Ferill 62. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 62  —  62. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóð ferðaþjónustunnar.


Flm.: Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að undirbúa stofnun nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóðs í þágu ferðaþjónustu í samvinnu við menningar- og viðskiptaráðherra. Ráðherra leggi frumvarp til laga um stofnun sjóðsins fyrir Alþingi fyrir árslok 2023.

Greinargerð.

    Markmið þingsályktunartillögu þessarar er að koma á fót nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóði til eflingar ferðaþjónustu. Tilgangur sjóðsins væri að efla íslenska ferðaþjónustu með því að tryggja fjármagn til rannsókna, og hagnýtingar rannsókna, með nýsköpun og þróun.
    Ferðaþjónusta hefur eflst og henni fleygt hratt fram á undanförnum árum, sérstaklega síðasta áratuginn. Ferðaþjónusta sem atvinnugrein hefur skapað ný tækifæri, ný fyrirtæki og þúsundir starfa. Þrátt fyrir það er ítrekað á það bent að ekki séu til nægilegar upplýsingar og gögn um atvinnugreinina, sérstaklega eru tækifæri til að auka nýtingu og úrvinnslu upplýsinga. Skipulögð söfnun tölfræði um greinina hefur vaxið jafnt og þétt en betur má ef duga skal og sérstaklega er brýnt að auka rannsóknir og frekari úrvinnslu upplýsinga um ferðamennsku hér á landi.
    Ferðaþjónusta byggist á nýtingu einstakrar náttúru og menningar landsins og hefur jafnframt víðtæk samfélagsleg áhrif, þ.m.t. á efnahag, félagsgerð, menningu og umhverfi. Í áframhaldandi þróun og uppbyggingu atvinnugreinarinnar er mikilvægt að leggja sjálfbærni til grundvallar, og ef það á að takast þarf að afla þekkingar. Þess vegna er nauðsynlegt að áframhaldandi þróun ferðaþjónustunnar verði byggð á áreiðanlegum gögnum, rannsóknum og þekkingu. Ferðaþjónustan nýtir viðkvæmar auðlindir og Íslendingar vita það manna best að nýting auðlinda krefst rannsókna og þekkingar.
    Þróun ferðaþjónustu á Íslandi byggist að miklu leyti á frumkvæði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, vítt og breitt um landið. Arðsemi í greininni hefur verið undir 10% og til þess að auka hana er mikilvægt að auka aðgang að fjármagni til þróunar og brýnt að áframhaldandi þróun byggist á rannsóknum. Markmið hlýtur að vera að auka tekjur af hverjum ferðamanni og til þess eru ýmsar leiðir, svo sem með aukinni fjölbreytni í þjónustu. Þróun þjónustunnar getur aftur styrkt ólíkar byggðir og aukið útflutningstekjur landsins. Um allt land er því fólk sem hefur gripið tækifærin sem gefist hafa síðasta áratug. Margt af þessu fólki er nú tilbúið í ný verkefni og tækifærin eru ófá.

