Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 494  —  388. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um vistmorð.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða aðgerðir hefur ríkisstjórnin ráðist í og hvaða aðgerðir eru í undirbúningi til að vinna að markmiðum tillögu til þingsályktunar um vistmorð, sem forsætisráðherra lagði til í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar 13. september 2022 að fela utanríkisráðherra að taka til skoðunar í samráði við dómsmálaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sbr. munnlegt svar forsætisráðherra við fyrirspurn á þingskjali 193 á 153. löggjafarþingi?

    Utanríkisráðuneytið hefur falið sendiskrifstofum að fylgjast með framvindu og umfjöllun mála í umdæmisríkjum þeirra, m.a. mögulegum undirbúningi löggjafar eða stefnumörkunar í líkt þenkjandi samstarfsríkjum. Auk þess er fylgst með umfjöllun hjá alþjóðastofnunum og í fjölþjóðasamstarfi sem sérfræðingar ráðuneytisins taka þátt í. Umræða um vistmorð hefur reglulega komið upp í Norðurlandasamstarfi og var m.a. til umræðu á Stockholm +50 fundinum sem haldinn var í Svíþjóð í júní 2022. Þar var fundur norrænna ungmenna með norrænum umhverfisráðherrum og lögðu ungmennin áherslu á mikilvægi umræðu um vistmorð.
    Áfram verður fylgst með þróun á alþjóðavettvangi.
    Alls fór ein vinnustund í að taka þetta svar saman.