Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 427  —  310. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Björnsdóttur um vændi.


     1.      Hvaða vinnumarkaðsúrræði standa þeim til boða sem eru á leið úr vændi eða mansali?
    Vinnumálastofnun annast skipulag vinnumarkaðsúrræða samkvæmt lögum nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir. Meðal þeirra vinnumarkaðsúrræða sem Vinnumálastofnun ber að sjá um eru námskeið, starfstengd úrræði, námsúrræði og starfsendurhæfing auk þess sem stofnuninni ber að sinna ráðgjöf til atvinnuleitenda. Þeim einstaklingum sem eru á leið úr vændi eða mansali standa til boða sömu vinnumarkaðsúrræði og öðrum atvinnuleitendum.

     2.      Hvaða fjárhagsaðstoð stendur brotaþolum vændis til boða svo að þeir geti horfið úr vændi?

    Ekki er um sérstaka opinbera fjárhagsaðstoð að ræða til brotaþola vændis svo að þeir geti losað sig úr vændi.
    Samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, eru það sveitarfélög sem bera ábyrgð á félagsþjónustu, þ.m.t. fjárhagsaðstoð til framfærslu innan marka síns sveitarfélags. Allir íbúar sveitarfélagsins eiga samkvæmt lögunum rétt á félagslegri ráðgjöf, upplýsingagjöf og leiðbeiningum um félagsleg réttindamál og þann stuðning sem er í boði.
    Í VI. kafla laganna er kveðið á um fjárhagsaðstoð. Þar kemur fram að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og að félagsmálanefnd meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar.