Ferill 598. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 840  —  598. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016
(flutningur þjónustu milli ráðuneyta).


Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „kærunefnd útlendingamála“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: stjórnvaldi sem fer með framkvæmd 27. og 33. gr.
     b.      Í stað orðsins „stofnunum“ þrívegis í 2. mgr. kemur: stjórnvöldum.
     c.      Á eftir orðunum „kærunefnd útlendingamála“ í 3. mgr. kemur: stjórnvald sem fer með framkvæmd 27. og 33. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Læknisskoðun fer fram á vegum þess stjórnvalds sem fer með framkvæmd þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sbr. 27. og 33. gr.
     b.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Sæki fylgdarlaust barn um alþjóðlega vernd skal stjórnvald sem fer með framkvæmd 27. og 33. gr. tryggja að barnið fái þjónustu í samræmi við aldur þess og þroska en Útlendingastofnun skal tryggja að barnið fái málsmeðferð í samræmi við aldur þess og þroska.

3. gr.

    Í stað orðsins „Útlendingastofnun“ í 3. málsl. 7. mgr. 33. gr. laganna kemur: stjórnvald sem fer með þjónustu samkvæmt þessari grein.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem samið er í dómsmálaráðuneytinu í samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, kveður á um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Frumvarpið er liður í að bregðast við forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, þannig að félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu verði tryggðar fullnægjandi lagaheimildir til að sinna þjónustu við umsækjendur um vernd, þar á meðal heimild til vinnslu persónuupplýsinga um umsækjendur um alþjóðlega vernd, auk þess sem breytingarnar miða að því að tilgreina skýrlega ábyrgð hlutaðeigandi stjórnvalda.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, var félags- og vinnumarkaðsráðuneyti falið að fara með málefni þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. 27. og 33. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sbr. g-lið 2. tölul. 3. gr. úrskurðarins. Vegna tilfærslunnar er nauðsynlegt að breyta nokkrum ákvæðum laga um útlendinga til að tryggja félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og stjórnvaldi því sem ráðuneytið kann að fela framkvæmd þess að veita umrædda þjónustu fullnægjandi lagaheimildir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016.
    Í fyrsta lagi er lagt til að lögfesta heimild félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og þess stjórnvalds sem ráðuneytið kann að fela að fara með framkvæmd þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd til vinnslu persónuupplýsinga. Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, Þjóðskrá Íslands, barnaverndaryfirvöldum og lögreglu er nú þegar heimil slík vinnsla. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer eins og áður segir með framkvæmd 27. gr. útlendingalaga, sem kveður á um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um vernd, og 33. gr. laganna sem kveður á um réttindi umsækjenda um vernd hér á landi.
    Í öðru lagi er lagt til að skýra verkaskiptingu milli annars vegar málavinnslu og hins vegar þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hefur hingað til annast bæði vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd og þjónustu við umsækjendur. Að því sögðu hefur skýr skipting verkefna og ábyrgðar ekki verið nauðsynleg líkt og nú þegar þjónustan flyst til annars stjórnvalds.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Ísland hefur gerst aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra, þar á meðal er Ísland aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, Schengen-samstarfinu og Dyflinnarreglugerðinni. Við samningu frumvarpsins þótti ekki ástæða til að skoða sérstaklega samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar enda felur frumvarpið ekki í sér efnislegar breytingar á réttindum eða skyldum umsækjenda um vernd, einungis breytingar á því hvaða stjórnvald ber ábyrgð á að veita réttindin.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið sem viðbragð við breytingu á skiptingu stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands. Ákvörðun um skiptinguna var birt 28. nóvember 2021. Þá þegar hófst undirbúningur vegna tilfærslu verkefnisins sem er fjárhagslega umfangsmikið og krefjandi. Að þeirri vinnu lokinni hófst vinna við samningu frumvarps þessa en sökum tímaskorts náðist ekki að kynna drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið er unnið í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og að höfðu samráði við Útlendingastofnun. Að virtum þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu þótti ekki ástæða til að setja frumvarpið í frekara samráð.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpi þessu er ætlunin að tryggja að yfirfærsla þjónustu við umsækjendur um vernd, sbr. forsetaúrskurð nr. 6/2022, gangi eftir. Efnislegar breytingar á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd skv. 33. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, eru engar. Einungis er um að ræða breytingu á því hvaða stjórnvald ber ábyrgð á að veita réttindin. Frumvarpið er því ekki talið hafa áhrif á stöðu kynjanna sem verður áfram óbreytt eftir sem áður.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér útgjaldabreytingar fyrir ríkissjóð sem nokkru nemur. Þá er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 17. gr. laganna er kveðið á um vinnslu persónuupplýsinga og í 1. mgr. ákvæðisins eru talin upp þau stjórnvöld sem hafa heimild til slíkrar vinnslu.
    Lagt er til að ráðuneyti og því stjórnvaldi sem fer með framkvæmd 27. og 33. gr. laganna verði fengin heimild til vinnslu persónuupplýsinga um útlendinga, til viðbótar við þau stjórnvöld sem nú þegar hafa slíka heimild samkvæmt lögunum. Er breytingin nauðsynleg svo að viðkomandi ráðuneyti og stjórnvaldi verði kleift að sinna þjónustu við umsækjendur um vernd. Eðli málsins samkvæmt felur þjónustan í sér vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem upplýsinga úr sjúkraskrám og annarra heilbrigðisupplýsinga, til að hægt sé að meta þjónustuþarfir viðkomandi. Til vinnslu slíkra upplýsinga er nauðsynlegt að hafa skýra heimild í lögum.
    Með því stjórnvaldi sem fer með framkvæmd 27. og 33. gr. er átt við það stjórnvald sem mun sinna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrir hönd félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Ekki liggur fyrir, á þeim tíma er frumvarp þetta er lagt fram, hvaða stjórnvald muni sinna umræddri þjónustu af hálfu ráðuneytisins. Til að tryggja að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og það stjórnvald sem fara mun með þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd geti sinnt hinu nýja lögbundna hlutverki skv. 27. og 33. gr. laganna er nauðsynlegt að þau hafi lagaheimild til að vinna fyrrnefndar persónuupplýsingar um útlendinga, í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Með þessu ákvæði er meðal annars tryggt að félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og fyrrnefndu stjórnvaldi sé heimilt að afla nauðsynlegra persónuupplýsinga um útlendinga samkvæmt ákvæðinu. Þá er ráðuneyti og því stjórnvaldi sem fara mun með framkvæmd 27. og 33. gr. bætt við upptalningu 3. mgr. 17. gr. laganna, sem kveður á um skyldu til að upplýsa lögreglu um hugsanleg lögbrot og afhenda þau gögn sem lögregla gæti krafist.

