Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 162  —  162. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (heimilisuppbót).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lífeyrisþegi sem býr með einstaklingi sem ekki hefur náð 26 ára aldri telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 151., 152. og 153. löggjafarþingi (97. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt. Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarpið á 152. löggjafarþingi var bent á að uppfæra þyrfti frumvarpið með tilliti til reglugerðarbreytinga sem áttu sér stað 1. janúar 2022. Tekið hefur verið tillit til þeirrar athugasemdar og texti 1. gr. uppfærður til samræmis við uppfærða reglugerð og tillögu Öryrkjabandalagsins að nýju orðalagi.
    Skömmu eftir að frumvarp þetta var lagt fram á 151. þingi, vorið 2021, gerði ráðherra langþráðar breytingar á reglugerð um heimilisuppbót sem koma í veg fyrir að heimilisuppbót skerðist vegna námsmanna á aldrinum 18–25 ára sem búa á sama heimili og lífeyrisþegi. Í lok árs 2022 var reglugerðinni breytt að nýju og felld var brott krafa um fullt nám. Framangreindum breytingum ber að fagna en fullt tilefni er til að ganga alla leið og tryggja réttindi foreldra að þessu leyti í lögunum sjálfum. Frumvarp þetta myndi lögfesta rétt einstæðra foreldra námsmanna til að njóta heimilisuppbótar, þrátt fyrir að námsmaður búi á sama heimili, þar til námsmaður nær 26 ára aldri. Með lögfestingu er hægt að tryggja að núgildandi fyrirkomulagi verði ekki breytt aftur í fyrra horf með reglugerðarbreytingu ráðherra. Auk þess gengur frumvarpið lengra en gildandi reglugerð þar eð undanþága frumvarpsins nær einnig til einstaklinga sem ekki eru í námi á aldrinum 18–25.
    Löggjafanum ber að tryggja friðhelgi fjölskyldu og heimilis. Bannað er að skerða þá friðhelgi nema með lögum og aðeins ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Óumdeilt er að löggjöfin mismunar fjölskyldum á ýmsa vegu og ýmis lagaákvæði stuðla beinlínis að sundrungu og upplausn fjölskyldunnar. Það er sá raunveruleiki sem lífeyrisþegar almannatrygginga mega þola. Ýmis réttindi falla niður um leið og börn ná 18 ára aldri. Við það tímamark verða lífeyrisþegar fyrir verulegum tekjumissi. Líkt og aðrir missa þeir rétt til barnabóta, en einnig missa þeir ýmis önnur réttindi. Barnabætur, barnalífeyrir og mæðra- og feðralaun falla niður. Auk þess fellur niður réttur til heimilisuppbótar ef barn dvelur áfram á heimili einstæðs foreldris. Tekjur einstæðrar tveggja barna móður geta skerst um allt að 170.000 kr. á mánuði þegar eldra barnið nær 18 ára aldri. Þá lækkar barnalífeyrir og mæðralaun en heimilisuppbótin skerðist að fullu.
    Það liggur í augum uppi að núgildandi löggjöf brýtur niður fjölskyldur sem ná ekki endum saman án þessarar framfærslu. Til þess að missa ekki réttinn til heimilisuppbótar neyðast margir foreldrar til að vísa börnum sínum á dyr. Þá má gera ráð fyrir að oft sé lögheimilisskráning á öðru heimili aðeins til málamynda í slíkum tilvikum.
    Vissulega eru gild rök fyrir því að bætur sem eiga að renna til einstæðra foreldra skuli falla niður þegar börn þeirra ná fullorðinsaldri. Það verður þó að gæta þess að áhrifin verði ekki of íþyngjandi. Það þarf að dreifa álaginu betur og koma í veg fyrir að allir greiðsluflokkarnir skerðist á sama tíma. Jafnframt er vert að hafa í huga að tilgangur heimilisuppbótar er að styðja við lífeyrisþega sem þurfa sjálfir að standa straum af öllum húsnæðiskostnaði án þess að njóta aðstoðar annarra heimilismanna.
    Því er lagt til að heimilisuppbót skerðist ekki vegna barns sem býr á heimili foreldris fyrr en það hefur náð 26 ára aldri. Sambærileg undanþága er nú þegar í reglugerð en gerir kröfu um að barn sé í námi eða starfsþjálfun. Öryrkjabandalagið lagði til, í umsögn sinni um frumvarpið á 152. löggjafarþingi, að áskilnaður um nám yrði felldur niður. Undir það má taka. Margir flakka á milli vinnu og náms á þessum aldri, og einnig á milli námsleiða, þar til fólk finnur sína köllun. Það er því óþarft að mismuna fólki eftir því hvort það stundar nám eða ekki á þessum mikilvægu mótunarárum. Með því að girða fyrir að heimilisuppbót foreldris falli niður þar til afkomandi nær 26 ára aldri gefst aukið svigrúm fyrir viðkomandi til að ljúka námi, fá vinnu við hæfi og leita að hentugu húsnæði.
    Skerðingarreglur sem miða við aldur barna eru til þess fallnar að auka enn frekar á ójöfnuð í samfélaginu. Verði þetta frumvarp að lögum hverfa verstu áhrif slíkra skerðinga.