála og minnisblaði um hve stóru hlutfalli nærliggjandi þjóðir verja til loftslagsmála í samanburði við Ísland. Hvaða mælikvarðar eru notaðir til að meta árangur af notkun fjárveitinga til landgræðslu og skógræktar? Hvernig metur ráðuneytið gæði mælikvarðanna? Með hvaða hætti verður árangur Íslands vegna Kyoto-samkomulagsins gerður upp og hvernig stóð Ísland sig miðað við önnur lönd sem tóku þátt í verkefninu? Óskar er eftir minnisblaði um hvernig skipting fjármuna hefur verið í ráðuneytinu varðandi friðun/vernd og svo sókn í loftslagsmálum. Er unnt að fá yfirlitið fyrir síðastliðin ár og síðan út líftíma gildandi fjármálaáætlunar? Á fundinum var vísað til vinnuhóps umhverfis- og auðlindaráðuneytis, forsætisráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis. Hvar er hægt að nálgast upplýsingar um sameiginlega vinnu ráðuneytanna eða er unnt að fá stutt yfirlit yfir hana? Munu málaflokkar annarra ráðuneyta taka þátt í u.þ.b. 1 milljarðs kr. hækkun á framlagi til loftslagsmála? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir þeim mismun sem fram kemur í umfjöllun um launa- og verðlagsmál milli texta og taflna í frumvarpinu.
     19.      Af hverju er ný túlkun á 69. gr. almannatryggingalaga í þessu fjárlagafrumvarpi miðað við fyrri ár þar sem lífeyrir almannatrygginga er uppfærður um 0,8% vegna vanmats á verðbólgu síðasta árs? Á ekki einnig að horfa til þess að launaþróun hafi verið vanmetin miðað við 69. gr. almannatryggingalaga?
    Það koma margar spurningar frá mörgum nefndarmönnum. Oft eru þetta bara spurningar í samtali við gesti sem beðið er um að sé svarað með minnisblaði, tækifærisspurningar sem vakna vegna framsögu gesta til dæmis. Oft geta nefndarmenn ekki undirbúið sig fyrir gestakomur því skrifleg umsögn eða kynning ráðuneytis eða annarra gesta birtist nefndarmönnum á sama tíma og gestir mæta. Það er því oft undir því komið að ritarar nái að grípa allar spurningar og punkta þær niður hvort og hvernig þær fara frá nefndinni. Það er algerlega öruggt að það komust ekki allar spurningar til skila.
    Hvernig voru svörin? Það er oft, ef eitthvað, erfiðara að fara yfir svörin því spurningarnar fylgja oft ekki með svörunum heldur eru þau almenn umfjöllun um það sem spurningarnar fjölluðu nokkurn vegin um, en samt ekki alltaf nákvæmlega. Það er því oft mjög erfitt að finna hvort svör hafi borist við þeim spurningum sem upp komu. Þetta er skipulagslegt fyrirkomulag hjá þinginu sem þarf að bæta úr til þess að það sé nákvæmari eftirfylgni með þeim spurningum sem nefndir þingsins spyrja. Til þess þarf líklega nákvæmara skjalavistunarkerfi sem heldur utan um einstakar spurningar og svör með áminningum um hvenær svarfrestur rennur út.
    Eftirfarandi er listi yfir svör sem bárust nefndinni:

