Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 512  —  366. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um veggjalús.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggst ráðherra bregðast við hugsanlegri útbreiðslu veggjalúsar, sem nú breiðist hratt út um Frakkland og hætt er við að berist hingað í stórum stíl?

    Hérlendis hafa verið settar reglur um eftirlit og viðbrögð við veggjalús og gefnar hafa verið út upplýsingar og leiðbeiningar varðandi greiningu og forvarnir. Í reglugerð nr. 941/2002, með síðari breytingum, er fjallað um framkvæmd hollustuverndar og heilbrigðiseftirlits hérlendis, þ.m.t. vöktun og rannsóknir, eftirlit með meindýravörnum, gæludýrum, opnum svæðum, húsnæði og vistarverum og sóttvörnum. Reglugerðin er sett skv. 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna.
    Framkvæmd eftirlits annast heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna (HES) sem einnig sjá til þess að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með samræmingu heilbrigðiseftirlits þannig að framkvæmd þess sé með líkum hætti á landinu öllu. Þá gegnir stofnunin fræðsluhlutverki en á heimasíðu Umhverfisstofnunar er að finna leiðbeiningar 1 um hvernig bera megi kennsl á, koma í veg fyrir og takast á við veggjalús, auk gátlista yfir það sem ber að gera á gististöðum verði gestir varir við veggjalús.
    Veggjalús er skordýr sem nærist á blóði manna og dýra og hefur fylgt manninum frá örófi alda. Bitin geta valdið kláða, ofnæmisviðbrögðum og óþægindum. Ekki hefur verið sýnt fram á að veggjalús beri sjúkdóma á milli fólks, þótt fundist hafi í henni sjúkdómsvaldandi örverur. Af því leiðir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur ekki skilgreint veggjalús sem alvarlega heilsufarsógn né fellur veggjalús undir gildissvið ákvörðunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1082/2013/ESB, sbr. reglugerð ESB 2022/2371, þar sem mælt er fyrir um viðbrögð við heilsufarsógnum yfir landamæri. Á vettvangi WHO eða ESB er því ekki til að dreifa sérstökum, samræmdum reglum eða tilmælum er varða veggjalús.
1     ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Hollustuhaettir/Veggjal%C3%BAs%202011.pdf