Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 60  —  60. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (skipan kærunefndar).

Flm.: Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1.–3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ráðherra skipar, að fenginni tillögu Hæstaréttar, þrjá nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála og þrjá til vara. Formaður nefndarinnar skal skipaður í fullt starf til fimm ára að undangenginni auglýsingu samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nefndarmenn skulu allir uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara.
     b.      4. og 5. mgr. falla brott.
     c.      5. málsl. 6. mgr. orðast svo: Formaður velur staðgengil sinn til að gegna störfum sínum þegar formaður er forfallaður eða fjarstaddur.
                        

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. júní 2024.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á kærunefnd útlendingamála, sér í lagi skipan nefndarinnar. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að ráðherra skipi alls sjö nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála, þeirra á meðal formann og varaformann og fimm aðra nefndarmenn sem skulu ýmist tilnefndir af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands eða án tilnefningar. Samkvæmt lögunum eiga formaður og varaformaður einir að uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og skulu þeir skipaðir að fenginni umsögn hæfnisnefndar.
    Kærunefnd útlendingamála á að vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í málum sem til hennar eru kærð. Til að nefndin teljist sjálfstæð þurfa nefndarmenn að vera sjálfstæðir, hæfir og óháðir í störfum sínum. Þeir sem skipa í nefndina þurfa að gæta sérstaklega vel að hæfi nefndarmanna. Flutningsmenn telja að með núverandi fyrirkomulagi sé ekki gætt nægilega vel að hlutleysi nefndarmanna. Meðal þeirra 15 samtaka sem eiga aðild að áðurnefndri Mannréttindaskrifstofu Íslands eru Íslandsdeild Amnesty International, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn á Íslandi, Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin '78 og Siðmennt. Jafnréttisstofa hætti aðild 2021. Aðilarnir eru þannig að stórum hluta þeir sömu og hafa haft sig töluvert frammi í málflutningi þess efnis að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hefur verið synjað um hæli hér á landi fái engu að síður áfram fulla og óskerta þjónustu hins opinbera, andstætt ákvæðum laga um útlendinga.

Tilgangur og markmið.
    Samkvæmt stjórnsýslulögum má hlutdrægur nefndarmaður í stjórnsýslunefnd ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess máls sem hann telst eigi vera óhlutdrægur gagnvart. Með setu í kærunefnd útlendingamála er Mannréttindaskrifstofu Íslands fengið opinbert vald. Þar með gilda öll sömu sjónarmið við val Mannréttindaskrifstofu Íslands á nefndarmönnum og endranær. Þess má geta að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins skipa dómara í Félagsdóm. Við úrlausn mála fara dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum. Það sama á að gilda um nefndarmenn í kærunefndinni. Á því virðist sem misbrestur hafi orðið. Kærunefnd útlendingamála virðist túlka hugtakið flóttamaður rýmra en vilji Alþingis stóð til. Vilji Alþingis stóð til að hugtakið væri skýrt með sama hætti og í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við framkvæmd annarra Evrópuríkja. Túlkun kærunefndarinnar hafi síðan haft í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð.
    Flutningsmenn frumvarps þessa telja því eðlilegra að nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála, sem fer óneitanlega með umtalsvert vald, séu skipaðir af sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum í stað samtaka sem hafa beina hagsmuni af starfi nefndarinnar eða hafa tjáð sig með einhliða að ekki sé sagt pólitískum hætti um málaflokkinn.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála verði þrír í stað sjö og allir tilnefndir af Hæstarétti. Nefndarmenn skulu allir uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara, í stað eingöngu formanns og varaformanns.
    4. og 5. mgr. 6. gr. falla brott vegna þeirra breytinga sem verða á 3. mgr.
    Loks er lagt til að formaður velji staðgengil sinn sé hann sjálfur fjarverandi í stað þess að varaformaður taki við verkum formanns.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.