Ferill 690. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 14/153.

Þingskjal 1762  —  690. mál.


Þingsályktun

um myndlistarstefnu til 2030.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlunar í myndlist sem miði að því að efla myndlistarmenningu landsins. Myndlistarstefnan stuðli að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bæti lífsgæði og ánægju.

I. FRAMTÍÐARSÝN

    Á Íslandi ríki kraftmikil og lifandi myndlistarmenning og myndlistarstarfsemi. Myndlist leiki stórt hlutverk í samfélaginu. Hún verði órjúfanlegur hluti af menntun, þroska og daglegu lífi fólks um allt land, óháð aðstæðum. Myndlistarfólk verði metið að verðleikum og áhersla lögð á kennslu og nám í myndlist og listasögu á öllum skólastigum. Myndlist eigi vaxandi samfélagslegu hlutverki að gegna og stuðli að gagnrýninni og skapandi hugsun og umræðu.
    Starfsemi listasafna þjóni þörfum síbreytilegs samfélags. Stofnana- og stuðningskerfi myndlistar verði einfalt og skilvirkt.
    Vöxtur atvinnulífs á sviði myndlistar endurspeglist í fjölda gallería og annarra fyrirtækja með starfsemi á sviðinu. Íslensk myndlist veki athygli og marki sér stöðu innan alþjóðlega listheimsins. Myndlist á Íslandi hafi aðdráttarafl fyrir þátttakendur í alþjóðlegu myndlistarlífi.

II. MEGINMARKMIÐ

    Myndlistarstefnan byggist á fjórum meginmarkmiðum sem hvert og eitt stuðli að umbótum og jákvæðum breytingum svo að framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika. Meginmarkmiðin verði þessi:
     1.      Á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning.
     2.      Stuðningskerfi myndlistar verði einfalt og skilvirkt.
     3.      Íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein.
     4.      Íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

1. Á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning.
    Undir meginmarkmiðið falli að stuðla beri að fjölbreyttri listsköpun og frjóu og auðugu myndlistarlífi þar sem aðgengi einstaklinga er gott, óháð aðstæðum. Unnið verði að því að auka áhuga almennings og þátttöku. Myndlist hafi vaxandi samfélagslegu hlutverki að gegna og stuðli að gagnrýninni og skapandi hugsun og umræðu.
    Áhersluatriði verði þessi:
     a.      stuðlað verði að vitundarvakningu á meðal almennings um myndlist og myndlist verði aðgengileg fyrir sem flesta, óháð aðstæðum,
     b.      áhugi á myndlist, safnastarfi og höfundavernd verði aukinn með kynningarstarfi innan skóla og í fjölmiðlum,
     c.      grundvöllur sýningarhalds verði efldur um allt land,
     d.      þjálfun í skapandi hugsun verði efld ásamt listkennslu og myndlæsi innan skólakerfisins,
     e.      aukið samstarf verði milli skólakerfis og listasafna,
     f.      kennsla og kennslufræðileg nálgun í myndlist verði efld og framboð af námsefni í myndlist endurskoðað.
    Mælikvarðar verði þessir:
     1.      Aðsókn landsmanna að sýningum aukist um 2–4% á ári fram til ársins 2030.
     2.      Heimsóknir skólahópa og fræðsla viðurkenndra listasafna hafi aukist um 15% árið 2025.
     3.      Fjölmiðlaumfjöllun um myndlist aukist um 3–5% á ári fram til ársins 2030.

2. Stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt.
    Undir meginmarkmiðið fellur að á Íslandi verði starfrækt höfuðsafn á heimsmælikvarða á sviði myndlistar, að opinberar stofnanir og stuðningskerfi séu samstillt og að heildarstarfsemi myndlistarumhverfisins einkennist af metnaði, samvinnu og framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum.
    Áhersluatriði verði þessi:
     a.      Listasafn Íslands verði eflt í hlutverki sínu sem höfuðsafn, miðstöð safnastarfs og þátttakandi í alþjóðlegu safnastarfi,
     b.      viðurkennd söfn leiti til Listasafns Íslands eftir faglegri aðstoð enda hafi safnið forystu í söfnun listaverka, verndun og miðlun menningararfs, rannsóknum, þróun, kynningu og miðlun íslenskrar myndlistar,
     c.      Myndlistarmiðstöð styðji og efli íslenska myndlist hér á landi og erlendis,
     d.      myndlistarráð og Myndlistarmiðstöð styðji faglega við myndlistarumhverfið, verði sýnilegri og taki meira frumkvæði við stefnumótun fyrir myndlistarsjóð og verkefni sem snúa að list í opinberum byggingum,
     e.      samstarf og samtal stofnana og aðila í rannsóknum innan myndlistarsviðsins verði eflt með virkri upplýsingagjöf, tengslaneti og viðburðum í tengslum við rannsóknir; samstarf og samtal verði eflt á milli listasafna, háskólasamfélags, myndlistarmanna, nemenda og annars fagfólks,
     f.      hugað verði vel að myndlist í opinberu rými, skráning, varðveisla, innkaup og kynning verði efld,
     g.      stofnana- og stuðningskerfi verði einfalt og skilvirkt; upplýsingum um opinber innkaup listaverka verði miðlað á aðgengilegan hátt.
    Mælikvarðar verði þessir:
     1.      Gestafjöldi í höfuðsafni myndlistar aukist um 3–5% ár ári fram til ársins 2030.
     2.      Opinber innkaup á myndlist aukist um 3–5% á ári fram til ársins 2030.

3. Íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein.
    Undir meginmarkmiðið fellur að myndlist verði samkeppnishæf og sjálfbær atvinnugrein sem leggi sitt af mörkum til verðmæta- og atvinnusköpunar um allt land.
    Áhersluatriði verði þessi:
     a.      sýningarhald á sviði myndlistar verði eflt með endurgreiðslukerfi sem hvetji til sýningarhalds gallería og annarra fyrirtækja hér á landi,
     b.      komið verði á hvatakerfi sem ýti undir vöxt og atvinnu- og verðmætasköpun atvinnugreinarinnar,
     c.      faglegt umhverfi myndlistar verði styrkt með breytingum á lögum og reglum um skatta og tolla,
     d.      ákvæði höfundalaga sem varða myndlist verði rýnd í þeim tilgangi að skýra betur sérstöðu myndlistar innan höfundaréttar; til staðar verði fræðsla um samninga og höfundarétt til að tryggja skilning á hvernig höfundalög eiga að tryggja fjárhagslegan grundvöll myndlistarhöfunda sem annarra höfunda,
     e.      hagvísar verði gerðir til að mæla umfang atvinnugreinarinnar.
    Mælikvarðar verði þessir:
     1.      Rekstrartekjur greinarinnar samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands aukist um 2–4% á ári fram til ársins 2030.
     2.      Fjöldi starfandi í greininni samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands aukist um 3–5% á ári fram til ársins 2030.

4. Íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
    Undir meginmarkmiðið fellur að myndlistarlíf verði drifið áfram af samstarfi listamanna og atvinnulífs með stoðum í traustu stuðningskerfi og að íslenskt myndlistarlíf veki athygli alþjóðlegs myndlistarheims sem leiði af sér alþjóðlegt samstarf og aukna sölu á íslenskum listaverkum erlendis.
    Áhersluatriði verði þessi:
     a.      stuðningskerfi myndlistar, listamenn og atvinnulíf taki höndum saman um að efla árangursríkt alþjóðlegt samstarf og kynningu,
     b.      endurgreiðslukerfi efli og hvetji til sýningarhalds og þátttöku í alþjóðlegum kaupstefnum og viðburðum,
     c.      stutt verði við öflug sjálfsprottin verkefni innan lands á borð við myndlistarhátíðir og vinnustofur á alþjóðamælikvarða,
     d.      þátttaka íslenskra myndlistarmanna í alþjóðlegum viðburðum verði efld,
     e.      myndlistarviðburðir á Íslandi laði að fagfólk á sviði myndlistar og styðji við aukna menningartengda ferðaþjónustu,
     f.      tryggt verði að íslensk höfundalög séu ávallt í samræmi við alþjóðaskuldbindingar og alþjóðaþróun til að tryggja alþjóðasamstarf á sviði myndlistar.
    Mælikvarðar verði þessir:
     1.      Gerð verði gæðaúttekt á útflutningstölum áður en tekin verði endanleg ákvörðun um hvaða mælikvarða eigi að nota til að meta umfang og aukningu útflutnings á myndlist.
     2.      Fjöldi þátttakenda í sýningum og kaupstefnum erlendis aukist um 2–4% á ári fram til ársins 2030.
     3.      Erlend umfjöllun um íslenska myndlist aukist um 2–4% á ári fram til ársins 2030.

