Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 758  —  534. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (frítekjumark og skerðingarhlutfall).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Flokkur fólksins hefur lengi barist fyrir því að dregið verði úr skerðingum almanntrygginga. Við viljum hvetja til atvinnuþáttöku öryrkja í stað þess að refsa þeim öryrkjum sem sýna framtakssemi. Það er jákvætt að nú loksins ætli ríkisstjórnin að hreyfa við frítekjumarki atvinnutekna. En því má ekki gleyma að umrætt frítekjumark hefur staðið í stað síðan 2009 og það í krafti meirihlutavalds ríkisstjórnar síðustu fimm árin. Ef upphæðin hefði tekið breytingum til samræmis við launaþróun væri frítekjumarkið í dag rúmlega 250.000 kr. á mánuði. Þá munu atvinnutekjur öryrkja áfram skerðast strax frá fyrstu krónu og það þrátt fyrir hækkun frítekjumarksins. Sérstaka framfærsluuppbótin, sem kveðið er á um í lögum um félagslega aðstoð, skerðist með tilliti til allra atvinnutekna öryrkja og ekki gilda um hana nein frítekjumörk. Hver einasta króna sem öryrkjar hafa í atvinnutekjur skerðir framfærsluuppbótina um 65 aura. Ef við ætlum að taka á skerðingarkerfinu af alvöru og hvetja öryrkja til atvinnuþáttöku verðum við að tryggja að frítekjumarkið nái yfir alla greiðsluflokka.
    Minni hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem færa frítekjumarkið upp til samræmis við launaþróun, í 250.000 kr. á mánuði, og leggur jafnframt til að frítekjumarkið nái framvegis einnig til sérstöku framfærsluuppbótar laga um félagslega aðstoð.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað „2.400.000 kr.“ í 2. gr. komi: 3.000.000 kr.
     2.      Á eftir 2. gr. komi nýr kafli, II. kafli, Breytingar á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með einni nýrri grein, svohljóðandi.
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 9. gr. skal lífeyrisþegi hafa 3.000.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri.

Alþingi, 7. desember 2022.

Guðmundur Ingi Kristinsson.