Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 682  —  495. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Halldóri Auðar Svanssyni um myndefni gervigreindar.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja heilindi kosninga og persónu einstaklinga í ljósi hættunnar sem fylgir því þegar einstaklingar verða fyrir því að gervigreind útbýr myndefni sem sýnir persónu þeirra í aðstæðum eða aðgerðum sem ekki eiga sér stoð í veruleikanum?
    Í kosningalögum, nr. 112/2021, er kveðið á um framkvæmd kosninga. Við framkvæmd kosninga er ekki stuðst við upplýsingar sem hugsanlega eiga uppruna sinn í þeim aðstæðum sem lýst er í fyrirspurninni. Ekki verður því séð að það hafi áhrif á framkvæmd kosninga eða tefli heilindum kosninga í tvísýnu verði kjósandi eða frambjóðandi fyrir því að gervigreind útbúi myndefni sem sýni þann sem fyrir verður í aðstæðum eða aðgerðum sem ekki eiga sér stoð í veruleikanum.

     2.      Hyggst ráðherra leggja fram tillögur að lagabreytingum til að gæta að þessu?
    Með vísan til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar verður ekki séð að þörf sé á breytingum á kosningalögum af þessu tilefni.