Ferill 1207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2234  —  1207. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um alifuglabú.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða alifuglabú eru starfrækt á landinu? Þess er óskað að fram komi upplýsingar um staðsetningu, stærð og eiganda hvers bús.

    Við vinnslu svarsins voru nýtt gögn í vörslu ráðuneytisins auk þess sem Matvælastofnun lét einnig gögn í té. Birtar eru upplýsingar um eldi til kjötframleiðslu og eggjaframleiðslu.
Framleiðslan byggist á því að flutt eru inn frjóvguð egg, sem ungað er út hérlendis á sérstökum einangrunarstöðvum. Þeir fuglar sem þar verða til mynda bústofn til annaðhvort kjöt- eða eggjaframleiðslu. Í svarinu koma fram upplýsingar um starfsleyfishafa, sem eru með leyfi Matvælastofnunar til frumframleiðslu matvæla samkvæmt matvælalögum og eru í mörgum tilvikum einnig eigendur, en ráðuneytið heldur ekki utan um eigendaskráningu.

Eldi til kjötframleiðslu.
    Í landinu eru starfrækt þrjú alifuglasláturhús fyrir kjúklinga og kalkúna: Ísfugl, Matfugl og Reykjagarður. Fyrirkomulag framleiðslu er með ólíkum hætti. Hún skiptist á margar starfsstöðvar sem sumar eru alfarið í eigu sláturhúsanna, aðrar eiga í skipulögðu samstarfi við þau og enn aðrar eru reknar af einstökum bændum sem leggja inn afurðir í viðkomandi sláturhús eins og algengast er í sauðfjár- og nautgriparækt. Fjöldi fugla í Bústofni byggist á skráningum umráðamanna búanna sjálfra á síðasta ári, en hámarksfjöldi á hverjum tíma er samkvæmt starfsleyfi Matvælastofnunar. Fjöldi fugla tekur eðlilega miklum breytingum innan ársins. Slátrað var ríflega 5,6 milljónum alifugla hérlendis árið 2022 og framleitt kjöt var alls 9.501 tonn.
    Kjúklingaeldi Matfugls ehf. er á tíu starfsstöðvum. Á þremur þeirra fer fram útungun og eldi stofnfugla en á sjö eldi til kjötframleiðslu. Þrjár eru í Reykjavík og ein í hverju eftirtalinna sveitarfélaga: Kjósarhreppi, Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Dalvíkurbyggð, Hrunamannahreppi, Árborg og Ölfusi. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla samtals 313.700. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 392.800 fuglar.
    Kjúklingaeldi Reykjagarðs hf. er á níu starfsstöðvum. Á þremur þeirra fer fram útungun og eldi stofnfugla, á sex eldi til kjötframleiðslu, en hvort tveggja á einni. Ein er í Grindavík, ein í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, ein í Bláskógabyggð, tvær í Ásahreppi, tvær í Rangárþingi ytra, ein í Húnaþingi vestra og ein í Borgarbyggð. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla samtals 229.600. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 340.400 fuglar.
    Til viðbótar eru þrjú bú annarra starfsleyfishafa rekin í samstarfi við Reykjagarð. Kjúklingabúið Vor ehf. í Flóahreppi, Brún ehf. í Rangárþingi ytra og Björgvin Ásgeirsson í Ölfusi. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla þar samtals 44.000. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 55.300 fuglar.
    Reykjabúið ehf. starfrækir sláturhús Ísfugls ásamt útungun og eldi stofnfugla í félaginu Útungun ehf. Kjúklinga- og kalkúnaeldi Reykjabúsins er á 11 starfsstöðvum þess eða Útungunar. Á þremur þeirra fer fram útungun og eldi stofnfugla, en á níu eldi til kjötframleiðslu. Ein er í Mosfellsbæ, ein í Suðurnesjabæ, fjórar í Ölfusi, tvær í Bláskógabyggð og ein í hverju eftirtalinna sveitarfélaga: Rangárþingi eystra, Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla samtals 37.000. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 99.000 fuglar.
    Til viðbótar eru fjögur bú annarra starfsleyfishafa rekin í samstarfi við Reykjabúið. Hvammur ehf. í Kópavogi, Neslækur ehf. í Ölfusi, Jón Ögmundsson í Ölfusi og Jóhannes Sveinbjörnsson í Bláskógabyggð. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla þar samtals 11.900. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 57.100 fuglar. Hjá Hvammi ehf. eru einnig framleidd egg.

Eggjaframleiðsla.
    Innlend eggjaframleiðsla árið 2022 var 3.950 tonn.
    Framleiðsla Stjörnueggja ehf. er á fjórum starfsstöðvum sem eru allar í Reykjavík. Á einni fer fram eldi stofnfugla auk eggjaframleiðslunnar. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla þar samtals 80.000. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 208.300 fuglar.
    Framleiðsla Nesbúeggja ehf. er á tveimur starfsstöðvum. Þær eru annars vegar í Vogum og hins vegar í Flóahreppi. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla þar samtals 140.600. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 149.900 fuglar.
    Sex önnur bú hafa starfsleyfi til eggjaframleiðslu. Efri-Mýrabúið ehf. í Húnabyggð, Klaufi ehf. í Dalvíkurbyggð, Ásta A. Pétursdóttir í Eyjafjarðarsveit, Landnámsegg ehf. í Hrísey, Grænegg ehf. í Svalbarðsstrandarhreppi og Grænahraun ehf. í Hornafirði. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla þar samtals 30.800. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 31.700 fuglar.

Annað.
    Þá rekur félagið Stofnungi ehf. tvær starfsstöðvar til útungunar og eldis stofnfugla fyrir bæði eggja- og kjötframleiðslu. Þær eru í Borgarbyggð og Skorradalshreppi. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi fugla þar samtals 5.500. Hámarksfjöldi samkvæmt starfsleyfum er 11.900 fuglar.
    Samtals fer alifuglaeldi til kjötframleiðslu fram á 37 starfsstöðvum í 19 sveitarfélögum. Eggjaframleiðsla fer fram á 12 starfsstöðvum í 9 sveitarfélögum. Samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 var fjöldi alifugla samtals 860.200 en hámarksfjöldi á hverjum tíma samkvæmt starfsleyfum rúmlega 1.350.000.
    Enn fremur eru samkvæmt skráningum í Bústofn 2022 167 önnur bú skráð með einhverja alifugla. Það telst til frístundabúskapar. Heildarfjöldi fugla þar er samtals 2.800.