Ferill 586. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 828  —  586. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019 (skipti eða slit tiltekinna skráningarskyldra aðila).

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (II.)
    Ef skráningarskyldur aðili sem fellur undir ákvæði til bráðabirgða I hefur ekki fullnægt skyldu samkvæmt lögum þessum um að tilkynna um raunverulegan eiganda eða eigendur til fyrirtækjaskrár er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast skipta á aðilanum fyrir héraðsdómi, eða eftir atvikum slita á aðilanum í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III, að undangenginni málsmeðferð samkvæmt ákvæði þessu til bráðabirgða. Ákvæði 13. gr. gildir ekki um aðdraganda og meðferð máls samkvæmt ákvæði þessu eða samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III.
    Ríkisskattstjóri skal skora á skráningarskyldan aðila að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum með eftirgreindum hætti. Í fyrsta lagi skal ríkisskattstjóri senda áskorun til fyrirsvarsmanns aðila á lögheimili hans sem skráð er á tiltekið heimilisfang í þjóðskrá. Með fyrirsvarsmanni er hér átt við þann sem samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá er stjórnarmaður aðilans ef um eins manns stjórn er að ræða eða formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri eða prókúruhafi eða sá sem skráður er í forsvari fyrir aðilann í fyrirtækjaskrá hvað sem líður annars stöðu viðkomandi hjá aðilanum. Nægilegt er að beina áskorun með framangreindum hætti til einhvers þeirra síðastnefndu og telst henni þá hafa verið komið á framfæri við aðilann. Ef enginn er skráður sem fyrirsvarsmaður aðila í framangreindum skilningi eða enginn skráðra fyrirsvarsmanna hefur skráð lögheimili í þjóðskrá er ekki nauðsynlegt að senda áskorun skv. 2.–4. málsl. Í annan stað skal áskorun birt í Lögbirtingablaði þar sem greina skal heiti og kennitölur þeirra skráningarskyldu aðila sem hún beinist að. Í þriðja lagi skal áskorun birt í fjölmiðli þar sem vísað skal til birtingar í Lögbirtingablaði. Í áskorun sem komið er á framfæri á framangreindan hátt skal gefinn tveggja vikna frestur til að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum og miðast upphaf frestsins í öllum tilfellum við birtingardag áskorunar í Lögbirtingablaði. Áður en frestinum lýkur getur fyrirsvarsmaður aðila, í skilningi þessarar málsgreinar, þó óskað eftir því að fresturinn verði framlengdur allt að tveimur vikum og ber ríkisskattstjóra að verða við því ef hann telur lögmætar ástæður réttlæta frekari drátt á að skráningarskyldu sé sinnt.
    Ef skráningarskyldur aðili hefur ekki sinnt skráningarskyldu fyrir lok frests skv. 2. mgr. er ríkisskattstjóra heimilt án frekari tilkynninga eða aðvarana að taka ákvörðun um að krefjast skipta á honum fyrir héraðsdómi. Ákvæði III.–V., VII. og IX. kafla og 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um þá ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu sem geymir heiti og kennitölur aðila sem hann hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á samkvæmt framansögðu. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að krefjast skipta samkvæmt þessari málsgrein getur einnig orðið grundvöllur að kröfu um slit samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III þar sem við á.
    Eftir birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. er óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum skráningarskylds aðila eða stofna til skuldbindinga á hendur honum nema telja megi ráðstöfun nauðsynlega til að forða aðilanum eða kröfuhöfum hans frá verulegu tjóni enda veiti ríkisskattstjóri þá fyrirframheimild til ráðstöfunar hverju sinni. Fyrir brot gegn þessari málsgrein er ríkisskattstjóra heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem ábyrgð ber á broti samkvæmt ákvæðum 15. gr. Upplýsingar um skráningarskyldan aðila í fyrirtækjaskrá skulu bera með sér réttarstöðu hans samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar.
    Í kjölfar birtingar tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. sendir ríkisskattstjóri afrit af henni til allra innlendra fjármálafyrirtækja skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki skulu þegar í kjölfar móttöku tilkynningar ríkisskattstjóra læsa innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum, hverju nafni sem nefnast, í eigu skráningarskyldra aðila sem nefndir eru í tilkynningunni. Með læsingu falla niður allar ráðstöfunarheimildir yfir reikningi sem og viðkomandi eignum og fjármunum nema um sé að ræða ráðstöfun sem ríkisskattstjóri hefur veitt heimild fyrir skv. 4. mgr. Læsingu reiknings skal ekki aflétt nema að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að viðkomandi aðili hafi fullnægt skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum eða að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að aðili hafi verið tekinn til slita eða skipta með endanlegum dómsúrskurði. Samhliða sendingu á afriti tilkynningar skv. 1. málsl. skal ríkisskattstjóri óska eftir upplýsingum frá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. málsl. um fjárhagsstöðu skráningarskyldra aðila sem nefndir eru í tilkynningunni og setja hlutaðeigandi fjármálafyrirtækjum hæfilegan frest til að láta þær upplýsingar í té sem skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur.
    Sinni aðili ekki skráningarskyldu innan fjögurra vikna frá birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. skal ríkisskattstjóri krefjast skipta á aðila í samræmi við 6.–8. mgr. 17. gr. eða eftir atvikum slita á aðila eftir sérstökum málsmeðferðarreglum ákvæðis til bráðabirgða III. Ákvæði 17. gr. gilda að öðru leyti ekki um aðdraganda og meðferð máls samkvæmt ákvæði þessu eða ákvæði til bráðabirgða III.
    Fram að dómsúrskurði um slit eða skipti er ríkisskattstjóra heimilt að afturkalla ákvörðun sína skv. 3. mgr., kröfu um skipti aðila eða kröfu um slit aðila samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III, enda hafi aðili fullnægt skráningarskyldu sinni.

    b. (III.)
    Ef ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á skráningarskyldum aðila skv. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, og sú ákvörðun hefur ekki verið afturkölluð í samræmi við 7. mgr. sama ákvæðis, þá er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast slita á aðilanum fyrir héraðsdómi í samræmi við reglur ákvæðis þessa til bráðabirgða án tillits til 6.–8. mgr. 17. gr., enda uppfylli aðilinn bæði eftirfarandi skilyrði:
     1.      Heildarverðmæti þekktra eigna aðilans er lægra en 350.000 kr. Til þekktra eigna í skilningi þessa töluliðar teljast fasteignir, ökutæki og skip sem eru skráð í fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrám sem og innstæður og hlutabréfa- og verðbréfaeign sem skráð er hjá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Til þekktra eigna samkvæmt þessum tölulið teljast einnig aðrar eignir sem aðilinn eða annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta sýnir fram á að tilheyri aðilanum með viðhlítandi gögnum sem unnt er að sannreyna.
     2.      Heildarfjárhæð þekktra skulda aðilans er lægri en 2.000.000 kr. Til þekktra skulda í skilningi þessa töluliðar teljast skuldir aðilans sem skráðar eru hjá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem og skuldir við ríkissjóð, þó að frátöldum álögðum fésektum skv. 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, og dagsektum skv. 1. mgr. 14. gr. þessara laga. Til þekktra skulda samkvæmt þessum tölulið teljast einnig aðrar skuldir sem aðilinn eða annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta sýnir fram á að hvíli á aðilanum með viðhlítandi gögnum sem unnt er að sannreyna.
    Kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila samkvæmt ákvæði þessu skal beint til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem aðilinn yrði sóttur í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu. Ef varnarþing aðila verður ekki ráðið af skráningu hans í fyrirtækjaskrá skal kröfu beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í kröfu skal greina frá heiti og kennitölu aðila, heimilisfangi hans, sé það skráð í fyrirtækjaskrá, og greina jafnframt frá því í stuttu máli hvers er krafist og við hver atvik, rök og lagaákvæði krafan er studd. Kröfunni skal fylgja staðfesting ríkisskattstjóra um að eignir og skuldir hlutaðeigandi aðila séu undir mörkum skv. 1. mgr. og skal efni hennar talið rétt þar til annað er leitt í ljós. Ekki þarf að láta önnur gögn um fjárhagsstöðu viðkomandi aðila fylgja kröfunni. Kröfuna og fylgigögn með henni má senda héraðsdómi rafrænt. Ríkisskattstjóra er heimilt að krefjast í einu lagi slita á fleiri en einum aðila skv. 1. mgr.
    Að framkominni kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila skv. 2. mgr. skal héraðsdómari birta áskorun í Lögbirtingablaði þar sem heiti og kennitala viðkomandi aðila skal tiltekin og fyrirsvarsmanni hans, kröfuhöfum og öðrum sem telja sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta gefinn kostur á því að mæta til þinghalds þar sem krafan verður tekin fyrir. Í áskorun skal jafnframt tekið fram að fyrirhugað sé að framkomin krafa um slit sæti meðferð samkvæmt ákvæði þessu til bráðabirgða nema mótmæli komi fram. Heimilt er að skora með þessum hætti á fleiri en einn aðila í einni og sömu tilkynningunni og tiltaka í henni stað og stund reglulegs þinghalds héraðsdóms þar sem kröfur um slit viðkomandi aðila verði teknar fyrir.
    Komi fram mótmæli í þinghaldi gegn kröfu ríkisskattstjóra um slit skv. 3. mgr. frá fyrirsvarsmanni aðila eða öðrum sem á lögvarinna hagsmuna að gæta skal farið með kröfuna eftir því sem greinir í 6.–8. mgr. 17. gr. enda leggi sá sem hefur uppi mótmæli fram skiptatryggingu innan frests sem héraðsdómari setur. Ef mótmæli lúta að því að skilyrði fyrir slitum skv. 1. mgr. séu ekki uppfyllt og sýnt er að þau mótmæli eigi við rök að styðjast skal skiptatrygging þó sett af ríkisskattstjóra. Sé kröfu ríkisskattstjóra beint í skiptameðferð skv. 6.–8. mgr. 17. gr. vegna framkominna mótmæla skal ríkisskattstjóra vera heimilt að leggja fram nýja kröfu ásamt fylgigögnum sem koma þá í stað kröfu og fylgigagna skv. 2. mgr. Héraðsdómari leysir úr ágreiningi vegna mótmæla eða annarra atriða er varða meðferð máls á grundvelli ákvæðis þessa með úrskurði sem kæra má til Landsréttar eftir sömu reglum og gilda um kæru í almennu einkamáli.
    Verði kröfu ríkisskattstjóra ekki beint í skiptameðferð skv. 6.–8. mgr. 17. gr. skal farið með kröfuna eftir því sem greinir í 6. mgr. ákvæðis þessa en ríkisskattstjóra verður þá ekki gert að setja skiptatryggingu.
