Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 663  —  458. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Slysavarnaskóla sjómanna, nr. 33/1991 (skipan og hlutverk skólanefndar, aðskildar fjárreiður).

Frá innviðaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Slysavarnafélag Íslands“ í 1. mgr. kemur: Slysavarnafélagið Landsbjörg.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Slysavarnafélagið Landsbjörg skal halda fjárreiðum skólans aðskildum frá öðrum rekstri og starfsemi félagsins og er í þeim tilgangi heimilt að hafa rekstur skólans í sérstöku félagi.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands“ og „Slysavarnafélagi Íslands“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Félagi skipstjórnarmanna; og: Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
     b.      Í stað orðanna „Slysavarnafélags Íslands“ í 3. málsl. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
     c.      Í stað orðanna „fjalla um“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: vera ráðgefandi um fagleg.
     d.      Orðin „einkum varðandi tækjakaup og búnað hans, viðhald, framkvæmdir og áframhaldandi uppbyggingu“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Skólanefnd“ kemur: Slysavarnafélagið Landsbjörg.
     b.      Á eftir orðinu „sjómanna“ kemur: að fenginni umsögn skólanefndar.
     c.      Í stað orðanna „Slysavarnafélags Íslands“ kemur: félagsins.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr.:
     a.      Á eftir orðinu „ríkissjóði“ í 1. málsl. kemur: samkvæmt þjónustusamningi.
     b.      2. málsl. 5. gr. fellur brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innviðaráðuneytinu. Í mars 2021 sendi Slysavarnafélagið Landsbjörg erindi til þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis með tillögu að lagabreytingu sem félagið taldi þörf á með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á rekstri Slysavarnaskóla sjómanna frá gildistöku laga um Slysavarnaskóla sjómanna, nr. 33/1991. Þau málefni sem hér um ræðir heyra nú undir innviðaráðuneytið, sbr. forsetaúrskurð nr. 125/2021 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. þingsályktun um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/152. Í frumvarpi þessu er tekið mið af tillögum Slysavarnafélagsins og lagðar til breytingar að því er varðar utanumhald þess um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna. Þá eru lagðar til breytingar á hlutverki skólanefndar og aðkomu þess að ráðningu skólastjóra.
    Slysavarnafélag Íslands hóf starfsemi og rekstur Slysavarnaskóla sjómanna árið 1985 til að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn. Með lögum nr. 33/1991 voru ákvæði sett um starfsemi skólans en talið var brýnt að löggilda starfsemina, tryggja honum nægjanlegt fjármagn og lögbinda nám fyrir alla sjómenn.
    Námskeið skólans eru öllum opin, en á námskrá er að finna námskeið sem henta þeim sem vinna á sjó, við hafnir eða dvelja við leik og störf við ár eða vötn. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á fjölda afmarkaðra námskeiða sem sniðin eru að þörfum íslenskra sæfarenda. 57.000 manns hafa sótt námskeið skólans frá 1985.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Lögum um Slysavarnaskóla sjómanna, nr. 33/1991, hefur tvívegis verið breytt vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands. Aðrar breytingar hafa hins vegar ekki verið gerðar á þeim frá gildistöku. Á þeim tíma hafa þó orðið nokkrar breytingar á rekstri skólans sem rétt er að lögin endurspegli.
    Í fyrsta lagi er þörf á að gera breytingar á heitum félaga í lögunum. Í lögunum er talað um Slysavarnafélag Íslands en árið 1999 var það sameinað Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita undir nafni Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem tók við rekstri Slysavarnaskóla sjómanna. Þá segir í 3. gr. laganna að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tilnefni einn fulltrúa í skólanefnd. Sambandið var lagt niður árið 2017 og tók Félag skipstjórnarmanna við hlutverki þess.
    Í öðru lagi er rétt að taka mið af breytingum sem hafa orðið á rekstri skólans frá gildistöku laga nr. 33/1991 en nú er gerður þjónustusamningur milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og íslenska ríkisins og rétt að lögin endurspegli það. Þá hefur þróun orðið á hlutverki og aðkomu skólanefndar að starfi skólans.
    Í þriðja lagi hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg lagt til breytingu, sem innviðaráðuneytið er sammála, þess efnis að félaginu sé heimilt að reka Slysavarnaskóla sjómanna í sérstöku félagi sem er aðskilið frá öðrum rekstri félagsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar til samræmis við breytt heiti félaganna Slysavarnafélags Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands en Slysavarnafélagið Landsbjörg og Félag skipstjórnarmanna hafa tekið við hlutverkum félaganna.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að við 1. gr. bætist við ný málsgrein sem heimili Slysavarnafélaginu Landsbjörg að reka Slysavarnaskóla sjómanna í sérstöku félagi sem verði aðskilið Landsbjörg hvað varðar stjórnun og rekstur. Þetta mun ekki hafa áhrif á ábyrgð og skuldbindingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar gagnvart ríkinu hvað skólann varðar. Fjárreiðum skólans er haldið aðskildum í reikningshaldi Slysavarnafélagsins Landsbjargar en skýra þarf lögin svo að unnt sé að aðskilja með skýrum hætti stjórnun skólans frá annarri og ótengdri starfsemi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
    Þá eru lagðar til breytingar á 3. og 4. gr. laganna að því er varðar skólanefnd Slysavarnaskóla sjómanna. Lögð er til breyting á 2. mgr. 3. gr. um hlutverk skólanefndar þannig að í stað þess að kveða á um að meginhlutverk skólanefndar sé að fjalla um málefni Slysavarnaskólans og uppbyggingu, einkum varðandi tækjakaup og búnað hans, framkvæmdir og áframhaldandi uppbyggingu, þá verði mælt fyrir um að meginhlutverk nefndarinnar sé að vera ráðgefandi um fagleg málefni skólans og uppbyggingu. Með þessari breytingum er staða nefndarinnar og hlutverk skýrt. Nefndin mun áfram hafa aðkomu að faglegum málefnum Slysavarnaskólans og uppbyggingu. Talið er nákvæmara að nefndin sé ráðgefandi um málefni skólans og uppbyggingu frekar en að hún fjalli um þessa þætti. Þá verður óbreytt að nefndin geri tillögur til stjórnar Slysavarnafélagsins um námskeiðahald, námsskrá og lengd námskeiða á vegum skólans. Þá er lagt til að Slysavarnafélagið Landsbjörg, í stað skólanefndar, ráði skólastjóra Slysavarnaskólans en að ráðningin verði að fenginni umsögn skólanefndar. Þó að Slysavarnafélagið tilnefni sjálft þrjá af fimm fulltrúum í skólanefnd er talið rétt að félagið sjálft, sem ber fjárhagslegu skuldbindinguna og ábyrgðina á rekstri skólans, hafi lokaorð um ráðningu en ekki fulltrúar í skólanefnd. Verði breyting þessi að lögum mun skólanefnd að vísu áfram hafa aðkomu að ráðningunni með umsögn sinni.
    Loks er lögð til breyting á 5. gr. laganna um greiðslur til skólans úr ríkissjóði. Í gildandi lagaákvæði segir að kostnaður við rekstur skólans skuli greiddur úr ríkissjóði. Slysavarnafélag Íslands skuli gera fjárhagsáætlun fyrir skólann og leggja fyrir ráðuneytið til staðfestingar. Þróun undanfarinna ára hefur verið á þann veg að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (nú innviðaráðuneytið) hefur gert þjónustusamning við Slysavarnafélagið Landsbjörg um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna. Er gildandi samningur til 31. desember 2024. Er því lögð til breyting sem endurspeglar þetta fyrirkomulag.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Íslenska ríkið hefur undirgengist skuldbindingar varðandi menntun sjófarenda með alþjóðlegum samningum sem tengjast starfsemi skólans. Ber þar helst að nefna alþjóðasamþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, annars vegar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978 eða STCW-alþjóðasamþykktina (e. International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers) og hins vegar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips frá 1995 eða STCW-F-alþjóðasamþykktina (e. International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Fishing Vessel Personnel). Í þjónustusamningi um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna er vísað til þessara skuldbindinga. Segir meðal annars í grein 2.4 að starfsemi skólans skuli leggja til grundvallar þær alþjóðlegu skuldbindingar sem stjórnvöld hafa gengist undir um kennslu og hæfi leiðbeinenda með aðild sinni að fyrrnefndum samþykktum. Þykir ekki þörf á að vísa til þessara samþykkta í lögum.