Um 2. gr.

    Í 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna er kveðið á um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli gangast undir læknisskoðun svo fljótt sem verða má frá því að umsókn er lögð fram. Læknisskoðunin er mikilvæg forsenda þess að unnt sé að veita einstaklingsmiðaða þjónustu. Með vísan til þess að framkvæmd þjónustu skv. 27. og 33. gr. heyrir nú undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið þykir rétt að læknisskoðanir verði einnig á höndum þess stjórnvalds sem fer með með þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
    Í 1. málsl. 4. mgr. 25. gr. laganna er kveðið á um að þegar fylgdarlaust barn sækir um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja að barnið fái þjónustu og meðferð í samræmi við aldur þess og þroska. Með vísan til þess að ábyrgð þjónustunnar er nú á höndum annars stjórnvalds er lögð til sú breyting á 1. málsl. 4. mgr. að þar verði annars vegar kveðið á um að það stjórnvald sem fer með framkvæmd 27. og 33. gr. tryggi að barnið fái þjónustu í samræmi við aldur þess og þroska og hins vegar að Útlendingastofnun tryggi að barnið fái málsmeðferð í samræmi við aldur þess og þroska.

Um 3. gr.

    Í 3. málsl. 7. mgr. 33. gr. laganna er kveðið á um að Útlendingastofnun geti krafið umsækjanda um alþjóðlega vernd um endurgreiðslu kostnaðar að fullu eða nokkru leyti ef í ljós kemur að hann hafði ekki þörf fyrir þá þjónustu sem veitt var. Þar sem þjónustan heyrir ekki lengur undir Útlendingastofnun er lagt til að sú heimild færist til þess stjórnvalds sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur falið að fara með þjónustu skv. 33. gr.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.