    Héraðsdómari skal taka kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila vegna vanrækslu á að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi málatilbúnaðar ríkisskattstjóra og skal úrskurður kveðinn upp eins skjótt og verða má. Afrit úrskurðar héraðsdóms skal sent rafrænt til ríkisskattstjóra. Þegar í kjölfarið skal ríkisskattstjóri birta tilkynningu í Lögbirtingablaði með heiti og kennitölum aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði samkvæmt framansögðu. Ekki er þörf á frekari birtingu dómsniðurstöðu um slit.
    Úrskurður héraðsdómara skv. 6. mgr. er kæranlegur til Landsréttar. Kæra skal lögð fram innan tveggja vikna frá birtingardegi tilkynningar í Lögbirtingablaði um slit þess aðila sem í hlut á skv. 6. mgr. Að öðru leyti gilda um kæru og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Einnig getur sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta óskað eftir endurupptöku slita sem hafa farið fram samkvæmt ákvæði þessu enda leggi hann fram staðfestingu ríkisskattstjóra um að skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum hafi verið fullnægt. Beiðni um endurupptöku skal afhent héraðsdómi innan fjögurra vikna frá birtingardegi tilkynningar skv. 6. mgr. Ef beiðni um endurupptöku er tekin til greina falla réttaráhrif slita niður og rakna þá við réttindi og skyldur skráningarskylds aðila eins og honum hafi aldrei verið slitið. Hlutaðeigandi skráningarskyldur aðili skal þó bera ábyrgð á kostnaði vegna slita sem fellur til eftir úrskurð um slit og fram að endurupptöku þeirra, á sama hátt og á við um áður áfallinn kostnað vegna kröfu um slit.
    Kostnaður vegna slita skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði skv. 6. mgr. skal greiðast af andvirði eigna hans en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði. Þær eignir sem eftir standa renna í ríkissjóð enda séu frestir skv. 7. mgr. runnir út eða kröfum í kærumáli fyrir æðra dómi eða um endurupptöku úrskurðar hafi verið endanlega hafnað. Á grundvelli 1. og 2. málsl. og að uppfylltum framangreindum skilyrðum öðlast ríkisskattstjóri fyrir hönd ríkissjóðs fulla ráðstöfunarheimild yfir eignum skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið og er innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skylt að kröfu ríkisskattstjóra að afhenda honum allar eignir á innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum sem áður tilheyrðu viðkomandi skráningarskyldum aðila. Hliðstæð skylda hvílir jafnframt á öðrum en fjármálafyrirtækjum sem fara með vörslur eigna skráningarskylds aðila sem hefur verið slitið. Afhending eigna til ríkisskattstjóra í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis getur ekki bakað þeim sem afhendir ríkisskattstjóra eignir skaðabótaábyrgð eða refsiábyrgð að lögum.
    Í tengslum við framkvæmd þessa ákvæðis og ákvæðis til bráðabirgða II er einstaklingum og lögaðilum, þar á meðal fjármálafyrirtækjum og opinberum aðilum, skylt að láta ríkisskattstjóra í té, án tafar og án endurgjalds og á því formi sem óskað er, allar upplýsingar og gögn um eignarhald og fjárhag skráningarskyldra aðila sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar ákvæðanna. Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæði þessu og ákvæði til bráðabirgða II. Upplýsingar og gögn sem ríkisskattstjóri aflar með heimild í framangreindum ákvæðum eru háð sérstakri þagnarskyldu skv. 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 20. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og lagt fram af menningar- og viðskiptaráðherra. Með frumvarpinu er lagt til að tvö ný bráðabirgðaákvæði bætist við lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, þar sem kveðið verði á um sérstök úrræði til að koma fram skiptum eða slitum á lögaðilum sem er skylt að tilkynna um raunverulega eigendur sína til fyrirtækjaskrár samkvæmt lögunum en hafa ekki sinnt þeirri skyldu. Þrátt fyrir að liðin séu meira en tvö og hálft ár frá gildistöku laganna er enn talsverður fjöldi lögaðila skráður í fyrirtækjaskrá sem ekki hefur sinnt skyldu til að skrá raunverulega eigendur og er frumvarpið lagt fram til að bregðast við þeim aðstæðum. Frumvarpið er jafnframt liður í því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum sem alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn (Financial Action Task Force, FATF) lagði fyrir íslensk stjórnvöld að grípa til í því skyni að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en viðhlítandi skráning og yfirsýn yfir raunverulega eigendur fyrirtækja er veigamikill þáttur í þeim aðgerðum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Inngangur.
    Með lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, er lögð sú skylda á tiltekna lögaðila, fjárvörslusjóði o.fl. að tilkynna um raunverulega eigendur til fyrirtækjaskrár sem ríkisskattstjóri starfrækir samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Lög nr. 82/2019 tóku gildi 6. júlí 2019 og fela í sér innleiðingu á 30. og 31. gr. fjórðu peningaþvættistilskipunarinnar (ESB 2015/849), eins og þeim var breytt með fimmtu peningaþvættistilskipuninni (ESB 2018/843), en fyrrgreind ákvæði mæla fyrir um skyldur aðildarríkja til að tryggja að upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila, fjárvörslusjóða o.fl. séu tiltækar og skráðar miðlægt.
    Nátengd lögum nr. 82/2019 eru lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, en þau kveða meðal annars á um skyldur tilkynningarskyldra aðila til að afla upplýsinga um raunverulega eigendur viðskiptamanna. Lögin eiga það sammerkt með lögum nr. 82/2019 að fela í sér innleiðingu á ákvæðum fjórðu og fimmtu peningaþvættistilskipananna.

2.2. Tildrög frumvarpsins.
    Árið 2017 gerði FATF úttekt á aðgerðum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en skýrsla með niðurstöðum hennar var birt í byrjun apríl 2018. Úttektin leiddi meðal annars í ljós ýmsa veikleika á íslenskri löggjöf, meðal annars að því er varðar utanumhald og skráningu upplýsinga um raunverulega eigendur. Í kjölfar úttektarinnar var Íslandi beint í eftirfylgni hjá ICRG (International Cooperation and Review Group), sem er sá vinnuhópur innan FATF sem tekur á málum ríkja sem glíma við verulega ágalla á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Í ágúst 2019 létu stjórnvöld í té upplýsingar og gögn um þann árangur sem náðst hafði í þeim aðgerðum sem lagðar höfðu verið til í skýrslu FATF en áður höfðu lög nr. 82/2019 tekið gildi (6. júlí 2019). Upplýsingunum var miðlað til sérfræðingahóps á vegum FATF (e. Joint Group) en slíkir sérfræðingahópar eru skipaðir einstaklingum frá aðildarríkjum FATF eða ríkjum sem eru aðilar að einkennissamtökum FATF og starfa innan tiltekinna svæða. Umræddur sérfræðingahópur hefur það hlutverk að meta þann árangur sem það ríki sem er til skoðunar hverju sinni hefur náð í þeim aðgerðum sem lagðar voru til í úttektarskýrslu þess og skila skýrslu um árangurinn til ICRG.
    Sérfræðingahópurinn skilaði lokadrögum að slíkri skýrslu vegna Íslands 24. september 2019, en drög að skýrslunni höfðu áður verið kynnt í ágúst sama ár. Niðurstaða hennar var sú að þótt Ísland hefði náð verulegum árangri í að bregðast við þeim ágöllum sem komið hefðu í ljós í úttektinni hefði sá árangur ekki verið fullnægjandi að öllu leyti. Með skýrslunni fylgdu drög að aðgerðaáætlun sem innihélt nokkrar aðgerðir sem Íslandi var gert að ráðast í. Meðal annars skyldi Ísland tryggja skráningu og aðgengi þar til bærra stjórnvalda að grunnupplýsingum og upplýsingum um raunverulega eigendur lögaðila innan hæfilegs tíma, einkum með því að ljúka við að safna slíkum upplýsingum saman í skrá yfir raunverulega eigendur og tryggja að viðurlögum yrði beitt væri skráningarskyldu ekki sinnt.
    Þegar fyrstu drög að skýrslu sérfræðingahópsins lágu fyrir í ágúst 2019 settu stjórnvöld af stað vinnu sem miðaði að því að koma í veg fyrir að Ísland yrði sett á svonefndan gráan lista FATF, þar sem þau ríki eru tilgreind sem búa við alvarlega ágalla á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en jafnframt að undirbúa og áhættumeta þá sviðsmynd, yrði það niðurstaðan. Meðal annars var efnt til vinnu við viðbragðsáætlun sem leidd var af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið auk þess sem samstarf var haft við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið. Settur var á fót sérstakur aðgerðahópur á vegum stjórnvalda, en hann vann eftir aðgerðaáætlun sem samþykkt var af ríkisstjórninni og fól meðal annars í sér samstillt átak til að vinna úr þeim atriðum sem sérfræðingahópur FATF taldi ófullnægjandi. Næstu mánuði var unnið hörðum höndum að úrbótum til að afstýra því að Ísland færi á gráa lista FATF og meðal annars voru samþykkt lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, sem tóku gildi 11. október 2019.
    Skýrsla sérfræðingahóps FATF um Ísland og meðfylgjandi tillaga um aðgerðaáætlun var tekin fyrir á fundum FATF í París dagana 13.–18. október 2019. Á fundi ICRG 15. október var fallist á að fella brott vissa þætti úr aðgerðaráætluninni vegna úrbóta sem Ísland hafði þá gripið til. Að öðru leyti var samþykkt að leggja til við allsherjarfund FATF að samþykkja skýrslu sérfræðingahópsins og meðfylgjandi aðgerðaáætlun. Skýrsla ICRG var svo tekin fyrir á allsherjarfundi FATF 18. október 2019 þar sem hún var samþykkt. Samhliða því var Ísland sett á gráan lista FATF en til þess að komast af þeim lista þurftu íslensk stjórnvöld að bæta úr þeim atriðum sem athugasemdir FATF tóku til sem og fyrrgreind aðgerðaáætlun. Í kjölfarið réðust íslensk stjórnvöld í umfangsmikla vinnu við úrbætur sem stóð yfir í tæpt ár. Sú vinna bar árangur en í kjölfar vettvangsathugunar FATF hér á landi í september 2020, sem staðfesti að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við aðgerðir, var tekin sú ákvörðun á aðalfundi FATF að Ísland yrði fjarlægt af umræddum gráum lista FATF.

2.3. Nánar um skráningarskyldu samkvæmt lögum nr. 82/2019.
2.3.1. Markmið og gildissvið laganna.
    Í 1. mgr. 1. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, kemur fram að markmið laganna sé að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur aðila skv. 2. gr. laganna svo að unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í 2. gr. laganna kemur fram að lögin gildi um lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, þ.m.t. útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga. Lögin gilda einnig um erlenda fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila sem eiga viðskipti hér á landi, sbr. 5. gr. Lögin gilda aftur á móti hvorki um stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga né heldur um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir. Í vafatilvikum sker ríkisskattstjóri úr um það hvort aðili eða flokkur aðila fellur undir gildissvið þeirra samkvæmt framansögðu.