Svör við spurningum fjárlaganefndar.
Sendandi Hlekkur
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið www.althingi.is/altext/erindi/152/152-347.pdf
Fjármála- og efnahagsráðuneytið www.althingi.is/altext/erindi/152/152-348.pdf
Fjármála- og efnahagsráðuneytið – FAUK www.althingi.is/altext/erindi/152/152-349.pdf
Fjármála- og efnahagsráðuneytið – Betri vinnutími www.althingi.is/altext/erindi/152/152-350.pdf
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið www.althingi.is/altext/erindi/152/152-351.pdf
Svar fjármálaráðuneytis vegna umsagnar Ríkisendurskoðunar www.althingi.is/altext/erindi/152/152-352.pdf
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu www.althingi.is/altext/erindi/152/152-353.pdf
Fjármála- og efnahagsráðueytið – Svar Fauk www.althingi.is/altext/erindi/152/152-354.pdf
Svör mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna Fisktækniskólans www.althingi.is/altext/erindi/152/152-356.pdf
Umboðsmaður Alþingis – Opcat www.althingi.is/altext/erindi/152/152-357.pdf
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið – landbúnaður www.althingi.is/altext/erindi/152/152-358.pdf
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið – Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
www.althingi.is/altext/erindi/152/152-359.pdf
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið – Fiskeldissjóður www.althingi.is/altext/erindi/152/152-360.pdf
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið – Ferðamál www.althingi.is/altext/erindi/152/152-361.pdf
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið – Orkumál www.althingi.is/altext/erindi/152/152-362.pdf
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið – Garðyrkja www.althingi.is/altext/erindi/152/152-363.pdf
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið – loftslagsmál www.althingi.is/altext/erindi/152/152-364.pdf
Félagsmálaráðuneytið – desemberuppbót www.althingi.is/altext/erindi/152/152-365.pdf
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið – Hraðið nýsköpunarmiðstöð www.althingi.is/altext/erindi/152/152-366.pdf
Umhverfis-og auðlindaráðuneytið – veðursjá www.althingi.is/altext/erindi/152/152-367.pdf
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið – ofanflóðasjóður www.althingi.is/altext/erindi/152/152-368.pdf
Félagsmálaráðuneytið – varðar sértækar aðhaldsaðgerðir www.althingi.is/altext/erindi/152/152-369.pdf
Vegagerðin – minnisblað ráðstöfun www.althingi.is/altext/erindi/152/152-371.pdf

Þau lifðu hamingjusöm alla ævi.
    Á þeim stutta tíma sem ríkisstjórnin gaf þinginu til þess að vinna fjárlög voru nokkur stór mál sem augljóslega eru vanfjármögnuð af ríkisstjórninni. Við í minni hlutanum sem mættum á fundi fjárlaganefndar stöndum saman að breytingartillögum til þess að lagfæra þessa galla sem ættu að vera augljósir öllum. Augljóslega myndi sameiginleg forgangsröðun okkar búa til allt öðruvísi fjárlög en það er algjört lágmark að bregðast við því sem ríkisstjórnin gleymir.
    Hér er um að ræða leiðréttingu á kjaragliðnun eldra fólks og öryrkja vegna lífskjarasamninganna. Umsögn BSRB 66 sýnir þróunina mjög skýrt. Því er lögð til fjárheimild á málefnasviði 27 og 28 upp á 1,5 milljarða kr. á málefnasviði öryrkja og 2,5 milljarða kr. á málefnasviði eldri borgara til að jafna 1% hækkunina sem öryrkjar fá á lífeyri sinn, samtals 4 milljarðar kr. til þess að ná upp þeim lágmarksmun. Þá á enn eftir að brúa tveggja áratuga kjaragliðnun sem er stærra verkefni en hægt er að afgreiða í einum fjárlögum í flýti. Þeirri ábendingu er beint í umræður um endurskipulagningu á almannatryggingakerfinu sem ætti að ljúka við á næsta ári. Ekki er þó búist við því að ríkisstjórnin nái að ljúka því verkefni enda dugði ekki allt síðasta kjörtímabil til þess heldur.
    Í öðru lagi er það rekstrarvandi í heilbrigðiskerfinu og efling geðheilsumála eins og þingið samþykkti á síðasta kjörtímabili. Þær breytingar sem minni hlutinn gerir er að bæta við fjárheimild fyrir þann raunvöxt sem áætlaður er í kerfinu á næsta ári og að fella niður hagræðingarkröfu á Landspítala og SAk. Þá er bætt við fjárheimild í heilbrigðisstofnanir utan sjúkrahúsa vegna geðheilbrigðismála, vegna forvarnamála og meðferðarúrræða sem þriðji geirinn sinnir, eins og SÁÁ, Reykjalundur, Frú Ragnheiður og önnur álíka verkefni. Sú fjárheimild fer einnig upp í sambærilegan rekstrarvanda og hjá Landspítala og SAk eins og umsagnir heilbrigðisstofnananna fjalla um.
    Í þriðja lagi er það húsnæðisvandinn. Skýrsla HMS setur upp sviðsmynd þar sem hægt væri að ná niður uppsöfnuðum skorti á íbúðum á tíu árum. Til þess þarf að bæta við 3,5 milljörðum kr. í stofnframlög, með áherslu á uppbyggingu ódýrs leiguhúsnæðis, íbúðir fyrir fatlaða og nemendur.
    Í fjórða lagi eru sérstakar ráðstafanir vegna sjálfbærniverkefna í nýsköpun og loftslagsmálum. Þar er annars vegar um fjárfestingarverkefni að ræða sem tengjast orkuskiptum, rafvæðingu hafna, brothættum byggðum, skólpmálum í sveitarfélögum. Allt eru þetta verkefni sem vinna í átt að sjálfbærni og baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Og svo hins vegar rekstur en þar er að finna ýmsar ívilnanir og styrki vegna vísinda og verkefna í átt að sjálfbærni eins og rannsóknarsjóði, tækniþróunarsjóði, loftslagssjóði og álíka verkefni.
    Að lokum eru það menningarmálin. En faraldurinn hefur farið mjög illa með sjálfstætt starfandi listamenn út af takmörkunum sem hið opinbera setur. Tillagan er einföld, að miða við sömu upphæð í sjóði menningar og lista og var árið 2020, að viðbættri launa- og verðlagsþróun.
    Þessum breytingartillögum er ekki ætlað að vera heildarsýn á betra samfélag sem þessir flokkar hafa sem markmið sitt heldur einungis til þess að laga þá augljósu galla sem eru á frumvarpinu. Ef á sýna öryrkjum og eldra fólki sanngirni, ef á að halda sjó í heilbrigðiskerfinu, ef á að leysa húsnæðisvandann og ef á í alvörunni að vaxa út úr faraldrinum þá er þetta það sem þarf að lágmarki að gera.

