Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1451  —  529. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um rafræn skilríki.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða möguleika hafa Íslendingar sem búa erlendis til þess að nýta sér þjónustu á Íslandi þar sem gerð er krafa um aðgang með rafrænum skilríkjum?

Um aðgang að rafrænum skilríkjum fyrir Íslendinga sem búsettir eru erlendis.
    Samkvæmt upplýsingum frá Auðkenni hafa einstaklingar nokkrar leiðir til að fá rafræn skilríki frá Auðkenni:
          Rafræn skilríki tengd símanúmeri og SIM-korti. Eingöngu stuðningur hjá farsímafélögum á Íslandi. Skilríkin virka almennt erlendis en virkni getur verið mismunandi eftir farsímafélögum (fer m.a. eftir samningum þeirra erlendis) og áskriftarleiðum einstaklinga. Almenna reglan er að ef viðkomandi getur hringt og sent/tekið við SMS-skeytum þá virka rafrænu skilríkin einnig.
          Rafræn skilríki á Auðkenniskorti.
          Rafræn skilríki á Auðkennisappi (þarf tengingu við internet).
    Íslendingar sem eru búsettir erlendis ættu að geta nýtt sér allar þessar leiðir. Þeir sem eru ekki með íslensk símanúmer geta þá frekar nýtt Auðkenniskort eða Auðkennisapp.
    Einstaklingar sem eru ekki með rafræn skilríki þurfa að mæta á skráningarstöð en í dag er Auðkenni eingöngu með skráningarstöðvar á Íslandi. Aðrir möguleikar eru í skoðun til þess að auðvelda skráningu sem gæti m.a. nýst Íslendingum sem búa erlendis.
    Auðkenni getur ekki svarað fyrir möguleika á að nýta þjónustu þar sem krafist er rafrænna skilríkja til auðkenningar þar sem það er ekki á forræði félagsins heldur komið undir hverjum og einum þjónustuveitanda sem nýtir rafræn skilríki í samskiptum.

Um aðgang að þjónustu sem krefst rafrænna skilríkja.
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki upplýsingar um þær þjónustuleiðir þar sem krafist er notkunar rafrænna skilríkja, enda er það á valdi þeirra þjónustuveitenda sem nýta rafræn skilríki í samskiptum að ákveða hvaða möguleikar eru nýttir í þeim efnum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Stafrænu Íslandi eru engar landfræðilegar takmarkanir á notkun þjónustu Ísland.is, hvorki fyrir þá Íslendinga sem búa erlendis né þá sem ferðast erlendis. Enginn munur er á því hvort fólk getur nýtt sér þjónustu Ísland.is eftir búsetu, hvorki innan EES-svæðisins né í öðrum ríkjum.