    Hugtakið raunverulegur eigandi er skilgreint í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, sbr. 1. tölul. 3. gr. laga nr. 82/2019, og hljóðar sú skilgreining svo:

Raunverulegur eigandi: Einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi, í hvers nafni viðskipti eða starfsemi er stunduð eða framkvæmd. Raunverulegur eigandi telst meðal annars vera:
     a.      Í tilviki lögaðila:
                  1.      einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila; ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir,
                  2.      ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda skv. 1. tölul., t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara eða ef vafi leikur á um eignarhaldið, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi.
     b.      Í tilviki fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila, allir eftirtaldir aðilar:
                  1.      fjárvörsluaðili,
                  2.      stofnaðili,
                  3.      ábyrgðaraðili, ef við á,
                  4.      rétthafi, einn eða fleiri; ef rétthafi hefur ekki verið tilgreindur telst rétthafi vera hver sá einstaklingur eða hópur einstaklinga sem mun njóta ávinnings af stofnun fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila,
                  5.      aðrir einstaklingar sem hafa yfirráð, með beinum eða óbeinum hætti, yfir fjárvörslusjóði eða sambærilegum aðila.

    Með raunverulegum eiganda samkvæmt framangreindri skilgreiningu laga nr. 140/2018 og nr. 82/2019 er í stuttu máli átt við þá einstaklinga sem í raun geta tekið ákvörðun um ráðstöfun fjármuna og stjórnun aðila, eða þá sem njóta góðs af þeim eignum sem um ræðir. Aðeins einstaklingar geta verið raunverulegir eigendur samkvæmt umræddri skilgreiningu. Gera verður greinarmun á lagalegum eiganda annars vegar og raunverulegum eiganda hins vegar. Lagalegur eigandi er sá sem er lögformlegur eigandi lögaðila, t.d. eigandi hlutafjár samkvæmt hlutaskrá. Ólíkt raunverulegum eiganda getur lagalegur eigandi verið hvort heldur sem er einstaklingur eða lögaðili. Ekki er sjálfgefið að einstaklingar sem eru lagalegir eigendur lögaðila teljist jafnframt vera raunverulegir eigendur hans þótt oft sé það raunin. Við athugun á því hver teljist vera raunverulegur eigandi lögaðila í framangreindum skilningi ræður því ekki sjálfkrafa úrslitum hvernig lögformlegu eignarhaldi eða stjórn lögaðila er háttað, t.d. samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá, hlutaskrá eða samþykktum.

2.3.2. Nánar um inntak skráningarskyldu (skyldu til tilkynningar um raunverulegan eiganda).
    Þeir aðilar sem falla undir gildissvið laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, sbr. 2. gr. laganna, nefnast skráningarskyldir aðilar, sbr. 2. tölul. 3. gr. sömu laga. Vikið hefur verið að gildissviði laganna í kafla 2.3.1.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna kemur í hlut skráningarskyldra aðila að afla upplýsinga um raunverulega eigendur sína, þ.m.t. upplýsinga um réttindi þeirra. Í 2. mgr. 4. gr. laganna segir að skráningarskyldir aðilar skuli, með tilkynningu, veita ríkisskattstjóra upplýsingar um raunverulega eigendur sína. Veita skal upplýsingar um:
     a.      nafn,
     b.      lögheimili,
     c.      kennitölu eða fæðingardag ef kennitölu er ekki til að dreifa,
     d.      ríkisfang,
     e.      eignarhlut, tegund eignarhalds, dagsetningu eigendaskipta og
     f.      gögn sem staðfesta veittar upplýsingar og sýna fram á að viðkomandi sé raunverulegur eigandi.
    Tilkynna skal um raunverulega eigendur við nýskráningu skráningarskyldra aðila í fyrirtækjaskrá, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Um skráningarskyldu aðila sem falla undir 1. mgr. 2. gr. og voru þegar skráðir í fyrirtækjaskrá við gildistöku laganna 6. júlí 2019 fer á hinn bóginn eftir ákvæði til bráðabirgða við lögin. Í bráðabirgðaákvæðinu var upphaflega mælt fyrir um að þessir aðilar skyldu veita upplýsingar um raunverulega eigendur eigi síðar en 1. júní 2020. Sá frestur var styttur í 1. mars 2020 með lögum nr. 143/2019, um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, sem tóku gildi 22. desember 2019. Ákvæði þessa frumvarps taka einungis til aðila sem falla undir nefnt ákvæði til bráðabirgða, sbr. einnig skýringar við 1. gr.

2.3.3. Viðurlagaákvæði. Afskráning lögaðila.
    Í III. kafla laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, er að finna ákvæði um viðurlög og aðrar ráðstafanir sem gripið verður til ef skráningarskyldu samkvæmt lögunum er ekki sinnt. Í 13. gr. kemur fram að ríkisskattstjóri skuli krefja skráningarskyldan aðila um úrbætur ef í ljós kemur að hann fylgir ekki ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Í 14. gr. er ríkisskattstjóra jafnframt veitt heimild til að leggja dagsektir á skráningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Dagsektir samkvæmt ákvæðinu geta numið 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri skráningarskylds aðila. Í 15. gr. er kveðið á um heimild til álagningar stjórnvaldssekta fyrir nánar greind brot gegn lögunum og í 16. gr. er kveðið á um frest til að leggja slíkar sektir á.
    Í 17. gr. laganna er að finna heimild til afskráningar og slita (skipta) skráningarskyldra aðila. Í 1. mgr. er mælt svo fyrir að sinni skráningarskyldur aðili ekki kröfu ríkisskattstjóra um úrbætur skv. 13. gr. innan þriggja mánaða frá því að þess var krafist megi fella niður skráningu hans í fyrirtækjaskrá. Áður en skráning aðila er felld niður skal senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir aðilann samkvæmt skráningu aðvörun þess efnis að aðili verði afskráður úr fyrirtækjaskrá verði úrbætur ekki gerðar innan þess frests sem ríkisskattstjóri setur, sbr. 2. mgr. Berist ekkert eða ófullnægjandi svar innan tilskilins frests skal aðvörun um afskráningu send til fyrirsvarsmanna aðilans og annarra sem hagsmuna eiga að gæta og jafnframt birt í Lögbirtingablaðinu. Berist ekki fullnægjandi svar eða athugasemdir innan þess frests sem þar er tiltekinn má fella skráningu aðila niður, sbr. 3. mgr. Skv. 4. mgr. geta raunverulegir eigendur, lánardrottnar eða ríkisskattstjóri innan árs frá afskráningu gert þá kröfu að bú aðilans verði tekið til skipta í samræmi við 6.–8. mgr. Jafnframt má ríkisskattstjóri breyta skráningu þannig að afskráður aðili sé skráður á nýjan leik enda berist beiðni þar að lútandi innan árs frá afskráningu skv. 17. gr. og sérstakar aðstæður réttlæti endurskráningu. Ekki má ráðstafa heiti aðilans á þessum tíma. Í 5. mgr. er áréttað að þótt aðili hafi verið felldur af skrá skv. 17. gr. breyti það í engu persónulegri ábyrgð sem stjórnar- eða félagsmenn kunna að bera vegna skuldbindinga aðilans.
    Í 6.–8. mgr. 17. gr. laganna er kveðið á um meðferð kröfu ríkisskattstjóra o.fl. um að bú skráningarskylds aðila verði tekið til skipta að undangenginni afskráningu hans. Í 6. mgr. kemur fram að þegar héraðsdómara hefur borist krafa um skipti skv. 4. mgr. skuli hann fara með hana eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta. Í 7. mgr. kemur fram að héraðsdómari skuli kveða upp úrskurð um hvort orðið verði við kröfu um að bú aðilans verði tekið til skipta. Sé krafan tekin til greina skuli farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum hins látna að öðru leyti en því að eigendur njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum. Þá er í 8. mgr. mælt svo fyrir að skráning aðilans í fyrirtækjaskrá skuli standa óbreytt eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú aðilans verði tekið til skipta.
    Í 18. gr. laganna er kveðið á um fresti til að bera ákvörðun ríkisskattstjóra skv. 14., 15. eða 17. gr. undir dómstóla til ógildingar. Slíkt mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar þó ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni. Sé mál höfðað innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir eða stjórnvaldssektir fyrr en dómur hefur fallið. Tekið er fram í ákvæðinu að þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar á ákvörðun leggist dagsektir áfram á viðkomandi aðila. Þá kemur fram í ákvæðinu að ákvörðunum samkvæmt lögunum verði ekki skotið til æðra stjórnvalds.

2.4. Markmið frumvarpsins. Samantekt.
    Eins og áður kom fram bar aðilum sem skráðir voru í fyrirtækjaskrá við gildistöku laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, 6. júlí 2019, að tilkynna um raunverulega eigendur sína til ríkisskattstjóra (fyrirtækjaskrár) skv. 4. gr. laganna eigi síðar en 1. mars 2020, sbr. gildandi ákvæði til bráðabirgða við lögin eftir breytingar á því með lögum nr. 143/2019. Við gildistöku laganna voru um 63 þúsund lögaðilar skráðir í fyrirtækjaskrá sem féllu undir fyrrgreint ákvæði til bráðabirgða. Hinn 12. ágúst 2020 höfðu rúmlega 92% skráðra lögaðila í fyrirtækjaskrá sinnt skráningarskyldunni. Síðan þá hefur skráning batnað smám saman. Þó eru enn um 1.300 aðilar sem hafa ekki sinnt skráningarskyldu samkvæmt lögunum, þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi gripið til margvíslegra aðgerða til að knýja fram úrbætur, svo sem áskorana og álagningar dagsekta skv. III. kafla laganna, innheimtuaðgerða og aðgerða til að ná sambandi við fyrirsvarsmenn félaga gegnum tölvupóst og símleiðis. Skráningu er einkum ábótavant hjá ófjárhagslegum félögum á borð við almenn félagasamtök, áhugamannafélög o.fl. Er þar fyrst og fremst um að ræða félög, samtök o.þ.h. sem stunda ekki atvinnurekstur og eru mörg hver með litla sem enga virka starfsemi og mjög takmarkaðar eignir ef einhverjar. Einnig er um að ræða félög sem upphaflega voru stofnuð til að stunda atvinnurekstur en hafa hætt starfsemi og hafa staðið óhreyfð á skrá um langt skeið án þess að eigendur hafi hirt um að slíta þeim. Mörg þessa félaga hafa heldur enga skráða fyrirsvarsmenn í fyrirtækjaskrá. Er þá ekki með góðu móti unnt að hafa uppi á þeim einstaklingum sem gætu verið í fyrirsvari fyrir viðkomandi félög. Þegar svo hagar til koma úrræði skv. III. kafla gildandi laga að takmörkuðu haldi eðli málsins samkvæmt. Frumvarpinu er ætlað að ráða bót á þessari aðstöðu með lögfestingu sérstakra bráðabirgðaúrræða sem nánar er vikið að hér í framhaldi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að ríkisskattstjóra verði veitt öflugri og markvissari úrræði til að krefjast skipta eða slita fyrir dómi á aðilum sem falla undir gildandi ákvæði til bráðabirgða í lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, þ.e. voru skráðir í fyrirtækjaskrá við gildistöku laganna 6. júlí 2019, og hafa enn ekki tilkynnt raunverulega eigendur sína til skráningar hjá fyrirtækjaskrá í samræmi við lagaskyldu þar um. Úrræðin felast í því að veita ríkisskattstjóra heimild til að beina til viðkomandi aðila lokaáskorun um úrbætur en leita ella skipta eða slita á þeim fyrir dómi samkvæmt skilvirkari og einfaldari málsmeðferðarreglum en gildandi lög gera ráð fyrir. Eru tillögur frumvarpsins taldar nauðsynlegar til þess að tryggja að gildandi lög nái því meginmarkmiði sínu að skráningu raunverulegra eigenda verði komið í viðunandi horf til að draga úr hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Um leið eru tillögur frumvarpsins taldar nauðsynlegar til að íslenskum stjórnvöldum verði fært að ljúka aðgerðum er varða skráningu raunverulegra eigenda.
