Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 344  —  337. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um tímabundna aukna fjármögnun strætisvagnakerfisins á höfuðborgarsvæðinu.


Flm.: Indriði Ingi Stefánsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að ráðstafa fjármagni til Strætós bs. í samræmi við það sem fram kemur í framkvæmdaáætlun Sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og er ætlað til reksturs Borgarlínu. Sú ráðstöfun verði tímabundin fram að því að Borgarlína hefur rekstur og upphæðir uppfærðar miðað við vísitölu neysluverðs.

Greinargerð.

    Í ljósi mikillar fjölgunar bifreiða er nauðsynlegt að grípa í taumana með því að skapa aðra valkosti. Slíkt inngrip gæti falist í því að veita það fjármagn til Strætós bs. sem fyrirhugað var að rynni nú þegar til Borgarlínu samkvæmt Sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Með því móti væri hægt að bregðast við þeim töfum sem hafa orðið á verkefninu og stuðla að því að markmiði þess verði náð sem fyrst. Slík ráðstöfun myndi gera Strætó bs. kleift að bæta þjónustu með aukinni tíðni og breytingum á leiðakerfi og þar með skapa aukinn hvata fyrir almenning til að nýta sér þjónustuna. Óumdeilt er að aukin notkun almenningssamgangna hefði jákvæð áhrif ekki aðeins á lýðheilsu heldur myndu umferðartafir minnka og minni þörf væri á uppbyggingu kostnaðarsamra umferðarmannvirkja. Ísland drægi úr losun og væri nær því að ná markmiðum sínum og skuldbindingum í loftslagsmálum. Þessi ráðstöfun er hvort tveggja skynsamleg og nauðsynleg til að draga úr ört stækkandi bifreiðaflota með tilheyrandi þyngingu umferðar og skaða fyrir loftslag og umhverfi.