Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2240  —  371. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um raforkumál á Vestfjörðum.


     1.      Hvernig hafa stjórnvöld fram til þessa fylgt eftir þingsályktun Alþingis nr. 26/148 frá 2018 um að Vestfirðir séu eitt þriggja svæða í forgangi þegar kemur að uppbyggingu flutningskerfisins og að tryggja afhendingaröryggi raforku?
     2.      Hvaða tillögum í skýrslu starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum sem kom út í apríl sl. hefur ráðherra nú þegar hrint í framkvæmd? Hvaða tillögur telur ráðherra brýnast að ráðast í og ljúka? Hvenær er áætlað að þeim verði að fullu framfylgt?

    Í júní 2021 skipaði þáverandi ráðherra orkumála starfshóp um orkumál á Vestfjörðum og var hlutverk starfshópsins að skoða orkumál á Vestfjörðum út frá stöðu mála í flutningskerfi raforku, dreifikerfi raforku og möguleikum til orkuvinnslu á svæðinu, svo og áherslum úr orkustefnu um orkuskipti og afhendingaröryggi á landsvísu. Í skýrslu starfshópsins frá apríl 2022 kemur m.a. fram: „Síðustu ár hefur orðið verulegur viðsnúningur í efnahag landshlutans og góðar horfur eru fyrir vöxt atvinnulífs og samfélaga á næstu áratugum með vaxandi eftirspurn eftir raforku og tryggu afhendingaröryggi. En þá kemur í ljós að raforkukerfi landshlutans er ekki nægjanlega vel í stakk búið til að mæta þessum viðsnúningi, auk nýrra verkefna s.s. orkuskiptum. Greiningar sýna einnig að staða raforkukerfisins á síðustu áratugum hefur ekki fylgt þróun í öðrum landshlutum og það hefur átt sinn þátt í að rýra samkeppnisstöðu samfélaga og atvinnulífs Vestfjarða í samanburði við aðra hluta landsins.“
    Að mati starfshópsins er nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins til þess að bæta afhendingaröryggið á Vestfjörðum og tryggja nægilegt afl, ásamt því að auka kerfisstyrk. Þar er átt við meginflutningskerfið, svæðisbundna flutningskerfið, dreifikerfið og orkuframleiðslu innan svæðisins, auk jarðhitaleitar.
    Í desember 2022 skipaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra starfshóp til að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið á Vestfjörðum. Tillögur starfshópsins skyldu a.m.k. snúa að eftirfylgni tillagna í framangreindri skýrslu starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum frá apríl 2022, þ.e. hvað varðar jarðhitaleit, aukna orkuöflun, þjóðgarð á Vestfjörðum, eflingu hringrásarhagkerfisins og græna atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Niðurstöður starfshópsins voru kynntar í lok júní 2023 og skýrsla hópsins liggur fyrir, Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum. 1
    Mikilvægt er að hafa í huga að orkumál Vestfjarða verða ekki leyst með einni tiltekinni aðgerð heldur er þörf á mismunandi aðgerðum á næstu árum. Ráðuneytið hefur þegar sett af stað vinnu við að fylgja eftir framkomnum tillögum og gert er ráð fyrir að þeim ásamt nýjum verkefnum verði fylgt eftir frekar á næstu misserum.

     3.      Telur ráðherra það fýsilegt að lyfta friðlýsingarskilmálum friðlandsins í Vatnsfirði, eins og starfshópurinn leggur til, svo að hægt sé að taka Vatnsfjarðarvirkjun til umfjöllunar í áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun), eða öðru því regluverki sem Alþingi kann að ákveða varðandi mögulega virkjunarkosti?
    Í febrúar 2022 sendi Orkubú Vestfjarða erindi til ráðuneytisins þar sem óskað er eftir því að ráðherra „hlutist til um það eins fljótt og verða má að breyta reglum um friðlandið í Vatnsfirði í auglýsingu nr. 96/1975 þannig að Umhverfisstofnun/Orkustofnun sé heimilt að veita leyfi til virkjunar vatnasvæðis friðlandsins til að reisa og reka raforkuver innan friðlandsins með vísan til ákvæða 44. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. ákvæði 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003“.
    Í 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, er fjallað um afnám eða breytingu friðlýsingar. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að afnám friðlýsingar eða breyting sem felur í sér að dregið er úr vernd viðkomandi náttúruminja sé aðeins heimil ef a) verndargildi minjanna eða svæðisins hefur rýrnað svo að forsendur eru ekki lengur fyrir friðlýsingunni eða b) ef mjög brýnir samfélagshagsmunir krefjast þess. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að ráðherra taki ákvörðun um afnám eða breytingu á friðlýsingu en áður skuli liggja fyrir mat á áhrifum hennar. Leita skuli umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, viðkomandi náttúruverndarnefndar, náttúruverndarsamtaka og eftir atvikum annarra fagstofnana. Jafnframt kemur fram að við mat skv. b-lið 1. mgr. skuli leggja áherslu á þýðingu friðlýsts svæðis í neti verndarsvæða og hvort unnt sé að stofna samsvarandi verndarsvæði annars staðar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 60/2013 kemur fram að heimild b-liðar verði að túlka mjög þröngt og bent er á að gæta þurfi að því að mikilvægir almannahagsmunir séu bundnir við vernd friðlýstra svæða og að ákvörðun um friðlýsingu sé tekin með langtímamarkmið í huga. Því ætti ekki að beita heimildinni nema í þágu samfélagslegra hagsmuna sem geta talist mun ríkari en þeir sem liggja vernd svæðisins til grundvallar.
    Erindi Orkubús Vestfjarða hefur verið svarað með þeim hætti að óskað er eftir því að Orkubú Vestfjarða leggi fram greinargerð þar sem fram komi mat á áhrifum þess að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðarfriðlandsins á þann veg að heimilt verði að reisa vatnsaflsvirkjun innan svæðisins. Þegar sú greinargerð liggur fyrir mun ráðuneytið óska eftir umsögnum þeirra aðila sem kveðið er á um að þurfi að liggja fyrir áður en tekin er ákvörðun um hvort friðlýsingarskilmálunum verði breytt eins og óskað er eftir.

     4.      Ef áform stjórnvalda um að treysta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum taka ekki til hagkvæmra og umhverfisvænna virkjunarkosta á Vestfjörðum, hvernig munu stjórnvöld þá tryggja fullnægjandi úrbætur á raforkumálum Vestfjarða?
    Sjá svar við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar.



1     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/URN/Efling_Samfelags_a_Vestfjordum_Web.pdf