    Sem fyrr segir felast tillögur frumvarpsins að meginstefnu í skilvirkari úrræðum fyrir ríkisskattstjóra til að koma fram skiptum eða slitum á skráningarskyldum aðilum sem hafa vanrækt skráningarskyldu samkvæmt gildandi lögum. Í a-lið 1. gr. (sem yrði að ákvæði til bráðabirgða II) er að finna sérreglur um aðgerðir ríkisskattstjóra í aðdragandanum, þ.e. um að skora á aðila að sinna skráningarskyldu að því viðlögðu að krafist verði skipta á þeim fyrir dómi eftir reglum 6.–8. mgr. 17. gr. laganna, ellegar slita á þeim eftir sérstakri málsmeðferð sem fjallað er um í b-lið 1. gr. frumvarpsins (sem yrði að ákvæði til bráðabirgða III). Ákvæðin, sem ætlað er að veita ríkisskattstjóra einfaldari og um leið markvissari úrræði í þessu skyni en kveðið er á um í gildandi lögum, taka einkum mið af því að um er að ræða talsverðan fjölda aðila (um 1.300). Nánar er fjallað um efnisinntak tillagna frumvarpsins í skýringum við 1. gr.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ákvæði frumvarpsins fela í sér skilvirkari úrræði til að koma fram skiptum eða eftir atvikum slitum á lögaðilum sem hafa ekki sinnt skráningarskyldu samkvæmt gildandi lögum. Ákvæðin eru jafnframt liður í að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum Íslands vegna varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en ljóst er að skráning á raunverulegum eigendum lögaðila er veigamikill þáttur í því að tryggja fullnægjandi varnir gegn slíkri brotastarfsemi. Brotalamir í þeim eru fallnar til að skaða hagsmuni og trúverðugleika íslensks fjármálakerfis og atvinnulífs. Tillögur frumvarpsins eru því í senn tímabærar og nauðsynlegar til að unnt verði að ljúka aðgerðum varðandi skráningu raunverulegra eigenda. Á sama tíma hefur verið leitast við að gera úrræðin þannig úr garði að réttaröryggi aðila verði að fullu tryggt og að þeim gefist viðhlítandi tækifæri til að gæta hagsmuna sinna bæði við meðferð mála fyrir ríkisskattstjóra og fyrir dómi.
    Í a-lið 1. gr. (sem yrði að ákvæði til bráðabirgða II) er gert ráð fyrir birtingu áskorana um úrbætur á skráningu með þrenns konar hætti, þar á meðal í Lögbirtingablaði og fjölmiðlum. Með þessu er ætlunin að tryggja að áskorun um úrbætur komist til skila til hlutaðeigandi fyrirsvarsmanna þannig að þeir geti brugðist við innan tiltekinna tímafresta, að því viðlögðu að ella verði krafist skipta á aðilanum eftir reglum 17. gr. laganna, eða eftir atvikum slita á honum samkvæmt sérreglu b-liðar 1. gr. frumvarpsins (sem yrði að ákvæði til bráðabirgða III). Í a-lið er einnig ráðgert að séu úrbætur á skráningu ekki gerðar innan tiltekins frests þá falli niður heimildir til að ráðstafa eignum og réttindum skráningarskylds aðila eða stofna til skuldbindinga á hendur honum. Frá því banni megi þó víkja í nánar greindum undantekningartilfellum að fenginni heimild ríkisskattstjóra. Framangreindar reglur eru taldar nauðsynlegar til að draga úr hættu á því að aðili haldi áfram starfsemi eins og ekkert hafi í skorist og skjóti, eftir atvikum, eignum undan, þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi beint til hans áskorun um að skrá raunverulega eigendur. Ekkert er því til fyrirstöðu að löggjafinn setji reglur sem þessar. Má í þessu sambandi, og til hliðsjónar, benda á ýmsar reglur í lögum sem gera opinbera skrásetningu að skilyrði fyrir því að lögaðili geti átt réttindi og borið skyldur að lögum, sbr. t.d. 15. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, 10. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, 9. gr. laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, og 5. gr. laga um sameignarfélög, nr. 50/2007.
    Í b-lið 1. gr. er sem fyrr segir lagt til að kveðið verði á um heimild ríkisskattstjóra til að krefjast fyrir dómi slita á tilteknum skráningarskyldum aðilum sem skirrast við að fullnægja skráningarskyldu með einfaldari og skjótvirkari hætti en hefðbundin skiptameðferð gefur kost á. Slitameðferð samkvæmt b-lið kemur jafnframt í stað hefðbundinnar skiptameðferðar skv. 17. gr. laganna svo langt sem fyrrnefnda ákvæðið nær. Úrræðið sem felst í b-lið er talið nauðsynlegt til að markmiðum frumvarpsins verði náð og verður það einnig talið samrýmast stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Til þess er sérstaklega að líta að gildissvið b-liðar er bundið við aðila sem hafa lítil eða engin fjárhagsleg umsvif og þar sem telja verður að ekki sé nauðsyn á hefðbundinni skiptameðferð eftir almennum reglum. Með nefndu ákvæði frumvarpsins er einnig leitast við að búa svo um hnúta að réttaröryggi hlutaðeigandi verði tryggt á öllum stigum málsmeðferðar fyrir dómi. Til að mynda getur hlutaðeigandi afstýrt slitameðferð samkvæmt ákvæðinu með því að hafa uppi mótmæli fyrir dómi og setja þá skiptatryggingu, vilji hann að aðili verði tekinn til skipta með hefðbundnum hætti í stað slitameðferðar skv. b-lið. Er það því í reynd á forræði hlutaðeigandi og eftir atvikum kröfuhafa hans o.fl. að ákveða í hvaða farveg mál fara að þessu leyti, þ.e. hvort viðhöfð verði hefðbundin skiptameðferð skv. reglum 6.–8. mgr. 17. gr. laganna ellegar einfölduð slitameðferð skv. b-lið 1. gr. frumvarpsins. Þá er skráningarskyldum aðila sem endranær unnt, án teljandi fyrirhafnar, að afstýra aðgerðum ríkisskattstjóra með því að uppfylla skráningarskyldu á grundvelli gildandi laga.
    Í öðrum lögum má til samanburðar finna heimildir til þess að krefjast slita á lögaðilum vegna vanrækslu á ýmsum lagaskyldum samkvæmt félaga- og reikningsskilalöggjöf, sbr. t.d. 107. og 108. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, 82. og 83. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og 121. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006. Ákvæði af framangreindum toga, sbr. og umrædd ákvæði frumvarpsins, teljast vera samrýmanleg 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. mgr. 75. gr. hennar. Þessi stjórnarskrárákvæði girða ekki fyrir að löggjafinn skyldi lögaðila til að tilkynna ákveðnar upplýsingar til opinberrar skrásetningar, t.d. raunverulega eigendur, og geri slíkt að skilyrði fyrir stofnun eða áframhaldandi starfsemi þeirra þegar slíkt helgast af almannahagsmunum, í þessu tilfelli fullnægjandi vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá leiðir af ákvæðum frumvarpsins að endanlegt úrskurðarvald um skipti eða slit skráningarskyldra aðila sem skirrast við að fullnægja skráningarskyldu er lagt í hendur dómstóla, eins og 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar áskilur.
    Ráðgert er í 8. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins að andvirði eigna skráningarskyldra aðila sem slitið er með dómsúrskurði skv. 6. mgr. renni til greiðslu á kostnaði vegna slitanna, en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði. Þær eignir aðila sem eftir standa, ef einhverjar eru, renni í ríkissjóð, enda séu frestir til að kæra eða krefjast endurupptöku á úrskurði um slit runnir út eða kröfum í kærumáli eða um endurupptöku hafi verið endanlega hafnað af viðkomandi dómstól. Öðlast ríkisskattstjóri þá fyrir hönd ríkissjóðs lögvarið tilkall til eignanna, og ráðstöfunarrétt yfir þeim, með þeim hætti sem nánar er lýst í ákvæðinu. Við mat á samræmi ákvæðisins við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignaréttar er meðal annars til þess að líta að skráningarskyldum aðilum, og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta, er í lófa lagið að afstýra slitum með þeim hætti sem áður var rakið, svo sem með því að sinna einfaldlega lagaskyldu um að skrá raunverulega eigendur. Með því að vanrækja skráningarskyldu, að undangengnum ítrekuðum áskorunum og viðvörunum, sem lyktar með því að tilvist skráningarskylds aðila er lokið með dómsúrskurði, er litið svo á að hlutaðeigandi fyrirgeri rétti sínum til eigna aðilans sem kunna að standa eftir að lokinni greiðslu kostnaðar vegna slita hans. Telja verður þó einkar ólíklegt að sú staða komi upp í reynd, enda munu slitareglur b-liðar 1. gr. frumvarpsins einungis gilda um skráningarskylda aðila sem eiga engar eignir eða svo takmarkaðar eignir að þær duga vart til að mæta kostnaði vegna slitanna til að byrja með. Gildissvið reglunnar er því mjög þröngt og er þess gætt að ekki sé gengið lengra en nauðsyn ber til. Framangreindar reglur helgast síðast en ekki síst af þeirri ríku almannaþörf sem felst í viðhlítandi skráningu raunverulegra eigenda og er ætlað að hvetja aðila enn frekar til að sinna skráningarskyldu. Verður því að telja ljóst að umrætt ákvæði er samrýmanlegt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.
    Með vísan til framanritaðs eru ákvæði frumvarpsins talin samrýmanleg stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir.

