Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1447  —  712. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur um aðgengi að Naloxone-nefúða.


     1.      Telur ráðherra núverandi reglur um aðgengi að Naloxone-nefúðanum fullnægjandi svo að lyfið fái þjónað tilgangi sínum?
    Ábending fyrir notkun lyfsins Naloxone er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun vegna ofnotkunar ópíóða sem kemur fram sem öndunarbæling sem leitt getur til dauða. Lyfið er ávísanaskylt og því ávísar læknir lyfinu beint til sjúklings. Unnið hefur verið að því að bæta aðgengi að Naloxone með breyttu verklagi þar sem læknir getur ávísað lyfinu til fyrirtækis eða stofnunar sem veitir fólki sem glímir við ópíóðafíkn og/eða aðstandendum þeirra þjónustu. Hefur lyfið nú þegar verið gert aðgengilegt hjá skaðaminnkunarúrræðinu Frú Ragnheiði og neyslurýminu Ylju.
    Undanfarið hefur verið unnið að því í samvinnu við Landspítala að gera lyfið Naloxone í nefúðaformi aðgengilegt um allt land, þannig að tilteknir aðilar hafi það til reiðu þegar á þarf að halda. Landspítali bauð lyfið út fyrr í vor og frá 1. júlí síðastliðnum hefur lyfið verið aðgengilegt notendum án endurgjalds.
    Til viðbótar við skaðaminnkunarverkefni á vegum Rauða krossins er gert ráð fyrir að t.d. heilsugæslustöðvar, lögregla, björgunarsveitir, félagsþjónustur sveitarfélaga og úrræði á þeirra vegum þar sem veitt er þjónusta einstaklingum með ópíóðafíkn verði með lyfið til taks. Þegar þessir aðilar eru komnir með lyfið til dreifingar telur ráðherra aðgengi að því nægilega gott til að það þjóni tilgangi sínum.

     2.      Hversu margir einstaklingar hafi fengið lyfið uppáskrifað á eigin kennitölu? Af þeim, hversu margir sóttu um greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingum Íslands?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum og Embætti landlæknis hafa þrír einstaklingar fengið lyfinu ávísað hingað til og hafa þeir ekki sóst eftir greiðsluþátttöku. Þá hafa fimm fyrirtæki, lögaðilar fengið lyfinu ávísað.

     3.      Hver er afstaða ráðherra gagnvart því að styrkja fjárhagslega skaðaminnkunarúrræði sem bjóða aðgengi að Naloxone svo að hægt sé að tryggja jaðarsettum einstaklingum sem glíma við ópíóíðavanda og fólki í þeirra nærumhverfi greiðan aðgang að Naloxone-nefúða þeim að kostnaðarlausu, líkt og er annars staðar á Norðurlöndum?
    Eins og fram er komið hafa verið gerðar ráðstafanir sem munu leiða til þess að greitt aðgengi verður að lyfinu um allt land og verði notendum að kostnaðarlausu.

     4.      Hver er afstaða ráðherra gagnvart því að gera Naloxone-nefúða að lausasölulyfi og veita lyfjafræðingum heimild til að afhenda lyfið með tilheyrandi fræðslu um notkun þess, með það að markmiði að draga úr hættu á ofskömmtun ópíóða, þannig að notendur, aðstandendur, rekstraraðilar í skemmtanalífinu, þjónustuúrræði og aðrir sem þurfa geti nálgast það?
    Lyfið er lyfseðilsskylt í samræmi við skráningu þess og samþykki Lyfjastofnunar Evrópu. Það er því ekki á forræði heilbrigðisráðuneytisins að breyta því. Að svo stöddu telur ráðherra ekki skynsamlegt að lyfið verði afhent í apótekum án ávísunar læknis, heldur verði fyrst metin reynslan af því fyrirkomulagi varðandi aðgengi sem hér hefur verið lýst.