Ferill 1180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2232  —  1180. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur um kostnað vegna verktakagreiðslna til lækna.


     1.      Hvernig hafa útgjöld ríkisins til að manna stöður lækna í verktöku utan höfuðborgarsvæðisins þróast síðustu fimm ár?
    Útgjöld heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni vegna lækna í verktöku hafa haldist nokkuð stöðug síðustu fimm árin og nam heildarkostnaður vegna þeirra um 2 milljörðum kr. árið 2022. Til samanburðar var heildarkostnaðurinn um 1,6 milljarðar kr. árið 2018. Það sama gildir um meðalkostnað á hvert stöðugildi læknis í verktöku sem var um 35 millj. kr. árið 2022 miðað við um 33 millj. kr. árið 2018.

     2.      Hvernig kemur slíkur kostnaður út í samanburði við kostnað við að hafa fasta lækna?
    Þegar beinn launakostnaður við eitt stöðugildi læknis í verktöku er borinn saman við stöðugildi læknis sem er fastráðinn þá er hann nokkuð svipaður á flestum stöðum. Verktakar vinna sér þó ekki inn veikindarétt og ýmis önnur réttindi líkt og launamenn, sem stofnanir þurfa þá ekki að greiða vegna þeirra. Aftur á móti kemur til ýmis viðbótarkostnaður þegar læknir er ekki fastráðinn á staðnum, svo sem vegna ferðalaga, leigu á húsnæði og bíl, dagpeninga o.fl. Einnig er hætta á að minni samfella verði í þjónustu og minni stöðugleiki þegar um verktökulækna er að ræða og því er yfirleitt hagstæðara fyrir stofnanir til lengri tíma að hafa fastráðna lækna.