5. Samráð.
    Frumvarpið er unnið í samvinnu þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, ríkisskattstjóra og dómsmálaráðuneytis. Frumvarpið var kynnt í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 11.–24. mars 2022 (mál. nr. S-61/2022). Tvær umsagnir bárust um frumvarpið í samráðsgáttina, annars vegar frá Samtökum fjármálafyrirtækja og hins vegar frá einstaklingi.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram að samtökin geri ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið sjálft en að þau vilji koma á framfæri athugasemdum við framkvæmd laganna og tæknilega útfærslu skrárinnar. Þar sem athugasemdirnar varða ekki efnisatriði frumvarpsins þykir ekki ástæða til að fjalla um þær hér en þó er rétt að taka fram að athugasemdirnar eru til skoðunar hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
    Í umsögn sem barst frá einstaklingi kemur fram að hann telji lög um skráningu raunverulegra eigenda ekki samræmast annarri löggjöf sem í gildi er. Í fyrsta lagi er í umsögninni gerð athugasemd við að forráðamenn, t.d. áhugamannafélaga, séu skráðir raunverulegir eigendur félags en það stangist á við eignarrétt eins og hann er skilgreindur í lögum. Í öðru lagi er gerð athugasemd við að orðið eigandi sé notað þegar um er að ræða lögaðila í dreifðri eignaraðild og kemur fram að þessi orðnotkun valdi ruglingi og með henni sé gengið gegn lögum um íslenska tungu.
    Í þriðja lagi er gerð athugasemd við framkvæmd laganna að því er varðar beitingu dagsekta og annarra viðurlaga en slíkt sé brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hvað fyrstu tvær athugasemdirnar varðar er hugtakið raunverulegur eigandi skilgreint í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Í 3. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda er vísað til framangreindrar skilgreiningar í lögum nr. 140/2018 hvað varðar skýringu hugtaksins raunverulegur eigandi. Í eldri lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, var einnig að finna skilgreiningu á hugtakinu raunverulegur eigandi. Hugtakið er þýðing á enska hugtakinu beneficial owner sem kemur meðal annars fyrir í gerðum Evrópusambandsins á þessu sviði sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn en umræddar gerðir voru þýddar á íslensku af Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Í íslenskri þýðingu gerðanna er hugtakið beneficial owner þýtt sem raunverulegur eigandi og er stuðst við þá þýðingu bæði í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, eldri lögum um sama efni, þ.e. lögum nr. 64/2006, og í lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019. Með vísan til þess sem að framan greinir voru ekki gerðar breytingar á frumvarpinu.
    Hvað varðar athugasemd um að meðalhófs sé ekki gætt við framkvæmd laganna, þ.e. við álagningu dagsekta og annarra viðurlaga, er rétt að benda á að í III. kafla laganna er að finna viðurlagaákvæði þar sem kveðið er á um þau úrræði sem ríkisskattstjóri getur beitt aðila sinni þeir ekki skráningarskyldu samkvæmt lögunum. Beiting íþyngjandi úrræða samkvæmt III. kafla laganna kemur eingöngu til álita hafi því lögmæta markmiði sem að er stefnt með lagasetningunni ekki verið náð með öðru og vægara móti (krafa um úrbætur). Sú málsmeðferð sem lagt er til að ríkisskattstjóra viðhafi í aðdraganda skipta/slita, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins, felur einnig í sér meðalhóf en í ákvæðinu er meðal annars lagt til að ríkisskattstjóri skuli skora á skráningarskyldan aðila að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögunum áður en gripið er til þess að beita öðrum úrræðum frumvarpsins eða gildandi laga.
    Þá fékk FATF einnig kynningu á drögum að frumvarpinu á fyrri stigum en nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því síðan.

6. Mat á áhrifum.
    Ákvæði frumvarpsins fela sem fyrr segir í sér einföldun á málsmeðferð og stjórnsýslu til að koma fram skiptum eða slitum á skráningarskyldum aðilum sem ekki hafa sinnt skráningarskyldu samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019. Þrátt fyrir einfaldari málsmeðferð að þessu leyti verður réttaröryggi skráningarskyldra aðila eftir sem áður að fullu tryggt verði ákvæði frumvarpsins að lögum, svo sem rökstutt var í 4. kafla. Einföldun á málsmeðferð að þessu leyti mun einnig leiða til aukinnar skilvirkni þeirra ráðstafana sem um ræðir og jafnframt draga úr kostnaði opinberra aðila vegna þeirra. Við mat á áhrifum frumvarpsins ber einnig að hafa í huga að ríkisskattstjóra ber nú þegar samkvæmt gildandi ákvæðum III. kafla laga nr. 82/2019 að beita þvingunarúrræðum og viðurlögum, meðal annars afskráningu, gagnvart þeim skráningarskyldu aðilum sem ekki fullnægja umræddri skyldu.
    Ljóst er að ríkir almannahagsmunir standa til þess að stjórnvöldum verði gert kleift að ljúka þeim aðgerðum sem FATF gerði Íslandi að ráðast í eins skjótt og framast er unnt. Að sama skapi verður að telja að neikvæð áhrif frumvarpsins á hagsmuni þeirra skráningarskyldu aðila sem um ræðir séu óveruleg að virtum þeim hagsmunum sem í húfi eru. Verður enn fremur að leggja áherslu á að tilefni frumvarpsins má rekja til þess að tiltekinn hluti skráðra lögaðila í fyrirtækjaskrá hefur ekki sinnt þeirri lagaskyldu að skrá raunverulega eigendur þrátt fyrir að ríflegt svigrúm hafi verið gefið í þeim efnum. Með slíkri lagaskyldu er leitast við að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila til þess að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Er því brýnt að bætt verði úr þeim misbresti á skráningu raunverulegra eigenda sem er tilefni þess að frumvarp þetta er lagt fram.
    Ljóst er að beiting þeirra úrræða sem frumvarpið kveður á um mun hafa í för með sér kostnað bæði fyrir opinbera aðila, meðal annars ríkisskattstjóra og dómstóla, svo og þá sem ráðstafanir samkvæmt ákvæðinu munu beinast gegn. Kostnaðaráhrifin hjá Skattinum felast í vinnu embættisins við undirbúning framkvæmdar laganna, framkvæmdina sjálfa og beinum útlögðum kostnaði. Undirbúningur og framkvæmd krefst tveggja til þriggja starfsmanna í fullu starfi auk aðkomu fleiri sérfræðinga eftir þörfum. Gert var ráð fyrir þessum kostnaði í fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 og í fjárlögum fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri fengi tímabundið 50 millj. kr. framlag og gert var ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi í fjárlögum fyrir árið 2022, á málefnasviði 5, til að sinna þessum verkefnum. Beinn útlagður kostnaður hjá Skattinum vegna framkvæmdarinnar felst í útsendingu áskorana, birtinga í Lögbirtingablaði, auglýsingum í fjölmiðlum og kostnaði vegna mætinga fyrir hönd embættisins í þinghöld á landsbyggðinni. Beinn kostnaður leggst einnig á ríkissjóð vegna skiptatrygginga og beiðna til héraðsdóms um slit eða skipti. Kostnaður vegna skiptatrygginga fer eftir ákvörðun dómstóla hverju sinni og kostnaður vegna beiðna til héraðsdóms um slit eða skipti fer eftir lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Í fjárlögum fyrir árið 2022 er síðan gert ráð fyrir, á málefnasviði 5, að Skatturinn fái tímabundið 140 millj. kr. framlag til að standa straum af kostnaði við skiptatryggingu þar sem fara þarf með lögaðila í skipti skv. 17. gr. laganna. Þá er gert ráð fyrir kostnaði vegna slita- og skiptameðferðar hjá héraðsdómstólunum en gera má ráð fyrir umtalsverðri vinnu hjá dómstólunum vegna þessa í ljósi þess fjölda lögaðila sem um ræðir. Um tímabundinn kostnað er að ræða og er í fjárlögum fyrir árið 2022 gert ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi til dómstólanna á árinu 2022, á málefnasviði 2, til að standa straum af þeim kostnaði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

     Um a-lið.
    Í a-lið 1. gr. frumvarpsins, sem lagt er til að verði að ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, er fjallað um aðdraganda skipta eða slita á skráningarskyldum aðilum sem hafa ekki fullnægt skráningarskyldu á grundvelli laganna. Ákvæðið gildir um skráningarskylda aðila sem falla undir gildandi ákvæði til bráðabirgða við lögin, þ.e. aðila skv. 1. mgr. 2. gr. sem voru skráðir í fyrirtækjaskrá þegar lögin tóku gildi 6. júlí 2019.
    Í 1. mgr. 17. gr. laganna er ráðgert að ríkisskattstjóra sé heimilt að afskrá aðila hafi hann ekki orðið við kröfu ríkisskattstjóra um úrbætur á skráningu raunverulegra eigenda skv. 13. gr. innan þriggja mánaða frá því að úrbóta var krafist. Í 2. og 3. mgr. 17. gr. er svo að finna nánari reglur um undanfara afskráningar. Þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir aðila samkvæmt skráningu skal send aðvörun þess efnis að aðili verði afskráður úr fyrirtækjaskrá verði úrbætur ekki gerðar innan þess frests sem ríkisskattstjóri setur. Berist ekkert eða ófullnægjandi svar innan tilskilins frests skal aðvörun um afskráningu send til fyrirsvarsmanna aðilans og annarra sem hagsmuna eiga að gæta og jafnframt birt í Lögbirtingablaði. Berist ekki fullnægjandi svar eða athugasemdir innan þess frests sem þar er tiltekinn má fella skráningu aðila niður. Í 4. mgr. 17. gr. segir að innan árs frá afskráningu geti raunverulegir eigendur, lánardrottnar eða ríkisskattstjóri gert þá kröfu að bú aðilans verði tekið til skipta í samræmi við 6.–8. mgr. Jafnframt megi ríkisskattstjóri breyta skráningu þannig að afskráður aðili sé skráður á nýjan leik enda berist beiðni þar að lútandi innan árs frá afskráningu skv. 17. gr. og sérstakar aðstæður réttlæti endurskráningu.
    Í þessari grein frumvarpsins eru, sem fyrr segir, lagðar til sérreglur um aðdraganda kröfu um skipti eða slit sem víkja til hliðar ofangreindum ákvæðum 13. gr. og að nokkru 17. gr. laganna. Sérreglur greinarinnar miða að því að auka skilvirkni málsmeðferðarinnar, þ.m.t. hvað varðar áskoranir ríkisskattstjóra um úrbætur, án þess þó að slíkt komi niður á réttaröryggi þeirra aðila sem í hlut eiga. Þessi sjónarmið endurspeglast í ákvæðum greinarinnar, þar á meðal reglum um áskoranir sem vikið verður að hér á eftir.
