Ferill 1175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2277  —  1175. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgang að rafrænni þjónustu.


     1.      Hafa stjórnvöld tekið afstöðu til þess hvort takmarkanir á því hver getur fengið rafræn skilríki feli í sér mismunun, t.d. í þeim tilvikum þegar fólki er synjað um rafræn skilríki á grundvelli fötlunar, og séu þar með brot á mannréttindum?
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort takmarkanir á því hver getur fengið rafræn skilríki feli í sér mismunun eða séu brot á mannréttindum, og bendir á að samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands heyra mannréttinda- og jafnréttismál undir forsætisráðuneytið. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið telur mikilvægt að aðgengi þeirra sem ekki geta fengið rafræn skilríki sé tryggt með öðrum leiðum og er talsmannsgrunnur fyrir persónulega talsmenn fatlaðs fólk sem tekinn var til notkunar á síðasta ári einn liður í því. Með grunninum getur persónulegur talsmaður skráð sig inn með sínum eigin rafrænu skilríkjum fyrir hönd hins fatlaða einstaklings á grundvelli samnings þeirra á milli. Talsmaðurinn fær þannig aðgang að innskráningu hins fatlaða einstaklings að stafrænu pósthólfi á „Mínum síðum“ á Stafrænu Íslandi og eftir atvikum öðrum síðum þar sem innskráningar er krafist með rafrænum skilríkjum. Nú er m.a. unnið að því að þróa útfærslur lausna á enn frekara rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk í starfshópi um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Hópurinn á að skila skýrslu með tillögum og hugmyndum að þróun og útfærslu lausna ásamt tíma- og kostnaðaráætlun í nóvember nk. Vinnan er liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

     2.      Er skýrt hver ber ábyrgð á því að öll geti nálgast þá þjónustu sem rafræn skilríki veita aðgang að, óháð því hvort viðkomandi hafi rafræn skilríki eða ekki?
    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands ber fjármála- og efnahagsráðuneytið ábyrgð á stafrænni umbreytingu ríkisaðila. Verkefnastofa um Stafrænt Ísland heyrir undir fyrrnefnt ráðuneyti og þar er unnið að því að bæta stafræna þjónustu hins opinbera. Auðkenni gefur út rafræn skilríki og annast alla þjónustu sem tengist rafrænum skilríkjum. Þá er það jafnframt hlutverk Auðkennis að tryggja áframhaldandi þróun og útbreiðslu rafrænna skilríkja meðal almennings.
    Jafnframt fer háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið með málefni er varða stafræna umbreytingu samfélags og atvinnulífs, öryggi rafrænna samskipta og netöryggi, eftirlit með fjarskiptum og rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
    Ljóst er af skiptingu stjórnarmálefna að málefni rafrænna skilríkja eru á ábyrgð fleiri en eins ráðuneytis, og að um viðamikið samstarfsverkefni ráðuneyta Stjórnarráðsins er að ræða þar sem virkt samráð er mikilvægt. Í fyrrnefndum starfshópi um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk eru fulltrúar frá ráðuneytum félags- og vinnumarkaðsmála, heilbrigðismála, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála og fjármála- og efnahagsmála. Starfshópurinn skal vinna tillögur sem verða grunnur að áframhaldandi þróun þess verkefnis að finna lausnir fyrir þau sem ekki hafa bein umráð yfir rafrænu auðkenni. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið leiðir starfshópinn en felur Stafrænu Íslandi daglega verkefnisstjórn.

     3.      Kemur til greina að tryggja með lagasetningu að tækni sem varðar víðtækt aðgengi að mikilvægri þjónustu skuli aðgengileg öllum?
    Sem fyrr greinir heyra málefni er varða stafræna umbreytingu ríkisaðila, rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti undir fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið annars vegar og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hins vegar.