Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2242  —  791. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um losunarheimildir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hafa íslensk stjórnvöld keypt losunarheimildir til að jafna út losun umfram þá sem leyfð er samkvæmt Kyoto-bókuninni?
     2.      Ef svo er, hvers konar einingar voru keyptar, af hverjum, á hvaða verði og hver var heildarkostnaðurinn á núvirði?


    Legið hefur fyrir í nokkurn tíma að Ísland losaði meira af gróðurhúsalofttegundum á skuldbindingatímabilinu 2013–2020 en sem svarar þeim heimildum sem Ísland hefur í Kyoto-bókuninni fyrir þetta tímabil. Kyoto-bókunin gerir ráð fyrir að ríki geti staðið við skuldbindingar sínar á þrennan hátt: með því að draga úr losun, með kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og með kaupum á kolefniseiningum. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og utanríkisráðuneytið, hefur skoðað leiðir varðandi kaup á kolefniseiningum til að bregðast við stöðunni og taldi besta kostinn að kaupa einingar af Slóvakíu.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ritað undir samning ásamt umhverfisráðherra Slóvakíu um kaup Íslands á 3,4 m kolefniseiningum frá Slóvakíu. Samningurinn gerir Íslandi fært að standa við skuldbindingar sínar á 2. tímabili Kyoto-bókunarinnar. Kaupverð er um 350 millj. kr. sem er vel innan heimilda á fjárlögum ársins, en gert var ráð fyrir 800 milljónum í verkefnið.
    Samkvæmt samningnum rennur kaupverð á einingunum í sjóð í Slóvakíu sem styður loftslagstengd verkefni, svo sem bætta einangrun húsa.
    Endanlegt uppgjör á 2. skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar fer fram á vegum skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í byrjun september 2023.
    Ísland var í hópi þeirra ríkja sem tóku á sig skuldbindingar vegna 2. tímabils Kyoto-bókunarinnar, en það voru eingöngu Evrópuríki og Ástralía sem það gerðu. Ísland hefur því alla tíð verið í hópi þeirra ríkja sem hafa tekið mesta ábyrgð og haft ströngustu alþjóðlegar skuldbindingar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.
    Ríki með skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni geta mætt þeim skuldbindingum á þrennan hátt: 1) með samdrætti í losun, 2) með bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu og 3) með kaupum á heimildum frá öðrum ríkjum (sem hafa heimildir umfram losun) eða frá verkefnum í þróunarríkjunum. Íslensk stjórnvöld gerðu ráð fyrir því á sínum tíma að ná skuldbindingum sínum með aðgerðum innan lands og gerðu aðgerðaáætlun þess efnis árið 2010. Ljóst er nú að ekki tókst að mæta skuldbindingunum á þann hátt. Ekki hefur verið gerð ítarleg greining á áætluninni annars vegar og raunverulegri þróun losunar og kolefnisbindingar hins vegar, en í fljótu bragði virðist sem tveir þættir vegi þyngst varðandi þessa stöðu. Annars vegar er ljóst að kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu hefur ekki verið jafn mikil á tímabilinu 2013–2020 og gert var ráð fyrir. Þar kemur m.a. til að framlög til verkefna á þessu sviði voru minni en reiknað var með í upphafi, sem skýrist m.a. af almennu aðhaldi og samdrætti í ríkisframlögum eftir bankahrunið 2008, en aðgerðir á þessu sviði skila ekki mælanlegum árangri strax. Hins vegar var minnkun á losun ekki eins mikil og spár gerðu ráð fyrir. Losun minnkaði raunar hratt í nokkur ár eftir 2008, sem var viðmiðunarár fyrir aðgerðaáætlunina 2010, en stóð síðan í stað og jókst lítillega áður en hún fór aftur niður á við frá og með árinu 2018 (ath. að hér er miðað við þá losun sem fellur undir beinar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda undir Kyoto-bókuninni, en þær ná ekki yfir m.a. stóriðju og alþjóðasamgöngur, sjá mynd). Þar sjást greinilega merki öflugs hagvaxtar á árunum eftir 2010 og mikillar aukningar á komu ferðamanna til Íslands, sem olli m.a. aukningu í losun frá vegasamgöngum og auknum umsvifum, svo sem í byggingariðnaði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd: Losun á beinni ábyrgð Íslands 2010–2020, auk bindingar kolefnis með skógrækt og landgræðslu (RMUs eru svokallaðar bindingareiningar, sem eru gefnar út samkvæmt því).