Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1198  —  327. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2021.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar lýsir vonbrigðum með að fjármála- og efnahagsráðherra hafi enn ekki sett reglugerð um innri endurskoðun ríkisaðila eins og honum ber að gera skv. 3. mgr. 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Tekur 1. minni hluti undir athugasemdir þess efnis sem fram koma í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2021.
    Samkvæmt 65. gr. laga um opinber fjármál skal framkvæmd innri endurskoðun hjá ríkisaðilum til að tryggja að takmarkaðir fjármunir nýtist með eins hagkvæmum hætti og frekast er unnt. Í þessu felst kerfisbundið, óháð og hlutlægt mat á virkni áhættustýringar, eftirlits og stjórnarhátta hjá þeim stofnunum sem eiga í hlut. Helstu markmiðum er lýst með eftirfarandi hætti í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 123/2015:

    „Tilgangur innri endurskoðunar er að stuðla að bættum rekstri ríkisaðila og auka líkur á því að markmiðum þeirra verði náð með því að meta með kerfisbundnum hætti skilvirkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta. Með framkvæmd innri endurskoðunar er lagður grunnur að virku eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda, og því að tryggja að opinber fjárstjórn og starfsemi sé skilvirk og hagkvæm, sbr. 3. og 5. tölul. 1. gr. Með innri endurskoðun er leitast við að draga úr hættu á að rangar eða ófullnægjandi upplýsingar séu lagðar til grundvallar við töku rekstrartengdra ákvarðana. Þá er markmið innri endurskoðunar að meta virkni innra eftirlits til að draga úr eða koma í veg fyrir að óhagkvæmni eða óskilvirkni viðgangist athugasemdalaust í starfsemi ríkisaðila eða fjársvik eigi sér stað.“

    Til að stuðla að samræmi við framkvæmd innri endurskoðunar innan stjórnkerfisins er mælt sérstaklega fyrir um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmdina í 3. mgr. 67. gr. laganna. Það er með nokkrum ólíkindum að nú, þegar meira en sjö ár eru liðin frá gildistöku laga um opinber fjármál, bólar enn ekkert á slíkri reglugerð. Undirritaður beindi eftirfarandi fyrirspurn til skriflegs svars til fjármála- og efnahagsráðherra 13. október 2022 (321. mál yfirstandandi þings):

          1.      Hvers vegna hefur ráðherra enn ekki sett reglugerð um innri endurskoðun ríkisaðila, sbr. 2. mgr. 65. gr. og 3. mgr. 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, nú þegar sjö ár eru liðin frá gildistöku laganna?
          2.      Hjá hvaða ríkisaðilum hefur innri endurskoðun verið framkvæmd skv. 2. mgr. 65. gr. laga um opinber fjármál á tímabilinu 2016–2022?
          3.      Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að innri endurskoðun sé framkvæmd hjá fleiri ríkisaðilum í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál?
          4.      Í ljósi þess að ráðherra segist hafa séð „blóðuga sóun út um allt í opinbera kerfinu“ (sjá viðtal í Silfrinu 4. október 2020), telur ráðherra ekki ástæðu til að setja téða reglugerð sem fyrst og tryggja að innri endurskoðun sé framkvæmd hjá ríkisaðilum til að stuðla að aukinni hagkvæmni í ríkisrekstri?

    Í 6. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, er mælt fyrir um að ráðherra sendi forseta svar við fyrirspurn að jafnaði eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Takist það ekki skuli ráðherra gera forseta Alþingis skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars til Alþingis. Þegar þetta nefndarálit er ritað eru liðnir 138 dagar síðan fyrirspurnin var leyfð og enn hafa engin svör borist né skýringar á töfunum. Þetta er virðingarleysi við Alþingi og eftirlitshlutverk þess.
    Í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2021 segir:

    „Til þess að efla innra eftirlit með ríkisfjármálunum og styrkja eftirlit með ríkisaðilum þarf að setja reglugerð um innri endurskoðun hjá ríkisaðilum í A-hluta í samræmi við 65. gr. laga nr. 123/2015. Ríkisendurskoðun hefur kallað eftir þessari reglugerð í undanförnum endurskoðunarskýrslum á ríkisreikningi án þess að brugðist hafi verið við því.“

    Fyrsti minni hluti tekur undir þetta og gerir þá kröfu að ráðherra virði skýr lagafyrirmæli sem er ætlað að takmarka sóun og stuðla að hagkvæmum ríkisrekstri.

Alþingi, 27. febrúar 2023.

Jóhann Páll Jóhannsson.