Núverandi upplýsingaöflun, rannsóknir og tölfræði.
    Mælaborð og gögn þar sem nálgast má upplýsingar um ferðaþjónustu er að finna á ýmsum stöðum, hjá opinberum aðilum og einkaaðilum.
    Ferðamálastofa annast talningar á ferðamönnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og framkvæmir m.a. kannanir á ferðavenjum erlendra og innlendra ferðamanna. Þá gefur Ferðamálastofa árlega út bæklinginn Ferðaþjónusta í tölum þar sem helstu hagstærðir greinarinnar eru teknar saman. Á vef Ferðamálastofu er hægt að nálgast tölur um fjölda ferðamanna og ýmsar rannsóknir, kannanir og gögn á sviði ferðamála.
    Hagstofa Íslands gefur út ferðaþjónustureikninga (e. Tourism Satellite Accounts) og aflar gagna um skráningu gistinátta og gjaldeyristekjur, samkvæmt samningi við menningar- og viðskiptaráðuneytið.
    Samtök ferðaþjónustunnar reka mælaborð undir heitinu Ferðagögn (ferdagogn.saf.is) þar sem ýmis gögn um umsvif ferðaþjónustu í nærsamfélaginu eru aðgengileg. Meðal annars er hægt að nálgast upplýsingar um atvinnutekjur, skatttekjur sveitarfélaga, framboð og nýtingu gistirýma og afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu eftir landshlutum.
    Mælaborð ferðaþjónustunnar er vefsíða þar sem tölulegar upplýsingar um atvinnugreinina eru birtar með myndrænum hætti. Meðal þess sem mælaborðið sýnir er fjöldi ferðamanna, framboð gistirýmis, nýting hótelherbergja, dreifing, nýting og tekjur Airbnb-gistingar, komur og dreifing skemmtiferðaskipa, fjöldi starfsmanna í atvinnugreininni, gjaldeyristekjur og fjöldi bílaleigubíla. Þessar tölur má skoða nánar eftir árum, landsvæðum, sveitarfélögum, atvinnugreinum, þjóðerni o.fl. Upplýsingar mælaborðsins eru byggðar á gögnum frá opinberum stofnunum og rannsóknaraðilum. Tölurnar eru uppfærðar jafnharðan og nýjar berast. Í flestum tilfellum sýna gögnin þróun síðastliðins áratugar fram á daginn í dag.
    Rannsóknamiðstöð ferðamála er starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum að Hólum, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu. Markmið miðstöðvarinnar eru að efla rannsóknir á sviði ferðamála, styrkja tengsl háskólastarfs og atvinnulífs og auka þekkingu um ferðamál gegnum innlent og erlent samstarf. Hún á að vera leiðandi í upplýsingaöflun og rannsóknum á sviði ferðamála hér á landi, en til þess að það takist þarf einnig að tryggja fjármögnun. Öflugt samstarf háskóla og markvisst samstarf við atvinnugreinina sjálfa á sviði rannsókna á ferðamálum, nýsköpun og sjálfbærni mun skapa aukna arðsemi þegar til lengri tíma er litið.
    Aðrir aðilar sem sinna rannsóknum og veita tölulegar upplýsingar á sviði ferðamála eru m.a. Íslandsstofa, Rannsóknarsetur verslunarinnar og þeir háskólar sem bjóða upp á námsleiðir í ferðamálafræði eða tengdum greinum.

Rannsókna- og nýsköpunarsjóðir.
    Ýmsir rannsókna- og/eða nýsköpunarsjóðir hafa verið stofnaðir hér á landi. Þeir hvetja til frekari rannsókna og nýsköpunar á viðeigandi sviði með veitingu styrkja og stuðnings. Sjóðir sem þessir eru starfræktir fyrir tilstilli bæði opinberra aðila og einkaaðila. Slíkir sjóðir hafa gefið góða raun hér á landi og stutt við rannsóknir og nýsköpun sem hefði annars ekki orðið að veruleika. Með aukinni þekkingu eflist atvinnulífið og tekjur samfélagsins, þ.m.t. útflutningstekjur. Sem dæmi um slíka sjóði má nefna Kríu sprota- og nýsköpunarsjóð, Rannsóknasjóð Háskóla Íslands, Rannsóknarsjóð Hrafnistu og Vísinda- og rannsóknarsjóð Suðurlands. Í dag er enginn sjóður sem styrkir rannsóknir og/eða nýsköpun í þágu ferðaþjónustu sérstaklega.

Verkefnið.
    Í tillögu þessari er lagt til að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirbúi stofnun nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóðs í þágu ferðaþjónustu í samvinnu við menningar- og viðskiptaráðherra sem fer með málefni ferðaþjónustunnar. Nánara fyrirkomulag sjóðsins þyrfti að mótast í samvinnu við hagsmunaaðila og er frekari útfærsla því sett í hendur ráðherra, bæði hvað varðar umgjörð, regluverk og fjármögnun. Þó telja flutningsmenn eðlilegt að gera ráð fyrir því strax í upphafi að umsjón með rekstri sjóðsins yrði hjá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís). Rannís heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og starfar á grundvelli laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Hlutverk Rannís er að treysta stoðir íslensks samfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu, m.a. með rekstri samkeppnissjóða. Rannís hefur umsjón með helstu samkeppnissjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar.