Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 567  —  436. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um alþjóðlegar skuldbindingar og frumvarpsgerð.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða verklagsreglur gilda við frumvarpsgerð í ráðuneytinu þegar ákvarðað er hvað eigi að koma fram í þeim kafla greinargerðar stjórnarfrumvarps er fjallar um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar?
     2.      Hvernig metur ráðuneytið það hvort tilefni sé til þess að skoða tiltekinn alþjóðasamning í þeirri vinnu og þá hvort tilefni sé til þess að minnast á niðurstöður þeirrar skoðunar í greinargerð frumvarps?
     3.      Hvernig er vinnulag ráðuneytisins varðandi hvort og þá hvernig það skoðar samræmi frumvarpa sinna við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem lagt er til að verði lögfestur á kjörtímabilinu, sbr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?


    Við undirbúning lagafrumvarpa í utanríkisráðuneytinu er unnið eftir samþykkt ríkisstjórnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, auk annarra leiðbeininga sem finna má á vef Stjórnarráðsins. Í 8. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar kemur fram að í greinargerð með frumvarpi skuli fjalla um samræmi þess við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar, enda gefi frumvarpið tilefni til slíks mats. Jafnframt má nefna 13. gr. samþykktarinnar þar sem er að finna ítarleg ákvæði um Evrópska efnahagssvæðið. Dómsmálaráðuneytið gefur út stöðluð eyðublöð til útfyllingar, um „áform til lagasetningar“ og „samantekt um stjórnarfrumvarp“, sbr. samþykkt ríkisstjórnarinnar, þar sem fylla þarf inn upplýsingar um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
    Lagafrumvörp eru almennt unnin á laga- og stjórnsýsluskrifstofu ráðuneytisins og er þar lagt mat á, af lögfræðingum skrifstofunnar, hvað skuli koma fram í greinargerð um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar með hliðsjón af efni frumvarpsins hverju sinni. Matið er jafnframt yfirfarið af skrifstofustjóra skrifstofunnar. Auk þess samráðs, sem leitað er eftir í samræmi við framangreindar reglur í samþykkt ríkisstjórnarinnar nr. 791/2018, er haft samráð við þá fagskrifstofu innan ráðuneytisins, sem málefnið heyrir undir, hvað varðar þjóðréttarlegar skuldbindingar.

    Alls fór ein vinnustund í að taka svarið saman.