Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 480  —  325. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um fjölþrepa markaðssetningu.


     1.      Hefur ráðuneytið kannað umfang og dreifingu fjölþrepa markaðssetningar (e. multi-level marketing) hérlendis?
    Neytendastofa hefur eftirlit með lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Þar undir fellur hvers konar markaðssetning, þ.m.t. fjölþrepa markaðssetning. Hvorki Neytendastofa né ráðuneyti neytendamála hafa til þessa gert sérstaka úttekt á umfangi og dreifingu fjölþrepa markaðssetningar hér á landi.

     2.      Stendur til að upplýsa neytendur og söluaðila um eðli slíkrar markaðssetningar? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Neytendastofa hefur til þessa ekki sett það í forgang að veita sérstakar leiðbeiningar um fjölþrepa markaðssetningu. Stofnuninni hafa ekki borist fyrirspurnir, ábendingar eða kvartanir um málefnið og hefur því ekki haft vísbendingar um að markaðurinn hafi slík áhrif á fjárhagslega hagsmuni neytenda að tilefni sé til sérstakrar úttektar. Forgangsröðun Neytendastofu er til skoðunar á hverjum tíma og mun m.a. taka til athugunar þörf á því að upplýsa neytendur og söluaðila um eðli fjölþrepa markaðssetningar.

     3.      Fer fram vinna innan ráðuneytisins sem tryggir að slík starfsemi sé í samræmi við íslenska löggjöf? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Neytendastofa hefur eftirlit með lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sem áður segir. Þar undir fellur hvers konar markaðssetning, þ.m.t. fjölþrepa markaðssetning. Almenn ákvæði laganna geta átt við um starfsemina og getur stofnunin gripið til aðgerða vegna þeirra, ef tilefni þykir til. Þess ber að geta að fjallað er um svokallaða píramídastarfsemi í reglugerð nr. 160/2009, um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir. Í reglugerðinni eru taldir upp þeir viðskiptahættir sem ávallt teljast óréttmætir og krefjast ekki mats út frá aðstæðum hverju sinni. Samkvæmt 14. tölul. 1. gr. reglugerðarinnar teljast undir öllum kringumstæðum villandi viðskiptahættir að stofna, reka eða kynna píramídafyrirkomulag þar sem neytandinn á kost á þóknun sem er aðallega tilkomin fyrir að fá aðra til liðs við kerfið í stað þess að selja eða neyta vörunnar.
    Neytendastofa hefur tekið tvö mál til meðferðar á grundvelli ákvæðisins. Í öðru tilvikinu var skoðun lokið þar sem svör við fyrirspurn stofnunarinnar leiddu í ljós að ekki var um píramídafyrirkomulag að ræða. Í hinu tilvikinu var meðferð málsins lokið þar sem ekki tókst að ná til seljanda og sú vefsíða sem starfsemin var rekin á var tekin niður.