Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 733  —  446. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um alþjóðlegar skuldbindingar og frumvarpsgerð.


     1.      Hvaða verklagsreglur gilda við frumvarpsgerð í ráðuneytinu þegar ákvarðað er hvað eigi að koma fram í þeim kafla greinargerðar stjórnarfrumvarps er fjallar um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar?
    Í 8. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa frá 24. febrúar 2023 er kveðið á um að í greinargerð með frumvarpi skuli fjalla um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar enda gefi frumvarpið tilefni til slíks mats. Þá er við vinnslu frumvarpa stuðst við Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem gefin var út af forsætisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu 2007. Í 7. lið I. kafla, á bls. 16, er fjallað um samræmi lagafrumvarps við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Þar kemur fram að gæta þurfi að því að íslensk lög séu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar enda hvíli þjóðréttarleg skylda á íslenskum stjórnvöldum til að gæta að samræmi íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.

     2.      Hvernig metur ráðuneytið það hvort tilefni sé til þess að skoða tiltekinn alþjóðasamning í þeirri vinnu og þá hvort tilefni sé til þess að minnast á niðurstöður þeirrar skoðunar í greinargerð frumvarps?
    Það er misjafnt eftir efni frumvarpa til hvaða alþjóðasamninga er litið sérstaklega við gerð frumvarps. Helgast það af efni frumvarpa. Frumvarpshöfundur leggur mat á það hvort efnistök frumvarps varði tiltekna alþjóðasamninga og tekur þá tillit til þeirra í allri vinnu við smíði frumvarpsins. Þá er rétt að benda á að við vinnslu frumvarpa er almennt haft víðtækt samráð sem hefst snemma í frumvarpsferlinu með gerð áforma um lagasetningu. Slík áform skal birta í samráðsgátt stjórnvalda. Þannig gefst öllum er vilja láta sig málið varða kostur á að koma með ábendingar um þau atriði sem taka þarf tillit til, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar.

     3.      Hvernig er vinnulag ráðuneytisins varðandi hvort og þá hvernig það skoðar samræmi frumvarpa sinna við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem lagt er til að verði lögfestur á kjörtímabilinu, sbr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?
    Eins og kemur fram í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar leggur frumvarpshöfundur mat á það hvort efnistök frumvarps varði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ef efni frumvarps varðar samninginn er jafnframt lögð áhersla á að leitað sé umsagna samtaka sem gæta hagsmuna fatlaðs fólks svo að ákvæði frumvarps verði í sem bestu samræmi við hann.