Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 436  —  263. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um árekstra á gangbrautum og gangstéttum.


     1.      Hversu margir hafa fengið sekt á ári undanfarin fimm ár fyrir að keyra á vegfarendur á gangbraut annars vegar og gangstétt hins vegar?
    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu reyndist ekki unnt að kalla fram fullnægjandi tölfræði úr málaskrá lögreglunnar út frá þeim forsendum sem settar eru fram í fyrirspurninni.

     2.      Hversu margir hafa fengið annars konar refsingu á ári undanfarin fimm ár fyrir að keyra á vegfarendur á gangbraut annars vegar og gangstétt hins vegar?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hversu mörg atvik hafa verið skráð á ári undanfarin fimm ár vegna árekstra bifreiða við vegfarendur á gangbraut annars vegar og gangstétt hins vegar?
    Samgöngustofa ber ábyrgð á og sér um greiningu slysa, sem stofnunin byggir annars vegar á skýrslum lögreglu og hins vegar upplýsingum frá Aðstoð & öryggi sem sinnir minni háttar umferðarslysum. Svarið við þessum lið fyrirspurnarinnar byggist því á upplýsingum frá Samgöngustofu.

Fjöldi árekstra bifreiða við gangandi vegfarendur á gangbraut og gangstétt.

2018 2019 2020 2021 2022
Ekið á fótgangandi á gangbraut 15 23 9 20 20
Ekið á fótgangandi á gangstétt og utan akbrautar 20 16 6 12 10
Samtals 35 39 15 32 30

Fjöldi árekstra bifreiða við hjólreiðamenn á gangbraut og gangstétt.

2018 2019 2020 2021 2022
Ekið á hjólreiðamann á gangbraut 16 16 14 26 33
Ekið á hjólreiðamann á gangstétt 5 6 7 10 13
Samtals 21 22 21 36 46

     4.      Hvers konar farartæki áttu hlut að máli í árekstrum skv. 1.–3. tölul.?
    Í svari við þessum tölulið fyrirspurnarinnar er byggt á greiningu Samgöngustofu á þeim gögnum sem vísað er til í svari við 3. tölul.

Tegundir farartækja sem áttu hlut að máli í árekstrum við gangandi vegfarendur.

2018 2019 2020 2021 2022
Fólksbifreið 78% 75% 55% 74% 82%
Reiðhjól 3% 5% 0% 3% 1%
Rafmagnsvespa 1% 1% 2% 3% 1%
Annað (t.d. hópbifreið, vörubifreið o.fl.) 18% 18% 43% 20% 15%

Ekið á hjólreiðamann á gangbraut greint eftir fararskjótum hjólreiðamanna.

2018 2019 2020 2021 2022
Reiðhjól 56% 69% 64% 38% 21%
Raf- eða vélknúið hlaupahjól 0% 0% 21% 58% 70%
Rafmagnsvespa 38% 19% 0% 4% 9%

Ekið á hjólreiðamann á gangstétt greint eftir fararskjótum hjólreiðamanna.

2018 2019 2020 2021 2022
Reiðhjól 80% 50% 29% 50% 54%
Raf- eða vélknúið hlaupahjól 0% 0% 43% 30% 38%
Rafmagnsvespa 20% 33% 14% 20% 8%