Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 486  —  219. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um eftirlit með snyrtistofum.


     1.      Hversu mörgum snyrtistofum hefur lögreglan haft eftirlit með á síðastliðnum þremur árum með það að markmiði að kanna hvort starfsmenn uppfylli skilyrði þess að starfa sem snyrtifræðingar? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Eftirlit með snyrtistofum fellur undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Skv. 51. gr. er Umhverfisstofnun falið að annast eftirlit með framkvæmd laganna. Umhverfisstofnun er heimilt að meta hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni, sbr. 70. gr. laganna. Ef brot eru meiri háttar ber Umhverfisstofnun hins vegar að vísa þeim til lögreglu. Umhverfisstofnun heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022.
    Í málaskrárkerfi lögreglu eru lög nr. 7/1998 ekki sundurgreind nánar eftir því um hvaða starfsemi er að ræða og því ekki hægt að sjá með einföldum hætti hvort mál varðar snyrtistofur eða aðra eftirlitsskylda starfsemi. Við yfirferð mála frá árunum 2020 til 2022 er, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra, ekkert mál skráð í kerfum lögreglu sem fallið getur undir brot á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og varðar snyrtistofur. Það sama á við um þann tíma sem liðinn er af 2023.

     2.      Hversu mörgum málum hefur lokið með kæru? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Er unnið í ráðuneytinu að útfærslu og endurbótum á eftirliti með snyrtistofum?
    Líkt og áður hefur komið fram fellur almennt eftirlit með snyrtistofum undir fyrrgreind lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og hefur Umhverfisstofnun eftirlit með framkvæmd þeirra. Lögreglan tekur við kærum um starfsemi snyrtistofa frá Umhverfisstofnun.
    Lögreglan hefur tiltekin lögbundin verkefni sem eru tilgreind í lögreglulögum, nr. 90/1996, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og ýmsum sérlögum. Meðal þeirra verkefna er að halda uppi lögum og reglu, tryggja réttaröryggi borgaranna, stemma stigu við afbrotum og vinna að uppljóstrun brota. Á síðustu árum hefur lögreglan fengið ýmsar viðbótarfjárheimildir til þess að styrkja starfsemi lögregluembættanna með margvíslegum hætti. Innan þeirra marka er það hlutverk lögregluembættanna að forgangsraða verkefnum með tilliti til fjármuna, mannafla og þarfa samfélagsins hverju sinni.