Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1296  —  519. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um styrkumsóknir hjá Nýsköpunarsjóði Evrópu og nýsköpunarlausnir í loftslagsmálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Telur ráðherra ástæðu til að koma á fót almennu kerfi um stuðning við styrkumsóknir hjá Nýsköpunarsjóði Evrópu í ljósi þess að fram hefur komið að það auki mjög á möguleika slíkra umsókna ef stjórnvöld í heimalandinu styðja við þær með vilyrði um fjárstuðning?

    Margvíslegur stuðningur er við frumkvöðla, sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem sækja í alþjóðlegt samstarf og fjármögnun, svo sem samstarfsáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun. Meðal opinberra stuðningsúrræða ber fyrst að nefna Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð en framlög í þessa sjóði hafa aukist til muna á síðustu árum, auk þess sem fjármálaáætlun næstu fimm ára gerir ráð fyrir áframhaldandi hækkun í sjóðina. Framlög í Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar hafa einnig verið aukin á síðustu árum, en styrkir Markáætlunar beinast einkum að samfélagslegum áskorunum, svo sem loftslagsmálum, heilbrigðismálum og stafrænni væðingu. Þá hafa framlög í Orkusjóð verið aukin til muna svo dæmi séu tekin.
    Þrátt fyrir aukin framlög í samkeppnissjóði má ljóst vera að ekki nægir að styðja við rannsóknir og frumkvöðlastarf á fyrstu stigum, heldur þarf einnig að styðja við vöxt fyrirtækja og samstarf á alþjóðlegum vettvangi. Endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar svara þessari þörf að vissu marki en þau framlög hafa farið vaxandi á síðustu árum. Þá var starfsemi Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, komið á fót á síðasta ári, en markmið Kríu er að veita súrefni í fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja hér á landi og gera þeim kleift að vaxa í alþjóðlegu umhverfi.
    Stjórnvöld undirbúa nú þátttöku í evrópskum ábyrgðarsjóði, InvestEU, en sá sjóður er hluti af samstarfsáætlun ESB um rannsóknir og nýsköpun og hefur það markmið að styðja við fjármögnun á sjálfbærum hagvexti, nýsköpun og innviðauppbyggingu á evrópska efnahagssvæðinu. InvestEU-ábyrgðarsjóðnum er ætlað að styðja við aðrar áætlanir Evrópusambandsins í loftslagsmálum og sjálfbærum hagvexti, þar á meðal áherslur undir hatti „green deal“.
    Samningaviðræður standa yfir við framkvæmdastjórn ESB um íslenska þátttöku og framlag og lagt upp með að Íslendingar verði orðnir formlegir þátttakendur á haustmánuðum 2022. Með þátttöku í InvestEU-ábyrgðarsjóðnum ættu íslensk fyrirtæki og stofnanir að eiga betri möguleika á samningum og greiðari aðgang að fjármagni á vegum evrópskra fjármögnunarsjóða, svo sem European Investment Bank, European Investment Fund og Nordic Investment Bank. Um þessar mundir er unnið að frekari útfærslu á þátttöku Íslands, í samvinnu ráðuneyta og í samráði við hagaðila hér á landi.