Ferill 1092. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2271  —  1092. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um endurmat útgjalda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðuneytið innleitt endurmat útgjalda samkvæmt skilgreiningu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD)? Ef svo er, hvenær var það gert og hvaða árangri hefur það skilað?
    Eins og fram kemur á vef Stjórnarráðs Íslands um endurmat útgjalda (e. spending reviews) er skilgreining Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á endurmati útgjalda að um sé að ræða „ferli við að þróa og innleiða hagræðingu með kerfisbundnum greiningum á viðvarandi útgjöldum þar sem hin kerfisbundna greining nær til tiltekinna verkefna eða málaflokka“. Erlend reynsla hefur sýnt að takist vel til þá skili endurmat hagræðingu, breyttri forgangsröðun í samræmi við pólitískar áherslur og gleggri yfirsýn yfir verkefni hins opinbera.
    Meðal verkefna og innan málaflokka ráðuneytisins fer reglulega fram skoðun á því hvort því fjármagni sem veitt er til einstakra verkefna eða málaflokka sé vel varið. Nokkuð víst má telja að sú skoðun fellur ekki í öllum tilfellum að ýtrustu skilgreiningu OECD um ferli við framkvæmd slíks endurmats.
    Sem dæmi um slík verkefni sem hafa verið í skoðun undanfarin misseri innan málefnasviða ráðuneytisins má nefna eftirfarandi:
     1.      Árið 2022 hófst í ráðuneytinu vinna við að endurmeta stofnanaskipulag þess með það að markmiði að fækka stofnunum verulega, auka skilvirkni og þjónustustig í starfsemi þeirra og auka hagræði í rekstri. Stofnanir ráðuneytisins eru nú 13 með um 600 starfsmenn á um 40 starfsstöðvum víða um land. Niðurstaða fyrsta áfanga þessa verkefnis mun koma fram í þremur eftirfarandi frumvörpum í samráðsgátt stjórnvalda á næstu vikum:
        –        Frumvarp um sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
        –        Frumvarp um Loftslagsstofnun þar sem sameina á Orkustofnun og Umhverfisstofnun að undanskildum verkefnum á sviði náttúruverndar.
        –        Frumvarp um Náttúruverndar- og minjastofnun þar sem sameina á Vatnajökulsþjóðgarð, Þjóðgarðinn á Þingvöllum, verkefni á sviði náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun og Minjastofnun Íslands.
                  Auk framangreindra breytinga á skipulagi stofnana er í undirbúningi að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar færist til Háskólans á Akureyri. Auk þess hafa Íslenskar orkurannsóknir verið í sérstakri skoðun, en sú stofnun er ólík starfsemi annarra framangreindra stofnana þar sem hún er B-hluta stofnun og tekjur hennar eru alfarið byggðar á tekjum af samningsbundnum verkefnum á samkeppnismarkaði. Áfram verður unnið að því að skoða framtíðarfyrirkomulag ÍSOR í samhengi við fyrirliggjandi tillögur um sameiningu stofnana en sú vinna mun taka nokkurn tíma.
                  Stofnanaskipulagsvinnan er enn í gangi en sameining hefur ekki átt sér stað og því liggur ekki fyrir mat á raunárangri. Samhliða þessari vinnu verður jafnframt reynt að bera kennsl á verkefni utan málefnasviða ráðuneytisins sem gætu faglega séð fallið vel að nýju stofnanaskipulagi þess en einnig verkefni sem gætu betur átt heima annars staðar í stjórnkerfinu. Jafnframt er til skoðunar að útvista ýmsum verkefnum.
     2.      Síðari hluta árs 2022 fór af stað vinna milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, skoðun og mat á því að ríkissjóður, sem liður í verkefni um orkuskipti, hætti að styrkja kaup á umhverfisvænum bifreiðum í formi afsláttar af virðisaukaskatti eða aðflutningsgjöldum og tæki þess í stað upp beinar styrkveitingar til kaupa á ökutækjum er ganga fyrir rafmagni eða annarri endurnýjanlegri og vistvænni orku, svo sem rafeldsneyti. Niðurstaða þeirrar vinnu var á þá leið að með því að flytja þá fjármuni sem fara í ívilnanir yfir í beinar styrkveitingar væri hægt að ná bæði aukinni skilvirkni og auknum ávinningi í nýtingu þessara fjármuna, mældum í auknum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrsti hluti verkefnisins fór af stað í ársbyrjun þessa árs en fyrirhugað er að verkefnið verði með þessu sniði til og með 2030 og á tímabilinu 2023–2030 verði veitt alls 41,4 milljörðum kr. til orkuskipta í samgöngum. Ekki liggur fyrir mat á raunárangri en ráðgert er að slíkt mat fari fram árlega í lok hvers fjárlagaárs og samkvæmt því færi slíkt raunmat fram í ársbyrjun 2024.
     3.      Í mars 2023 skilað starfshópur af sér umfangsmikilli skýrslu um „stöðumat og áskoranir varðandi mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár“, en skýrslan var unnin á grunni þingsályktunartillögu Ara Trausta Guðmundssonar, fyrrum þingmanns. Ein af niðurstöðum þeirrar skýrslu er að tilhögun hættumats og vöktunar er ekki fullnægjandi sem leiðir til þess að við náttúruváratburði þarf ríkissjóður jafnan að bregðast með viðbótarfjármagni. Í skýrslunni er bent á að mikil líkindi séu til þess að hægt sé að nýta betur þá fjármuni væri þeim frekar veitt til fyrirbyggjandi verkefna. Þetta umfangsmikla verkefni er enn í vinnslu og fyrir liggur að skoða og greina betur þörf og kostnað við framkvæmd hættumats og vegna vöktunar og rannsókna á sviði náttúruvár. Enn fremur er unnið að mótun stefnu stjórnvalda hvað náttúruvá varðar og að setja af stað nauðsynlegar aðgerðir til að styðja við þá stefnumótun. Þessi vinna er enn í gangi og því erfitt að meta raunárangur þess á þessu stigi.