Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 772  —  277. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (kennitöluflakk).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorvald Heiðar Þorsteinsson og Hákon Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneytinu, Guðmund Heiðar Guðmundsson frá Samtökum atvinnulífsins, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Ingvar J. Rögnvaldsson, Ingileif Eyleifsdóttur, Jóhönnu Láru Guðbrandsdóttur og Ragnheiði Björnsdóttur frá Skattinum, Ólaf Þór Hauksson og Kristínu Ingibjörnsdóttur frá embætti héraðssaksóknara, Guðnýju Hjaltadóttur frá Félagi atvinnurekenda, Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum og Finn Þór Vilhjálmsson frá Ákærendafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ákærendafélagi Íslands, Félagi atvinnurekenda, embætti héraðssaksóknara, Íslensku þjóðfylkingunni, Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands sameiginlega, Samtökum iðnaðarins, Skattinum og Persónuvernd. Þá barst nefndinni minnisblað frá dómsmálaráðuneytinu um viðbrögð þess við framkomnum umsögnum um málið.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., í því skyni að sporna við misnotkun á hlutafélagaforminu og svokölluðu kennitöluflakki í atvinnurekstri með því að heimila þann möguleika að leggja á svonefnt atvinnurekstrarbann. Í slíku banni, sem miðað er við að gildi að meginreglu til í þrjú ár, felst nánar tiltekið að þeim sem því sætir er óheimilt að stjórna félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð og fara með prókúru eða annað umboð slíks félags.
    Frumvarpið er nátengt breytingum sem gerðar voru árið 2019 með lögum nr. 56/2019, m.a. á almennum hegningarlögum og hlutafélagalögum, og snertu misnotkun á félagaformi og hæfisskilyrði. Í frumvarpinu er þannig lagt til að hægt sé að úrskurða þann sem óhæfur telst til að stýra hlutafélagi vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta í atvinnurekstrarbann og eru þær breytingar nauðsynleg viðbót til fyllingar þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 56/2019.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin fjallaði um þær umsagnir sem bárust um málið sem voru almennt jákvæðar og var mat flestra umsagnaraðila að í frumvarpinu fælist mikil réttarbót. Bent var á að kennitöluflakk hafi verið meinsemd í íslensku samfélagi um árabil sem valdið hefur samfélaginu umtalsverðu tjóni á ári hverju og þá ekki síst hjá fyrirtækjum en skattgreiðendur, stéttarfélög, launafólk og lífeyrissjóðir verði einnig fyrir tjóni. Þá var einnig bent á að það séu gjarnan sömu aðilarnir sem stundi kennitöluflakk og gerist þar með sekir um ítrekuð skattalagabrot. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að bregðast við framangreindu og er í meginatriðum hlynnt öllum efnisatriðum frumvarpsins.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um 1. og 3. mgr. k-liðar 1. gr. frumvarpsins, en þar er mælt fyrir um að sá sem úrskurðaður hefur verið í atvinnurekstrarbann beri persónulega og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins fari það í þrot á þeim tíma sem bannið vari eða eftir atvikum á næsta ári eftir lok þess. Í umsögn Skattsins var bent á að til bóta gæti verið að telja upp í ákvæðinu í dæmaskyni þá aðila sem hér gætu fallið undir. Í ákvæðinu er fyrst og fremst, en ekki eingöngu, átt við svonefnda skuggastjórnendur félaga en að mati nefndarinnar er ekki nauðsynlegt að breyta lagatextanum í þessa veru, sbr. ábendingu ráðuneytisins. Nefndin áréttar þó að undir 1. og 3. mgr. k-liðar 1. gr. frumvarpsins geti fallið þeir sem komið hafi að stjórn félags með beinum eða óbeinum hætti, svo sem skráðir stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, prókúruhafi, skuggastjórnendur og aðrir sem ráðandi eru um meginstarfsemi og stefnu félagsins, líkt og Skatturinn bendir á.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Í umsögnum embættis héraðssaksóknara og Skattsins til nefndarinnar var bent á nokkur atriði sem álitið var að betur mættu fara. Óskaði nefndin afstöðu dómsmálaráðuneytisins til þeirra.
    Í umsögn Skattsins kom fram að samkvæmt frumvarpinu á atvinnurekstrarbann m.a. að ná til einstaklings sem borið hefur takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum samlagshlutafélags en með réttu ætti hið sama að gilda um eiganda samlagsfélags sem ber takmarkaða ábyrgð. Dómsmálaráðuneytið tók undir framangreint og lagði því til að í stað orðsins „samlagshlutafélags“ í 1. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins (180. gr.) komi orðið „samlagsfélags“, enda séu samlagshlutafélög ein tegund samlagsfélaga og falli því undir það hugtak. Nefndin tekur undir framangreint og leggur til breytingartillögu þess efnis.
    Þá var það mat dómsmálaráðuneytisins að ábending í umsögn embættis héraðssaksóknara um að breyta þyrfti orðalagi 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins (181. gr.), þannig að ákvæðið tæki ekki einvörðungu til hlutafélaga heldur allra félaga sem rekin væru með takmarkaðri ábyrgð, talin réttmæt. Nefndin tekur undir það sjónarmið og leggur til breytingartillögu í þá átt.
    Á grundvelli 2. mgr. j-liðar 1. gr. frumvarpsins (189. gr.) skal Skatturinn halda skrá um þá einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið í atvinnurekstrarbann. Af hálfu Skattsins var bent á að tilvísun til Skattsins í ákvæðinu væri nokkuð víðtæk og ástæða til að téð skráarhald heyrði fremur undir fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóra sé falið að halda samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Dómsmálaráðuneytið tók undir þetta og er nefndin þessu jafnframt sammála og leggur því til orðalagsbreytingu á ákvæðinu í þessa veru.
    Þá leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu sem er tæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    
    Við 1. gr.
     a.      Í stað orðsins „samlagshlutafélags“ í 1. mgr. a-liðar komi: samlagsfélags.
     b.      Í stað orðsins „hlutafélagi“ í 1. mgr. b-liðar komi: félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð eigenda.
     c.      Í stað orðsins „æðra“ í 2. og 3. mgr. e-liðar komi: æðri.
     d.      Í stað orðsins „sannarlega“ í 3. málsl. 4. mgr. f-liðar komi: sannanlega.
     e.      Í stað orðsins „Skattsins“ í 1. og 2. mgr. og „Skatturinn“ í 2. mgr. j-liðar komi, í viðeigandi beygingarfalli: fyrirtækjaskrá.

    Bergþór Ólason og Jóhann Friðrik Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Jóhann Friðrik Friðriksson ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 9. desember 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Eyjólfur Ármannsson.
Helga Vala Helgadóttir. Jódís Skúladóttir. Jóhann Friðrik Friðriksson.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Óli Björn Kárason .