    Í 1. mgr. er að finna afmörkun á gildissviði og viðfangsefni greinarinnar. Í 2. mgr. er fjallað nánar um aðdraganda kröfu ríkisskattstjóra um skipti eða slit á skráningarskyldum aðila. Þar er ráðgert að ríkisskattstjóri skuli skora á aðila með ákveðnum hætti að fullnægja skráningarskyldu. Slíkri áskorun skal komið á framfæri eftir þremur leiðum sem nú verður gerð grein fyrir. Það athugast þó að fyrsttalda leiðin er háð undantekningum, eins og síðar verður rakið.
     Í fyrsta lagi er ráðgert í 2. mgr. að ríkisskattstjóri beini áskorun til fyrirsvarsmanns aðila á lögheimili hans sem skráð er á tilteknu heimilisfangi í þjóðskrá. Hugtakið fyrirsvarsmaður er skilgreint í greininni en með því er átt við þann sem samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá er stjórnarmaður skráningarskylds aðila ef um eins manns stjórn er að ræða eða formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri eða prókúruhafi eða sem skráður er í forsvari fyrir aðilann í fyrirtækjaskrá hvað sem líður annars stöðu viðkomandi hjá aðilanum. Nægilegt er að beina áskorun með framangreindum hætti til einhvers þeirra síðastnefndu og telst henni þá hafa verið komið á framfæri við viðkomandi lögaðila. Ef enginn er skráður sem fyrirsvarsmaður aðila í framangreindum skilningi eða enginn skráðra fyrirsvarsmanna hefur skráð lögheimili á tilteknu heimilisfangi í þjóðskrá er ekki nauðsynlegt að senda áskorun til fyrirsvarsmanns samkvæmt framangreindum reglum. Hið sama gildir ef lögheimilisskráning tekur t.d. aðeins til ákveðins erlends ríkis, án þess að ákveðið heimilisfang sé tilgreint. Með þessum reglum ákvæðisins er brugðist við tilvikum, sem komið hafa upp í framkvæmd laganna, þar sem ófullnægjandi skráning upplýsinga um fyrirsvarsmenn aðila o.fl. hefur gert það að verkum að ekki hefur verið unnt að koma fram áskorun með fullnægjandi hætti. Þegar svo háttar til er óraunhæft að ríkisskattstjóri leggi út í sjálfstæða rannsókn á því hver eða hverjir kunni að vera í fyrirsvari fyrir aðila. Þá stendur það hlutaðeigandi aðilum næst að tryggja að skráning í fyrirtækjaskrá sé viðhlítandi að þessu leyti, sbr. skyldur sem felast í lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Reynslan sýnir jafnframt að margir skráningarskyldir aðilar hafa ekki skráða fyrirsvarsmenn í fyrirtækjaskrá og er þá torvelt eða útilokað að hafa uppi á þeim einstaklingum sem gætu verið í fyrirsvari fyrir viðkomandi aðila. Ótækt er að ófullnægjandi skráning á fyrirsvari geti valdið því að aðgerðum til að knýja fram skráningu raunverulegra eigenda verði ekki komið fram gagnvart viðkomandi aðilum en ákvæðum frumvarpsins er ætlað að eyða þeirri hættu.
    Ákvæði 2. mgr. hafa ekki að geyma sérstök fyrirmæli um hvernig áskorun verði send til fyrirsvarsmanns aðila þegar þess er þörf samkvæmt framangreindum reglum. Er því miðað við að nægilegt sé að áskorun sé send með almennum bréfpósti en ekki sé þörf á ábyrgðarbréfi. Enn fremur nægir til að uppfylla áskilnað ákvæðisins að áskorun sé send á skráð lögheimili fyrirsvarsmanns aðila samkvæmt þjóðskrá og gildir þá einu hvort sú skráning er rétt eða ekki og skiptir þá heldur ekki máli þótt áskorun verði ekki veitt viðtaka á skráðu lögheimili viðkomandi af einhverjum ástæðum. Þannig er nægilegt að áskorunin sé sannanlega send með pósti á lögheimili skráðs fyrirsvarsmanns í skilningi 2. mgr. og telst henni þá hafa verið komið nægilega á framfæri við skráningarskyldan aðila.
     Í öðru lagi er ráðgert í 2. mgr. að áskorun skuli birt í Lögbirtingablaði þar sem greina skal heiti og kennitölur þeirra aðila sem í hlut eiga. Hér er ráðgert að áskorun sem birt er í Lögbirtingablaði geti beinst að fleiri en einum skráningarskyldum aðila. Horfir það óneitanlega til mikils hagræðis að unnt verði að skora í einu lagi á þá aðila sem um ræðir ef efni standa til þess fremur en að birta þurfi sérstaka áskorun vegna hvers og eins þeirra í Lögbirtingablaði.
     Í þriðja lagi er ráðgert í 2. mgr. að birta skuli áskorun almenns efnis í fjölmiðli og að í henni verði jafnframt vísað til birtingar áskorunar í Lögbirtingablaði samkvæmt framansögðu (þar sem heiti og kennitölur viðkomandi aðila koma fram). Þannig er ráðgert að í áskorun sem birtist í fjölmiðli verði ekki getið um heiti og kennitölur viðkomandi aðila heldur verði sú áskorun efnislega almennt orðuð.
    Samantekið er þannig ráðgert í 2. mgr. að áskorun þurfi ávallt að birta í Lögbirtingablaði og í fjölmiðli á þann hátt sem að framan greinir, sbr. annað og þriðja atriðið. Skylda til að beina áskorun til fyrirsvarsmanns aðila, sbr. fyrsta atriðið, er aftur á móti háð þeirri undantekningu að ekki er þörf fyrir slíka áskorun ef engum fyrirsvarsmanni í skilningi ákvæðisins er til að dreifa samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá eða ef lögheimili viðkomandi er ekki skráð í þjóðskrá á tilteknu heimilisfangi.
    Í áskorun sem komið er á framfæri á framangreindan hátt skal gefinn tveggja vikna frestur til að fullnægja skráningarskyldu varðandi raunverulega eigendur. Upphaf frestsins miðast í öllum tilfellum við birtingardag áskorunar í Lögbirtingablaði. Til þess standa hagkvæmnisrök enda fer þá ekki á milli mála hvenær fresturinn tekur að líða. Áður en frestinum lýkur getur fyrirsvarsmaður aðila, samkvæmt skilgreiningu ákvæðisins, þó óskað eftir því að fresturinn verði framlengdur um allt að tveimur vikum. Ber ríkisskattstjóra eftir atvikum að verða við því ef hann telur lögmætar ástæður réttlæta frekari drátt á að skráningarskyldu sé sinnt. Skýra verður þessa heimild þröngt, enda verður að telja að skráningarskyldum aðilum hafi á þessu stigi alla jafna gefist nægt ráðrúm til að verða við skráningarskyldu.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að hafi skráningarskyldur aðili ekki sinnt skráningarskyldu innan frests sem gefinn er í áskorun skv. 2. mgr. sé ríkisskattstjóra heimilt án frekari tilkynninga eða aðvarana að taka ákvörðun um að krefjast skipta á honum fyrir héraðsdómi en um skiptin fer skv. 6.–8. mgr. 17. gr. laganna. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að krefjast skipta samkvæmt ákvæðinu getur einnig orðið grundvöllur að kröfu um slit samkvæmt ákvæði b-liðar 1. gr. frumvarpsins, sem yrði ákvæði til bráðabirgða III. Ríkisskattstjóri skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu sem geymir heiti og kennitölur aðila sem hann hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á samkvæmt framansögðu. Í 3. mgr. er jafnframt lagt til að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um ákvörðun ríkisskattstjóra um að krefjast skipta á skráningarskyldum aðilum samkvæmt framansögðu, enda tryggja ákvæði frumvarpsins réttaröryggi aðila á fullnægjandi hátt, meðal annars hvað varðar möguleika á að koma fram andmælum.
    Í 4. mgr. er lagt til að eftir birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. verði óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum aðila auk þess sem óheimilt verði að stofna til skuldbindinga á hendur honum. Frá því megi þó víkja ef telja má ráðstöfun nauðsynlega til að forða aðilanum eða kröfuhöfum hans frá verulegu tjóni enda veiti ríkisskattstjóri þá fyrir fram heimild til ráðstöfunar hverju sinni. Lagt er í hendur ríkisskattstjóra að taka afstöðu til þess, að fenginni beiðni frá þar til bærum fyrirsvarsmanni aðila, hvort ástæða sé til að veita heimild fyrir ráðstöfun á þeim grunni að hún sé nauðsynleg til að forða viðkomandi aðila eða kröfuhöfum hans frá tjóni sem telja má verulegt. Ber að skýra þessa undantekningarheimild þröngt. Undantekningarheimildin á einungis við um tilvik þar sem fyrirsjáanlegt þykir að lögaðilinn sem slíkur og kröfuhafar hans mundu verða fyrir tjóni ef greiðsla eða önnur ráðstöfun fengi ekki að eiga sér stað, t.d. ef greiðsla væri nauðsynleg til að forða aðila frá rekstrarstöðvun. Heimildinni verður þannig t.d. ekki beitt sökum þess eins að félagsmenn eða hluthafar aðila kunni að verða fyrir tjóni ef greiðsla fer ekki fram. Ráðgert er að fyrir brot gegn 4. mgr. sé ríkisskattstjóra heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem ábyrgð ber á broti skv. 15. gr. Þá er ráðgert að upplýsingar um skráningarskyldan aðila í fyrirtækjaskrá skuli bera með sér réttarstöðu hans skv. 4. mgr. Framangreindum reglum 4. mgr. um bann við ráðstöfun eigna og stofnun skuldbindinga á hendur aðila er ætlað að verka sem hvatning til að viðkomandi sinni skráningarskyldu þannig að ekki þurfi að koma til beitingar úrræða samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er lagt til að í kjölfar birtingar tilkynningar skv. 3. mgr. í Lögbirtingablaði skuli ríkisskattstjóri senda afrit af henni til allra innlendra fjármálafyrirtækja skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Er þar átt við viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki. Þegar í kjölfar móttöku tilkynningar ríkisskattstjóra skulu umrædd fjármálafyrirtæki læsa innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum, hverju nafni sem nefnast, í eigu skráningarskyldra aðila sem nefndir eru í tilkynningunni. Skýra ber þessi fyrirmæli ákvæðisins rúmt. Eins og orðalag ákvæðisins ber með sér takmarkast læsingarskylda ekki við innlánsreikninga heldur nær hún meðal annars einnig til verðbréfareikninga og annars konar eignasafna aðila í umsýslu eða stýringu hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki. Með læsingu falla niður allar ráðstöfunarheimildir yfir reikningi sem og viðkomandi eignum og fjármunum nema um sé að ræða ráðstöfun sem ríkisskattstjóri hefur veitt heimild fyrir skv. 4. mgr. Viðkomandi fjármálafyrirtækjum verður óheimilt að aflétta læsingu reikninga nema að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að viðkomandi aðili hafi fullnægt skráningarskyldu vegna raunverulegra eigenda eða að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að aðilinn hafi verið tekinn til slita eða skipta með endanlegum dómsúrskurði. Læsingu verður því ekki undir neinum kringumstæðum aflétt nema að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra samkvæmt framansögðu.
