Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 596  —  252. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um sértækan byggðakvóta.


    Ráðuneytið óskaði eftir milligöngu Byggðastofnunar um að afla upplýsinga vegna fyrirspurnarinnar. Eftirfarandi svör byggjast á svörum stofnunarinnar.

     1.      Hafa aðilar innan Byggðastofnunar þegið ráðgjafargreiðslur eða aðrar greiðslur frá fyrirtækjum sem fá úthlutað sértækum byggðakvóta?
    Ekki er um neinar ráðgjafargreiðslur að ræða en starfsmenn Byggðastofnunar hafa setið í stjórn Útgerðarfélagsins Skúla ehf. sem er aðili að samningi um aukna byggðafestu á Drangsnesi 2018–2024, og þegið stjórnarlaun sem eru samtals að fjárhæð 325.000 kr. frá 2018 til dagsins í dag. Rétt er að geta þess að í samræmi við hæfisreglur stjórnsýsluréttar koma þeir starfsmenn ekki að ákvörðunum um aflamark Byggðastofnunar.

     2.      Er fylgst með slíkum mögulegum greiðslum með virkum hætti? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Upplýsingar um stjórnarlaun liggja fyrir í ársreikningum viðkomandi félaga og eru opinberar. Samkvæmt ráðningarsamningum og 20. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er starfsmönnum Byggðastofnunar óheimilt að þiggja laun frá öðrum nema að fengnu leyfi forstjóra.

     3.      Er eðlilegt að Byggðastofnun úthluti kvóta til fyrirtækja sem stofnunin á sjálf eignarhlut í í gegnum fjárfestingarsjóði, svo sem Hvetjanda hf.?
    Byggðastofnun hefur það meginhlutverk að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins ber stofnuninni að undirbúa, skipuleggja og fjármagna verkefni í samræmi við hlutverk sitt og veita lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi.
    Byggðastofnun hefur jafnframt það hlutverk að ráðstafa aflaheimildum sem matvælaráðherra ákvarðar til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, sbr. 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í þessu felst að stofnuninni ber fyrst og fremst að líta til framangreindra sjónarmiða við töku ákvarðana, hvort sem þær snúa að úthlutun aflaheimilda eða þeirra sem eru í tengslum við eigendahlut stofnunarinnar í fyrirtækjum. Hér má nefna að í úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis frá 25. nóvember 2021, er varðaði ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar um úthlutun sértæks byggðakvóta á Flateyri og Suðureyri 17. desember 2019, var komið inn á þetta efni en þar sagði m.a.:
    „Eignarhlutur Byggðastofnunar í umræddu félagi sem starfar á grundvelli þeirra markmiða og þess tilgangs sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan getur ekki útilokað tiltekin fyrirtæki fyrir fram og sjálfkrafa frá þeim möguleika að fá úthlutun aflamarks en það myndi vinna gegn þeim markmiðum og tilgangi sem Byggðastofnun starfar eftir og 10. gr. a. laga nr. 116/2006 sem úthlutun aflamarksins er byggð á.“
    Rétt er að nefna að ýmsar ástæður geta verið fyrir hlutafjáreign Byggðastofnunar. Í 8. tölul. 4. gr. laga um Byggðastofnun kemur fram að það sé meðal verkefna stjórnar Byggðastofnunar að taka ákvarðanir um hlutafjárkaup og þátttöku í eignarhalds-, fjárfestingar- og þróunarfélögum samkvæmt nánari reglum þar um, en almennt skal fjárhagsleg fyrirgreiðsla miðast við að stofnunin sé ekki beinn þátttakandi í atvinnurekstri. Byggðastofnun er einnig ætíð heimilt að verja kröfur sínar með því að breyta þeim í hlutafé þegar það er talið vera fjárhagslega hagkvæmasta leiðin til að verja innheimtuhagsmuni stofnunarinnar.
    Hafa ber í huga að í íslenskum stjórnsýslurétti hefur ekki verið talið að stjórnvald sem slíkt verði vanhæft til ákvarðanatöku í tilvikum þar sem stjórnvaldið hefur aðilastöðu eða á að öðru leyti hagsmuna að gæta. Mikilvægt er engu að síður að stjórnvald hagi innra skipulagi sínu og verklagsreglum þannig að traust ríki um ákvarðanir þess þegar slík staða kemur upp.
    Í þessu samhengi skal tekið fram að Byggðastofnun hefur sett sér eigendastefnu um eignarhluti stofnunarinnar í hlutafélögum sem birt er á vef stofnunarinnar. Þar kemur m.a. fram að í störfum sínum í stjórn fyrirtækis leitist fulltrúi Byggðastofnunar við að tryggja að samskipti Byggðastofnunar og félaga sem einnig eru í lánsviðskiptum við stofnunina séu á eðlilegum viðskiptalegum forsendum. Einnig að skipulag, stefnumótun, fjárhagur, efnahagur og rekstrarmálefni fyrirtækisins og ársreikningur, áætlanagerð, árangursmat, reglusetning og eftirlit með starfseminni séu í samræmi við reglur laga um hlutafélög. Þá leggur Byggðastofnun áherslu á að starfsemi fyrirtækisins raski ekki samkeppni, eða fari á annan hátt í bága við samkeppnislög. Auk þess segir að sé fulltrúi Byggðastofnunar einnig starfsmaður stofnunarinnar komi hann ekki að úrvinnslu né afgreiðslu fyrirgreiðsluerinda viðkomandi fyrirtækis til hennar.
    Markmið Byggðastofnunar samkvæmt eigendastefnunni er að selja eignarhluti sína svo fljótt sem kostur er með opnum og gagnsæjum hætti en að gætt sé að því að atvinnuöryggi og byggðafestusjónarmiðum sé ekki stefnt í hættu við sölumeðferð hluta í slíkum fyrirtækjum.