Alþingi, 20. desember 2021.

Björn Leví Gunnarsson.



1     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-201.pdf
2     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-263.pdf
3     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-243.pdf
4     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-311.pdf
5     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-195.pdf
6     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-279.pdf
7     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-253.pdf
8     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-224.pdf
9     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-219.pdf
10     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-231.pdf
11     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-222.pdf
12     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-303.pdf
13     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-197.pdf
14     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-204.pdf
15     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-200.pdf
16     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-203.pdf
17     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-203.pdf
18     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-203.pdf
19     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-247.pdf
20     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-190.pdf
21     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-190.pdf
22     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-283.pdf
23     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-248.pdf
24     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-249.pdf
25     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-282.pdf
26     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-210.pdf
27     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-264.pdf
28     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-297.pdf
29     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-215.pdf
30     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-209.pdf
31     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-242.pdf
32     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-262.pdf
33     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-223.pdf
34     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-250.pdf
35     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-217.pdf
36     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-189.pdf
37     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-274.pdf
38     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-281.pdf
39     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-206.pdf
40     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-255.pdf
41     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-240.pdf
42     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-236.pdf
43     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-245.pdf
44     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-241.pdf
45     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-207.pdf
46     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-280.pdf
47     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-216.pdf
48     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-202.pdf
49     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-202.pdf
50     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-251.pdf
51     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-260.pdf
52     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-256.pdf
53     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-214.pdf
54     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-246.pdf
55     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-208.pdf
56     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-258.pdf
57     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-191.pdf
58     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-228.pdf
59     npa.is/index.php/frettasafn/509-sveitarfeloeg-brjota-loeg-og-rikissjodhur-er-ahorfandi
60     www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/03/15/Hefjum-storf-umfangsmiklar-vin numarkadsadgerdir-fyrir-atvinnuleitendur-og-atvinnulifid/
61     www.althingi.is/altext/raeda/151/rad20210610T115337.html
62     www.althingi.is/altext/151/s/1672.html
63     www.nasa.gov/topics/earth/features/ozone-history.html
64     en.wikipedia.org/wiki/Thomas_Midgley_Jr.
65     www.ipcc.ch/reports/
66     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-222.pdf