Ferill 1155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2080  —  1155. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að hækka lífeyri almannatrygginga um 2,5% til að halda í við verðbólguna, sem nú mælist 9,5%, og hins vegar að hækka frítekjumark húsnæðisbóta til að gæta samræmis svo að komi ekki til skerðinga vegna þessa. Markmið breytinganna er að kaupmáttur lífeyrisþega almannatrygginga skerðist ekki vegna verðbólgunnar. Verðbólga og vaxtahækkanir bitna helst á þeim sem hafa minnst á milli handanna og standa hvað höllustum fæti í samfélaginu. Núverandi efnahagsástand er afleiðing slæmrar ákvarðanatöku og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir stöðuga hækkun verðbólgu og vísitölu framan af ári hefur ekki verið brugðist nægilega við þegar neyðarástand vofir yfir öryrkjum vegna kjararýrnunar.
    Samkvæmt nýútkominni skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað hennar eru það einna helst börn einstæðra foreldra, innflytjenda og öryrkja sem eru í aukinni hættu á að búa við fátækt og tekið er fram að mikilvægt sé að hlúa sérstaklega að þessum hópum. Til að koma í veg fyrir fátækt þarf forgangsröðun fjármagns að vera rétt. Á krísutímum þurfa sérstaklega þeir sem eiga mest að leggja hönd á plóg til að halda mannsæmandi samfélagi gangandi. Nauðsynlegt er að hækka tekjur fátækasta fólksins í samfélaginu sem hefur það verst og hefur fáa og jafnvel enga möguleika til að afla sér aukatekna. Frumvarp ríkisstjórnarinnar bregst aðeins að takmörkuðu leyti við þeim vanda sem blasir nú við lífeyrisþegum almannatrygginga. Að grípa ekki betur utan um fólk á þessum erfiða tíma er einungis til þess fallið að dýpka vanda fólks og velta honum yfir á næstu kynslóðir.
    ÖBÍ réttindasamtök skiluðu nefndinni umsögn um frumvarp ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu þar sem reifuð var alvarleg staða fatlaðs fólks. Bent var á að verðbólguspá og forsendur fjárlaga 2023 væru löngu brostnar. Réttindasamtökin telja að frumvarp ríkisstjórnarinnar sé skref í rétta átt, en enn er langt frá því að öryrkjum séu tryggð viðunandi lífskjör og fjárhagslegt öryggi. Minni hluti velferðarnefndar tekur undir með ÖBÍ um að hækka þurfi lífeyrisgreiðslur almannatrygginga um 6% til að mæta launaþróun og að lágmarki hækkun vísitölu neysluverðs. Þá er nauðsynlegt að gæta samræmis og hækka frítekjumark húsnæðisbóta svo að ekki komi til skerðinga. Áætlað kostnaðarmat vegna þessara breytinga eru 7,9 milljarðar kr. vegna 6% hækkunar á lífeyri og 290 millj. kr. vegna hækkunar á frítekjumarki húsnæðisbóta á ársgrundvelli. Hægt er að fjármagna auknar aðgerðir á ýmsan hátt, t.d. með því að hækka fjármagnstekjuskatt og með því að fá sanngjarnan arð af auðlindum okkar. Þetta snýst allt um forgangsröðun og minni hluti velferðarnefndar telur brýnt að forgangsraða í þágu þeirra sem verðbólgan íþyngir mest.
    Að teknu tilliti til þess sem að framan segir leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað hlutfallstölunnar „2,5%“ í efnismálslið 1. gr. komi: 6%.
     2.      Tafla í 1. efnismgr. 2. gr. orðist svo:
Fjöldi heimilismanna Frítekjumörk m.v. árstekjur 2023
1 5.572.997 kr.
2 7.370.737 kr.
3 8.629.156 kr.
4 eða fleiri 9.348.252 kr.

Alþingi, 8. júní 2023.

Halldóra Mogensen,
frsm.
Guðmundur Ingi Kristinsson.