    Ef fram kemur beiðni um aflæsingu reiknings frá viðkomandi eiganda eða fyrirsvarsmanni ber hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki, áður en aflæsing ætti sér stað, að ganga úr skugga um að staðfesting ríkisskattstjóra um heimild til aflæsingar liggi fyrir með því að óska milliliðalaust eftir henni frá ríkisskattstjóra. Við aflæsingu ber viðkomandi fjármálafyrirtæki jafnframt að gæta þess að fjármunum sé ekki ráðstafað ranglega til eigenda eða fyrirsvarsmanna aðila hafi þeir t.d. glatað forræði yfir búi hans vegna dómsúrskurðar um skipti eða slit.
    Til viðbótar framansögðu er ráðgert í 5. mgr. að ríkisskattstjóri óski eftir upplýsingum frá öllum innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 um fjárhagsstöðu aðila sem nefndir eru í tilkynningu skv. 3. mgr. og setji hlutaðeigandi fjármálafyrirtækjum hæfilegan frest til að láta þær upplýsingar í té. Er hér meðal annars átt við upplýsingar um eignir og skuldir aðila, sbr. skilyrði 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins. Er sú upplýsingaöflun nauðsynleg vegna framkvæmdar ákvæða frumvarpsins.
    Í 6. mgr. er ráðgert að sinni aðili ekki skráningarskyldu innan fjögurra vikna frá birtingu tilkynningar ríkisskattstjóra í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. geti ríkisskattstjóri beint máli í tvenns konar farveg. Annars vegar að ríkisskattstjóri krefjist skipta á aðila í samræmi við 6.–8. mgr. 17. gr. laganna. Hins vegar að ríkisskattstjóri krefjist slita á aðila eftir sérstökum reglum b-liðar 1. gr. frumvarpsins sem lagt er til að verði að ákvæði til bráðabirgða III. Veita verður ríkisskattstjóra víðtækt svigrúm til mats á því hvor leiðin skuli farin eftir atvikum hverju sinni. Síðari leiðin er þó háð ákveðnum skilyrðum sem gerð er grein fyrir hér á eftir.
    Loks er ráðgert í 7. mgr. að ríkisskattstjóra sé heimilt, fram að dómsúrskurði um slit eða skipti, að afturkalla ákvörðun sína um skipti skv. 3. mgr., kröfu um skipti aðila, eða kröfu um slit aðila skv. ákvæði til bráðabirgða III, enda hafi aðili fullnægt skráningarskyldu sinni.
     Um b-lið.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins, sem lagt er til að verði að ákvæði til bráðabirgða III, er mælt fyrir um skjótvirkari málsmeðferð fyrir dómstólum til að koma fram slitum á tilteknum skráningarskyldum aðilum sem skirrast við að fullnægja skyldu um að tilkynna ríkisskattstjóra um raunverulega eigendur sína. Um er að ræða sérreglur um slitameðferð sem eru bundnar við afmarkaðan hóp skráningarskyldra aðila sem hafa lítil sem engin fjárhagsleg umsvif. Í greininni er meðal annars að finna fyrirmæli um hvernig krafa ríkisskattstjóra um slit skráningarskylds aðila skuli úr garði gerð og hvernig henni verði komið á framfæri við héraðsdóm, tilkynningar til aðila um að slík krafa sé komin fram, meðferð kröfu fyrir héraðsdómi, réttaráhrif dómsúrskurðar um slit og heimildir til kæru og endurupptöku á slíkum úrskurði.
    Eftir að ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á skráningarskyldum aðila, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins (ákvæði til bráðabirgða II), leggur ríkisskattstjóri sem fyrr segir mat á það hvort krafist verði skipta á aðilanum skv. 6.–8. mgr. 17. gr. laganna, eða hvort krafist verði slita á honum samkvæmt sérreglum b-liðar 1. gr. frumvarpsins. Hefur ríkisskattstjóri víðtækt svigrúm til mats um hvor leiðin skuli farin eftir atvikum hverju sinni. Markmið b-liðar 1. gr. er að gefa færi á einfaldri og skjótvirkri málsmeðferð til að koma fram slitum á aðilum sem skirrast við að sinna skráningarskyldu, þegar um er að ræða aðila sem hafa takmörkuð fjárhagsleg umsvif. Fyrirsvarsmönnum aðila, eða öðrum sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, er þó kleift að krefjast þess að mál fari fremur í farveg hefðbundinnar skiptameðferðar skv. 6.–8. mgr. 17. gr. gegn því að leggja fram skiptatryggingu, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skilyrði sem skráningarskyldir aðilar þurfa að uppfylla til að unnt sé að krefjast slita á þeim samkvæmt sérreglum ákvæðisins. Annars vegar er áskilið að heildarverðmæti þekktra eigna aðila sé lægra en 350.000 kr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. Hins vegar þarf heildarfjárhæð þekktra skulda aðila að vera lægri en 2.000.000 kr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. Með þessu er leitast við að afmarka þann hóp skráningarskyldra aðila sem hafa takmörkuð fjárhagsleg umsvif þannig að eðlilegt og hagkvæmt þyki að þeir sæti einfaldri slitameðferð samkvæmt ákvæðinu vegna brots gegn skráningarskyldu í stað þess að þeim verði gert að sæta hefðbundinni skiptameðferð með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Er hér yfirleitt um að ræða félög sem hafa hætt starfsemi og fyrirsvarsmenn hafa hætt afskiptum af og ekki gert reka að því að slíta eða afskrá. Við þessar aðstæður ætti slitameðferð samkvæmt ákvæðinu að horfa til sparnaðar og hagræðis fyrir hlutaðeigandi enda er ráðgert að ríkissjóður beri kostnað af slitameðferðinni að öllu leyti ef engar eignir eru til staðar í búi aðilans sem slitið er, sbr. umfjöllun hér á eftir. Loks ber að árétta að þeir sem hagsmuna eiga að gæta munu hafa rúma heimild til að afstýra slitameðferð samkvæmt ákvæðinu með því að mótmæla kröfu um slit en við þær aðstæður verður kröfunni að jafnaði beint í farveg hefðbundinnar skiptameðferðar skv. 6.–8. mgr. 17. gr., enda standi viðkomandi straum af skiptatryggingu.
    Skilyrði 1. mgr. varðandi eignir og skuldir skráningarskyldra aðila eru ítarlega afmörkuð í 1. og 2. tölul. málsgreinarinnar. Mikilvægt er að skilyrðin séu skýr og einföld. Skilgreining á þekktum eignum og skuldum miðast við að ríkisskattstjóri geti metið á einfaldan hátt og á grundvelli upplýsinga sem embættið hefur aðgang að hvort eigna- og skuldastöðu aðila sé svo háttað sem greinir í 1. og 2. tölul. 1. mgr. Það er síðan á valdi gagnaðila að mótmæla slitameðferð samkvæmt ákvæðinu kjósi hann fremur að fram fari hefðbundin skiptameðferð. Komi engin mótmæli fram verður lagt til grundvallar að skilyrði slitameðferðar varðandi eigna- og skuldastöðu skráningarskylds aðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. teljist uppfyllt enda stendur það gagnaðila næst að sýna fram á tilvist frekari eigna eða skulda sé þeim til að dreifa. Þá er skráningarskyldum aðila sem endranær unnt, án teljandi fyrirhafnar, að afstýra aðgerðum ríkisskattstjóra með því að uppfylla skráningarskyldu á grundvelli laganna og eftir atvikum greiða upp álagðar dagsektir og kostnað.
    Hvað varðar skilyrði um hámark eigna skv. 1. tölul. 1. mgr. þá er þar átt við heildareignir, þ.e. brúttóeignir. Að því er varðar hámark skulda skv. 2. tölul. 1. mgr. er litið til þess að fari skuldastaða fram úr fyrrgreindu hámarki sé eðlilegt að viðkomandi aðili verði tekinn til skipta samkvæmt almennum reglum fremur en að vera tekinn til slita samkvæmt sérreglum þessarar greinar frumvarpsins. Í slíkum tilvikum er einkum um að ræða aðila sem skulda töluverðar upphæðir vegna vangreiddra skatta en þegar svo háttar til er eðlilegt að bú viðkomandi sé tekið til hefðbundinna skipta, eftir atvikum á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig að skiptastjóra gefist eftir atvikum kostur á að rannsaka bókhald, leggja mat á riftanleika ráðstafana o.s.frv. sem yrði ekki gert í tengslum við slitameðferð samkvæmt þessu ákvæði frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er fjallað um varnarþing, framsetningu kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila, fylgigögn með slíkri kröfu og hvernig henni verður komið á framfæri við héraðsdóm. Í kröfu skal greina í stuttu máli hvers sé krafist, heiti og kennitölu aðila og heimilisfang hans sé það skráð í fyrirtækjaskrá og við hver atvik, rök og lagaákvæði krafan sé studd. Kröfunni skal fylgja staðfesting ríkisskattstjóra um að eignir og skuldir hlutaðeigandi aðila séu undir mörkum skv. 1. mgr. og skal efni hennar talið rétt þar til annað er leitt í ljós. Ekki þarf að láta önnur gögn um fjárhagsstöðu viðkomandi aðila fylgja kröfunni. Þó getur komið til þess að ríkisskattstjóri leggi fram ítarlegri gögn um fjárhag aðila ef fram koma mótmæli við því að skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt. Þá er ráðgert að ríkisskattstjóri geti sent héraðsdómi kröfu og fylgigögn með henni rafrænt og að honum sé heimilt að krefjast í einu lagi slita á fleiri en einum aðila skv. 1. mgr. þyki það horfa til hagræðis. Helgast fyrrgreind fyrirmæli ákvæðisins af hagkvæmnisástæðum.
    Í 3. mgr. er ráðgert að eftir að komið hefur fram krafa um slit aðila skv. 2. mgr. skuli héraðsdómari birta áskorun í Lögbirtingablaði þar sem heiti og kennitala viðkomandi aðila skal tiltekin og fyrirsvarsmanni hans og lánardrottnum gefinn kostur á því að mæta til þinghalds þar sem krafa um slit verður tekin fyrir. Í þeirri áskorun skuli jafnframt tekið fram að fyrirhugað sé að fram komin krafa um slit sæti meðferð samkvæmt þessu ákvæði. Ráðgert er að heimilt verði að skora með þessum hætti á fleiri en einn aðila í einni og sömu tilkynningunni og tiltaka í henni stað og stund reglulegs þinghalds héraðsdóms þar sem kröfur um slit viðkomandi aðila verði teknar fyrir. Horfir slíkt til hagræðis í ljósi þess fjölda skráningarskyldra aðila sem á í hlut.