III. AÐGERÐAÁÆTLUN

    Unnið verði í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun myndlistarstefnunnar til að tryggja framgang myndlistar í landinu. Aðgerðir myndlistarstefnunnar verði endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga til að greiða götu nýrra verkefna og efla myndlistarstarfsemi hér á landi enn frekar næsta áratug. Menningar- og viðskiptaráðuneyti fylgist með framvindu aðgerða og birti reglulega upplýsingar þar að lútandi.

1. Sterk staða myndlistar.
    Ráðist verði í átaksverkefni sem stuðli að vitundarvakningu hjá almenningi. Áhersla verði lögð á að gera myndlist aðgengilega fyrir alla, óháð aðstæðum. Lögð verði áhersla á að fjölbreytt samsetning íbúa í fjölmenningarsamfélagi landsins endurspeglist í myndlistarlífinu.
    Markmiðið verði að vekja áhuga sem flestra landsmanna á að sækja sýningar og viðburði, sem og að þjálfa myndlæsi og þátttöku í umræðum.
    Verkefnið felist í gerð fjölbreytts kynningarefnis, miðlunarleiða og viðburða sem ná yfir eitt ár. Unnið verði að því að fá að verkefninu fjölmarga samstarfsaðila sem leggi fram vinnu og fjármagn til viðbótar við opinbert fjárframlag auk þess sem áhersla verði lögð á samstarf við fjölmiðla.
    Fellur undir: Meginmarkmið 1.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Myndlistarmiðstöð.
    Fjárhagsáhrif: Í verkefnasamningi við Myndlistarmiðstöð fyrir árið 2023 verði gert ráð fyrir 20 millj. kr. til að fjármagna aðgerðir nr. 1, 6 og 7.

2. Myndlistarkennsla.
    Lögð verði áhersla á þjálfun í skapandi hugsun, eflingu listkennslu og myndlæsi innan skólakerfisins eins og fram kemur í menntastefnu. Myndlistarkennsla styðji við læsi í víðum skilningi, til að mynda mynd-, miðla-, náttúru- og menningarlæsi. Gerð verði greining á stöðu myndlistar- og listasögukennslu innan skólakerfisins sem leggi grunn að tillögum sem kæmu inn í aðgerðir menntastefnu.
    Aukið samstarf milli skólakerfis og listasafna styðji við nám og kennslu þar sem vettvangsferðir og listheimsóknir verði hluti af náminu. Haldið verði áfram með verkefnið List fyrir alla og lögð verði áhersla á samtal listamanna, safna og menntastofnana, þannig verði aukin þátttaka og jafnað aðgengi barna og ungmenna að listum og menningar- og myndlistararfi.
    Fellur undir: Meginmarkmið 1.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við hlutaðeigandi aðila úr myndlistarumhverfi.
    Fjárhagsáhrif: Kostnaður fellur undir aðgerðaáætlun menntastefnu og Menningarsókn – aðgerðaáætlun um listir og menningu.

3. Aukið aðgengi að Listasafni Íslands.
    Fyrirkomulag aðgengismála Listasafns Íslands verði kannað með það að markmiði að meta ókeypis aðgang að grunnsýningum safnsins í tímabundnum átaksverkefnum eða hluta úr ári. Áhersla verði lögð á að auka aðgengi almennings að myndlistararfi þjóðarinnar og íslenskri listasögu. Hugað verði að farsælustu útfærslu með það að markmiði að efla safnið svo að það nái betur til barnafjölskyldna og ungs fólks, með auknu aðgengi verði lögð áhersla á að efla vitund um mikilvægi myndlistar í samfélaginu og hvatt til rökræðu og lýðræðislegrar umræðu um málefni samtímans.
    Fellur undir: Meginmarkmið 2.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við Listasafn Íslands.
    Fjárhagsáhrif: Fjárhagsáhrif verði metin þegar vinnu starfshóps lýkur og umfang liggur fyrir, en meðaltekjur safnsins vegna aðgangseyris eru um 40 millj. kr. á ári.

4. Aukið samstarf um rannsóknir.
    Komið verði á fót upplýsingaveitu og tengslaneti sem leiði saman aðila til samstarfs um rannsóknir, svo sem listasöfn, háskólasamfélagið, Listfræðifélag Íslands, sýningarstjóra, myndlistarmenn og nemendur. Þannig verði áhugi aukinn á myndlist og safnastarfi.
    Fellur undir: Meginmarkmið 2.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Myndlistarmiðstöð í samráði við Listasafn Íslands, háskóla og rannsakendur á sviði skapandi greina.
    Fjárhagsáhrif: Gert verði ráð fyrir 2 millj. kr. í uppsetningu upplýsingaveitu sem yrði hýst hjá Myndlistarmiðstöð.

5. Greining á stöðu Listasafns Íslands.
    Stofnaður verði starfshópur sem móti framtíðarsýn fyrir uppbyggingu höfuðsafns á heimsmælikvarða.
    Byggt verði á heildstæðri þarfagreiningu um húsnæðismál, forystuhlutverk, sýningarhald, söfnun listaverka, verndun og miðlun menningararfs, rannsóknir, þróun, kynningu og miðlun íslenskrar myndlistar.
    Fellur undir: Meginmarkmið 2.
    Upphaf: Hefjist árið 2023 og starfshópur ljúki störfum í lok ársins.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðherra skipi starfshóp samkvæmt tilnefningu hagaðila.
    Fjárhagsáhrif: Gert verði ráð fyrir 5 millj. kr. fyrir vinnu starfshóps og þarfagreiningu.

6. Stofnun Myndlistarmiðstöðvar.
    Ný Myndlistarmiðstöð taki við hlutverki Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og fái víðtækara hlutverk undir nýju nafni. Hlutverk hennar felist í stuðningi við og eflingu á myndlist innan lands og utan. Myndlistarmiðstöðin komi að framkvæmd myndlistarstefnu í samstarfi við myndlistarráð. Áhersla verði lögð á aukinn stuðning við kynningu, ráðgjöf, fræðslu og miðlun. Hugað verði jafnframt að skilum milli hlutverka Myndlistarmiðstöðvar og myndlistarráðs.
    Fellur undir: Meginmarkmið 2.
    Upphaf: Þegar hafið.
    Ábyrgð: Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.
    Fjárhagsáhrif: Í verkefnasamningi við Myndlistarmiðstöð fyrir árið 2023 verði gert ráð fyrir 20 millj. kr. til að fjármagna aðgerðir nr. 1, 6 og 7.

7. Myndlistarráð verði gert sýnilegra og staða þess styrkt.
    Myndlistarráð verði gert sýnilegra og taki meira frumkvæði við stefnumótun fyrir myndlistarsjóð.
    Fellur undir: Meginmarkmið 2.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Fjárhagsáhrif: Í verkefnasamningi við Myndlistarmiðstöð fyrir árið 2023 verði gert ráð fyrir 20 millj. kr. til að fjármagna aðgerðir nr. 1, 6 og 7.

8. Myndlistarsjóður verði efldur.
    Sjóðurinn verði efldur og fái tækifæri til að styðja við fjölbreytt verkefni á víðu sviði myndlistar, m.a. með tilliti til sjálfbærni og menningarlegrar fjölbreytni.
    Fellur undir: Meginmarkmið 2.
    Upphaf: Hefjist árið 2024.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Fjárhagsáhrif: Gert verði ráð fyrir 35 millj. kr. hækkun í fjármálaáætlun 2024 og 5% árlegri aukningu framvegis.

9. List í opinberu rými – breytt skipulag og framkvæmd.
    Fyrirkomulag Listskreytingasjóðs verði skoðað í samráði við myndlistarráð, Samband íslenskra myndlistarmanna, Myndlistarmiðstöð, Listasafn Íslands, Arkitektafélag Íslands og Framkvæmdasýslu ríkisins.
    Fellur undir: Meginmarkmið 2.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Fjárhagsáhrif: Á árinu 2023 er ekki gert ráð fyrir fjármagni. Þegar ákvörðun um fyrirkomulag liggur fyrir verði gert ráð fyrir 10 millj. kr. í listaverkakaup frá og með árinu 2024.

10. Hagvísar.
    Teknir verði saman hagvísar myndlistar, til að mynda úr talnaefni frá Hagstofu Íslands, sem varpi ljósi á umfang greinarinnar og verði hluti af mælaborði skapandi greina.
    Í mælaborðinu verði safnað saman lykiltölum greinarinnar, svo sem um fjölda starfandi myndlistarmanna, fjölda fyrirtækja, veltu, útflutning, fjölda sýninga, aðsókn og þátttöku kynja. Með þessu verði aflað upplýsinga til að auka skilning á hlut myndlistar í samfélaginu, áhrifum greinarinnar á samfélagið og arðsemi myndlistar innan atvinnulífsins.
    Fellur undir: Meginmarkmið 3.
    Upphaf: Þegar hafið.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við Myndlistarmiðstöð, safnaráð, háskóla og rannsakendur á sviði skapandi greina.
    Fjárhagsáhrif: Ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði vegna aðgerðar, fjármögnun fellur undir aðgerðir í Menningarsókn – aðgerðaáætlun um listir og menningu.

11. Skattumhverfi myndlistar.
    Til að efla faglegt starfsumhverfi myndlistarmanna, til samræmis við aðrar skapandi greinar eins og bókaútgáfu, tónlist og hönnun, verði gerð ítarleg greining á þeim möguleika að færa myndlist í 11% virðisaukaskattsþrep. Starfshópur meti mögulegar breytingar á skattumhverfi myndlistar.
    Fellur undir: Meginmarkmið 3.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti og menningar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við atvinnulíf á sviði myndlistar.
    Fjárhagsáhrif: Ekki er gert ráð fyrir kostnaði. Gera má ráð fyrir að breytingin hafi í för með sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð ef ákveðið verður að ráðast í breytingar á skattumhverfi myndlistar.

12. Endurskoðuð skilgreining á myndlist í tollalögum.
    Skilgreiningu á myndlist í tollalögum verði breytt til samræmis við nútímalegar skilgreiningar þar sem skilgreining á myndlist í tollskrá hefur verið til trafala í alþjóðlegu samstarfi og fyrir inn- og útflutning á myndlist. Horft verði til fyrirmynda frá nágrannalöndum.
    Fellur undir: Meginmarkmið 3.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneyti, tollyfirvöld og hlutaðeigandi aðila úr myndlistarumhverfinu.
    Fjárhagsáhrif: Ekki er gert ráð fyrir fjárhagsáhrifum.

13. Endurgreiðslukerfi hvetji til sýningarhalds og þátttöku í alþjóðlegum kaupstefnum.
    Til að efla sýningarhald á sviði myndlistar verði gerð ítarleg greining á þeim möguleikum að koma á endurgreiðslukerfi sem hvetji til sýningarhalds gallería og annarra fyrirtækja hér á landi og þátttöku í virtum alþjóðlegum kaupstefnum.
    Horft verði til endurgreiðslufyrirkomulags vegna bókaútgáfu og hljóðritunar. Aðrir opinberir styrkir komi til frádráttar og þak sett á endurgreiðslur til hvers aðila. Starfshópur móti tillögur um fyrirkomulag endurgreiðslukerfis og framkvæmd.
    Fellur undir: Meginmarkmið 3.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Fjárhagsáhrif: Verði metin þegar tillögur starfshóps liggja fyrir.

14. Könnun á mögulegum hvötum til listaverkakaupa fyrirtækja.
    Starfshópur verði settur á fót sem kanni með hvaða hætti sé hægt að hvetja fyrirtæki til kaupa á myndlist, t.d. miðað við fjárhæðir eða hlutfall veltu, fyrir húsnæði sem hýsir atvinnustarfsemi. Horft verði til nágrannalanda um fyrirmyndir.
    Fellur undir: Meginmarkmið 3.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneyti og atvinnulíf á sviði myndlistar.
    Fjárhagsáhrif: Verði metin þegar tillögur starfshóps liggja fyrir.

15. Markviss alþjóðleg kynning og þátttaka.
    Áfram verði unnið af krafti og með markvissum hætti að alþjóðlegu samstarfi listamanna og fagfólks í myndlistarumhverfinu, tengslamyndun og kynningu á íslenskri myndlist. Myndlistarráð í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneyti, utanríkisþjónustuna og Íslandsstofu móti stefnu og stilli saman strengi á þessu sviði.
    Fellur undir: Meginmarkmið 4.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Myndlistarmiðstöð og myndlistarráð í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Íslandsstofu.
    Fjárhagsáhrif: Kostnaður rúmast innan rekstrarsamnings við Myndlistarmiðstöð.

16. Samstarf og þátttaka í erlendu samstarfi á sviði myndlistar.
    Stutt verði við verkefni á borð við myndlistarhátíðir og vinnustofur hérlendis. Kraftmikil listsköpun og alþjóðlegir viðburðir laði að erlenda listamenn, safnara og fagfólk á sviði myndlistar, auk menningarferðamanna í auknum mæli. Með öflugu alþjóðlegu samstarfi listamanna og fagfólks í myndlist eflist og þroskast myndlistarumhverfið hér á landi. Það skili sér til almennings með fjölbreyttari og metnaðarfyllri myndlist og sýningum.
    Fellur undir: Meginmarkmið 4.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Myndlistarmiðstöð og myndlistarráð í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, sendiskrifstofur og Íslandsstofu.
    Fjárhagsáhrif: Við gerð fjármálaáætlunar 2024–2028 verði gert ráð fyrir sérstöku 7 millj. kr. framlagi til að styrkja myndlistarhátíðir og vinnustofur.

17. Gestavinnustofur.
    Komið verði á fót vinnuhópi með það að markmiði að finna hentugt og varanlegt húsnæði fyrir gestavinnustofu Sambands íslenskra myndlistarmanna svo að samtökin geti haldið áfram að bjóða upp á gestavinnustofur fyrir erlenda listamenn, almenningi og íslenskri myndlist til hagsbóta.
    Fellur undir: Meginmarkmið 4.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti í samráði við Samband íslenskra myndlistarmanna.
    Fjárhagsáhrif: Ekki er gert ráð fyrir kostnaði.

18. Höfundaréttarmál.
    Unnið verði að gerð höfundaréttarstefnu í samræmi við boðaðar aðgerðir í Menningarsókn – aðgerðaáætlun til 2030. Þar verði m.a. lögð áhersla á sérstöðu myndlistar í höfundarétti og á aðgerðir sem þörf er á. Áhersla verði lögð á innleiðingu á tilskipun (ESB) 2019/790 frá 17. apríl 2019 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum sem m.a. á að leiða til sterkari samningsstöðu höfunda, þ.m.t. höfunda á sviði myndlistar. Þá verði unnið að aukinni fræðslu um höfundaréttarmál í skólum sem kenna myndlist, þ.e. í grunnskólum, sérskólum og skólum á háskólastigi.
    Fellur undir: Meginmarkmið 1 og 3.
    Upphaf: Hefjist árið 2023.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og sérfræðinga atvinnulífs á sviði myndlistar, þar á meðal höfundaréttarsamtökin Myndstef.
    Fjárhagsáhrif: Fjármögnun fellur undir aðgerðir í Menningarsókn – aðgerðaáætlun um listir og menningu.