5. Samráð.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur samráð verið haft við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 5.-19. nóvember 2021 (mál nr. S-16/2022). Engar umsagnir bárust. Þá voru drög að frumvarpi kynnt í samráðsgátt stjórnvalda frá 21. janúar til 4. febrúar 2022 (mál nr. S-210/2021). Engar umsagnir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Tilgangur frumvarpsins er aðallega að gera breytingar þannig að lögin endurspegli þær breytingar sem hafa orðið á rekstrarumhverfi Slysavarnaskóla sjómanna frá gildistöku laga nr. 33/1991. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    A-liður þarfnast ekki frekari skýringar.
    Með ákvæði í b-lið er Slysavarnafélaginu Landsbjörg gert skylt að halda fjárreiðum skólans aðskildum frá öðrum rekstri. Er því veitt heimild til að hafa rekstur skólans í sérstöku félagi. Samkvæmt þjónustusamningi íslenska ríkisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna skal ríkisframlagi haldið aðgreindu í bókhaldi. Samkvæmt samningnum skal Samgöngustofa annast jafnt fjárhagslegt sem faglegt eftirlit með framkvæmd samningsins. Í fjárhagslegu eftirliti felst eftirlit með því að þeim fjármunum sem greiddir hafa verið samkvæmt samningnum hafi verið ráðstafað og haldið aðgreindum í samræmi við ákvæði samningsins.

Um 2. gr.

    A- og b-liður þarfnast ekki frekari skýringar.
    Með c- og d-lið eru breytingar gerðar á 2. mgr. 3. gr. laganna um meginhlutverk skólanefndar. Hlutverk nefndarinnar er skýrt nánar, þ.e. að vera ráðgefandi gagnvart Slysavarnafélaginu, sem fer með yfirstjórn skólans skv. 1. mgr. 1. gr. um fagleg málefni skólans. Þannig verður það hlutverk óbreytt að hún geri tillögur til stjórnar Slysavarnafélagsins um námskeiðahald, námsskrá og lengd námskeiða. Hins vegar er með d-lið fellt brott ákvæði þess efnis að hún skuli fjalla um atriði er snúa að rekstri skólans.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er gerð breyting á fyrirkomulagi ráðningar á skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna. Verður það í höndum Slysavarnafélagsins sjálfs að ráða skólastjóra en þó að fenginni umsögn skólanefndar. Samkvæmt þessu verður ákvörðun um ráðningu ekki tekin fyrr en skólanefnd hefur skilað umsögn um mat sitt á hæfni umsækjenda.
    C-liður þarfnast ekki skýringar.

Um 4. og 5. gr.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringar.