Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1416  —  310. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um fjórða orkupakkann.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Liggur fjórði orkupakki Evrópusambandsins fyrir og ef svo er, hverjar eru helstu breytingar frá þriðja orkupakkanum?

    Orkustefna Evrópusambandsins (ESB) til ársins 2030 er fólgin í þremur stoðum: sjálfbærni, orkuöryggi og samkeppnishæfni. Í stefnuramma ESB um orku- og loftslagsmál til 2030 eru sett eftirfarandi þrjú meginmarkmið, sem hafa nýlega verið hert í stefnumótuninni undir yfirskriftinni um Græna sáttmálann:
     1.      Að ná fram 55% (áður 40%) samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við viðmiðunarárið 1990.
     2.      Að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkunotkun verði a.m.k. 40% (áður 32%) og 14% fyrir samgöngur á landi.
     3.      Að auka orkunýtni um a.m.k. 32,5% miðað við spár. Langtímastefna felur í sér að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
    Evrópusambandið hóf vinnu við endurskoðun orkulöggjafarinnar árið 2016 og var eitt af helstu stefnumálum þáverandi framkvæmdastjórnar undir heitinu „Clean energy for all Europeans“, eða „Hrein orka fyrir alla Evrópubúa“. Markmiðið var að vinna að framangreindum markmiðum orkustefnunnar með því að stuðla betur að orkuskiptum og til að uppfylla skyldur Parísarsamningsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem fyrr er leiðarljós regluverksins að bæta hag neytenda og umhverfisins, efla samkeppni og stuðla að bættu orkuöryggi.
    Löggjafarpakki sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB liggur fyrir en hann var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Hann gengur ekki undir nafninu fjórði orkupakki þó að hann taki að hluta við af þriðja orkupakkanum. Þessi löggjafarpakki nær til fleiri atriða en sá fyrri (þriðji orkupakkinn) þar sem hann nær einnig til gerða um endurnýjanlega orku og orkunýtni. Einnig er sá munur á löggjafarpökkunum að gasgerðir eru ekki hluti þess nýja. Um er að ræða átta Evrópugerðir (fjórar reglugerðir og fjórar tilskipanir) og hafa þær verið birtar í Stjórnartíðindum ESB.
    Þær gerðir sem um ræðir eru tilskipanir og reglugerðir um endurnýjanlega orku, raforkumarkaðsmál, orkunýtni og eftirlits- og stjórnunarkerfi.

Endurnýjanleg orka.
    Tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa 2018/2001 (ESB) er endurútgefin (sbr. svokallaða RES-tilskipun frá 2009) og spannar raforku, hita og eldsneyti. Tilskipunin spilar lykilhlutverk í orkuskiptum og loftslagsmálum ásamt því að stuðla að auknu orkuöryggi þar sem markmiðið er að draga úr innflutningi jarðefnaeldsneytis. Neytendur fá stærra og aukið hlutverk með því að verða virkir þátttakendur sem einstaklingar í eigin orkuframleiðslu eða sem hluti af stærri heild. Leyfisveitingarferli fyrir nýja endurnýjanlega orkuframleiðslu skal einfaldað. Skylt er að auka hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum á landi og auknar kröfur eru gerðar til sjálfbærni lífeldsneytis. Kerfi upprunaábyrgða er útvíkkað þannig að það nái yfir varma og gas.

Raforkumarkaður.
    Yfirmarkmið með endurskoðun regluverks fyrir raforkumarkað er að gera það betur í stakk búið fyrir aukin orkuskipti og aukið orkuöryggi. Raforkukerfið þróast þannig að það verður sveigjanlegra og mætir þannig nýjum áskorunum sem felast í umhverfisvænum orkugjöfum sem eru dreifðir og búa yfir sveiflukenndri framleiðslu sem er háð veðurskilyrðum eins og vind- og sólarorka. Bættar samtengingar og markaðslausnir eru liður í því að stuðla að þessum orkuskiptum ásamt því að hafa neytandann í fyrirrúmi. Áfram eru þau meginviðmið höfð í fyrirrúmi að hinn innri raforkumarkaður eigi að vera samkeppnishæfur, miðaður að þörfum neytenda, sveigjanlegur og starfi án mismununar. Þá eigi ekki að vera til staðar markaðshindranir fyrir framleiðendur. Nýjar reglur eiga að auðvelda frjálst flæði raforku með millilandaviðskiptum/tengingum. Þá er áhersla lögð á sveigjanleika með breytilegri notkunarsvörun, framleiðslu og orkugeymslu og því að kerfum verði gert kleift að taka við rafknúnum samgöngum. Einnig er gert ráð fyrir að draga úr styrkjum til orkuvera sem losa gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftið. Ríkin skulu þá vinna nánar að áætlunum varðandi neyðarviðbrögð í raforkukerfinu. Raforkuverðmyndun skal endurspegla framboð og eftirspurn á frjálsum markaði og ef þörf er á inngripum stjórnvalda þá er miðað við að það eigi einungis við í tilvikum viðkvæmra neytenda. Bætt er úr réttindum neytenda þar sem upplýsingagjöf og frelsi til að skipta um söluaðila er aukin.
    Eftirfarandi gerðir tilheyra þessum flokki:
          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/944 frá 5. júní 2019 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um breytingu á tilskipun 2012/27/ESB (endurútgáfa).
    Með endurútgefinni raforkutilskipun eru réttindi neytenda aukin þar sem þeir hafa frelsi til að velja raforkusala innan sólarhrings og hafa aðgengi að betri upplýsingum um verð og eigin notkun. Sérstök ákvæði eru sett til verndar tekjulágum hópum (orkufátækt). Einnig eiga neytendur þess kost að nýta eigin orkuframleiðslu og selja inn á raforkunet, sjálfir eða í samtökum neytenda og aukin ákvæði eru um notkun snjallmæla. Tilskipunin skerpir á hlutverkum dreifi- og flutningsfyrirtækja og leggur áherslu á samstarf eftirlitsaðila.
          Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/943 frá 5. júní 2019 um innri markaðinn fyrir raforku (endurútgáfa).
    Endurútgefin reglugerð um raforkumarkað setur fram meginreglur um viðskipti á heildsölumarkaði raforku. Almennt skal stuðla að frjálsri verðmyndun á markaði. Stuðlað er að auknu samstarfi flutningskerfisstjóra og eftirlitsaðila. Skýrar er kveðið á um hlutverk samtaka flutningsfyrirtækja í Evrópu (ENTSOE). Sambærilegt við ENTSOE eru evrópsk samtök dreifiveitufyrirtækja (DSO) sett á laggirnar. Gert er ráð fyrir að dreifikerfi geti tekið við rafknúnum samgöngum.
          Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/942 frá 5. júní 2019 um að koma á fót Evrópusambandsstofnun um samstarf eftirlitsaðila á orkumarkaði (endurútgáfa).
    Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) fær aukið hlutverk í vinnslu netmála og framsetningu þeirra til framkvæmdastjórnarinnar. ENTSOE er áfram í hlutverki tæknilegs ráðgjafa. Tillagan gerir ráð fyrir auknu hlutverki dreifiveitna og samtaka þeirra í þróun netmála.
          Reglugerð um samræmd neyðarviðbrögð í raforkukerfinu (ESB) 2019/941.
    Aðildarríkin vinna viðbragðsáætlanir um viðbrögð við vá í raforkukerfinu og eiga í því skyni samstarf við sín nágrannaríki.

Orkunýtni.
    Bætt orkunýtni er eitt lykilmarkmiða hreinorkustefnunnar þar sem aukinn orkusparnaður er aðferð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ásamt því að leiða til sparnaðar hjá neytendum. Í Evrópu nota byggingar um 40% af allri orkunotkun og losa 36% af gróðurhúsalofttegundum. Aðgerðir miða því að því að bæta orkunýtni bygginga, til að mynda með aukinni snjallvæðingu, og svo eru gerðar kröfur um hleðslumöguleika fyrir rafbíla við íbúðarhúsnæði. Tvær tilskipanir tilheyra þessum flokki annars vegar:
          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/2002 um breytingu á tilskipun 2012/27/ESB um orkunýtni.
          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/844 um breytingu á tilskipun 2010/31/ESB um orkunotkun bygginga.

Eftirlits- og stjórnunarkerfi.
    Reglugerð (ESB) 2018/1999 snýr að eftirlits- og stjórnunarkerfi (e. governance) og samræmir orku- og loftslagsáætlanir ríkjanna um hvernig þau muni uppfylla markmið sín til 2030. Ríkin skulu setja fram tíu ára landsaðgerðaráætlanir um orku og loftslagsmál (e. national energy and climate plan, NECP). Markmiðið er að draga úr skriffinnsku með því að samræma kröfur um skýrslugjöf sem er að finna í aðskildri lagasetningu á orku- og loftslagssviði.
    Í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála verður áfram upplýst um og átt samráð við viðkomandi þingnefndir Alþingis vegna upptöku þessara gerða í EES-samninginn. Áætlað er að samráð á grundvelli 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála eigi sér stað í haust fyrir raforkugerðirnar.