    Í 4. mgr. eru fyrirmæli um hvernig brugðist skuli við ef fram koma mótmæli við kröfu ríkisskattstjóra um slit í þinghaldi sem boðað hefur verið til skv. 3. mgr. Við þær aðstæður er gert ráð fyrir því að þá skuli ekki farið með kröfuna eftir sérreglum ákvæðisins heldur skuli krafan tekin til úrlausnar eftir 6.–8. mgr. 17. gr. laganna, þ.e. eftir almennum reglum um skipti. Það verði þó háð því að sá sem hreyfir mótmælum við fyrri leiðinni leggi fram skiptatryggingu innan frests sem héraðsdómari setur í því skyni, enda er hefðbundin skiptameðferð eftir almennum reglum alla jafna mun kostnaðarsamari en slitameðferð samkvæmt sérreglum ákvæðisins. Ráðgert er að mótmæli geti stafað frá fyrirsvarsmanni aðila eða öðrum sem á lögvarinna hagsmuna að gæta. Skilyrðið um lögvarða hagsmuni hefur hér sama inntak og í einkamálaréttarfari endranær en hér koma t.d. til greina kröfuhafar aðila.
    Af framansögðu leiðir að fyrirsvarsmaður aðila eða aðrir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta hafa full tök á að afstýra því að lögaðila, sem skirrist við að sinna skráningarskyldu, verði slitið eftir sérreglum þessa ákvæðis frumvarpsins fremur en að hann verði tekinn til hefðbundinnar skiptameðferðar eftir almennum reglum. Kjósi fyrirsvarsmaður eða lögaðili síðari kostinn þarf viðkomandi að setja tryggingu fyrir skiptakostnaði. Almennt ætti það að horfa til hagræðis fyrir alla aðila að gefa kost á einfaldri og skjótvirkri slitameðferð samkvæmt sérreglum ákvæðisins í stað þess að fara þurfi fram hefðbundin skiptameðferð með auknum tilkostnaði, meðal annars fyrir aðilann sjálfan. Um skiptatryggingu samkvæmt framansögðu og upphæð hennar fer eftir almennum reglum. Frá þeirri reglu að sá sem mótmælir kröfu um slit skuli setja skiptatryggingu er á hinn bóginn vikið í 2. málsl. 4. mgr. Þar er ráðgert að lúti framkomin mótmæli að því að skilyrði fyrir slitum skv. 1. mgr. séu ekki uppfyllt og sýnt er að þau mótmæli eigi við rök að styðjast skuli skiptatrygging sett af ríkisskattstjóra. Í því tilviki er aðstaðan með öðrum orðum sú að krafa um slit reynist samkvæmt framkomnum mótmælum ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. og er þá eðlilegt að skiptatrygging sé sett af ríkisskattstjóra.
    Í 5. mgr. er fjallað um framhald málsmeðferðar samkvæmt ákvæðinu í tilvikum þar sem kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila verður ekki vikið til meðferðar skv. 6.–8. mgr. 17. gr. laganna, svo sem vegna þess að engin mótmæli hafa komið fram í þinghaldi skv. 3. mgr., eða sá sem mótmælt hefur kröfu ríkisskattstjóra og skylt er að setja skiptatryggingu afhendir slíka tryggingu ekki innan frests sem héraðsdómari hefur sett í því skyni. Skal þá farið með kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila eftir því sem greinir í 6. mgr.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að héraðsdómari skuli taka kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi málatilbúnaðar ríkisskattstjóra og að úrskurður skuli kveðinn upp eins skjótt og verða má. Áréttað skal að í þeim tilvikum sem hér um ræðir verður lögaðila slitið þegar af þeirri ástæðu að hann hefur ekki sinnt skráningarskyldu samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Miðað er við að úr kröfu ríkisskattstjóra verði leyst einvörðungu á grundvelli framlagðra gagna, þ.m.t. staðfestingar skv. 2. mgr., án þess að nauðsyn sé á frekari gagnaöflun eða munnlegum málflutningi um kröfuna.
    Í 6. mgr. er enn fremur gert ráð fyrir því að afrit úrskurðar héraðsdóms, þar sem leyst er úr kröfu ríkisskattstjóra um slit samkvæmt framansögðu, skuli sent rafrænt til ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri skuli enn fremur birta tilkynningu í Lögbirtingablaði sem geymi heiti og kennitölur aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði samkvæmt framansögðu. Að öðru leyti verði ekki þörf á frekari birtingu dómsniðurstöðu um slit. Helgast þessi tilhögun af því að í mörgum tilfellum er skráningu fyrirsvarsmanna lögaðila ábótavant. Birting niðurstöðu í Lögbirtingablaði ætti jafnframt að tryggja fyllilega að upplýsingar um slit viðkomandi aðila komist til vitundar hlutaðeigandi.
    Í 7. mgr. er að finna heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms samkvæmt framansögðu til Landsréttar. Um slíka kæru fer eftir almennum reglum en kærufrestur er tvær vikur og miðast upphaf hans við birtingardag tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 6. mgr. Þá geymir 7. mgr. heimild til að óska eftir endurupptöku á úrskurði héraðsdóms innan fjögurra vikna frá ofangreindu tímamarki, enda leggi endurupptökubeiðandi fram staðfestingu ríkisskattstjóra um að skráningarskyldu samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda hafi verið fullnægt. Heimild til að óska eftir endurupptöku er bundin við þá sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Skilyrði ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur sama inntak og í einkamálaréttarfari endranær, en hér koma t.d. til greina fyrirsvarsmenn og kröfuhafar aðila. Ef beiðni um endurupptöku er tekin til greina falla réttaráhrif slita niður og rakna þá við réttindi og skyldur skráningarskylds aðila eins og honum hafi aldrei verið slitið. Skal skráningarskyldur aðili þá með öðrum orðum vera eins settur og hann var áður en úrskurður um slit var kveðinn upp. Hlutaðeigandi skráningarskyldur aðili skal þó bera ábyrgð á kostnaði vegna slita sem fellur til eftir úrskurð um slit og fram að endurupptöku þeirra, á sama hátt og á við um áður áfallinn kostnað vegna kröfu um slit, sbr. lokamálslið 7. mgr. Með þessu er áréttað að skráningarskyldur aðili ber að meginreglu ábyrgð á öllum kostnaði sem tengist undirbúningi og framkvæmd slita og fellur til hvort heldur fyrir eða eftir úrskurð um þau.
    Í 8. mgr. er, í samræmi við það sem síðast var rakið, kveðið á um að kostnaður vegna slita skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði skv. 6. mgr. skuli greiðast af andvirði eigna hans en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði. Þá er kveðið á um að þær eignir sem eftir standa skuli renna í ríkissjóð, enda séu frestir skv. 7. mgr. runnir út, eða kröfum í kærumáli fyrir æðra dómi eða um endurupptöku úrskurðar verið endanlega hafnað. Með því að vanrækja skráningarskyldu, að undangengnum ítrekuðum áskorunum og viðvörunum, sem lyktar með því að tilvist skráningarskylds aðila er lokið með dómsúrskurði, er litið svo á að hlutaðeigandi fyrirgeri sér réttinn til eigna aðilans sem kunna að standa eftir að lokinni greiðslu kostnaðar vegna slita hans. Telja verður þó einkar ólíklegt að sú staða komi upp í reynd, enda munu slitareglur b-liðar 1. gr. frumvarpsins einungis gilda um skráningarskylda aðila sem eiga engar eignir eða svo takmarkaðar eignir að þær duga vart til að mæta kostnaði vegna slitanna til að byrja með. Um þessi atriði má jafnframt vísa til umfjöllunar í 4. kafla.
    Í 8. mgr. er enn fremur ráðgert að innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, verði við framangreindar aðstæður skylt að kröfu ríkisskattstjóra að afhenda honum allar eignir á innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum í eigu skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið. Hliðstæð skylda hvílir jafnframt á öðrum en fjármálafyrirtækjum sem fara með vörslur eigna skráningarskylds aðila sem hefur verið slitið. Sá atbeini fjármálafyrirtækja o.fl. sem að framan er lýst er nauðsynlegur til að hrinda í framkvæmd fyrirmælum ákvæðisins um að eignir sem eftir standa að loknum slitum renni í ríkissjóð.
    Hafa ber í huga að þeir lögaðilar sem reglum ákvæðisins verður beitt um starfa að jafnaði ekki í fjárhagslegum tilgangi og hafa í flestum tilvikum takmörkuð fjárhagsleg umsvif, sbr. einnig skilyrði 1. mgr. Þá er fyrirsvarsmanni eða öðrum sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í lófa lagið að krefjast þess, með þeim hætti sem áður greinir, að aðili verði tekinn til hefðbundinnar skiptameðferðar eftir almennum reglum og setja þá eftir atvikum tryggingu fyrir skiptakostnaði í því skyni. Í flestum tilfellum ætti það þó að horfa til hagræðis fyrir alla aðila að sérreglum ákvæðisins um slitameðferð verði beitt í stað þess að fara þurfi fram hefðbundin skiptameðferð með auknum tilkostnaði fyrir hlutaðeigandi. Þá verður að hafa í huga þá ríku samfélagslegu hagsmuni sem bundnir eru við það að hér á landi sé til staðar áreiðanleg skrá yfir raunverulega eigendur lögaðila sem bæði yfirvöld og almenningur hafi aðgang að. Hér ber einnig að minnast á fyrirheit Íslands gagnvart FATF um skjótar úrbætur á skráningu raunverulegra eigenda sem voru forsenda þess að landið var tekið af gráum lista FATF. Helgast tillögur frumvarpsins ekki síst af fyrrgreindum sjónarmiðum. Á sama tíma er búið þannig um hnúta að réttaröryggi aðila er að fullu tryggt á öllum stigum þótt krafa um slit sæti einfaldaðri málsmeðferð eftir sérreglum ákvæðisins.
    Loks er í 9. mgr. ráðgert að einstaklingum og lögaðilum, þar á meðal fjármálafyrirtækjum og opinberum aðilum, sé skylt að kröfu ríkisskattstjóra að láta honum í té án tafar allar upplýsingar og gögn um eignarhald og fjárhag skráningarskyldra aðila sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar ákvæða 1. gr. frumvarpsins (ákvæða til bráðabirgða II og III). Með þessu er tekið af skarið um heimild ríkisskattstjóra til að afla fullnægjandi upplýsinga, meðal annars um eigna- og skuldastöðu skráningarskyldra aðila, þ.m.t. í því skyni að ríkisskattstjóra sé fært að leggja mat á hvort þeir uppfylli skilyrði 1. mgr. Þá er tekið fram að ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víki fyrir fyrirmælum ákvæða til bráðabirgða II og III, en samhliða kveðið á um sérstaka þagnarskyldu um upplýsingar og gögn sem ríkisskattstjóri aflar með heimild í framangreindum ákvæðum. Um inntak þagnarskyldunnar er vísað til 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 20. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.